025-Hreppsmál

í hinum fornu þjóðveldislögum og Jónsbók er ekki getið beinlínis um önnur verkefni hreppa en framfærslumálin, sem hafa verið og eru enn í dag eitt af aðalviðfangsefnum þeirra. Þrátt fyrir það má ganga að því vísu, að þeir hafi látið fleiri mál til sín taka þegar á þjóðveldistímanum, og er þar einkum að nefna fjallskil og afréttarmál, útrýmingu refa, ferjuhald og vega- og brúargerðir. Á síðari tímum hefir þjóðfélagið beitt sér fyrir margs konar félagsmálum í þágu almennings og falið hreppunum að meira eða minna leyti framkvæmd þeirra. Þar til teljast heilbrigðismál, barna- og unglingafræðsla, ýmiss konar tryggingarstarfsemi, forðagæzla og ráðstafanir gegn búfjársjúkdómum. Þar, sem kauptún hafa vaxið upp eins og í Stokkseyrarhreppi, koma enn fleiri verkefni til greina, svo sem skipulag kauptúnsins, húsabyggingar, rafveita, vatnsveita, hafnar- og lendingarbætur, brunamál, lögreglumál og ýmiss konar stuðningur við atvinnuvegi hreppsbúa. Verkefni slíks hreppsfélags eru því orðin næsta margbrotin í samanburði við það, sem áður var. Þau hafa vaxið í réttum hlutföllum við verkefni þjóðfélagsins, enda má segja, að hreppurinn sé smækkuð mynd af því.

Í þessum kafla mun eg ræða nokkuð um hreppsmálin og gera grein fyrir hinum helztu þeirra.

Leave a Reply

Close Menu