039-Gamlir þjóðvegir og nýir

039-Gamlir þjóðvegir og nýir

Fram að síðustu aldamótum voru samgöngur í Stokkseyrarhreppi eins og víðast annars staðar á landi hér með sama hætti sem þær höfðu verið síðan á landnámsöld. Vegir voru engir af manna höndum gervir og brýr engar, nema ef nefna skyldi göngubrú á Hraunsá. Staðhættir réðu mestu, hvar leiðir lágu, því að krækja varð fram hjá torfærum, mýrum, keldum og vötnum, en rekja sig eftir þurrlendi, bökkum, móum og ásum.

Þannig mynduðust að tilvísun náttúrunnar tveir alfaravegir á þessum slóðum. Annar vegurinn lá eftir sjávarbakkanum eftir endilöngum hreppnum, austan úr Bæjarhreppi og út til kaupstaðarins á Eyrarbakka. Hinn vegurinn lá upp eftir Flóa nálægt austurtakmörkum hreppsins og nefndist Gegnishólavegur eða Ásavegur. Hann lá upp úr Hólavelli og fyrir vestan Gegnishóla, síðan upp eftir Ásunum í Villingaholtshreppi, svo upp Skeið og Eystrihrepp hjá Skaftholtsréttum og þaðan upp með Þjórsá allt inn á afrétt. Þetta var eini alfaravegurinn úr Stokkseyrarhreppi upp Flóa, því að Breiðamýri var mjög ill yfirferðar og lokaði að mestu öllum öðrum leiðum, svo langt sem hún náði til.

Vegir þessir voru ákaflega fjölfarnir fyrr á tímum, því að um þá lá aðalleiðin til kaupstaðarins á Eyrarbakka, sem var öldum saman eini verzlunarstaðurinn á öllu Suðurlandsundirlendinu. Allir þeir, sem heima áttu í upp· sveitum Árnessýslu, og flestir þeir, sem komnir voru austan yfir Þjórsá, allt austan úr Skaftafellssýslu, komu ofan Ásaveg niður í Hólavöll, en austanmenn, sem fóru yfir Þjórsá á neðstu ferjustöðum, komu niður að sjó austur hjá Fljótshólum og Ragnheiðarstöðum og héldu síðan alfaraveginn vestur með sjónum, sem orðinn var öllum sameiginlegur, þegar út á móts við Baugsstaði var komið. Þaðan sá svo leiðin eftir bökkunum til Stokkseyrar og Eyrarbakka. Vegur þessi var greiður og torfærulaus, að mestu beinharðir valllendisbakkar spölkorn ofan við sjávarbakkann. Umferðina má marka af því, að til skamms tíma hefir mátt telja þarna yfir hundrað samsíða götur og margar þeirra svo grasi grónar, að þær sjást nú naumast. ,,Þar hefir því margur maðurinn sprett úr spori á góðhesti sínum, mörg lestin, stór og smá, með þyngslaklyfjar farið fram og aftur til kaupstaðarins og verstöðvanna og þaðan aftur. Frá Stokkseyri og vestur að Gamla-Hrauni sáust lestirnar oft þokast vestur með sjónum á vorlestunum, þegar maður að morgni dags leit þangað frá Syðra-Seli. Mátti þá segja, að aldrei slitnaði lestin, svo að einum hesti væri hægt að koma fyrir á milli þeirra, svo þéttar voru þær, og voru 5-7 hestar í lest hverri auk lestamannsins, sem á undan reið, og teymdi hver sína lest. Að haustinu til mátti einnig oft sjá margar og langar lestir fara þessa leið.“[note]Austantórur Il, 128.   [/note]

Auk þessara alfaravega var leitazt við að gera nokkurs konar vegi frá Eyrarbakka upp yfir Breiðamýri, og voru þeir kallaðir „brýr“. Svo var með Bárðarbrú, sem lá frá Eyrarbakka upp í Flóagafls- og Kaldaðarneshverfi eða lengra og var kennd við Bárð Nikulásson í Garðbæ, sem átti frumkvæði að vegalagningu þessari og stóð fyrir verkinu. Þetta hefir verið nálægt 1880. Annar slíkur vegur var hin svonefnda Nesbrú, sem lögð var eftir að Ölfusárbrúin kom, og átti að vera til samgöngubóta milli Eyrarbakka og Selfoss. Vegir þessir voru mjög ófullkomnir, enda gerðir af vanefnum, og komu að litlu gagni.

Þegar Stokkseyringar þurftu að bregða sér í næstu héruð, lá leiðin yfir aðra hvora stórána Þjórsá eða Ölfusá – á ferju. Það mátti telja til hagræðis þrátt fyrir margt, sem torveldaði ferðir manna, að menn gátu valið á milli ferjustaða eftir því, hvert förinni var heitið. Á Þjórsá vorum. a. ferjustaðir í Selparti, á Sandhólaferju, Egilsstöðum og Hrosshyl, en á Ölfusá í Óseyrarnesi, á Kotferju og í Laugardælum. Þessir samgönguhættir eiga sér langa og merkilega sögu, og er það einn þáttur í menningarsögu þjóðarinnar. Eftir að árnar voru brúaðar, lögðust ferjustaðirnir af, fyrst þeir, sem næstir voru brúnum, en hinir smám saman. Lengi var þó ferjað yfir Ölfusá í Óseyrarnesi, og enn í dag er ferjað við og við yfir Þjórsá á Hrosshyl.[note]Sjá enn fremur um þetta efni Austantórur Il, 125-142, greinina Vegir og ferjustaðir í Árnessýslu, sem höfundurinn tók saman fyrir tilmæli mín.   [/note]

Með brúnum á Ölfusá og Þjórsá gengur nýi tíminn í garð í samgöngumálum Sunnlendinga. Ölfusárbrúin var vígð 8. sept. 1891, en Þj órsárbrúin 28. júlí 1895. Þessar merkilegu framkvæmdir heimtuðu nýja og betri vegi en áður. Á alþingi 1894 voru sett ný vegalög, þar sem tekið var upp nýmæli um svonefndar flutningabrautir, sem vera skyldu akbrautir á aðalvöruflutningaleiðum. Ein slik flutningabraut skyldi liggja frá Reykjavík til Eyrarbakka. Hún náði þá þegar austur að Selfossi, en þaðan vantaði enn „brú“ yfir Breiðamýri, sem gagn væri að, til þorpanna niður við sjóinn.

Vorið 1898 var byrjað að leggja veg frá Selfossi niður að Eyrarbakka og Stokkseyri. Árnessýsla lagði fram kr. 12.000 í þessu skyni, Lefoliisverzlun á Eyrarbakka kr. 2.000, en landsjóður það, sem á vantaði. Verkstjóri var Erlendur Zakaríasson.[note] Ísafold, 4. júní 1898.  [/note] Vegurinn var fullgerður til Eyrarbakka og Stokkseyrar sumarið 1899. Hann liggur niður Sandvíkurhrepp spölkorn austan við Sandvíkurbæina og í nokkurn veginn beina stefnu niður yfir Breiðamýri og niður í Hraunshverfi utanvert. Við svonefndan Litla-Hraunsstekk skiptist vegurinn, sem venjulega er nefndur Eyrarbakkavegur. Liggur önnur álma hans út á Eyrarbakka, en hin austur til Stokkseyrar; af henni liggur vegur niður að Gamla-Hrauni. Vegalengdin frá Selfossi til Eyrarbakka er 12 km., en frá Selfossi til Stokkseyrar 14 km.

Þegar þetta er ritað, eru liðin aðeins 60 ár, síðan þessi vegur var fullger. Þá fyrst komst Stokkseyri í samband við þjóðvegi landsins að nútíðar hætti, og þarf ekki mörgum orðum um það að fara, hvílík framför það var og hagræði fyrir byggðarlagið. Þetta ýtti einnig á eftir vegagerð innan hreppsins sjálfs, sem hófst einmitt upp úr aldamótunum, eins og skýrt hefir verið frá hér að framan. Nú er akfært heim á hvern byggðan bæ í hreppnum og samband í þrjár áttir við vegakerfi Flóans: út eftir um Eyrarbakkaveg, upp eftir um Brattsholtsveg og austur eftir um Gaulverjabæjarveg.

Leave a Reply

Close Menu