129-Einkaskólar

Auk hinna opinberu skóla, sem nú hefir verið frá sagt um hríð, störfuðu einnig öðru hvoru einkaskólar á Stokkseyri, er haldið var uppi af áhuga einstakra manna. Þykir mér hlýða að geta þeirra hér stuttlega, eftir því sem tekizt hefir að afla vitneskju um þá.

Elztur þessara einkaskóla var Hólsskólinn, sem svo var nefndur, en börnin kölluðu stundum í gamni „Hólaskóla“. Stofnandi hans var Árni Friðriksson í Hól, síðar barnakennari í Seyðisfjarðarhreppi, og var hann kennarinn öll árin, sem skólinn starfaði, nema hið síðasta, en þá tók við kennslunni bróðir hans, Sæmundur Friðriksson, síðar barnakennari og síðast bóndi í Brautartungu. Þá gekkst síra Ólafur Helgason fyrir því, að kennsla þessi yrði sameinuð barnaskólanum, og kenndi Sæmundur þá einn vetur við barnaskólann með Guðmundi Sæmundssyni. Það var veturinn 1902-1903, sem áður segir. Frú Stefanía Gísladóttir frá Hólsbæ hefir sagt mér, að hún hafi verið þrjá vetur í Hólsskólanum hjá Árna Friðrikssyni, og telur hún, að það hafi verið á árunum 1896-1899. Hefir það verið á fyrstu árum skólans, enda Árni þá ekki nema 18 ára gamall, er hann stofnaði skólann. Eftir því, sem næst verður komizt, hefir Hólsskólinn því starfað á árunum 1896-1902, en þeir bræður Árni og Sæmundur verið innan við tvítugt, er þeir hófu kennslu. Þeir gengu síðar báðir í framhaldsskóla, þótt fátækir væru, luku kennaraprófi og stunduðu kennslu við góðan orðstír. Kennslan í Hólsskólanum fór fram í baðstofunni í Hól, en þar var fremur lítil baðstofa með moldargólfi, eins og þá tíðkaðist víðast hvar. Börnin sátu á einu rúmi og námu fræði sín, lestur, skrift, reikning og jafnvel fleira. Olnbogarými var lítið og oft þröngt setinn rúmstokkurinn, en við þessar aðstæður nutu mörg börn hinnar fyrstu handleiðslu á námsbrautinni, sem þau minntust með þakklátum huga jafnan síðan.

Árið 1897 fluttist Guðmundur Vernharðsson barnakennari austan úr Landsveit til Stokkseyrar og settist þar að sem verzlunarmaður. Hann var sonur Vernharðs Jónssonar á Efra-Seli og bróðir Ísleifs kennara við barnaskólann á Stokkseyri, sem áður er getið. Guðmundur var vel gefinn maður, hafði lokið kennaraprófi og stundað barnakennslu, áður en hann settist að á Stokkseyri, en hans naut skammt við, því að hann lézt 23. febr. 1901, aðeins rúmlega hálfþrítugur. Tvo seinni veturna, sem hann átti heima á Stokkseyri, 1899- 1901, hafði hann einkaskóla á heimili sínu fyrir nokkur eldri börn og unglinga. Guðmundur þótti mjög lipur og góður kennari, að sögn þeirra, er til muna.

Á árunum 1907-1910 hafði Ólafur Helgason, síðar kaupmaður og hreppstjóri á Eyrarbakka, einkaskóla fyrir börn á heimili foreldra sinna á Helgastöðum í Stokkseyrarhverfi. Tilefni þess, að Ólafur fór að taka börn til kennslu, var það, að Gísli Pálsson í Kakkarhjáleigu (síðar Hoftúni) leitaði til Guðmundar kennara Sæmundssonar og bað hann að benda sér á einhvern ungan mann í þorpinu til þess að undirbúa tvö börn sín undir fermingu, því að þau þóttu hafa orðið út undan með nám eftir aldri. Guðmundur benti á Ólaf, og varð þetta til þess, að hann tók að fara inn á nokkur heimili til þess að segja börnum til. Þegar aðsóknin fór að verða meiri, tók hann börnin heim til sín að Helgastöðum. Hagaði hann kennslunni á líkan hátt og gert var í barnaskólanum, kenndi frá kl. 10-3 á daginn og á tímabilinu frá og með október til febrúarloka eða lengur eftir atvikum. Telur Ólafur, að hann hafi haft skóla þennan í áðurnefnd fjögur ár. Voru nemendur flestir síðasta árið og voru þá 12-14 að tölu. Meðal nemenda Ólafs voru þeir Sturlaugur Jónsson, Guðmundur Guðjónsson og Jón Helgason kaupmenn í Reykjavík, svo að nokkrir séu nefndir. Þess skal getið, að Ólafur Helgason kenndi einnig stundum við barnaskólann í forföllum fyrir kennarana þar, þá Guðmund Sæmundsson eða Pál Bjarnason. Var Ólafur bæði laginn og stjórnsamur kennari, að því er nemendur hans herma.

Á árunum 1920-1925 héldu þeir Sigurður Heiðdal og Jónas Jósteinsson kennarar barnaskólans uppi kvöldskóla á hverjum vetri fyrir unglinga, sem komnir voru yfir fermingu. Fengu þeir leyfi skólanefndar til að nota skólahúsið eftir kennslutíma á daginn, en leggja skyldu þeir sjálfir til ljós og greiða 100 kr. fyrir hita. Kennslugreinar í kvöldskólanum voru íslenzka, danska, enska og reikningur. Enda þótt enginn styrkur væri lagður til þessarar starfsemi, var kennslugjaldið mjög lágt, svo að sem flestir ættu kost á að færa sér kennsluna í nyt. Kom hún sér vel fyrir marga, sem áttu ekki í annað hús að venda um framhaldsnám. Veturinn 1925-26 fekk Jónas leyfi frá kennslu til utanfarar og dvaldist erlendis þann vetur. Hætti kvöldskóli þeirra félaga þá störfum. Þess skal getið, að Jónas hafði auk þess nær alltaf einkatíma fyrir nokkra nemendur, meðan hann var kennari og skólastjóri á Stokkseyri.

Þeir kennararnir Hlöðver Sigurðsson og Axel Þórðarson höfðu unglingaskóla eða kvöldskóla í tvo vetur á fyrstu árum þeirra á Stokkseyri, þ. e. 1933- 1935. Var skólinn allvel sóttur. Fengu þeir lítils háttar styrk til skólahaldsins fyrra árið, en seinna árið fóru próf út um þúfur vegna aflahrotu, sem bar að um sömu mundir sem þau áttu að fara fram, og misstu þeir þá af styrknum. Kennslugjald var mjög lágt og entist ekki fyrir kostnaði. Ákváðu þeir þá að hætta, enda óx mjög starf þeirra við barnaskólann við breytingu þá, sem gerð var á fræðslulögunum 1936, er skólaskylda var látin hefjast við sjö ára aldur. f tíð Hlöðvers og Axels var vélanámskeið einnig haldið á Stokkseyri einn vetur, og kenndu þeir báðir á því námskeiði meðal annarra.

Síðasti einkaskólinn, sem hér verður getið, var Unglingaskóli Stokkseyrar, er starfaði á árunum 1943-1949 að undanteknu árinu 1946-47. Stofnandi hans og kennari við hann var síra Árelíus Níelsson sóknarprestur, sem gat sér þá þegar mikið orð sem áhugasamur kennari og æskulýðsleiðtogi. Kennslan fór fram í barnaskólahúsinu á kvöldin. Aðsókn að skóla þessum var mjög góð. 28 nemendur fyrsta árið, en síðan venjulega um 20, og voru þeir á ýmsum aldri eða frá fermingu til þrítugsaldurs og jafnvel meira. Kennd voru tungumál, reikningur o. fl. Skólalíf í unglingaskólanum var með miklu fjöri og námsáhugi mikill. Foreldramót voru haldin á hverjum vetri, og Önnuðust nemendur sjálfir að mestu um skemmtiatriði undir stjórn síra Árelíusar, þar á meðal leiksýningar. Frá þeim leiksýningum er nánar skýrt hér á öðrum stað. Engan styrk fekk síra Árelíus til skólahalds þessa. Árið 1949 réðst hann jafnframt embættisþjónustu sinni kennari við miðskólann á Selfossi og lagðist þá Unglingaskóli Stokkseyrar niður eftir gott starf og gagnlegt um fimm ára skeið.

Leave a Reply

Close Menu