Í yfirliti um eignir Stokkseyrarhrepps fyrir árið 1915-1916 eru talin slökkviáhöld, virt á kr. 1407.00, og geymsluskúr fyrir slökkviáhöld, virtur á kr. 126.00, og eru þetta fyrstu upplýsingar um tilveru slökkviliðs Stokkseyrar, þar eð eldri sveitarbækur eru glataðar. Mun slökkviliðið þá hafa verið nýstofnað, því að Ásgeir Eiríksson, sem var fyrsti slökkviliðsstjórinn, kvað sig minna, að það hefði verið stofnað um 1916. f slökkviliðinu voru upphaflega um 20 fastir menn, og var þeim skipað í flokka, er hver um sig hafði sinn ákveðna flokkstjóra. Slökkvitæki voru ófullkomin, aðeins handdæla, en vatn borið í fötum. Í þessu efni hafa orðið miklar framfarir. Árið 1930 var keypt véldæla á vagni, og hafði Guðmundur Einarsson í Merkigarði umsjón með henni. Var þá fækkað í slökkviliðinu, með því að vatnsburður varð óþarfur. Loks keypti hreppurinn árið 1951 nýjan brunabíl með véldælu og slöngum og hefir Þorkell Guðjónsson rafvirkjameistari verið vélstjóri við dælurnar. Brunabótafélag Íslands veitti hreppnum lán til kaupanna, lækkaði jafnframt iðgjöldin vegna aukinna brunavarna, og gengur lækkunin til að endurgreiða lánið. Jafnframt var gengið í það að koma síma á þá af sveitabæjunum, sem eftir voru, að undanteknum Stokkseyrarseljunum, meðal annars til þess að auðvelda brunakall, ef til kæmi.
Lengi voru slökkvitækin geymd í litlum skúr við austurenda samkomuhússins Gimli. Árið 1947 fekk hreppurinn fjárfestingarleyfi til þess að reisa slökkvistöð, en af þeim framkvæmdum varð þó ekki. En um þær mundir sem brunabíllinn kom, keypti hreppurinn bílaskemmu Páls Guðjónssonar, sem áður var hið svonefnda Alþýðuhús, og þar hefir slökkvistöðin verið síðan. Þessir menn hafa verið slökkviliðsstjórar, sem eg veit um:
- Ásgeir Eiríksson kaupmaður.
- Jón Grímsson, Sjónarhól, 1925-1926.
- Einar Eyjólfsson kaupm., Sjólyst, 1926 -1929.
- Þórarinn Guðmundsson, Sandprýði, 1931-1938.
Helgi Sigurðsson, Bræðraborg, 1938-.
Reglugerð um skipun slökkviliðs og brunamála fyrir Stokkseyrarkauptún var samþykkt á fundi hreppsnefndar 7. marz 1932. Samkvæmt henni ber öllum þeim mönnum, sem þjónustuskyldir eru í slökkviliðinu, að vinna kauplaust við æfingar liðsins og eins við slökkvistörf, þegar eldsvoða ber að höndum. Nokkrum sinnum hefir slökkvilið Stokkseyrar verið kallað út til annarra staða, t.d. Eyrarbakka og Selfoss.
Kostnaður hreppsins af brunamálum síðan 1921 telst mér til, að hafi verið sem hér segir:
Kostnaður hreppsins af brunamálum
Ár | Kostnaður |
---|---|
1921-1930 | 314.90 |
1931-1940 | 1.242,50 |
1941-1950 | 20.899,18 |
1951-1958 | 51.078,40 |
Nokkrir húsbrunar hafa orðið á Stokkseyri á síðustu áratugum. Þeirra miklu mestur var bruninn, sem varð nóttina 9.-10. des. 1926. Þá brunnu öll hús Kaupfélagsins Ingólfs nema íbúðarhúsið, og enn fremur verzlunarhús Ásgeirs Eiríkssonar, íbúðarhúsið Varmadalur, heyhlaða með miklu heyi, eign Jóns Jónassonar hreppstjóra og íshúsið á Stokkseyri, eign Jóns Sturlaugssonar hafnsögumanns. Tjón var feiknamikið. Einkum urðu útgerðarmenn fyrir miklum skaða í missi veiðarfæra, sem geymd voru í pakkhúsi kaupfélagsins, íshúsinu og skúrum, sem brunnu. Íkveikja olli bruna þessum. Þá brann íbúðarhús Jóns hreppstjóra Jónassonar 25. sept. 1929 með flestu lauslegu og þar·á meðal embættisskjölum og bókum. Hinn 25. júlí 1939 brann Brauðgerðarhúsið, sem var eign Verkalýðsfélagsins „Bjarma”, og glataðist þar margt hreppsskjala, þar á meðal fyrsta gerðabók hreppsnefndar. Loks brann hús Sturlaugs Guðnasonar 27. maí 1945 og íbúðarhúsið í Eystri-Móhúsum eyðilagðist af bruna árið 1948. Atburðir slíkir sem þessir sanna nauðsyn öflugs og vel búins slökkviliðs.