062-Ábyrgðarsjóður opinna róðraskipa

Árið 1881 urðu tvö sjóslys á Stokkseyri, er kostuðu 5 menn lífið, og á vertíðinni 1883 fórust þrjú skip í sama mánuði á Eyrarbakka og í Þorlákssöfn og með þeim 21 maður. Þessi hörmulegu slys urðu mörgum minnisstæð og vöktu án efa ýmsa til umhugsunar um það, hversu draga mætti úr broddi slíkra slysa, þá er þau kæmu fyrir. Mun þetta hafa verið undirrót þess, að skipaeigendur í öllum verstöðvum austanfjalls gerðu samtök með sér um að vátryggja skip sín sjálfir gegn sjótjóni. Héldu þeir fund um það mál á Eyrarbakka í desember 1884, og var þar ákveðið að stofna sjóð, er nefndist „Ábyrgðarsjóður opinna róðrarskipa í Árnessýslu“. Á fundinum voru sett lög og starfsreglur fyrir sjóðinn og stjórn kosin. f þessari fyrstu stjórn sjóðsins áttu sæti P. Nielsen verzlunarstjóri á Eyrarbakka, Jón Jónsson hreppstjóri á Hlíðarenda og Grímur bóndi Gíslason í Óseyrarnesi. Séð hefi eg talið, að Guðmundur Ísleifsson á Háeyri hafi verið aðalhvatamaður sjóðsstofnunarinnar,[note]Búnaðarrit 1906, 6. bls. [/note] en Jón Pálsson nefnir til þess P. Nielsen,[note]Austantórur III, 100.[/note] og er það trúlegra, því að hann var mikið við stjórn sjóðsins riðinn, en Guðmundur lítt.

Tekjur sjóðsins voru iðgjöldin af hinum tryggðu skipum, og skyldu þau nema einum af hundraði (1%) af ábyrgðarupphæð skipanna. Stofnfé sjóðsins, er hann tók til starfa 1. marz 1885, nam rúmum 200 krónum, og voru það iðgjöld af 77 róðrarskipum. Má af því marka, hve þátttakan var almenn þegar í upphafi. Hæst varð tala hinna tryggðu skipa árið 1889, og voru þau þá 82. Á árunum 1900-1910 var meðaltal skipanna 53 á ári, hæst 70, en lægst 43. Tók opnum skipum þá verulega að fækka, enda voru þá vélbátar sem óðast að ryðja sér til rúms. Þrátt fyrir lág iðgjöld óx ábyrgðarsjóðurinn vel og dafnaði. f árslok 1910 námu eignir hans kr. 4549.19, og var það talsvert fé á þeim tíma.

Það var ákveðið í fyrstu lögum sjóðsins, að hann skyldi greiða í bætur aðeins helming af ábyrgðarupphæð þeirra skipa, sem færust á rúmsjó eða á brimsundi. Á aðalfundi 1895, er sjóðurinn hafði starfað í 10 ár, var samþykkt, að bæturnar skyldu nema ¾ hlutum ábyrgðarverðs, en á aðalfundi 1904 var loks ákveðið, að bæta skipin að fullu. Ef skip brotnaði í fjöru eða lendingu, gilti sú regla, að sjóðurinn borgaði viðgerðina að helmingi. Farviður skipa, árar, siglutré og segl voru ábyrgðartæk, en ekki veiðarfæri. Til tryggingar því, að skipaeigendur gætu ekki verðlagt skip sín að eigin geðþótta, voru settir til tveir virðingarmenn í hverri veiðistöð, sem skyldu virða hvert félagsskip með öllu, sem því fylgdi, svo rétt og sanngjarnlega sem þeim væri unnt og þeir vildu vinna eið að, ef nauðsyn bæri til. Voru virðingarmönnum fengin í hendur nákvæm erindisbréf. Í Stokkseyrarveiðistöð höfðu fyrst lengi vel þennan starfa á hendi skipasmiðirnir Jóhannes Árnason á Stéttum og Hallgrímur Jóhannesson á Kalastöðum.

Um bótagreiðslur sjóðsins eru nú eigi heimildir tiltækar nema að litlu leyti. Þegar Sæmundur Bárðarson fórst á Eyrarbakka 21. apríl 1886, fekk skipseigandi, Siggeir Torfason, greitt hálft ábyrgðarverð skipsins, kr. 175.00. Eins var þegar Jón Jónsson litlisterkur drukknaði við uppskipun á brimsundi 19. ágúst 1898, þá fékk eigandi skipsins, Guðmundur Ísleifsson á Háeyri, greidda 3/4 af virðingarverði skipsins, kr. 255.00. Einnig fekk Jón Sturlaugsson hafnsögumaður á Stokkseyri bættan bát, sem hann missti í brunanum mikla 1926 og Páll Guðmundsson á Baugsstöðum bát, sem hann missti, bundinn á floti, aðfaranótt 16. nóv. 1928, svo að nokkur einstök dæmi séu nefnd. Bótagreiðslur voru að sjálfsögðu mjög mismunandi á ýmsum tímum. Á árunum 1901-1910 voru útborgaðar úr sjóðnum kr. 1454.95, en á árunum 1911-1913 aðeins kr. 23,42 fyrir skemmdir á skipum. Þess má geta, að árið 1914 sótti Steinn Guðmundsson skipasmiður um 100 krónur úr sjóðnum í viðurkenningarskyni fyrir að hafa smíðað um 300 róðrarskip, sem hafi gott orð á sér og heppnazt vel. Var það samþykkt með því móti að greiða upphæðina með 25 krónum á ári í 4 ár.

Þegar fyrstu vélbátarnir komu til Stokkseyrar, sóttu eigendur þeirra um, að sjóðurinn tæki þá í ábyrgð sem Önnur opin skip, en bátar þessir voru litlir og þilfarslausir. Umsóknum um þetta, jafnvel þótt lagðar væru fram hvað eftir annað, svo sem vegna fyrsta vélbátsins, ,,Ingólfs“, var jafnan synjað með þeirri röksemd, að slíkt væri allt of áhættusamt fyrir sjóðinn. Hélt P. Nielsen, sem var þá gjaldkeri sjóðsins, þeirri skoðun fastast fram. En á fundi 29. marz 1908, er fyrir lágu umsóknir frá eigendum fjögra vélbáta, sem voru sumpart komnir og sumpart væntanlegir, og Nielsen hafði mælt þeim í gegn, bar hann fram þá tillögu, að ábyrgðarsjóðurinn gæfi í eitt skipti fyrir öll 1000 krónur til að stofna með nýtt ábyrgðarfélag fyrir vélbáta í Árnessýslu, er væri laust við ábyrgðarsjóð róðrarskipa að öllu leyti. Þessi tillaga var samþykkt í einu hljóði og ákveðið að afhenda þá upphæð, jafnskjótt sem hið nýja félag væri löglega stofnsett. Á aðalfundi 1911 var fé þetta lagt fram til að stofna ábyrgðarsjóð fyrir vélbáta.

Á öðrum og einkum þriðja tug aldarinnar fór opnum róðrarskipum ört fækkandi og hlutverk sjóðsins varð að sama skapi minna en áður. Árið 1920 var orðið ljóst, hvert stefndi í þessu efni, og því var bætt við lög sjóðsins nýrri grein á þessa leið: ,,Komi sá tími, að opin róðrarskip séu ekki lengur tryggð í sjóðnum, skal annar helmingur eigna sjóðsins ganga til Sjómannasjóðs Árnessýslu, en hinn helmingurinn til ábyrgðarsjóðs skipa þeirra í Árnessýslu, sem mest eru notuð á þeirri tíð til fiskiveiða.“ Sjóðurinn starfaði þó enn áfram fram um 1930 eða þar um bil. Árið 1929 voru opin skip orðin svo fá, að á aðalfundi það ár, sem er seinasti bókaður fundur sjóðstjórnarinnar, var samþykkt að taka til tryggingar opna vélbáta á félagssvæðinu (,,trillur“), þó án vélar, þannig að aðeins sé tryggt tréð ásamt farviði, seglum og árum.

Stjórn ábyrgðarsjóðsins var jafnan skipuð þremur mönnum, og voru þeir í fyrsta sinn kosnir til eins árs, en síðan til þriggja ára í senn. Aðalstarfið

hvíldi á gjaldkera. Atkvæðamestu mennirnir í stjórn sjóðsins voru þeir P. Nielsen verzlunarstjóri, Jón Árnason dbrm. í Þorlákshöfn, Jón Jónsson hreppstjóri á Hlíðarenda, Hannes Jónsson í Roðgúl, síðar á Sæbóli, og síðast en ekki sízt Jón Einarsson hreppstjóri í Mundakoti, sem hafði aðalstjórn sjóðsins á höndum á þriðja áratug. Í síðustu sjóðsstjórninni, sem kjörin var á aðalfundi 1929, voru þeir Jón Einarsson í Mundakoti, Jóhann Guðmundsson á Litlu-Háeyri og Jón Sturlaugsson hafnsögumaður í Vinaminni.

Samtök þessi voru langt á undan sínum tíma, þótt eigi væru þau hin fyrstu í sinni grein hér á landi, og um nytsemi þeirra þarf ekki að fara mörgum orðum. Þau tryggðu eigi aðeins hag útvegsmanna til verulegra muna, heldur glæddu þau félagslegan þroska þeirra og skilning á nauðsyn samvinnu og samtaka yfir leitt.

(Heimildir: Gjörðabók Ábyrgðarsjóðs opinna róðrarskipa í Árnessýslu í vörzlu Gísla Jónssonar í Mundakoti og greinarkorn um sjóðinn í Suðurlandi 22. febr. 1911 eftir Jón Einarsson í Mundakoti).

Leave a Reply

Close Menu