031-Rafmagnsmál

Ekki er nú kunnugt um það, hvenær fyrst voru uppi raddir um að koma upp rafstöð á Stokkseyri. En þess má geta, að þegar á árinu 1905 var rætt um það á almennum hreppsfundi á Eyrarbakka að virkja Reykjafoss í Ölfusi til rafmagnsframleiðslu handa þorpinu, þótt ekki yrði úr þeim ráðagerðum. Má sjá af því, að snemma hefir vaknað áhugi manna á þessu framfaramáli þar eystra. Notkun rafmagns var þá ný af nálinni hér á landi, því að fyrsta rafstöðin var sett upp í Hafnarfirði árið 1904, eins og kunnugt er.

Hinar fyrstu ráðagerðir um raflýsingu, sem vitað er, að Stokkseyrarhreppur átti hlut að, snerust um virkjun Baugsstaðaár árið 1912. Upphafsmaður að þeirri hugmynd var Helgi Valtýsson, og útvegaði hann áætlun um verkið og kostnað við það frá norsku fyrirtæki, sem taldi þarna sæmilega aðstöðu til virkjunar. Áætlað var að hækka yfirborð Skipavatns, sem Baugsstaðaá rennur úr, um 1 ½-2 metra, en til vara og viðbótar vatnsmagninu að nota vötn þau, er hærra liggja og hafa afrennsli í Skipavatn, en einkum þó að tengja Hólavatn við það með skurði og ná þannig um leið vatninu úr Hróarsholtslæk. Með þessu mátti auka vatnsmagn Baugsstaðaár að miklum mun. Kostnaðaráætlun við virkjun þessa nam 35.000 kr. Hún átti að vera til ljósa í báðum þorpunum, Stokkseyri og Eyrarbakka. Mál þetta var rætt á hreppsfundum í báðum hreppum og nefndir kosnar til að athuga það nánar og afla upplýsinga um ýmis atriði. Úr þessu varð ekki og mun kostnaður hafa þótt mikill og annað hitt, að virkjunin var aðeins ætluð til ljósa, en ekki til suðu eða annarra nota.

Fyrsta rafstöðin á Stokkseyri var smástöð, sem kaupfélagið Ingólfur lét setja upp í kjallara íbúðarhúss Helga Jónssonar kaupfélagsstjóra á árunum 1916-1918. Var sú stöð aðeins notuð til ljósa í húsum kaupfélagsins og í fáeinum nálægum húsum. Danskur rafvirki sá um uppsetningu véla og lagnir í húsin. Var frágangur á leiðslum mjög ólíkur því, sem nú tíðkast, t. d. voru þær lagðar neðan á loftum og utan á veggjum og festar með klemmum. Kostnaður við rekstur þessarar litlu stöðvar var tiltölulega lágur og olíueyðsla lítil. Gæzlumaður var einn af starfsmönnum kaupfélagsins, Sigurður Gíslason á Kalastöðum, sem hafði próf í meðferð bátavéla. Rafmagnsnotendur greiddu 1 kr. fyrir hverja kwst. samkvæmt mæli.

Árið 1921 gerði hreppurinn samning við Jochum Ásgeirsson rafvirkja og Þórð Jónsson múrara, báða frá Ísafirði, um að koma upp rafstöð á Stokkseyri. Í þeim samningi voru m. a. ákvæði um, að hreppurinn keypti hverja kwst. á 1.25 kr. og ábyrgðist jafnframt 8000 kw. lágmarkseyðslu yfir ljósatímann. Þeir félagar komust í fjárþröng, áður en stöðin var fullgerð, og fóru þá fram á ábyrgð hreppsins fyrir 15.000 kr. láni til þess að ljúka við verkið. Samþykkt var á hreppsfundi 26. apríl 1922 að ganga í ábyrgð þessa gegn því, að lágmarkið á eyðslunni væri fært niður í 3000 kw., en verð kwst. hækkaði upp í kr. 1.50, sem gæti þó breytzt í hlutfalli við olíuverð. Til tryggingar láninu gagnvart hreppnum veðsettu þeir félagar rafstöðina á Stokkseyri með öllu, sem henni heyrði til, þar á meðal steinsteypukjallara undir samkomuhúsinu, þar sem stöðin var til húsa, enn fremur ljósagjöld og loks jörðina Dynjanda í Ísafjarðarsýslu hálfa. Er lánið var fengið, var framkvæmdum haldið áfram og stöðin fullgerð. Var hún sett upp í kjallara samkomuhússins Gimli og tók til starfa 1922. Þeir Jochum og Þórður ráku stöðina eitthvað á annað ár, en þá varð fyrirtæki þeirra gjaldþrota, og var auglýst nauðungaruppboð á rafstöðinni með öllu, er til hennar taldist. Var stöðin þá lögð út hreppnum fyrir áhvílandi skuldum, svo og hálflendan Dynjandi. Lét hreppurinn selja jörðina nokkru síðar, en rafstöðina rak hann síðan á eigin reikning eða frá 1924-1947, er kauptúnið fekk rafmagn frá Sogsvirkjuninni og gamla stöðin var lögð niður.

Margvíslegir erfiðleikar voru í sambandi við rekstur gömlu stöðvarinnar, bæði fjárhagslegir og tæknilegir. Bilanir voru tíðar, enda vélar og efni mjög ófullkomið frá upphafi. Fyrsta vélin, sem var 20 hestafla, var keypt notuð, en uppsetningu stöðvarinnar og lagnir í hús annaðist danskur rafvirki, Jensen að nafni. Heimlínutaugar voru fyrst framan af um 100 og lampar á heimilum rúmlega 600. Notkun var svo að segja engin önnur en til ljósa, aðeins nokkur strokjárn, sem leyft var að nota ákveðna tíma. f byrjun fylgdu stöðinni geymar, en þeir urðu fljótt ónothæfir, og var því ekki hægt að bregða upp ljósi, nema þegar vélarnar voru í gangi. Sífelldur titringur var á ljósunum, og þau báru lélega birtu. Því hafði síra Gísli Skúlason oft á orði, að ljósin á Stokkseyri mundu eyðileggja sjónina í öllum þorpsbúum. Oft komu og fyrir bilanir á vélum, og urðu notendur þá að sitja í myrkri um lengra eða skemmra tíma. Fyrir kom, að bíða þurfti eftir að fá varahluti frá útlöndum, og gat það tekið 2-3 vikur. Þetta batnaði þó, er keypt var ný 16 hestafla vél 1934, og einkum eftir að önnur ný 22 hestafla vél með sambyggðum rafli var keypt árið 1942. Reyndist sú vél prýðilega og gaf miklu betra ljós. Venjulega mun orkusala hafa numið 4-5000 kw. á ári. Gjaldskránni var breytt nokkrum sinnum, en ekki verða þær breytingar raktar hér.

Stöðvarstjórar við gömlu rafstöðina voru þessir menn: Jón Grímsson, Sjónarhól, 1922-1926, Þórarinn Guðmundsson, Sandprýði, 1926-1935 og Þorkell Guðjónsson, Pálmarshúsi, 1935-1947.

Þó að gamla rafstöðin væri í ýmsu ófullkomin, eins og lýst hefir verið, var hún mikið framfaraspor á sínum tíma og þægindaauki, sem enginn hefði viljað missa. Um það leyti sem hin nýja Rafveita Stokkseyrar tók til starfa, ákvað hreppsnefndin, að rafveitunefnd skyldi fá ráðstöfunarrétt á eignum gömlu rafstöðvarinnar og þær ganga til Rafveitu Stokkseyrar, er full reikningsskil hefðu farið fram. Þegar upp var gert, mun gamla stöðin hafa verið nokkurn veginn skuldlaus og hreppurinn engan halla hafa beðið af rekstri hennar.

Þegar tekið var að virkja Sogið fyrir Reykjavíkurbæ, gerðu íbúar kauptúnanna í Árnessýslu sér vonir um, að þeir mundu fljótlega fá rafmagn þaðan, enda var svo ráð fyrir gert í lögunum um Sogsvirkjunina frá 1933, að henni væri skylt að selja rafmagn til héraða utan Reykjavíkur. Sogsvirkjunin tók til starfa 1937, og sama ár hófu kauptúnin eystra að vinna að því að fá rafmagn frá hinni nýju aflstöð við Ljósafoss. Höfðu þrír Flóahreppar nána samvinnu um það mál frá upphafi, Stokkseyrar-, Eyrarbakka- og Sandvíkurhreppur. En þótt einkennilegt megi virðast, tók það 10 ára þóf fram og aftur að koma þessu mikilvæga framfaramáli í örugga höfn.

Fyrsti sameiginlegi fundur hreppsnefndanna úr þessum þremur hreppum vegna Sogsvirkjunarinnar var haldinn á Eyrarbakka 14. des. 1937. Þar var samþykkt að ganga til sameiginlegra átaka um að hrinda rafmagnsmálinu í framkvæmd á þeim grundvelli, að sveitarfélögin tæki í sameiningu lán til verksins. Kosnir voru þrír menn til þess að vinna að málinu með hreppsnefndunum, og hlutu sæti í henni þeir Sigurgrímur Jónsson oddviti í Holti, Sigurður Kristjánsson oddviti á Eyrarbakka og Björn Sigurbjarnarson bankagjaldkeri á Selfossi. Nefndinni var falið að semja uppkast að lánsútboði fyrir veituna, og var gert ráð fyrir 5% skuldabréfaláni, sem tryggt væri með ábyrgð ríkissjóðs og viðkomandi hreppa. Málið var lagt fyrir almennan hreppsfund á Stokkseyri daginn eftir, og var þar samþykkt að kjósa 5 manna nefnd til þess að vinna að framgangi þess með hreppsnefndinni. Í nefndina voru kosin Björgvin Sigurðsson, Jaðri, Gísli Pálsson, Hoftúni, Ingibjörg Jónsdóttir, Aldarminni, Símon Sturlaugsson, Kalastöðum og Ásgeir Eiríksson, Stokkseyri.

Þriggja manna nefndin, oddvitar Stokkseyrar- og Eyrarbakkahrepps og fulltrúi Sandvíkurhrepps, reyndu nú að þoka málinu áleiðis með viðtölum við ráðamenn í Reykjavík, þingmenn kjördæmisins, ráðherra og borgarstjóra. Hið eina jákvæða, sem upp úr því hafðist, var, að ráðherra fól rafmagnseftirliti ríkisins að gera nýja kostnaðaráætlun um verkið. Þeirri áætlun var lokið í desember 1938, og var þar gert ráð fyrir að verkið allt með innanbæjarkerfum á Stokkseyri, Eyrarbakka og Selfossi kostaði kr. 310.000. Hefði nú mátt ætla, að undirbúningi væri svo langt komið, að framkvæmdir gætu hafizt, en það fór mjög á aðra leið. Það kom nú upp úr kafinu, að’ ábyrgan aðilja vantaði til að byggja orkuveituna, eiga hana og starfrækja. Hreppsnefndirnar héldu nú fund á Eyrarbakka 8. jan. 1939, og sóttu hann þingmenn héraðsins og forstjóri rafmagnseftirlits ríkisins. Þar voru enn rædd viðhorf opinberra aðilja til rafveitunnar og möguleikar á því að geta þegar byrjað á framkvæmdum. Um aðilja að verkinu taldi forstjóri rafmagnseftirlitsins, að um þrjár leiðir væri einkum að ræða:

  1. að ríkið kæmi veitunni upp og starfrækti hana,
  2. að Sogsvirkjunin fengi leyfi til að koma henni upp og

að hrepparnir kæmu sér saman um byggingu og starfrækslu veitunnar. Varð það helzt að ráði að reyna fyrst fyrri leiðirnar, og því fluttu þingmennirnir þingsályktunartillögu á alþingi um veturinn, þar sem ríkisstjórninni var heimilað að ábyrgjast gagnvart Reykjavíkurbæ, ef hann tæki að sér að koma raforkuveitu frá Soginu til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar. Ef ekki tækjust samningar við Reykjavíkurbæ um framkvæmd verksins, var ríkisstjórninni heimilað að láta vinna það og taka lán til að standa straum af kostnaðinum. Þrátt fyrir góðar vonir um árangur, varð ekkert úr framkvæmdum, og lá málið niðri næstu árin. Má vera, að heimsstyrjöldin með margs konar óvissu, sem henni fylgdi, hafi átt sinn þátt í því.

Árið 1942 var málið tekið upp að nýju, og skyldi nú velja þriðju leiðina, að hrepparnir sjálfir mynduðu félag með sér um rafveituframkvæmdir. Boðað var til fundar að Selfossi snemma á árinu að tilhlutun sýslumanns og forstöðumanns rafmagnseftirlitsins, og sóttu þann fund auk þeirra þingmenn kjördæmisins og oddvitar og hreppstjórar viðkomandi hreppa. Þar var ákveðið að stofna félag hreppanna þriggja, er væri aðili að veitunni og tæki mál þetta að sér að öllu leyti, og voru síðan fundir haldnir um þetta í hreppunum hverjum um sig. Á Stokkseyri var haldinn almennur hreppsfundur af þessu tilefni 29. marz 1942, og samþykkti hann það, sem hér fer á eftir:

1) að Stokkseyrarhreppur bindist samtökum við Eyrarbakka- og Sandvíkurhreppa um myndun félagsskapar til að byggja orkuveitu frá rafstöðinni við Ljósafoss niður til Sandvíkur-, Stokkseyrar- og Eyrarbakkahreppa;.

2) að stofnfjár fyrirtækisins verði að mestu leyti aflað með skuldabréfaláni, sem hinn væntanlegi félagsskapur hreppanna bjóði út, og séu bréfin tryggð með öllum eignum félagsskaparins og ábyrgð hlutaðeigandi hreppa. Enn fremur sé leitað ábyrgðar sýslusjóðs Árnessýslu;

3) að hreppsnefndin kjósi nú þegar tvo menn, sem vinni með fulltrúum Eyrarbakka- og Sandvíkurhreppa og sýslumanni að undirbúningi málsins í samvinnu við rafmagnseftirlit ríkisins og aðra aðilja.

Að fundinum loknum kaus hreppsnefndin nefnd þá, sem tillagan gerir ráð fyrir, og voru kosnir í hana þeir Ásgeir Eiríksson oddviti og Árni Tómasson hreppstjóri.

Sama dag voru hreppsfundir haldnir í Eyrarbakkahreppi og í Sandvíkurhreppi og hliðstæðar samþykktir gerðar þar. Jafnframt lá fyrir alþingi frumvarp um sérleyfi til handa félagi, ef stofnað yrði, til að veita raforku frá Soginu til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar, og hlaut það samþykki þingsins.

Rafveitunefnd hreppanna gerði nú uppkast að samþykkt fyrir væntanlegt félag, sem borið var undir hreppsnefndirnar í byrjun júlímánaðar og hlaut samþykki þeirra. Þar segir m. a.: ,,Félagið heitir Rafveita Árnessýslu. Aðiljar að félaginu eru sveitarsjóðir Stokkseyrar-, Eyrarbakka- og Sandvíkurhreppa. Tilgangur félagsins er að veita raforku frá Sogsvirkjuninni til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar og þeirra staða annarra, fyrirtækja og sveitabýla í Árnessýslu, sem þannig eru sett, að unnt er kostnaðar vegna að veita rafmagni til þeirra. Tilgangi sínum hyggst félagið að ná með því að leggja háspennuveitu frá Sogsvirkjun um orkusvæði sitt, svo og lágspennukerfi inn fyrir húsvegg neytenda, kaupa raforku frá Sogsvirkjun og selja hana neytendum á orkusvæðinu. Stofnfjár til fyrirtækisins aflar félagið með útboði skuldabréfa, lántökum eða á annan hátt.“

Allt virtist nú í því horfi, að framkvæmdir gætu hafizt, félag hlutaðeigandi hreppa stofnað til þess að standa fyrir verkinu og lög samþykkt á alþingi um sérleyfi til orkuveitu slíku félagi til handa. En svo fór sem fyrr, að ekkert varð úr framkvæmdum að sinni. Aðalorsök þess mun hafa verið sú, að á þinginu 1942, hinu sama sem sérleyfislögin setti, voru sett önnur lög um rafveitur ríkisins, en samkvæmt þeim skyldi ríkið taka að sér að leggja slíkar orkuveitur sem hér var fyrirhugað. Sérleyfislögin komu því aldrei til framkvæmda, og var starfsemi félagsins þar með úr sögunni. Á það er þó rétt að benda, að tilraunir kauptúnanna austanfjalls til þess að fá til sín raforku frá Sogsvirkjuninni á þessum árum voru engan veginn gagnslausar. Þær héldu áhuganum vakandi og voru til hvatningar fyrir þing og stjórn að greiða sem fyrst fyrir raforkumálum héraðanna.

Með lögum nr. 52, 1945 var ríkisstjórninni loks heimilað að taka lán til lagningar veitu um nær allt Reykjanes og til Selfoss, Eyrarbakka, Stokkseyrar, Hveragerðis, Þykkvabæjar og nokkurra staða norðanlands, og var rafmagnseftirlitinu falinn undirbúningur og framkvæmdir þessara mála. En með raforkulögunum nr. 12, 1946 voru stofnaðar rafmagnsveitur og héraðarafmagnsveitur ríkisins, og tóku þau fyrirtæki að sér framkvæmdirnar undir stjórn og umsjón raforkumálastjóra og rafmagnsveitustjóra ríkisins, sem skipaðir voru í ársbyrjun 1947. Komust raforkumálin nú í stórum betra og fastara horf en áður var, enda var þess nú skammt að bíða, að hafizt væri handa. Framkvæmd verksins var skipt þannig, að rafveitur ríkisins skyldu leggja á sinn kostnað háspennulínu frá Ljósafossi um Selfoss og niður í skiptistöð skammt frá Borg í Hraunshverfi um það bil miðja vega milli kauptúnanna á Stokkseyri og Eyrarbakka, og var línan lögð sumarið 1946, en þar skyldu rafveitur Stokkseyrar- og Eyrarbakkahrepps taka við orkunni, leiða hana til sín og annast lagningu innansveitarkerfis og dreifingu til neytenda. Þessu verki var lokið seinni hluta sumars 1947 og rafstraumi hleypt á kerfin í þorpunum um mánaðamótin ágúst-september

Kostnaður Rafveitu Stokkseyrar við verk þetta var áætlaður kr. 480.000. Þar af fekk hreppurinn 85% að láni til 25 ára með 4% vöxtum hjá útibúi landsbankans á Selfossi, tryggt með ríkisábyrgð.

Í fyrstu náði rafveitan aðeins til þorpsins á Stokkseyri. Síðan hefir hún fært svo út kvíarnar, að rafmagn frá henni er nú komið á alla bæi í hreppnum nema Stokkseyrarselin, en þau liggja afskekkt og auk þess þykir nokkuð á vandar veifi um ábúð þar. Rafveitan er rekin á vegum hreppsins, en hefir sérstakt reikningshald. Hreppsnefndin kýs sér til aðstoðar þriggja manna rafveitunefnd, en daglega stjórn og umsjón rafveitunnar hefir Þorkell Guðjónsson rafvirkjameistari haft á hendi, síðan hún tók til starfa.

Leave a Reply

Close Menu