38-Forusta í sveitarmálum

Eins og áður er tekið fram, eru sveitarstjórnarmál nú orðin næsta fjölþætt og starf það, er á hreppsnefndum hvílir, ábyrgðarmikið og oftlega vandasamt. Mikils er því um það vert, að til trúnaðar og forustu í sveitarmálum veljist hæfileikamenn að skynsemd og framkvæmd. Í Stokkseyrarhreppi hefir jafnan verið völ slíkra manna, en á síðastliðnum þremur áratugum hafa tveir menn öðrum fremur borið hita og þunga dagsins í stjórn hreppsins. Þessir menn eru Ásgeir Eiríksson á Stokkseyri og Sigurgrímur Jónsson í Holti. Þeir komu báðir inn í hreppsnefndina árið 1928 og hafa lengst af verið oddvitar hennar til skiptis síðan, hinn fyrrnefndi í 13 ár alls, auk þess sem hann hefir verið sýslunefndarmaður fyrir hreppinn síðan 1932, en hinn síðarnefndi í samtals 16 ár. Þó að þessir menn séu sinn úr hvorum stjórnmálaflokki, virðist það á engan hátt hafa spillt góðri samvinnu þeirra að framfaramálum hreppsins; þar hafa þeir stutt hvor annan, hvor sem við stýrið sat í þann svipinn. Tímarnir hafa oft verið erfiðir og framfarirnar hægstígari en æskilegt hefði verið, en fram hefir þó að markinu miðað, og mikill munur er á lífsþægindum og efnahag manna í hreppnum nú eða fyrir 30 árum.

Björgvin Sigurðsson
Enn ber að nefna hér þriðja manninn, sem nú hefir tekið við stjórnarforustu í hreppnum. Sá maður er Björgvin Sigurðsson á Jaðri, sem tók við oddvitastörfum eftir sveitarstjórnarkosningarnar í janúar 1958, en hann hafði áður setið í hreppsnefnd tvö kjörtímabil og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hreppinn í mörg ár. Björgvin er borinn og barnfæddur á Stokkseyri, f. 16. okt. 1911, sonur hjónanna Hólmfríðar Björnsdóttur og Sigurðar í Hrauk og síðar á Jaðri Gíslasonar á Grund í Stokkseyrarhverfi Gíslasonar á Stóra-Hrauni og Ásgautsstöðum. Hann stundaði sveitavinnu fram yfir fermingu og var síðan um 10 ára skeið bifreiðarstjóri í vegavinnu á sumrum og sjómaður í Vestmannaeyjum á vertíðum. Eftir það gerðist hann starfsmaður hjá Stokkseyrarhreppi og annaðist bókhald, innheimtu og gjaldkerastörf fyrir sjúkrasamlagið, rafveituna og hreppinn. Enga skólamenntun hefir Björgvin hlotið aðra en barnaskóla, en með dugnaði og sjálfsnámi hefir hann aflað sér staðgóðrar þekkingar á ýmsum greinum, m. a. á bókhaldi og skrifstofustörfum og almennum félagsmálum. Hann hefir tekið mikinn þátt í margs konar félagsstarfsemi í hreppnum og m. a. verið formaður Verkalýðs- og sjómannafélagsins „Bjarma“á þriðja áratug. Einnig er hann framkvæmdastjóri Pöntunarfélags verkamanna. Hann er því nákunnugur félagsmálum sveitunga sinna jafnt sem málefnum hreppsfélagsins í heild. Björgvin er duglegur baráttumaður og vel máli farinn. Hann hefir einnig sýnt, að hann er ótrauður að ráðast í framkvæmdir.

Leave a Reply

Close Menu