033-Tryggingar og sjúkrasamlag

Með lögum um almannatryggingar og stofnun sjúkrasamlaga eru framfærslumálin í landinu komin inn á nýjar brautir og mannúðlegri en áður tíðkaðist. Hér skal víkja stuttlega að þróun þeirra mála í Stokkseyrarhreppi.

Á árunum 1922-1923 gerði Verkalýðsfélagið „Bjarmi“ tilraun til að koma á fót sjúkrasamlagi, en tilraunin mistókst. Árið 1936 voru sjúkrasamlög lögboðin í kaupstöðum, og á næstu árum stofnuðu nokkur sveitarfélög sjúkrasamlög að undangenginni atkvæðagreiðslu, en fæst létu málið enn til sín taka. Leið svo til 1947, en þá var skipað svo fyrir, að atkvæðagreiðsla um málið skyldi fara fram í öllum sveitarfélögum landsins og sjúkrasamlög stofnuð alls staðar þar, sem meiri hluti væri því samþykkur. Bættust þá mörg samlög í hópinn, en þó voru um 60 sveitarfélög enn eftir. Loks voru öll sveitarfélög á landinu skylduð til þess með lögum 28. des. 1950 að koma á fót sjúkrasamlagi hjá sér, og skyldu þau taka til starfa eigi síðar en 1. okt. 1951. Þegar hér var komið sögu, hafði Sjúkrasamlag Stokkseyrar starfað í mörg ár.

Aðalhvatamenn að stofnun sjúkrasamlags á Stokkseyri voru Lúðvík Norðdal héraðslæknir, Viktoría Halldórsdóttir formaður Kvenfélags Stokkseyrar og Björgvin Sigurðsson formaður Verkalýðs- og sjómannafélagsins „Bjarma“. Þar munu og fleiri áhugamenn hafa átt hlut að máli. Fór fram almenn atkvæðagreiðsla um málið 25. jan. 1942, en hún var ekki fullnægjandi sökum ónógrar þátttöku. Var það því aftur lagt undir atkvæði hreppsbúa 15. febrúar og þá samþykkt með 76 atkvæðum gegn 39. Starfsreglur samlagsins voru samþykktar einróma í hreppsnefndinni 22. marz og tveir menn kosnir í stjórn þess til næstu fjögra ára, Hlöðver Sigurðsson og Jón Ingvarsson, en til vara Björgvin Sigurðsson og Haraldur Júlíusson. Er stofndagur samlagsins talinn 1. júlí 1942, en það tók til starfa 1. janúar 1943. Er það Stokkseyringum til sæmdar, að þeir komu þessari þörfu stofnun á fót af frjálsum vilja, allmörgum árum áður en það varð almenn lagaskylda. Tekjur fær samlagið af tillögum samlagsmanna og framlagi frá sveitarfélagi og ríki lögum samkvæmt.

Með stofnun sjúkrasamlagsins öðluðust fátækir sjúklingar meira öryggi en áður, og eftir að almannatryggingar komust í framkvæmd í núverandi mynd 1. janúar 1947, hlutu konur styrk í sængurlegum, barnmörg heimili fjölskyldubætur og gamalmenni og örkumla fólk elli- og örorkubætur, sem veittar höfðu verið frá 1937 og runnu nú inn í almannatryggingarnar. Sjúkt fólk og lasburða þurfti nú ekki að fara á mis við læknishjálp sökum fátæktar, eins og oft hafði átt sér stað áður. Ýmsir þeir, sem voru í upphafi andvígir stofnun sjúkrasamlagsins, hafa notið góðs af því sem aðrir og mundu nú ógjarnan vilja missa það. Annars staðar mun sömu sögu að segja.

Frá því að Sjúkrasamlag Stokkseyrar tók til starfa, hefir Helgi Sigurðsson í Bræðraborg verið stjórnskipaður formaður þess. Fyrsta árið var Hlöðver Sigurðsson gjaldkeri og reikningshaldaríisamlagsins, en alla tíð síðan hefir Björgvin Sigurðsson núverandi oddviti gegnt því starfi.

Leave a Reply

Close Menu