130-Leikstarfsemi
Leiksviðsmynd úr „Ráðskona Bakkabræðra“ 1955-56. Sitjandi (frá vinstri) Helgi Sigurðsson, Óskar Magnússon og Jón Guðmundsson. Standandi: Guðmundur Alexandersson, Kristín Guðbjartsdóttir, Sigurður I. Sigurðsson, Jóna Þórarinsdóttir, Óskar Sigurðsson, Jón Sigurgrímsson, Magnea Jóhannesdóttir og Ástríður Ástmundsdóttir. – Ljósm. Gestur Einarsson

130-Leikstarfsemi

Þeir, sem eitthvað hafa unnið að leiksýningum, skilja öðrum fremur, hvílíkum örðugleikum slík starfsemi er háð, þar sem heita má, að öll ytri skilyrði til hennar vanti, enginn kunnáttumaður um leikstjórn, enginn þjálfaður leikari, engir búningar eða áhöld, ekkert leikhús, en húsnæðið skólastofa eða lítill fundarsalur. Þannig háttaði víðast hvar til hér á landi á síðustu áratugum 19. aldar. Það þurfti mikinn áhuga og fórnfýsi til þess að ráðast í að setja upp leiksýningar við slíkar aðstæður, æfa ósamstætt lið og tjalda að öðru leyti því, sem til var, um allan búnað. Þó að ekki mætti búast við miklum listrænum árangri, bar slík leiklistarviðleitni vitni um ótvíræðan menningarvilja og andlegt fjör. Sú varð líka raunin á, að leikararnir sóttu þroska og uppörvun í það að glíma við hlutverk sín og náðu oft furðulegum árangri, þegar á allt var litið, og veittu áhorfendum ósvikna skemmtun og dægrastyttingu í fásinninu, ánægjustundir, sem urðu þeim oft og tíðum minnistæðar alla ævi. Þetta hefi eg margsinnis fengið staðfest í viðtölum við aldraða menn, konur og karla, sem sóttu leiksýningar á Stokkseyri á æskudögum sínum. Og þar sem þessi starfsemi er einhver merkastur þáttur í menningarviðleitni byggðarlagsins og raunar langt á undan sínum tíma á stöðum með sambærileg skilyrði, og enn fremur þar sem ekkert hefir verið að gagni um hana ritað og upplýsingar gerast torfengnari með hverju ári sem líður, þá hefi eg gert mér far um að safna hér saman öllu því, sem til varð náð um þetta efni.

Sennilegt er, að einhver leikstarfsemi hafi farið fram á Eyrarbakka um 1880 eða jafnvel fyrr. Þar var allgott skólahús, og því skilyrði þannig fullnægt. Var og á Eyrarbakka um þær mundir og lengi síðan margs konar menningarstarfsemi og félagslíf, og áttu dætur Thorgrímsens og venzlafólk þeirra í „Húsinu“ mikinn þátt í því, eins og kunnugt er.  Bjarni Pálsson í Götu, sem var hinn mesti áhugamaður meðal ungra manna um hvers konar menningarmál og fjölþættum hæfileikum búinn, var í miklu vinfengi við Thorgrímsensfólkið, og er líklegt, að samvinna hans við það hafi orðið til þess að hrinda fyrstu leiksýningunum af stað. Jón Pálsson skýrir frá því, að fyrsti leikurinn, sem hann sá, hafi verið „Narfi“ eftir Sigurð Pétursson og hafi hann verið leikinn á Eyrarbakka veturinn 1880-1881. Hann nefnir þar að vísu ekki, hver staðið hafi fyrir þeirri sýningu, en á öðrum stað segir hann, að fyrir atbeina Bjarna og undir leiðsögn hans hafi mörg leikrit verið leikin bæði á Stokkseyri og Eyrarbakka.[note] Austantórur III, 89; IJ, 118.  [/note] Vel má vera, að „Narfi“ hafi verið fyrsta .leikritið, sem sýnt var á Eyrarbakka, en þó þarf það ekki að vera samkvæmt frásögn Jóns. Því miður brestur mig heimildir til að skera úr því og eins um frekari hlutdeild Bjarna Pálssonar í leiksýningum á Eyrarbakka. Það virðist þó vafalaust, að þar hefir hann fyrst komizt í kynni við leiksýningar og fetað þar fyrstu sporin á leiklistarbrautinni.

Hið fyrsta, sem menn vita með vissu um leikstarfsemi á Stokkseyri, eru sýningar á leikritum Bjarna Pálssonar á árunum 1885-1887. Vegna skorts á viðhlítandi húsnæði hefir naumast getað verið um neinar leiksýningar að ræða á Stokkseyri, sem því nafni megi nefnast, fyrr en Götuskólinn var byggður, en eins og sýnt er fram á á öðrum stað, mun það einmitt hafa verið árið 1885. Fráfall Bjarna takmarkar tímann á hinn veginn. Þessu til staðfestingar eru orð Jóns Pálssonar, er hann hefir sagt frá sýningu „Narfa“ á Eyrarbakka, að veturna 1885 til 1887 hafi svo komið leikir Bjarna Pálssonar.[note]Sama rit III, 89. [/note]

Bjarni hafði eigi aðeins forgöngu um leiksýningar þessar og stjórn þeirra á hendi, heldur samdi hann leikritin sjálfur. Eru nú kunn fjögur leikrit eftir hann, sem voru öll leikin á Stokkseyri á þessum árum, þótt sum væru án efa samin fyrr. Það voru allt gamanleikir, sumir með söngvum, og samdi Bjarni stundum sjálfur lögin. Leikrit þessi hétu „Hirðmenn Óðins“, ,,Fundurinn á Dunki“, ,,Greftrunardagurinn“ og „Eitt kvöld á klúbbnum“. Það var síðasta leikrit hans. Varð það mjög vinsælt, enda tekið aftur og aftur til sýningar á nokkurra ára fresti. Er það eina leikrit Bjarna, sem varðveitt er, þó aðeins í einu handriti, sem ekki er aðgangur að um sinn. Hin leikritin eru öll talin glötuð. Hér skal því gerð nokkru nánari grein fyrir leikritum þessum og efni þeirra í stuttu máli eftir frásögn skilríks manns, sem sá þau leikin.

,,Hirðmenn Óðins“, kallað líka stundum „Galdramaðurinn af Vestfjörðum“, var gamanleikur í einum þætti. Efnið var í stuttu máli þetta: Auðugur maurapúki á von á gesti, galdramanni vestan úr Geirþjófsfirði, sem mikið orð fer af. Tekur karl á móti honum með óttablandinni virðingu og vill komast að því einslega, hvers hann megi megna með kunnáttu sinni. Dregur gesturinn þá skræður nokkrar upp úr skjóðu sinni, breiðir úr þeim á borðið og segir, að margs verði sá vísari, sem geti lesið þessar bækur. Karl spyr þá, hvort hann geti galdrað til sín peninga, og svarar hinn því til, að reyna megi það. Þá spyr karl, hvort hann vilji galdra peninga til sín, en hinn lætur þess kost, ef hann fái borgað vel fyrirfram. Karl ber sig illa útaf peningaleysi, en spyr þó, hvað hann setji upp. Gesturinn nefnir allmikla fúlgu, og segist karl ekki eiga svo mikla peninga. Þrefa þeir svo um þetta, unz gesturinn segir, að þetta sé þá útrætt mál. Fer þá karl og kemur með peningana, en krefst þess, að hann fái þá margfalda aftur. Lofar gesturinn því, kveður síðan og fer. Þegar hann er nýfarinn, kemur hreppstjórinn og segist vera þeirra erinda að taka gestinn fastan, því að þetta sé alræmdur svikahrappur. Rennur þá upp ljós fyrir karli, að hann hefir verið hafður að ginningarfífli og ber sig aumlega. Fleiri persónur voru í leiknum, m. a. stúlka, sem. kemur inn og vill fara að skoða bækur galdramannsins, en fær ekki að líta í þær. Leikendur vorum. a. þessir: Maurapúkinn: Bjarni Pálsson. Galdramaðurinn: Ísleifur Vernharðsson. Hreppstjórinn:

Einar Jónsson í Aldarminni. Stúlkan: Guðmundur Jónsson í Meðalholtum.

Talið er, að „Hirðmenn Óðins“ hafi verið fyrsta leikrit Bjarna Pálssonar og hann hafi ætlað sér að endursemja það, en ekki enzt aldur til þess. Söngvar voru í leiknum eftir Ísleif Vernharðsson. Samdi Bjarni lag við einn þeirra, og er það enn til í eigu sonar hans, Friðriks Bjarnasonar tónskálds í Hafnarfirði. Leikurinn var sýndur í örfá skipti. Minnistæðast um meðferð leikenda var það, hve Bjarna hefði tekizt vel að lýsa vesaldómi maurapúkans, þegar hann hafði verið gabbaður.

„Fundurinn á Dunki“ var gamanleikur í einum þætti, og er talið að hann hafi verið annað í röðinni af leikritum Bjarna Pálssonar. Efnið var skopmynd af sýslunefndarfundi. Meðal málefna fundarins var það, að einn sýslunefndarmanna fór fram á styrk til selaklaks, þar eð selveiði væri hlunnindi, en annar fór fram á styrk til að útrýma selnum, þar sem hann spillti laxveiðum. Önnur málefni voru eftir þessu og hver höndin upp á móti annarri. Leikendur voru þessir: Sýslumaður: Jón Pálsson yngri, Syðra-Seli. Sýslunefndarmenn: Hannes Jónsson, Roðgúl; Grímur Bjarnason, Nýborg; Guðmundur Aronsson, Kakkarhjáleigu; Grímur Ólafsson, Móakoti; Jón Vernharðsson eldri; Sigurður Hinriksson, Ranakoti; Júníus Pálsson, Syðra-Seli; Jón Pálsson eldri, Syðra-Seli, Jón Vernharðsson yngri og Bjarni Pálsson, Götu. Leikrit þetta var aðeins sýnt í fá skipti. Hafði höfundurinn einnig í huga að endurbæta það. Jón Pálsson segir, að leikurinn hafi verið sprenghlægilegur. 1

„Greftrunardagurinn“ nefndist enn leikrit eftir Bjarna Pálsson. Getur Jón Pálsson um það sem gamanleik,[note]Austantórur II, 119. [/note] en enga frekari vitneskju hefir mér tekizt að fá um það leikrit.

Síðasta og merkasta leikrit Bjarna Pálssonar var „Eitt kvöld á klúbbnum“, gamanleikur í þremur þáttum. Leikurinn gerist í veitingastofu í Hafnarfirði. Drykkjubræðurnir Grímur og Ólafur sitja þar að víndrykkju, og er umræðan bæjarþvaður. Veitingaþjónn, Nikulás að nafni, afgreiðir vínið. Inn kemur Magnús á Mölinni, drykkfelldur formaður í firðinum, og segir þjóninum, að veitingamaðurinn hafi leyft að láta hann fá nokkur staup fyrir fallega og feita lúðu. Þjónninn lætur það gott heita, og sezt Magnús að drykkju. Þá kemur Jóhann bréfapóstur og hefir farið Grindaskörð, en síðan Kapla-Gunna, kona, sem hirðir hesta ferðamanna gegn borgun. Þeir Grímur og Ólafur vilja nú gera sér gaman nokkurt. Veita þeir Jóhanni pósti og Kapla-Gunnu óspart vín, og þegar þau eru orðin drukkin, telja þeir þau á að trúlofast og sýna þeim fram á, hve hentugt það sé fyrir þau bæði. Samþykkja þau það, og lofar Jóhann að fara heim með Gunnu og gista hjá henni um nóttina. Þjónninn vill nú krefja Magnús um lúðuna í borgun fyrir vínið, en hann svarar því til, að hún sé vestur á Sviði, því að hann eigi eftir að veiða hana. Umræðurnar eru annars mestmegnis drykkjuraus. Margir söngvar eru í leikritinu og því yfirleitt létt yfir því. Leikendur voru þessir: Grímur: Bjarni Pálsson. Ólafur: Sigurður Jónsson, Grímsfjósum. Magnús á Mölinni: Jón Pálsson yngri.[note]„Lék eg þar aðalhetjuna, Manga á Mölinni (Magnús Geirsson formann), ómengaðan fylliraft, og fekk eg mikið hrós fyrir það, hvað mér hefði tekizt það vel að vera fullur!“ (Jón Pálsson: Austantórur Il, 118-119).  [/note] Jóhann póstur: Jón Pálsson eldri. Kapla-Gunna: Jón Vernharðsson eldri. Nikulás þjónn: Magnús Þórðarson, Smiðshúsum.

Söngvarnir í leikritinu voru eftir Ísleif Vernharðsson, flestir ortir undir þekktum lögum. Eitt lagið samdi Bjarni Pálsson, og er það enn til í eigu Friðriks, sonar hans. (Texti: Eg sit hér einn og syng og drekk o. s. frv.), en síðustu vísurnar í leiknum eru á þessa leið:

Eg á meðan tími er til
teyga unað lífs.
Stutt er gleðistundin,
stormar nálgast kífs.
Kvíðans koldimma nótt
kemur harla skjótt.
Heimsins gleði ótrú er,
hún endar svo fljótt.

Skemmtun þessi enduð er,
allt er breyting háð.
Héðan hverfa að sinni
helzt mun vera ráð.
Eg að endingu glas
út því renni skjótt.
Heimsins gleði ótrygg er,
hún endar svo fljótt.

Um þetta leikrit segir Jón Pálsson m. a.: ,,Hér vil eg aðeins geta um eitt leikrit, er kallaðist „Eitt kvöld á klúbbnum“. Var það leikið hvern veturinn eftir annan og jafnvel kvöld eftir kvöld við mikla aðsókn, en einkum þó þau árin, sem höfundar þess, Bjarna sál. Pálssonar, naut við. Þótt eigi væri það ýkja efnisríkt, var það sprenghlægilegt, fjörugt og fyndið og gleymist víst seint þeim, er sáu það og heyrðu.“ [note] Austantórur III, 94-95.[/note]

Leikstarfsemi Bjarna Pálssonar var í nánum tengslum við aðra félagsstarfsemi hans, söngfélög og stúkur, er hann veitti forstöðu. Urðu leiksýningarnar nokkurs konar þáttur í starfi þeirra. Verð aðgöngumiða að sýningunum voru 35 aurar fyrir fullorðna, en 15 aurar fyrir börn, og sama var verðið á aðrar skemmtisamkomur, sem aðgangur var seldur að, svo sem söngskemmtanir og fyrirlestra. Hið voveiflega fráfall Bjarna Pálssonar var óbætanlegur hnekkir fyrir allt félagslíf á Stokkseyri um margra ára skeið. Leiksýningar leggjast niður með öllu í fullan áratug, unz nýtt blómatímabil hefst aftur með nýjum mönnum. Voru aðstæður þá að ýmsu leyti breyttar til hins betra, fólkinu hafði fjölgað nær til helminga, rúmgott samkomuhús með leiksviði hafði verið reist og hagur .almennings farið batnandi. Minnistæðastur mun þó jafnan verða hinn gunnreifi brautryðjandi leiklistar á Stokkseyri, Bjarni Pálsson, og um leið eina leikritaskáldið, sem þar hefir komið fram.

Það mun hafa verið árið 1898, sem stúkan „Hamingjan“ á Stokkseyri réðst í að reisa sér nýtt samkomuhús, en fram til þess tíma hafði stúkan haldið fundi sína og samkomur í barnaskólanum. Bygging góðtemplarahússins var hið mesta þarfaverk, enda færðist við það nýtt líf og fjör í félagsstarfsemi alla í þorpinu. Leiksýningar hófust nú af nýju með miklu fjöri, og um nokkurt skeið voru tveir leikflokkar starfandi samtímis. Höfðu Selsbræður þar mest forgöngu annars vegar, en hins vegar þeir Guðmundur Vernharðsson kennari, Guðmundur Sæmundsson kennari og síðar Helgi Jónsson verzlunarmaður. Veturinn 1898-99 voru t. d. tvö leikrit, ,,Eitt kvöld á klúbbnum“ og „Útsvarið“, sýnd samtímis á Stokkseyri og leikin hvað eftir annað. Á því tímabili í leikstarfseminni, sem nú hófst og segja má, að stæði um 10 ára skeið, voru sýnd fjölda mörg leikrit, flest á vegum stúkunnar, enda jafnan leikið í góðtemplarahúsinu. Eru þessar leiksýningar mörgu rosknu fólki enn minnistæðar og meðferð sumra leikenda á hlutverkum þeirra mjög rómuð. Hér skal nú skýra frá þeim leikritum, sem tekizt hefir að rifja upp frá þessu tímabili ásamt helztu hlutverkaskipun í þeim.

„Vesturfararnir“, leikrit i þremur þáttum eftir Matthías Jochumsson (Rvík 1898), voru leiknir á Stokkseyri eftir nýár veturinn 1897-98. Meðal leikenda voru: Auðunn bóndi: Gamalíel Jónsson. Gabríel Ameríkuboðari: Friðrik Bjarnason. Jón á Gili: Jón Jónsson í Íragerði. Enn fremur voru meðal leikenda Guðríður Bjarnadóttir frá Sviðugörðum, Guðrún Sigurðardóttir í Beinateig, Júlíus Gíslason á Ásgautsstöðum, og drengi léku þeir Guðjón Þorkelsson frá Gamla-Hrauni og Brynjólfur Gíslason í Sandgerði. Var leikur þeirra Gamalíels og Friðriks sérstaklega í minnum hafður.

„Eitt kvöld á klúbbnum“ var tekið til sýningar í annað sinn haustið 1898 á vegum stúkunnar. Leikendur voru þá þessir: Grímur: Jón Adólfsson. Ólafur: Jón Jónsson, Íragerði. Magnús á Mölinni: Ísólfur Pálsson. Jóhann póstur: Jón Pálsson eldri. Kapla-Gunna: Olgeir Jónsson, Grímsfjósum, og Nikulás þjónn: Þórður Bjarnason (Pálssonar). Þeir nafnar Jón Adólfsson og Jón í Íragerði, sem voru afbragðs söngmenn, sungu einnig nokkur Bellmannslög bak við tjaldið milli þátta. Farið var með leikinn út á Eyrarbakka og hann sýndur þar. Meðferð Olgeirs Jónssonar á Kapla-Gunnu þótti með afbrigðum góð, enda lék hann það hlutverk jafnan síðan, er leikritið var tekið til sýningar.

„Útsvarið“, leikrit í þremur þáttum með viðbæti eftir Þorstein Egilsson (Rvík 1895), var leikið samtímis „Einu kvöldi á klúbbnum“. Leikendur voru þessir: Jón Dagsson bóndi á Grund: Jón Pálsson eldri. Una, kona hans: Guðrún Sigurðardóttir í Beinateig. Solveig, dóttir þeirra: Valgerður Gísladóttir, Ásgautsstöðum. Geir bóndi á Hofi: Jón Jónsson, Íragerði. Símon bóndi á Hrappsstöðum: Magnús Teitsson. Jóhann, sonur hans: Jóhann Tómasson, síðar í Hafnarfirði. Páll sýslumaður: Júlíus Gíslason, Ásgautsstöðum. Sýslunefndarmenn: Guðjón Jónsson frá Tungufelli (sr. Sigurður), Guðmundur Vernharðsson (Árni Steinsson), Sæmundur Benediktsson, Ásgrímur Jónsson, Einar Vigfússon, Steindór Sæmundsson, Götuhúsum, og Olgeir Jónsson. Paul Jensen kaupmaður: Guðmundur Vernharðsson. Frú Jensen: Sigurður Adólfs. son. Þess skal getið, að „Útsvarið“ var leikið aftur á Stokkseyri mörgum árum síðar.

„Hinn sanni þjóðvilji“, sjónleikur í einum þætti eftir Matthías Jochumsson (Rvík 1898), var leikinn á Stokkseyri veturinn 1898-99. Meðal leikenda voru: Ritstjórinn: Friðrik Bjarnason. Fjallkonan: Guðrún Sigurðardóttir í Beinateig. Gestir: Magnús Teitsson, Jón Jónsson í Íragerði o. fl.

,,Sigríður Eyja/jarðarsól“, sjónleikur í fimm þáttum eftir Ara Jónsson (Ak. 1879) var leikinn á Stokkseyri þennan sama vetur eða hinn næsta (1899- 1900). Leikendur voru: Bjarni bóndi í Möðrufelli: Ásgrímur Jónsson í Móhúsum. Rósa, kona hans: Olgeir Jónsson. Sigríður Eyjafjarðarsól, dóttir þeirra: Kristjana Jónsdóttir í Grímsfjósum. Hallgrímur, maður Sigríðar: Jón Pálsson eldri. Sigríður yngri, dóttir Hallgríms: Valgerður Gísladóttir, Ásgautsstöðum. Haraldur kaupmaður: Gamalíel Jónsson. Björg, fóstra Haralds:

Guðrún Sigurðardóttir í Beinateig. Guðmundur Vernharðsson lék einn af útilegumönnunum. Sennilegt er, að „Sigríður Eyjafjarðarsól“ hafi verið leikin aftur nokkru síðar og þá með dálítið annarri hlutverkaskipun, en ekki hefir tekizt að afla nægilega greinilegra upplýsinga um það.

„Sálin hans Jóns míns“, leikur í þremur þáttum eftir Hólmfríði Sharpe (Rvík 1897) var sýndur á Stokkseyri um aldamótin. Leikendur voru þessir:

Valgerður Guðmundsdóttir í Stardal, Guðmundur Vernharðsson, Jón Pálsson eldri, Olgeir Jónsson, Kristjana Jónsdóttir, Guðrún Sigurðardóttir í Beinateig og Jón Guðbrandsson í Starkaðarhúsum. Hvernig hlutverkum var skipað milli einstakra leikenda, hefir ekki tekizt að rifja upp með neinni vissu.

„Sumargjöfin“, kölluð öðru nafni „Biðlamir“, sjónleikur eftir Þorvarð Þorvarðsson, síðar prest og prófast í Vík í Mýrdal, með ljóðum eftir Magnús Teitsson, var sýndur á Stokkseyri veturinn 1900–1901. Leikrit þetta mun nú að líkindum glatað. Efnið snerist um giftingu ríkrar heimasætu. Vildu tveir menn fá hennar: ráðsmaðurinn hjá foreldrum hennar, roskinn maður og búralegur, og ungur búfræðingur, fátækur, en með miklar framtíðaráætlanir og allmikill á lofti. Bóndi vildi gifta hana ráðsmanninum, en húsfreyjan búfræðingnum, og hann elskaði stúlkan. Eftir allmiklar flækjur endaði allt vel og elskendurnir náðu saman og fengu samþykki beggja foreldra stúlkunnar á sumardaginn fyrsta, – það var sumargjöfin. Þetta þótti skemmtilegt leikrit og vel leikið. Meðal leikenda voru Gamalíel Jónsson, sem lék ráðsmanninn, Guðrún Sigurðardóttir í Beinateig, sem lék heimasætuna, enn fremur Einar Vigfússon, Jón Guðbrandsson, Þórður Jónsson bókhaldari o. fl. Sérstaklega þótti Gamalíel takast forkunnar vel í hlutverki ráðsmannsins.

„Eitt kvöld í klúbbnum“ var enn tekið til sýningar þennan sama vetur ( 1900 -1901) á vegum stúkunnar og að tilhlutun Ísólfs Pálssonar. Leikendur og hlutverkaskipun var hin sama sem 1898, nema hvað Friðrik Bjarnason lék nú Grím.

Á næstu árunum eftir aldamótin voru eftirfarandi leikrit sýnd á Stokkseyri, sem ekki hefir tekizt að tímasetja nákvæmlega:

,,Sagt upp vistinni“, gamanleikur í einum þætti eftir Carl Möller. Aðalleikandinn var Helgi Jónsson verzlunarmaður, sem tókst mjög vel. ,,Prestskosningin“, leikrit í þremur þáttum eftir Þorstein Egilsson (Rvík 1894). Um leikendur skortir heimildir. ,,Jeppi á Fjalli“, gamanleikur í fimm þáttum eftir Ludvig Holberg. Af leikendum eru nefndir Helgi Jónsson, sem lék Jeppa, og Einar Vigfússon. Loks var „Eitt kvöld á klúbbnum“ tekið til sýningar í fjórða sinn haustið 1907. Var það sýnt á vegum stúkunnar og leikstjóri Ísólfur Pálsson. Leikendur voru þá þessir: Grímur : Ásgrímur Jónsson í Móhúsum. Ólafur: Jón Jónsson í Íragerði. Magnús á Mölinni: Ísólfur Pálsson. Jóhann póstur: Einar Vigfússon í Götuhúsum. Kapla-Gunna: Olgeir Jónsson og Nikulás þjónn: Páll Ísólfsson. Á milli þátta skemmti kvartett með söng; voru það þeir Nikulás Torfason, Jón Jónsson í Íragerði, Ásgrímur Jónsson, Vestri-Móhúsum og Sigurður Magnússon í Dvergasteinum, allir frábærir söngmenn. Þetta var í síðasta sinn, sem hinn vinsæli leikur, ,,Eitt kvöld á klúbbnum“, var sýndur á Stokkseyri.

Á því tímabili, sem nú hefir .verið frá sagt, var lengstum mikið líf í leikstarfseminni á Stokkseyri. Þar komu og fram ýmsir góðir leikarar, sem menn minnast enn með hlýjum buga. Meðal þeirra má einkum nefna þá Gamalíel Jónsson í Tjarnarkoti, Olgeir Jónsson í Grímsfjósum, Helga Jónsson verzlunarstjóra og þær Guðrúnu Sigurðardóttur í Beinateig og Kristjönu Jónsdóttur í Grímsfjósum. Um eiginlegt leikfélag var aldrei að ræða, heldur samtök nokkurra áhugamanna, oft í sambandi við aðra félagsstarfsemi í þorpinu, eins og áður er á vikið. En þegar hér er komið sögu, verða þáttaskil í leikstarfseminni á Stokkseyri að því leyti, að hinir eldri leikarar hætta flestir þessari starfsemi sinni, en nýir og yngri menn koma fram á sjónarsviðið og taka við forustunni.

Haustið 1908 mynduðu nokkrir ungir menn á Stokkseyri samtök með sér um að halda uppi leikstarfsemi þar í þorpinu. Aðalforgöngumenn þess voru þeir Guðbergur Grímsson í Móakoti, Eiríkur Eiríksson bakari, Einar Vigfússon í Götuhúsum og Jón Þórir Ingimundarson trésmiður. Fengu þeir til liðs við sig unga og gáfaða stúlku, Önnu Helgadóttur á Helgastöðum, sem gerðist brátt ómissandi kraftur í samtökum þessum, enda að allra dómi, sem til þekkja, tvímælalaust bezta leikkona, sem fram hefir komið á Stokkseyri. Guðbergur var og mikill áhugamaður, góður leikari og þýddi m. a. sjálfur leikrit eða kafla úr þeim, t. d. ,,Leirkerasmiðinn“ og „Erasmus Montanus“ eftir Holberg. Hófust þau þegar handa um æfingar á tveimur smáleikritum, er leikin voru samtímis. Annað þessara leikrita var gamanleikurinn „Neiið“ eftir J. L. Heiberg. Leikendur voru þessir: Jústisráð Gamstrup: Eiríkur Eiríksson bakari. Soffía, bróðurdóttir hans: Anna Helgadóttir, sem kom þá fram í fyrsta sinn. Hammer stúdent: Jón Þ. Ingimundarson og Link hringjari: Einar Vigfússon. Páll Ísólfsson annaðist undirleik við söngvana. Hitt leikritið var gamanleikurinn „Þá er eg næstur“ eftir T. J. Williams. Leikendur í því voru: Lyfsalinn: Guðbergur Grímsson, sem lék þá í fyrsta sinn. Lydia, kona hans: Halldóra Ingimundardóttir. Henry lyfjasveinn: Einar Vigfússon. Vinur lyfsalans:

Jón Þ. Ingimundarson og systir frúarinnar: Arnheiður Jónsdóttir. Leikrit þessi voru fyrst sýnd nokkrum sinnum á Stokkseyri, einu sinni á Eyrarbakka og einu sinni í Þjórsártúni. Þar var leikið í konungssalnum, og var húsfyllir; kom fólk jafnvel gangandi ofan úr Landsveit til þess að sjá sýninguna. Leikflokkurinn ferðaðist í póstvagni fram og til baka. Þótti för þessi takast með ágætum og var lengi í minnum höfð, enda alger nýjung í skemmtanalífi fólks þar um slóðir. Þess skal getið, að leikritið „Þá er eg næstur“ var aftur leikið á kvenfélagsskemmtun á Stokkseyri 2. febrúar 1912.[note] Suðurland, 17. febr. 1912.[/note] Veturinn 1908-1909 mun leikflokkurinn enn fremur hafa sýnt smáleikinn „Hinn þriðji“ eftir J. Chr. Hostrup. Meðal leikenda voru þau Anna Helgadóttir, Guðbergur Grímsson og Jón Þ. Ingimundarson.

Veturinn 1909-1910 sýndi leikflokkurinn þrjú smáleikrit. Hið fyrsta þeirra var gamanleikurinn „Box og Kox“ eftir J. M. Morton. Leikendur voru:

Madaman: Anna Helgadóttir. Box: Guðbergur Grímsson og Kox: Jón Þ. Ingimundarson. Annað leikritið var „Hólmgangan“, og voru leikendur: Anna Helgadóttir, sem lék herforingjadótturina, Eiríkur Eiríksson, sem lék stúdentinn, og Jón Þ. Ingimundarson, er lék liðsforingjann. Þriðja leikritið var „Bónorðið“ eftir Halldór Briem. Leikendur voru hinir sömu. Þessi leikrit voru sýnd saman, enda öll einþáttungar.

Veturinn 1910-1911 sýndi leikflokkurinn tvö leikrit saman „Leirkerasmiðinn“ eftir Holberg og „Fögru malarakonuna“ eftir Duveyrier og þann sama vetur einnig þriðja leikritið „Ævintýrið í garðinum“ eftir J. L. Heiberg. „Leirkerasmiðurinn“ var þýddur af Guðbergi Grímssyni, en allmikið styttur og saman dreginn. Meðal leikenda voru: Guðbergur Grímsson, sem lék leirkerasmiðinn, Anna Helgadóttir, sem lék konu hans, Málfríður Halldórsdóttir, sem lék heimasætuna, og Jón Þ. Ingimundarson, er lék þjóninn. ,,Fagra malarakonan“ var sem áður segir leikin samtímis „Leirkerasmiðnum.“ Leikendur voru þessir: Malarakonan: Anna Helgadóttir. Frændi hennar: Helgi Jónsson. Greifinn: Einar Vigfússon. Markgreifafrúin: Málfríður Halldórsdóttir. Malaradrengurinn: Eiríkur Eiríksson. Leikir þessir voru sýndir þrisvar á Stokkseyri í desembermánuði 1910 og einu sinni á Eyrarbakka eftir áramótin. Um sýninguna á Eyrarbakka ritaði Guðmundur Guðmundsson kaupfélagsstjóri m. a. í blaðið „Suðurland“: ,,Fyrri leikurinn var allgóður, og leikendurnir leysa hlutverk sín vel af hendi, en hættir þó sumum við að lesa of mjög, og óprýðir það framburðinn. Annars er leikur þessi svo mjög styttur úr því, sem hann er hjá höfundi, að aðeins er svipur hjá sjón, og er það ekki sagt leikendum til lasts, ofvaxinn leiksviði og öllum útbúnaði hér, sem er í aumasta lagi, og mann furðar á, að nokkuð skuli vera hægt að skemmta á slíku leiksviði. Síðari leikurinn, ,,Fagra malarakonan“, skemmti áhorfendum sérlega vel, þar leikið betur, og sumir léku þar svo vel, að unun var á að sjá, sérstaklega malarakonan, hún er óefað ágætis leikkonuefni, sérstaklega í ástarhlutverkum, sem hún leikur sérlega vel. Frændi hennar er og vel leikinn, svo mörgum varð kátt af, þó virtist sumum hann sýna helzt til mikla léttúð. Húsfyllir var þetta kvöld, og var það vel farið, því mikið verða leikendur að leggja á sig og eiga því skilið, að vel séu sóttir leikarnir.“[note] Suðurland, 12. jan. 1911. Í næsta blaði á undan er allrækilega sagt frá sýningunum á Stokkseyri.[/note]  Þess skal getið, að seinna um veturinn launuðu Eyrbekkingar heimsóknina og léku austur á Stokkseyri; þrjú smáleikrit voru á leikskránni. Öllum, sem til muna, ber saman um það, að sýning „Fögru malarakonunnar“ hafi tekizt afburða vel. Anna Helgadóttir telur það bezta verkið, sem flutt hafi verið á Stokkseyri í hennar minni.

Eins og áður var getið, var „Ævintýrið í garðinum“ einnig leikið þennan vetur. Fór Anna Helgadóttir með aðalkvenhlutverkið. Leikurinn var sýndur aftur ásamt „Misskilningi á misskilning ofan“ í febrúar 1912 og á kvenfélagsskemmtun 21. apríl sama ár. Fór Ragnheiður Jónsdóttir þá með hlutverkið, sem Anna hafði haft.[note] Suðurland, 2. marz 1912.[/note]

Veturinn 1911-1912 var tekið til sýningar leikritið „Erasmus Montanus“ eftir Ludvig Holberg. Guðbergur Grímsson þýddi leikinn og lék sjálfur aðalhlutverkið, Erasmus Montanus. Meðal annarra leikenda voru Málfríður Halldórsdóttir, sem lék móður hans, Ragnheiður Jónsdóttir og Jón Þ. Ingimundarson. Leikurinn var sýndur í nokkur skipti í desembermánuði á Stokkseyri og 30. desember einu sinni á Eyrarbakka. Skrifaði Einar E. Sæmundsen allharðorðan dóm um leikinn í „Suðurlandi“. Þótti honum bæði lélega leikið og málið á leiknum svo vont, ,,að hörmung var að heyra“. Spunnust út af þessu talsverðar deilur á báða bóga, er stóðu yfir í blaðinu fram í febrúarmánuð.[note] S. st., 6., 13., 20. og 27. jan., 2. og 10. febr. 1912.[/note] Í umræðum þessum kemur m. a. fram, að Anna Helgadóttir og Helgi Jónsson hafi ekki leikið þennan vetur, enda hafi frammistaða þeirra árið áður verið ólíku betri. Þennan sama vetur var enn fremur sýndur gamanleikurinn „Misskilningur á misskilning ofan“ eftir Th. Overskou ásamt með „Ævintýrinu í garðinum“, sem áður er getið. Fór sú sýning fram í febrúarmánuði.[note] S. st., 2. marz 1912.[/note]

Veturinn 1912-1913 er aðeins getið um tvö smáleikrit, er sýnd voru á Stokkseyri. Leikrit þessi voru „Hattur í misgripum“, gamanleikur í einum þætti eftir S. Neumann og „Eitt hundrað og eitt“ eða „Vinningurinn“, gamanleikur með söng í einum þætti eftir Erik Bögh. Leikir þessir voru sýndir saman fyrst á annan í jólum og aftur síðar.„Hreppstjórinn“, leikrit í þremur þáttum eftir Eyjólf Jónsson frá Herru, var leikið á Stokkseyri í byrjun desembermánaðar 1913. Segir svo um það í blaðinu „Suðurlandi“: ,,Fremur lítið [er] í leik þann spunnið, þó allgóð samtöl í fyrsta þætti milli hreppstjórans og konu hans. Hreppstjórinn er gamall, hygginn, skrítinn karl, enda vel með hann farið af leikandans hálfu, Guðbergs Grímssonar.“ [note] S. st., 8. jan. 1913.[/note]Árið eftir, veturinn 1914-1915, var sýnt leikritið „Ráðgjafinn“, skemmtilegur gamanleikur. Eiríkur Eiríksson lék Pétur klæðskerasvein og Anna Helgadóttir Stínu, unnustu hans; aðrir leikendur voru Jón Þ. Ingimundarson, Viktoría Halldórsdóttir og Arnheiður Jónsdóttir. Þennan vetur voru einnig sýnd einhver smáleikrit.

Nú verður alllangt hlé á leiksýningum á Stokkseyri, því að ekki hefir tekizt að rifja upp nein leikrit frá næstu árum eða ekki fyrr en 1920. Vafalaust hefir fráfall Guðbergs Grímssonar átt sinn þátt í þessu, en hann fórst með vélbátnum „Suðra“ í vertíðarbyrjun 3. febrúar 1917. Hafði hann jafnan verið mjög áhugasamur og í fararbroddi um leikstarfsemina, enda sjálfur góðum leikhæfileikum gæddur. Varð því þessari starfsemi mikið tjón að fráfalli hans. Fara næst sögur af leikþætti, er nefndist „Gæfuskórinn“, eftir Sigurð Heiðdal og var leikinn í barnaskólahúsinu á jólaskemmtun ungmennafélagsins veturinn 1920-21. Aðalleikendur voru Jónas Jósteinsson kennari og Guðrún Sigurðardóttir á Stokkseyri. Næst er getið um smáleik, er nefnist „Óhemjan“, gamanleik í einum þætti eftir Erik Bögh. Mun það fyrsti leikurinn, sem sýndur var í hinu nýja samkomuhúsi „Gimli“, sem byggt var 1921 í félagi af hreppnum og ungmennafélaginu. Leikendur voru Sigurður Ingimundarson kaupmaður, Guðmundur Jónsson skósmiður á Bjargi, Málfríður Halldórsdóttir (frúin) og Anna Helgadóttir (vinnukonan).

En nú dró að því, að Stokkseyringar gerðu stærsta átak sitt til þessa í leikstarfseminni. Haustið 1921 var myndaður leikflokkur til þess að sýna „Skugga-Svein“ eftir Matthías Jochumsson, meðal annars til þess að afla nýja samkomuhúsinu tekna. Það var djarflega í ráðizt að setja á svið þetta stóra leikrit með 16 hlutverkum, þar sem allir leikendur voru óvanir og flestir aldrei á leiksvið komið, allan útbúnað skorti, búninga, gervi og leiktjöld og allir urðu að vinna að sýningunni í hjáverkum. En hér var ráðizt í verkefnið með djörfung og eldmóði. Anna Helgadóttir tók að sér stjórnina. Hún valdi leikendur og skipaði í hlutverkin og stjórnaði æfingum, sem fóru fram á hverju kvöldi í heilan mánuð, án þess að úr félli. Jafnframt teiknaði hún búninga og hafði umsjón með saumaskap á þeim og bjó einnig til gervi, og var það því erfiðara sem engar myndir voru til að fara eftir. Sigurður Ingimundarson tók að sér að mála leiktjöld. Allt þetta tókst framar öllum vonum. Áhuginn var mikill, og allir gerðu sitt bezta. Anna reyndist glöggskyggn á mannaval í hlutverkin. Maðurinn, sem hún valdi til þess að leika Skugga-Svein, Ásgeir Jónasson í Ásgarði, hafði t. d. aldrei komið á leiksvið áður, en þótti leysa hlutverk sitt af hendi með miklum ágætum. Sama var að segja um Hallmund Einarsson í hlutverki Grasa-Guddu og ýmsa fleiri. Vel tókst með leiktjöldin, og þótti t. d. grasafjallið snilldarlega vel gert. Leikurinn komst upp í desembermánuði og var leikinn sjö sinnum fyrir fullu húsi, sem var algert einsdæmi um sjónleiki á Stokkseyri. Leikendur í „Skugga-Sveini“ voru þessir: Skugga-Sveinn: Ásgeir Jónasson. Ketill útilegumaður: Jónas Jósteinsson kennari. Ögmundur útilegumaður: Sigurður Sigurðsson, Bjarnahúsi. Haraldur útilegumaður: Þorkell Þorkelsson, Móhúsum. Sigurður í Dal: Eiríkur Snjólfsson, Móakoti. Ásta, dóttir hans: Anna Helgadóttir. Margrét vinnukona: Oktavía Jónsdóttir, Túni. Grasa-Gudda: Hallmundur .Einarsson, Blómsturvöllum. Gvendur smali: Guðmundur Jónsson, Bjargi. Geir og Grani kotungar: Guðmundur Jónsson, Bjargi, og Guðmundur Einarsson, Blómsturvöllum. Galdra-Héðinn: Guðmundur Einarsson, Blómsturvöllum. Hólastúdentar, Helgi og Grímur: Bjarni Sturlaugsson og Ásgeir Eiríksson. Lárentíus sýslumaður: Sigurður Ingimundarson. Hróbjartur úr Grindavíkinni: Bjarni Sturlaugsson. Jón sterki: Guðmundur Einarsson, Merkigarði. Fyrir góða leikmeðferð er einkum getið Ásgeirs Jónassonar, Önnu Helgadóttur, Hallmundar Einarssonar, Guðmundar á Bjargi og Guðmundar á Blómsturvöllum, en að öðru leyti hefðu allir skilað hlutverkum sínum með sóma og furðanlega jafnvel.

Eins og áður er sagt, var aðsókn að leiknum með eindæmum góð. Eitt kvöldið komu t. d. 80 manns af Eyrarbakka til þess að sjá leikinn. Það er og í frásögur fært, að menn eins og Jón Sturlaugsson hafnsögumaður og Pálmar á Stokkseyri sóttu hverja sýningu og höfðu þau orð um að þeir myndu halda því áfram, meðan leikurinn væri sýndur. Haft er eftir Guðmundi Ebenezerssyni á Eyrarbakka, að hann hefði séð „Skugga-Svein“ leikinn á sex stöðum á landinu, en sýningin á Stokkseyri væri sú bezta. Má af þessu nokkuð marka dóma manna um hana.

Þennan sama vetur bar það til tíðinda, að tveir úr hópi leikendanna drukknuðu á Stokkseyri. Það voru þeir Bjarni Sturlaugsson og Þorkell Þorkelsson í Móhúsum, er fórust með vélbátnum „Atla“ 17. apríl 1922. Átti þetta slys sinn þátt í því, að starfsemi leikflokksins lagðist niður, enda kom þar og til, að Anna Helgadóttir dró sig í hlé frá leikstarfsemi um sömu mundir. Í tilefni af því skal hennar getið hér nokkru nánara með fáeinum orðum.

Anna var fædd í Vestra-Stokkseyrarseli 9. júní 1892, og voru foreldrar hennar Helgi Pálsson bóndi þar, síðar á Helgastöðum í Stokkseyrarhverfi, og kona hans, Anna Diðriksdóttir, bæði myndar- og gáfufólk.[note] Sjá nánara um þau Bólstaðir o. s. frv., 357-358.[/note] Ólst Anna upp hjá foreldrum sínum og þótti snemma gáfuð og efnileg stúlka. Þegar leikflokkur var myndaður á Stokkseyri haustið 1908, var því að vonum leitað til hennar um þátttöku, og kom hún fyrst fram á leiksviði í „Neiinu“, sem leikið var bæði á Stokkseyri, Eyrarbakka og í Þjórsártúni, sem fyrr segir. Vakti Anna þá þegar athygli fyrir leik sinn, en einkum þó í „Fögru malarakonunni“, sem leikin var á Stokkseyri og Eyrarbakka 1910, þar sem segja má, að hún ynni verulegan leiksigur. Hvatti frú Eugenia Nielsen á Eyrarbakka Önnu þá mjög til þess að mennta sig í leiklist og vildi jafnvel hefja samskot til að kosta hana til náms. Af þessu gat þó ekki orðið af ýmsum ástæðum, en veturinn 1911- 1912 dvaldist Anna í Reykjavík og sá þá meðal annars „Kamilíufrúna“ og „Nýársnóttina“ hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Hafði hún allmikinn hug á að ganga í leikfélagið og fá að reyna sig þar, en þó fórst það fyrir.

Haustið 1912 giftist Anna Sigurði Ingimundarsyni, síðar kaupmanni á Stokkseyri, og var þá útséð um leiklistarnám hennar, er heimili kallaði að. Veturinn eftir gat hún ekki leikið vegna veikinda, en veturinn 1913-1914 dvaldist hún í Vestmannaeyjum og tók þar allmikinn þátt í leiksýningum. Var hún fyrst fengin til að hlaupa í skarðið fyrir stúlku, sem átti að leika í „Skugga-Sveini“, sem þá var verið að sýna í Vestmannaeyjum. En síðan setti hún þar á svið „Fögru malarakonuna“, og var hún leikin nokkuð oft við góðar undirtektir. Eftir að Anna kom heim til Stokkseyrar aftur, tók hún þátt í ýmsum leiksýningum, eins og áður hefir verið frá skýrt. En mesta afrek hennar á því sviði var uppsetning hennar á „Skugga-Sveini“ með þeim árangri, sem raun bar vitni. Var það síðasta leikritið, sem hún lék í. Anna fluttist ásamt manni sínum og börnum til Reykjavíkur 1925 og hefir búið þar síðan.

Allar líkur benda til þess, að Anna Helgadóttir hefði orðið með fremstu leikkonum, ef hún hefði notið góðrar leikmenntunar og búið við þroskavænleg skilyrði. Það, sem hún leysti af hendi engu að síður, sýndi vel, hve góðum hæfileikum hún var gædd, hæfileikum, sem betur hefðu mátt njóta sín í stærra umhverfi.

Þó að leikflokkurinn, sem stóð að „Skugga-Sveini“, legðist niður, þá reis annar upp sumpart með sömu mönnum veturinn eftir, 1922-1923. Til sýningar var valið leikritið „Almannarómur“, sjónleikur í fimm þáttum eftir Stein Sigurðsson, og þótti vel takast. Leikendur voru þessir: Doktor Hansen:

Ásgeir Jónasson; Sigrún: Ólafía Andrésdóttir í Beinateig; Tómas vélstjóri: Sigurður Sigurðsson, Bjarnahúsi; Gunnar stúdent: Sigurður Gíslason, Kalastöðum; Jafet næturvörður: Guðmundur Einarsson, Blómsturvöllum; Halla, kona hans: Ásta Sigurðardóttir, Nýjakastala; Þorlákur, sonur þeirra: Guðmundur Jónsson á Bjargi; Þóra vatnsburðarkerling: Hallmundur Einarsson. Leikrit þetta var tekið tvívegis til sýningar mörgum árum síðar með öðrum leikendum. Það mun og að líkindum hafa verið þennan sama vetur, sem „Útsvarið“ eftir Þorstein Egilsson var leikið á annan í jólum á vegum ungmennafélagsins. Leikendur voru: Ásgeir Eiríksson, Ólafía Andrésdóttir, Bjarni Jónsson, Bjarni Sigurðsson, Guðmundur Einarsson, Guðmundur Jónsson, Ingveldur Jónsdóttir, Eiríkur Snjólfsson, Sturlaugur Guðnason, Grímur Bjarnason, Sighvatur Bjarnason og Sigurður Sigurðsson.

Nokkru fyrir páska veturinn 1923-24 var leikritið „Tengdamamma“ eftir Kristínu Sigfúsdóttur sýnt á vegum kvenfélagsins. Leikendur voru þessir:

Björg á Heiði: Sesselja Steinþórsdóttir, Sjólyst; Ari, sonur hennar: Ásgeir Eiríksson; Ásta, kona hans: Guðrún Sigurðardóttir, Stokkseyri; síra Guðmundur: Hallmundur Einarsson; Jón ráðsmaður: Ásgeir Jónasson, Ásgarði; Þura vinnukona: Jarþrúður Einarsdóttir, Tóftum; Sveinn vinnumaður: Bjarni Jónsson, Kalastöðum; Rósa, fósturdóttir Bjargar: Bjarnheiður Þórðardóttir, Sjólyst; Signý á Mýri: Halldóra Gísladóttir. Þetta var í síðasta sinn, sem Ásgeir Jónasson lék, því að hann lézt um sumarið, 30. júlí 1924. Hann lék fyrst í Skugga-Sveini í desember 1921, og var leikferill hans því skammur. Þó vann hann sér það álit, að hann hefði verið meðal fremstu leikara á Stokkseyri.

Veturinn 1924-25 var „Bjargið, leikrit í fimm þáttum eftir Sigurð Heiðdal, sýnt á Stokkseyri af flokki áhugamanna, og var höfundur sjálfur leiðbeinandi. Aðalleikendur voru Jónas Jósteinsson kennari og Sesselja Steinþórsdóttir. Leikurinn var einnig sýndur á Eyrarbakka. Til sýninganna var einkum stofnað til þess að afla barnabókasafninu tekna. Þess skal getið, að Sigurður Heiðdal samdi þetta leikrit á árunum, sem hann var kennari á Vopnafirði (1907-14), og var það fyrst leikið þar.

Á næstu árum hafa að líkindum verið leikin ýmis smáleikrit, en erfitt er að tímasetja þau nákvæmlega. Árið 1927 var sýnt á vegum verkamannafélagsins leikritið „Ekki oftar en þrisvar“, og voru leikendur í því Helgi Sigurðsson, Guðrún Sæmundsdóttir, Zóphonías Jónsson og Guðmundur Einarsson á Blómsturvöllum. Árið 1928 sýndi sama félag „Neiið“ eftir Heiberg, en meðal leikenda voru Zóphonías Jónsson og Guðmundur Einarsson. Sama ár voru ,,Hrekkjabrögð Scapins“ eftir Moliére leikin á vegum ungmennafélagsins. Meðal leikenda voru Jónas Jósteinsson (Scapin) og Guðmundur Einarsson. Búningar voru fengnir að láni hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Árið 1929 sýndi ungmennafélagið revíu, sem nefndist „Daglega lífið“ og var að minnsta kosti að nokkru eftir Guðmund Einarsson á Blómsturvöllum. Auk hans fóru þar með hlutverk Ásta Sigurðardóttir í Nýjakastala, Guðmundur Jónsson á Bjargi og Guðjón Jónsson í Móhúsum.

Á árunum um og eftir 1930 voru enn fremur sýnd þessi leikrit: ,,Gleiðgosinn“ eftir Kraatz og Hoffmann; leikendur voru Sigurður I. Sigurðsson, Dvergasteinum, Sigurður Eyjólfsson, Björgvin, Guðjón Jónsson, Móhúsum, Jónas Ásgeirsson, Ásgarði, Konráð Ingimundarson, Strönd, Helgi Sigurðsson, Bræðraborg, Jarþrúður Einarsdóttir kennari, Hannesína Jónsdóttir, Vinaminni, Margrét Jónsdóttir, Íragerði og Sigríður Jónsdóttir, Túni. ,,Ævintýrið í garðinum“ eftir Heiberg. Leikendur voru: Guðmundur Einarsson, Blómsturvöllum, Sigurður Eyjólfsson, Björgvin, Guðjón Jónsson, Móhúsum, Hannesína Jónsdóttir, Vinaminni, og Anna Jónsdóttir, Vinaminni. Samtímis var sýndur smáleikurinn „Háa c-ið“ eftir Neumann, og voru leikendur hinir sömu sem í Ævintýrinu. Til þessa tíma má líklega einnig telja smáleikina „Pípennan í klípu“ eftir óvissan höfund og „Happið“ eftir Pál J. Árdal. Voru sýningar þessar flestar eða allar á vegum ungmennafélagsins. Um 1934 og á árunum þar á eftir hélt ungmennafélagið einnig uppi nokkrum leiksýningum. Voru þá sýnd leikritin „Landabrugg og ást“ eftir Reihmann og Schwartz, „Hættuleg tilraun“ eftir ónafngreindan höfund, leikið 1935; leikendur Anna Hjartardóttir, Ásgeir Eiríksson og Hlöðver Sigurðsson; og „Ráðskona Bakkabræðra“ eftir Oscar Wennersten, leikin 1937. Leikendur voru Vilborg Ingvarsdóttir, Sigurður Guðmundsson, Gunnar Guðmundsson, Torfi Nikulásson, Kristján Jósteinsson, Gísli Ingvarsson, Sigursteinn Ólafsson, Magnús Sigurðsson, Haraldur Guðmundsson, Sigurbjörg Guðmundsdóttir og Bjarnfríður Símonardóttir. Enn fremur sýndi félagið leikritin „Heyrnarleysingjarnir“ eftir G. Moineaux, ,,Þegar afi lézt“ og „Frænka Charleys“ eftir Brandon Thomas, en leikárin eru ekki kunn.

Öll sú leikstarfsemi, sem nú hefir verið frá sagt, fór ýmist fram á vegum félaga, sem höfðu Önnur aðalmarkmið með starfi sínu, eða á vegum áhugamanna, er tóku sig saman um að koma upp einni eða fleiri leiksýningum, m. a. til stuðnings einhverju ákveðnu málefni. Um eiginlegt leikfélag hafði aldrei verið að ræða, er hefði þann sérstaka tilgang að vinna að eflingu leiklistar á Stokkseyri. En loksins var þó slíku félagið komið á fót. Það var stofnað 1. jan. 1934 og nefndist Leikfélag Stokkseyrar. Flestir stofnendurnir voru áhugasamir ungmennafélagar, en meðal helztu forgöngumannanna voru þeir Björgvin Sigurðsson á Jaðri, Jónas Ásgeirsson í Ásgarði og Sigurður I. Sigurðsson í Dvergasteinum, er mynduðu fyrstu stjórn félagsins. Voru þeir Björgvin og Jónas í stjórn eða varastjórn félagsins alla tíð, meðan það starfaði. Félagið vann af allmiklum dugnaði og gekkst fyrir mörgum leiksýningum í nokkur ár, en eftir 1941 lá starfsemin niðri í langan tíma, enda þótt félagið væri með nokkru lífi. Árið 1948 var reynt að blása nýju lífi í starfsemina, og kom fé.lagið þá upp einu leikriti, en seint á því ári lognaðist það alveg út af, og var síðasti fundur þess haldinn 10. okt. það ár. Formenn félagsins voru þessir:

Björgvin Sigurðsson 1934–38 og 1941-42, Jónas Ásgeirsson 1938-41 og 1942-44, Jón Kristinsson 1944–48, og að lokum Ásgeir H. P. Hraundal og Gísli Gíslason, Sætúni.

Á þeim tæpum 15 árum, sem Leikfélag Stokkseyrar starfaði, gekkst það fyrir sýningum ,á 11 leikritum á Stokkseyri, og sum þeirra sýndi félagið einnig annars staðar. Skal nú skýrt stuttlega frá þeim hér.

Fyrsta leikrit félagsins var „Sundgarpurinn“, skopleikur í þremur þáttum eftir Arnold og Bach, er sýndur var á kvenfélagsskemmtun á nýársdag 1934, stofndag leikfélagsins. Hann var síðan sýndur á Eyrarbakka 4. janúar og Húsatóftum á Skeiðum 6. janúar. Leikendur voru: Jónas Ásgeirsson, Ásgarði; Kristín Ágústsdóttir, Skálavík; Sigrún Einarsdóttir, Hoftúni; Margrét Jónsdóttir, Íragerði; Konráð Ingimundarson, Strönd, Sigurður 1. Sigurðsson, Dvergasteinum; Óskar Sigurðsson, Jaðri; Jón Kristinsson, Íragerði; Björgvin Sigurðsson, Jaðri; Guðjón Jónsson, Íragerði; Þuríður Sæmundsdóttir, Túni, og Jóhanna Ingimundardóttir, Strönd. Næst var sýndur „Hattarinn“, gamanleikur í einum þætti, á ungmennafélagsskemmtun 3. nóv. 1934. Leikendur voru: Björgvin Sigurðsson, Jaðri; Guðbjörg Ingimundardóttir, Strönd; Sigríður F. Jónsdóttir, Sólbakka, Jónas Ásgeirsson, Ásgarði, og Torfi Nikulásson, Söndu. Þriðja leikritið á sama árinu var „Flautaþyrillinn“, gamanleikur í fimm þáttum, eftir Ludvig Holberg, frumsýndur 2. des. og leikinn aftur 15. sama mánaðar. Leikendur voru: Jónas Ásgeirsson (flautaþyrillinn) ; Margrét Jónsdóttir, Íragerði (Pernilla); Sigríður F. Jónsdóttir, Sólbakka (Magdelóna); Guðbjörg Ingimundardóttir, Strönd (Leonóra); Óskar Sigurðsson, Jaðri (Oldfux) ; Sigurður 1. Sigurðsson (Leander); Björgvin Sigurðsson (Eiríkur Madsen; Rakari); Jón Kristinsson, Íragerðí (Pétur Madsen; Kristófer pennahnífur); Ingvar Sigurðsson, Jaðri (Leonard; Skraddari); Sigurður Ingimundarson, Strönd (Lassi blekbytta); Frímann Sigurðsson, Jaðri (Jens griffill) og Torfi Nikulásson, Söndu (Nótarius; Bóndi).

Næstu tvö árin hafði leikfélagið aðeins eitt leikrit til sýningar, og var það „Almannarómur“ eftir Stein Sigurðsson, sem leikið hafði verið á Stokkseyri veturinn 1922-23. Leikurinn var að þessu sinni frumsýndur 22. des. 1935 við mjög góða aðsókn. Aftur var hann leikinn á Eyrarbakka 29. des., og þriðja sýning var á Stokkseyri á nýársdag 1936. Var höfundur leikritsins þá viðstaddur sýninguna. Aðsókn að öllum sýningunum var ágæt, og hafði félagið góðan hagnað af þeim. Þessir voru nú leikendur í „Almannarómi“: Sigurður 1. Sigurðsson {Doktor Hansen); Margrét Jónsdóttir, Íragerði {Sigrún); Jón Guðjónsson, Bjarmalandi (Tómas vélstjóri); Óskar Sigurðsson. Jaðri (Gunnar stúdent); Jón Kristinsson, Íragerði (Jafet næturvörður);

Sigrún Einarsdóttir, Sæbóli (Halla) ; Jónas Ásgeirsson (Þorlákur), og Björgvin Sigurðsson ( Þóra vatnsburðarkerling). Þess skal getið, að leikfélagið tók „Almannaróm“ aftur til sýningar á Stokkseyri 19. des. 1937. Leikendur voru hinir sömu sem áður, nema hvað Njóla Jónsdóttir á Sólbakka lék þá hlutverk Sigrúnar.

Árin 1937-38 hafði leikfélagið tvo sjónleiki með höndum. Annar var ,,Apakötturinn“ eftir Johanne L. Heiberg, er var sýndur aðeins einu sinni 17. jan. 1937. Veður var vont, kom mjög fátt fólk, og varð halli á sýningunni. Leikendur voru: Sigurður 1. Sigurðsson, Margrét Jónsdóttir, Þuríður Sæmundsdóttir, Jónas Ásgeirsson og Stefán Nikulásson. Hinn leikurinn var ,,Sæluhöfn“ eftir M. Holm. Var hann frumsýndur á Stokkseyri 5. des. 1937, sýndur svo í Gaulverjabæ 28. sama mánaðar og síðan á Stokkseyri aftur 22. jan. 1938. Lítils háttar ágóði varð af fyrri sýningunum, en smáhalli á þeirri síðustu. Leikendur voru þessir: Jónas Ásgeirsson (Páll bóndi), Sigrún Einarsdóttir (Þorkatla vinnukona), Stefán Nikulásson (Kristján vinnumaður), Svavar Karlsson (Þorlákur bóndi; Einar smiður), Njóla Jónsdóttir (Guðrún, fósturdóttir hans), Óskar Sigurðsson (Helgi hreppstjóri), Sigurður 1. Sigurðsson (Björn oddviti), Rósa Guðnadóttir (Friðfinna saumakona) og Guðrún Jósteinsdóttir (Sigga).

Á árunum 1939-40 sýndi leikfélagið aðeins eitt leikrit, ,,Allt er þá þrennt er“, gamanleik í þremur þáttum efir A. Ridley. Var hann frumsýndur á Stokkseyri 17. des. 1939, svo leikinn á Eyrarbakka 1. jan. 1940 og aftur á Stokkseyri 7. janúar. Aðsókn var fremur dræm, þó var hagnaður af sýningunni á Eyrarbakka 5 kr. 35 aurar! Leikendur voru Þuríður Sæmundsdóttir, Jónas Ásgeirsson, Björgvin Sigurðsson, Sveinn Sveinsson, Njóla Jónsdóttir, Svavar Karlsson, Karl Karlsson, Ársæll Karlsson, Jón Kristinsson og Rósa Guðnadóttir. Á nýársdag 1941 sýndi leikfélagið tvö stutt leikrit saman. Annað var ,,Gifting ráðskonunnar“, hitt var „Piparfólk“. Fór Njóla Jónsdóttir með aðalkvenhlutverkin í þeim báðum.

Í árslok 1941 réðst Leikfélag Stokkseyrar í stærsta viðfangsefni sitt, en það var Skugga-Sveinn eftir Matthías Jochumsson, sem sýndur hafði verið á Stokkseyri 1921 við mikla aðsókn, sem fyrr segir. Aðsókn að leiknum varð einnig að þessu sinni óvenjulega góð, svo að hann var leikinn fimm sinnum á tæpum mánuði, fyrsta sýning 7. desember og síðasta sýning 3. jan. 1942. Leikendur voru þessir: Skugga-Sveinn: Zóphonías Pétursson; Ketill útilegumaður: Páll Guðmundsson; Ögmundur útilegumaður: Svavar Karlsson; Haraldur: Óskar Sigurðsson; Sigurður í Dal: Sigurður 1. Sigurðsson; Ásta, dóttir hans: Fríða Þorláksdóttir; Margrét vinnukona: Agnes Guðnadóttir; Grasa-Gudda: Guðjón Jónsson; Gvendur smali: Jónas Ásgeirsson; Geir og Grani kotungar: Guðjón B. Jónsson og Björgvin Sigurðsson; Galdra-Héðinn: Jón Kr. Kristinsson; Hólastúdentar, Helgi og Grímur: Jónas Ásgeirsson og Helgi Sigurðsson, Lárentíus sýslumaður: Ásgeir H. P. Hraundal; Hróbjartur: Jón Kr. Kristinsson og Jón sterki: Gunnar Guðmundsson.

Segja mætti, að leikfélagið hefði oftekið sig á „Skugga-Sveini“, því að svo er að sjá sem allan mátt dragi úr því á næstu árum. Má þó vera, að los það og órói, sem styrjöldin olli, hafi átt mestan þátt í því. Síðasta leikritið, sem félagið sýndi, var „Dollaraprinsinn“, gamanleikur í þremur þáttum eftir Benjamín Einarsson. Það var sýnt í febrúar 1948, tvisvar á Stokkseyri og einu sinni á Eyrarbakka. Leikendur voru: Ólafur Örn Árnason kennari, Þuríður Sæmundsdóttir, Guðlaug Jónsdóttir, Stefán Jónsson, Gunnar Guðmundsson (dollaraprinsinn), Guðrún Kristmannsdóttir og Hinrik Bjarnason. Leikfélag Stokkseyrar átti mikinn og góðan þátt í að halda uppi heilbrigðu skemmtanalífi í þorpinu, meðan það starfaði af fullu fjöri, og vann eftir beztu getu að eflingu leiklistarinnar. Miðað við aðstæður fekk það furðu miklu áorkað.

Félagið hafði þann sið að halda afmælisskemmtun á ári hverju framan af. Á slíkri skemmtun 11. jan. 1940 var eftirfarandi afmæliskvæði lesið upp af diski, og mun Björgvin Sigurðsson vera höfundur þess:

Leikfélag Stokkseyrar stofnun er góð,
það starfsvilja og hugrekki glæðir;
það sameinar æskuna, sveina og fljóð,
það sigrandi hugsjónir fæðir.
Verkefnin bíða þess, vegleg og há,
þau vandi er að leysa af höndum,
en sigrana fáum við, sókndjörf og kná,
ef saman í fylkingu stöndum.

Við stýrið er Jónas á stjórnpalli knár,
svo stefnunni hvergi má skeika.
Hann afmæli heldur, þótt eitthvert sé ár,
sem ekki er neitt hægt að leika.
Hann veit, að sú ársskemmtun okkar í hóp
er ávallt hin dýrasta veizla,
alltaf sem vonglaðri æskunni skóp
unaðar sólríka geisla.

Við hlið sér hann hefur þá hugglöðu snót
háu í ritara sæti,
sem alltaf á svartasta böli sér bót
í barnslegri hrífandi kæti.
Með ritblý er Njóla hið ráðandi vald
með reynslu frá umliðnum stundum,
skrifandi sagnir á sögunnar spjald
frá svæsnustu hávaðafundum.

Hann Svavar er gætinn og geymir vorn sjóð,
hann gefur ei túskildings virði.
Ef félli hann Möller,
þá fagnaði þjóð, hann fjármálaráðherra yrði.
Ei sorgirnar buga hans síglaða skap,
mér segir það „almannarómur“,
að alltaf sé leikið og alltaf sé tap,
en aldrei sé sjóðurinn tómur.

Já, leikfélagsstjórnin með sterklegum róm
til starfs okkur kveður á fundum,
og leikirnir geymast sem brosandi blóm
frá bernskunnar sælustu stundum.
Æskan er lífsglöð og hugurinn hreinn,
eg held, að eg segi ekki meira,
en líka er hér Þura og Sæli og Sveinn,
og svo er hér dálítið fleira.

Vort leikfélag dafni við dagsólar skin,
svo draumsjónir háfleygar rætist
og framtíðin auðugan færi því vin,
svo fjárhagur örðugur bætist.
Við gunnreif þess óskum, að lukkunnar ljós
því lýsi í gleði og þrautum
og fylgi því gæfunnar fegursta rós
á framtíðar ókomnu brautum.

Á árunum 1943-1949 hélt síra Árelíus Níelsson uppi kvöldskóla á Stokkseyri með allmörgum nemendum frá fermingaraldri og upp undir þrítugt. Ríkti þar mikill áhugi bæði um nám og félagsstarfsemi. Meðal annars æfðu nemendur leikrit undir stjórn síra Árelíusar og sýndu á foreldramótum og víðar. Þessi leikrit voru sýnd af nemendum: ,,Sigríður Eyja/jarðarsól“, ,,Í betrunarvist“ eftir óvissan höfund, ,,Söguleg jólanótt“, þýtt úr dönsku, og ,,Komdu heim“, eftir síra Árelíus Níelsson. Var það leikrit sýnt á Stokkseyri, Eyrarbakka og Selfossi. Þessi nemendaleikrit voru næstum einu leikritin, sem sýnd voru á Stokkseyri á þeim árum.

Á seinustu árum hefir ungmennafélagið gengizt fyrir sýningu nokkurra leikrita, eins og það gerði löngum áður, en nú um skeið hefir það verið eitt um þessa starfsemi. Leikrit þau, sem ungmennafélagið hefir sýnt á þessum árum, eru þessi: ,,Borðdans og bíómyndir“, sýnt 1952; leikendur Óskar Sigurðsson, Óskar Magnússon, Jón Guðmundsson, Dagný Hróbjartsdóttir, Ágústa Jóhannesdóttir, Jóna Þórarinsdóttir, Kristín Guðbjartsdóttir og Kristjana Bjarnadóttir. ,,Vekjaraklukkan“, gamanleikur í einum þætti, sýndur 1954; leikendur þeir sömu og auk þeirra Sigurður Bjarnason. ,,Ráðskona Bakkabræðra“, áður leikinn af ungmennafélaginu 1937, sýnd veturinn 1955-56; leikendur: Jóna Þórarinsdóttir, Óskar Magnússon, Helgi Sigurðsson, Jón Guðmundsson, Sigurður 1. Sigurðsson, Guðmundur Alexandersson, Kristín Guðbjartsdóttir, Jón Sigurgrímsson, Magnea Jóhannesdóttir, Ástríður Ástmundsdóttir og Óskar Sigurðsson. ,,Herbergi til leigu“, sýnt veturinn 1957- 58; leikendur Jón Guðmundsson, Kristín Guðbjartsdóttir, Sigurður 1. Sigurðsson, Dagbjört Sigurðardóttir, Jón Sigurgrímsson, Guðrún Jónasdóttir og Aðalheiður Karlsdóttir.

Hér lýkur þætti þessum um leikstarfsemi á Stokkseyri. Margir hafa þar lagt hönd á plóginn og unnið saman að listrænum viðfangsefnum sér og öðrum til ánægju og aukins þroska allt frá dögum brautryðjandans, Bjarna í Götu, og til þessa dags. Leikstarfsemi Stokkseyringa í meira en sjö áratugi ber margendurtekin vitni um ríka þörf til listtjáningar og menningarlífs mitt í ótali örðugleika, sem hér er aðeins að litlu lýst, en þó lítillega að vikið í upphafi þessarar frásagnar. Sá, er af skilningi fylgist með þeirri sögu, hlýtur að dást að þeim ódrepandi áhuga, elju og þrautseigju, sem borið hefir starfsemi þessa uppi. Hún hefir vaxið upp úr beztu eðliskostum Stokkseyringa og Stokkseyringar vaxið af henni.

(Helztu heimildir: 1) Frásagnir Gísla sál. Jónssonar frá Meðalholtum um leikrit Bjarna Pálssonar eftir minnisblöðum Þórðar Jónssonar bókhaldara í Reykjavík. 2) Austantórur eftir Jón Pálsson. 3) Blaðið Suðurland 1910-17. 4) Gjörðabók Leikfélags Stokkseyrar í vörzlu Gunnars Guðmundssonar fangavarðar í Reykjavík. 5) Gjörðabækur Ungmennafélags Stokkseyrar samkvæmt upplýsingum frá Baldri Teitssyni símstjóra á Stokkseyri. 6) Frásagnir kunnugra manna, og eru þessir helztir: Þórdís Bjarnadóttir, Vestri-Móhúsum, Friðrik Bjarnason, Hafnarfirði, Þórður Jónsson, Reykjavík, Nikulás Torfason frá Söndu, Margrét Júníusdóttir, Vestri-Móhúsum, Anna Helgadóttir húsfrú, Reykjavík, Guðrún Sigurðardóttir húsfrú, Reykjavík, Ásgeir Eiríksson kaupmaður, Stokkseyri, Jónas Jósteinsson yfirkennari, Reykjavík, Jónas Ásgeirsson verkam., Reykjavík, og síra Árelíus Níelsson, Reykjavík).

Leave a Reply

Close Menu