Samkvæmt þjóðveldislögunum hvíldi framfærsluskyldan fyrst og fremst á ættinni, meira að segja allt til fimmmenninga, og fór það eftir sömu reglum sem um arftöku. En er ættina þraut að inna þessa skyldu af höndum, tók hreppurinn við og í sumum tilvikum þingsóknin eða fjórðungurinn eða jafnvel allt landið. Fátækum mönnum var skipt í tvo aðalflokka. Nefndust þeir ómagar, sem ekkert höfðu fyrir sig að leggja og gátu ekki unnið fyrir sér sjálfir sökum vanheilsu, bernsku eða elli, og var þeim ætluð vist (manneldi) hjá hreppsbændum eftir tiltölu; voru þeir á seinni öldum almennt nefndir niðursetningar. Í hinum flokkinum voru þurfamenn, þ. e. fátækir bændur eða heimilisfeður, sem styrkja þurfti, til þess að þeir héldust við bú, og var til þess varið tíund og matgjöfum. Ýmsar ráðstafanir voru gerðar í lögum til þess að afstýra sveitarþyngslum, svo sem með því að takmarka byggðarleyfi, hjúskap fátæklinga og barneignir öreiga og enn fremur með því að skylda búlausa menn til þess að eiga sér lögheimili að einhvers bónda. Ein merkilegasta ráðstöfun hreppanna, sem gerð var í sama skyni, var tryggingarstarfsemi þeirra. Þar var annars vegar um að ræða búfjártryggingar og hins vegar brunatryggingar. Af búfé var aðeins nautpeningur tryggður gegn fellisótt og nauðsynlegustu bæjarhús gegn bruna. Aldrei skyldi þó bæta manni meira en hálfan skaða, og ekki var skylt að bæta sama manni tjón oftar en þrisvar. Bæturnar greiddu hreppsbændur að tiltölu við fjáreign sína.
Um sveitfesti giltu þær reglur samkvæmt Grágás, að maður átti þar sveit, sem hann hafði áður á framfærslu verið, eða þar, sem næsti framfærslumaður hans var búsettur, þremenningur eða skyldari. Í Jónsbók eru þessar reglur mjög svipaðar. Maður átti þar sveit, sem hann hafði upp fæðzt, eða þar, sem erfingi hans var vistfastur, þremenningur eða nánari. Reglan um uppfæðsluhreppinn er mjög teygjanleg, enda var henni beitt á ýmsa vegu. Ekki var ótítt, að ómaga væri dæmt framfæri í tveimur hreppum, vegna þess að hann var fæddur í öðrum, en átti nánasta ættingja í hinum. Þar sem kona tók ekki sveitfesti manns síns, kom það oft fyrir, að bjargþrota hjón væri látin fara hvort á sinn hrepp, og séð hefi eg dæmi þess frá byrjun 19. aldar, að fátækri fjölskyldu var sundrað með þeim hætti, að maðurinn var dæmdur á einn hrepp, konan á annan og börnin á hinn þriðja. Ómagaframfærslan var endalaust deiluefni, þar eð ættingjar og hreppar reyndu hver eftir mætti að koma ómögum af sér og þá um leið yfir á einhvern annan.[note]1 Sem dæmi þess, hve menn gátu gengið langt í þeim efnum, má nefna það, að Sveinn bóndi Einarsson í Súluholti flutti Guðrúnu Lénharðsdóttur, vinnukonu sína, tvisvar að Meðalholtahjáleigu í þeim tilgangi, að Guðrún fæddi þar barn, sem hún gekk með, til þess að það yrði sveitlægt í Gaulverjabæjarhreppi. Auðvitað dæmdi sýslumaður slíka aðferð öldungis ólöglega. (Bréfab. Árn. 21. nóv. 1789).
[/note]Sýslumenn voru önnum kafnir að skera úr slíkum þrætum, eins og bréfabækur þeirra bera glöggt vitni um, og ófáir eru þeir alþingisdómar, sem gengu í slíkum málum. Ríkti í þessum efnum mikill glundroði, og þess mátti margur fátækur gjalda.
Miklar breytingar voru gerðar á reglunum um framfærsluskyldu og sveitfesti, er fátækrareglugerðin 8. jan. 1834 var sett, og voru ákvæði hennar um þau efni skýrari en áður og á ýmsan hátt til bóta, þótt hún væri ómannúðleg í mörgum greinum. Sú löggjöf, sem síðan hefir verið sett um þessi mál hefir allajafnan horft til aukinna mannréttinda. Tíminn, sem þurfti til að vinna sér sveitfesti, var t. d. smám saman styttur úr 10 árum, unz ákveðið var með lögum nr. 135, 1935, að hver maður skuli eiga framfæri í heimilissveit sinni, hvort sem hann hefir dvalizt þar lengur eða skemur. Sveitfesti konu er nú eigi heldur bundin við sveitfesti manns hennar. Annars er hér ekki staður til þess að rekja sögu framfærslumálanna á Íslandi nánar en orðið er. Það er löng saga og á köflum allt annað en fögur. Harðúð og miskunnarleysi mannlegs samfélags hefir á liðnum tímum hvergi komið skýrar fram en í skiptum þess við hina fátæku og smáu: hjónaböndum sundrað og börn slitin úr faðmi móður sinnar, vinnuhjúum vísað á guð og gaddinn eftir áratuga þjónustu, er ellin fór að eða heilsan bilaði, niðursetningum ráðstafað á hreppaskilaþingum eins og uppboðsfé með þeim mismun á venjulegu uppboði, að hér voru þeir slegnir lægstbjóðanda, fátækraflutningar hreppstjóra á milli sveit úr sveit, missir almennra mannréttinda, svo sem kosningarréttar og kjörgengis, elskendum bannað að ganga í löglegan hjúskap, ef þau stóðu í skuld við sveitarfélagið, og að lokum löghelgað flakk. Við þetta og annað eins bættist svo lamandi lítilsvirðing samborgaranna. Sem betur fer, er þetta nú allt liðið hjá eins og ljótur draumur og þó er ekki lengra um liðið en svo, að margir eru þeir enn ofar moldu, sem þekkja sumt af því, sem um var getið, af eigin raun.
Sökum fólksfjölda og smábýlabúskapar við sjóinn voru sveitarþyngsli jafnan mikil í Stokkseyrarhreppi fyrr á tímum. Það hefi eg fyrst séð um framfærslumál þar í sveit, að hinn 31. maí 1667 voru í dóm kvaddir Árni Pálsson og Jón Gíslason lögréttumenn og Þorbjörn Jónsson, Hannes Tómasson og Ormur Jónsson bændur um það málefni, er hreppstjórar sveitarinnar dóms og leiðréttingar á beiddust og viðvék nauðsyn sveitarómaga og almennri örbirgð hreppsins, að vanfærir, bjargþrota ómagar væru svo margir þá þegar á sveitina komnir, að þeir, sem á lögbýlunum eru, fá varla undir risið, en þeir, sem á hjáleigunum búa, þykist afsakaðir, jafnvel þótt þeir séu eigi síður efnaðir en þeir, sem á lögbýlunum eru. Dómsmenn samþykktu, að Holtsdómur frá 8. jan. 1585 skyldi gilda í Stokkseyrarhreppi, en þar er m. a. ákveðið, að hjáleigumenn og fleirbýlismenn, sem efni hafa á, skuli skyldir til jafns við lögbýlinga að fæða og hýsa fátæka menn á umferð þeirra um hreppinn.[note]Dómabók Jóns Vigfússonar eldra í Þjóðskjalasafni; Alþingisbækur Íslands Il, 67-71 (Holtsdómur).[/note]
Elzta heimild um fólksfjölda í Stokkseyrarhreppi, svo og tölu þurfamanna, er manntalið 1703. Íbúar í öllum hreppnum voru þá 652 og bændur og hjáleigumenn um 70 að tölu. Ómagar og þurfamenn voru alls 156, og skiptust þeir þannig: niðursetningar 44, húsfeður og skyldulið þeirra, sem haldið var við búhokur með sveitarstyrk, samtals 53 og umferðarfólk og aðrir styrkþegar, sumir einnig með styrk frá öðrum sveitum, alls 59. Þetta ár var því rúmlega fjórði hver maður í hreppnum styrkþegi að öllu eða nokkru leyti eða rúmlega tveir á hvern bónda og hjáleigumann. Slík voru sveitarþyngslin víða um land um þessar mundir.
Á árunum 1752-1757 voru að kalla samfelld harðindi um allt land og svo mikill manndauði af völdum hallæris, að talið er, að 4200 manns hafi dáið á árunum 1756 og 1757. Frá þessum hörmungatímum er til fátækraskýrsla eða niðurjöfnun úr Stokkseyrarhreppi, hin eina, sem varðveitzt hefir þaðan frá 18. öld og jafnframt sú elzta, sem til er. Hún er frá árinu 1756 og hefir aldrei verið prentuð. Þessi tveggja alda gamla skýrsla frá hreppstjóratíð Bergs í Brattsholti er því einstök í sinni röð, og þar sem hún gefur glögga mynd af ástandinu í hreppnum, þykir mér rétt að taka hana hér upp. Í síðara hluta skýrslunnar eru taldir upp þeir menn, sem fengið höfðu kornúttekt í verzluninni fyrir milligöngu hreppstjóranna. Gaman er að ýmsum athugasemdum þeirra um fólkið.
„Annó 1756, þann 18. nóvembris að Stokkseyri að saman kölluðum öllum sveitarinnar búföstum mönnum byrjuðum við undirskrifaðir hreppstjórnarmenn eftir tilsögn göfugs sýslumannsins Seignr Brynjólfs Sigurðssonar að uppteikna þá, sem forsorgast á tíundum, matgjöfum og í niðursetu nú í nefnd. um Stokkseyrarhrepp. Á tíundum forsorgast hverki þeir, sem um fara og hvergi nú niður settir, ei heldur þeir, sem í niðursetu eru, heldur hverfa þær tíundirnar til líttmegandi hjáleigumanna, sem börnum eru bundnir, svo og til nokkra kerlinga og barnómaga, nefnilega: Ingiríðar Álfsdóttur, Önnu Indriðadóttur, Gunnhildar Arnljótsdóttur og barns Ingibjargar Þorleifsdóttur, item barns Þórðar, sem var í Oddagörðum, svo og barna Þórðar Þórissonar tveggja, en þá til barns Páls Hafliðasonar, enn til barns Bjarna heitins Helgasonar, til Jóns Stefánssonar og til letingj anna Buga-Guðmundar og Páls Hafliðasonar, sem raglaðir eru suður að sjó sér til bjargar, en þá Margrétar Erlendsdóttur.
Matgjafir eru engar goldnar né teknar í hreppnum.
Í niðursetu eru 1° gamlir: Þórunn Oddsdóttir, Hlaðgerður Jónsdóttir, Þorgerður Indriðadóttir, Anna Sigmundsdóttir, Jón Björnsson, Anna og Steinunn Snorradætur, Gísli Snæbjörnsson, Jón Ólafsson og Jón Jónsson að austan, item Jón Kolbeinsson.
2° Þessir yngri: Guðmundur Jónsson, Þorbjörg Bjarnadóttir, Grímur Jónsson, Einar Bjarnason, Kristín Ólafsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Markús Eiríksson, Björn, Jón og Gyðríður Þórðarbörn, Guðrún Arnórsdóttir, Guðmundur Eiríksson, Guðrún Guðmundsdóttir, Snorri og Jón Ólafssynir, Helga Bjarnadóttir, Þórey Bernharðsdóttir, Helga Helgadóttir; þessir vikafærir, sem áður eru skrifaðir, en verkfærir eru þessi: Ingibjörg Magnúsdóttir, Þórdís Jónsdóttir, Þórunn Eyvindsdóttir, Þorgerður Bárðardóttir.
[3°] Ungir ómagar: Jón Eiríksson, tvö börn Jóns dauða, Bjarni Bjarnason.Eftirfarandi lafa við búhokur, sem oss virðist mest þurfandi:
Í Skúmsstaðahverfi: Ólafur Jónsson með konu sína, heilsulasinn, fekk hálftunnu mél, fekk ei meira vegna skulda. Aldís Þorkelsdóttir við tómt hús með eitt barn 6 vetra, fekk hálft kvartel méls, en bað þó um meira; varð því í öðru að taka fyrir það hún inn lét. Margrét Oddsdóttir háöldruð og dóttir hennar fullorðin, vanfær, við tómt hús, fekk hálftunnu og kvartel af méli, item brauðhálftunnu. Jón Brandsson við tómthús með konu sína og 2 börn hér um 10, 11 eða 12 vetra, fekk hálftunnu mél; gat ei meir fengið vegna fátæktar.
Í Háeyrarhverfi: Erlendur Þórðarson með konu sína og 2 börn, 5 og 9 vetra, hann sjálfur heilsulasinn, fekk hálftunnu mél, gat ei keypt meira. Þorsteinn Eysteinsson, 80 ára gamall, með konu sína, heldur bróðurbarn konu sinnar með litlu tillagi, fekk einn stamp af méli og brauðhálftunnu; bað um meira en fekk ei. Jón Ólafsson, stór og sterkur og heilbrigður, með konu sína og tvö börn, 5 og 6 vetra, fekk hálftunnu og kvartel af méli; bað um meira og fekk ekki vegna skuldar.
Í Hraunshverfi: Jón Jónsson smiður með konu sína, komna að falli og fjögur börn, það elzta 10 vetra, mjög bjargarlítill, fekk 3 kvartel mél, fekk ei meir vegna skuldar; ómennskumenn bæði. Jón dauði með konu sína og 2 börn, en önnur tvö nú á sveitinni í niðursetu, fekk eitt kvartel mél; gat ei keypt meira fyrir fátæktar sakir.
Stokkseyrarhverfi: Vigfús Pálsson með konu sína og 3 börn, 2 nokkuð vaxin, það elzta 11 eða 12 vetra, fekk eina tunnu og kvartel mél, einn kút bauna; baðst meira, en fekk ei. Jón Hafliðason með konu sína og 5 börn, það elzta 12 vetra, fekk hálftunnu mél, en bað um heila; mjög bjargarlítill, en manndómsmaður. Bárður Jónsson með konu sína og 5 börn, það elzta 12 vetra, fekk hálftunnu og kvartel af méli, hálftunnu af brauði og 3 kúta grjóna, fekk ekki meira; manndómsmaður. Þórir Þórðarson með konu sína og 3 börn, það elzta 13 vetra, fekk eina tunnu mél, fekk ei meira, þó vildi; manndómssamur. Gunnar Erlendsson með konu sína, föður og móður, systur og 3 börn, allt ómagar, fekk hálftunnu mél, fekk ei meira, þó beiddi; mjög nauðstaddur til bjargræðis; manndómsmaður.
Jón Ólafsson í Hæringsstaðahjáleigu með konu sína og 6 börn, 11 vetra það elzta, bað um mat upp á sauði og fekk ei neitt; nær því bjargarlaus; manndómsmaður. Nikulás Þorsteinsson í Stokkseyrarseli með konu sína og 2 börn, hráung, fór með þrévett naut í kaupstaðinn og bauð það fyrir mat og fekk ei; ber sig vel eftir björg sinni; bjargarlítill nú sem stendur. Beinteinn Jónsson með konu sína og barn tveggja ára, bjargarlaus; ber sig sæmilega eftir björg sinni.
Að þetta sé svo á sig komið sem fyrr skrifað stendur, eru vor undirskrifuð nöfn til staðfestu að Leiðólfsstöðum þann 19. nóv. 1756.
Bergur Sturlaugsson
Bjarni Brynjólfsson
Magnús Bjarnason
Felix Klemenzson
Gizur Stefánsson.“[note] Bréf um gjafakornið 1756 (í Þjóðskjalasafni). Stafsetning færð til nútíðarhorfs.[/note]
Um skýrslu hreppstjóranna er óþarft að fara mörgum orðum, því að hún talar sjálf sínu skýra máli. Benda má á það, að tala fátækra hjáleigubænda, sem börnum eru bundnir og njóta styrks af tíundunum, er ekki tilgreind, en aðrir ómagar, sem njóta tíundar, eru 13 talsins, þ. e. kerlingar og barnómagar, sem skýrslan kallar svo. Niðursetningar eru 37 að tölu, en bjargarlitlir húsfeður, sem fengið höfðu úrlausn í verzluninni, höfðu að þeim sjálfum meðtöldum 78 manns á framfæri sínu. Smátt hefir stundum verið skammtað í þá daga.
Á manntalsþingi á Stokkseyri 26. maí 1768 gerðist sá einstæði atburður í sögu hreppsins, að allir hreppstjórarnir, þeir Jón Ketilsson í Nesi, Magnús Jónsson á Stokkseyri, Þórður Gunnarsson á Hrauni og Jón Jónsson á Háeyri, sögðu af sér embætti bréflega, þar sem þeir jafnframt „átelja sýslumannsins aðgjörða- og aðstoðarleysi í þeim hreppstjórninni viðkomandi sökum.“ Auðsætt er af því, sem bókað er á þinginu, að hreppstjórarnir hafa veturinn áður gengið allhart að Lassen Eyrarbakkakaupmanni um að lána fátæklingum matvörur, en sýslumaður ekki aðeins látið það afskiptalaust heldur meira að segja ávítað þá fyrir heimtufrekju. Þær ávítur endurtekur sýslumaður á þinginu: „Hreppstjórar voru í réttarins áheyrn alvarlega og harðlega áminntir að hlýðnast sínu háyfirvaldi og þess hefalingum, sem af guði og kónginum væri sett til að stjórna landi og lýðum og þeim með, samt þiggja og taka með þökkum það fátækum væri gefið af náð, en ekki skyldu af hr. kaupmanninum og höndlaninni, svo hverki spilltu fyrir sér sjálfum, þeim fátæku, sem fyrir tala, og mögulega öðrum út í frá.“ Svöruðu hreppstjórarnir því til, að þeir gætu vitnað til guðs og samvizku sinnar, ,,að þeir hafi ekkert sitt gagn, heldur alleinasta fátækra, aðþrengdra nauðlíðandi í sveitinni sótt. Og með því yfirvöldunum sýnist þeir hafi of grófir í því verið, þá afsegja þeir að skipta sér framar af því, en hins vegar hétu þeir að sýna guði, yfirvaldinu og eftirmönnum sínum í hreppstjóraembættinu fulla hlýðni. Að því búnu voru nýir menn nefndir til hreppstjóra í sveitinni. Þannig fór fyrir þeim, sem reyndu að halda fram hlut fátæklinganna gagnvart yfirvaldi og kaupmanni.
Á þessu sama manntalsþingi var að ósk hreppstjóranna, Jóns Ketilssonar og félaga hans, tekið þingsvitni um ástand sveitarinnar, og var það lagt fram skriflega í réttinum. Því miður er það skjal glatað, en hins vegar er varðveitt í þingbókinni eftirfarandi almenn lýsing á ástandinu: ,,Að þessu gjörðu auglýstu þingmenn sameiginlega, að fátækt og bágindi þessarar sveitar væru svo mikil og stór, að eftir líkindum og rímilegheitum mundi allur helmingur af hér sveitlægum, sem við búhokur og húsmennsku lefðu í fátækt, upp flosna og jafnvel nokkrir af hungri út af deyja, þar hverki hefðu björg af sjó eður landi, því þeirra helzta bjargræði, sem af hefði lifað, nefnil. ullarvinna vetur og sumar, sölva á báti og sláturgagn í kaupstaðnum væri frá. Öllum kemur saman í því, að meir en helmingur af fátæku fólki og húskonum í þessari sveit hafi næstliðinn vetur líf sitt lengt og framdregið 1 á því, sem veleðla kaupmaður hr. Lassen hefir af fiski og mat lánað, bjargað og gefið og þeir fyrir handtök sín hafa fengið hjá honum og hans veleðla kærustu og fólki, 2 á hráum sölvum úr fjörunni, votum smærum og murum úr jörðunni, svo hér hafa ekki verið yfir 16 bændur í þessari sveit fullbirgir fyrir sig og sína og enginn af þeim kunnað án síns baga af leggja til annarra.“[note] Þingbók Árnessýslu í Þjóðskjalasafni.[/note]
Þessar ömurlegu myndir frá 18. öld eru oss að vísu fjarlægar, en löng píslarganga þjóðar í fátækt var enn fyrir höndum. Enn áttu Stokkseyringar og aðrir eftir að lifa niðurskurð alls sauðfjár 1775, móðuharðindin 1783-1785, landskjálftana 1784, siglingateppu Napóleonsstyrjaldanna og einkum styrjaldarinnar milli Dana og Englendinga 1807-1814, Heklugosið 1845, hörðu föstuna 1859 og harðindakaflann mikla á árunum 1881-1887, svo að nokkuð sé nefnt. Það er ekki fyrr en á þessari öld, sem verulega fer að rofa til og rýmkast um efnahag almennings, og það, sem er ef til vill mest um vert, þjóðin að þroskast félagslega og auðgast að skilningi og samúð með þeim, sem við bág kjör eiga að búa. Í því liggur hinn mikli munur fortíðar og nútíðar. Og það er vissulega gæfumunur.
Frá því um 1830 og þangað til hreppnum var skipt, var tala fastra ómaga oftast nær um og innan við 30. Eftir skiptinguna var talan svipuð vegna sameiginlegrar framfærslu nýju hreppanna. Á árunum 1916-1927 voru styrkþegar í Stokkseyrarhreppi aldrei undir 30 og komust eitt árið ( 1925) allt upp í 40. Síðan 1928 hafa þeir oftast verið á þriðja tugnum. Hinir sameiginlegu styrkþegar týndu smám saman tölunni, unz aðeins tveir voru eftir, er lögin um sveitfesti eftir dvalarheimili gengu í gildi. Þessir síðustu sameiginlegu styrkþegar Eyrarbakkahrepps og Stokkseyrarhrepps voru Bergþór Jónsson (Bergur dati) á Eyrarbakka og Gunnar Guðmundsson í Alviðru, og innti Stokkseyrarhreppur af hendi síðustu greiðslu til þeirra árið 1946.
Eins og áður er tekið fram, hafa sveitarþyngsli jafnan verið mikil, og svo er enn. Nægir í því efni að vitna til ummæla Ásgeirs Eiríkssonar oddvita á almennum hreppsfundi í janúar 1946, þar sem hann gerir grein fyrir hag hreppsins á undanförnum fjórum árum og segir m. a.: ,,Hefir fátækraframfærsla verið tilfinnanlegasti gjaldaliður sveitarsjóðs og farið vaxandi þrátt fyrir auknar tryggingar og sjúkrasamlag. Stafar þetta af því, hve margt er hér gamalmenna og ýmissa sjúklinga, sem sveitarsjóður verður að sjá fyrir. Mun Stokkseyrarhreppur nú greiða til fátækramála þrisvar sinnum hærri upphæð en nokkur annar hreppur hér í sýslu.“ Þess ber að gæta, að hreppar, sem bera tiltölulega þyngstar byrðar af þessum sökum, fá greitt tillag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Árið 1958 námu útgjöld Stokkseyrarhrepps til fátækramála og trygginga sem hér segir: framfærslumál kr. 85.656.64, almannatryggingar kr. 125.933.60 og sjúkrasamlag kr. 43.112.00. Úr jöfnunarsjóði fekk hreppurinn greiddar sama ár kr. 56.608.00. Þessar tölur bera það með sér, að framfærslumálin hvíla enn tiltölulega þungt á hreppnum.