36-Leikfimi á Eyrarbakka fyrir 70 árum

Þegar eftir komu P. Nielsens til Eyrarbakka 11. júní 1872 mun hann hafa hugsað sér að láta til sín taka um ýmsar framkvæmdir í málefnum ungmenna og æskulýðs, m. a. með því að kenna leikfimi og vekja áhuga æskumanna fyrir henni. Sjálfur hafði hann verið þátttakandi í stríðinu milli Dana og Þjóðverja 1864, þá tvítugur að aldri, og verið liðþjálfi í her Dana. Þótt ungur væri, hafði hann öðlazt ýmsar heiðursviðurkenningar og nafnbætur fyrir vel unnin störf á þessu sviði.

Hann var aðeins 28 ára að aldri, þegar hann gerðist verzlunarþjónn hjá Lefoliisverzlun og kom hingað til lands fullur af áhuga fyrir því að láta eitthvað gott af sér leiða meðal ungmenna hinnar ókunnu þjóðar, sem hann gerði ráð fyrir að dvelja með um óákveðinn tíma. Örlögin höguðu því svo, að dvalartími hans varð lengri en upphaflega mun hafa verið ráð fyrir gert, svo að hér vann hann sín mörgu nytjastörf um nærri 70 ára skeið, og hér bar hann loks beinin 87 ára að aldri hinn 9. maí 1931, en fæddur var hann í Danmörku hinn 27. febrúar 1844.

Ég var í barnaskólanum á Eyrarbakka 1877-1878, þá aðeins 11 ára að aldri, og naut þá m. a. þeirrar ánægju að mega taka þátt í leikfimiæfingum þeim, sem P. Nielsen hafði meðal ungra drengja á hverjum sunnudagsmorgni þann vetur.

Nielsen talaði hvorki né skildi íslenzkt mál, en ég hafði kynnzt honum í veiðiferðum hans við vötn og tjarnir nálægt æskuheimili mínu og hann gefið mér 25 aura sem þóknun fyrir það að hirða upp heiðlóur þær, er hann hafði skotið þann og þann daginn, eða fyrir það að vaða út í eitthvert fenið eða tjörnina til þess að sækja þangað spóa eða önd, sem hann hafði lagt að velli. Og 25 aurarnir urðu margir alls.

Stundum hafði ég ásamt bræðrunum Hannesi Hanssyni, er síðar var nefndur Hannes „matros“, og Jóni, bróður hans, er báðir ólust upp að Efra-Seli, fengið að setja einæring Nielsens frá einni tjörninni að annarri eða bera hann með honum yfir á næsta vatn, svo að hann gæti stigið í hann og róið honum með einni ár með því að taka áratog sín hvert af öðru og alltítt sitt á hvort borð bátsins, en hann var langur mjög og mjór, líkastur grænlenzkum „kajak“ í laginu, en miklu lengri. Ræðarinn hélt höndum um miðja árina, en hún var eirslegin á blöðum til beggja handa og úr mahogni-viði. Engir keipar voru á bátnum né heldur siglutré eða stýri.

Við strákarnir þrír vorum því eins konar veiðirakkar hins erlenda manns, sem þótti gaman að því að senda okkur sem lengst og í verstu ófærumar, holdvota frá hvirfli til ilja, og snúa okkur þannig í kring um sig.

Stundum fengum við skonroksköku eða hagldabrauð, rúsínur í bréfi eða sveskjur, sem Nielsen hafði haft til nestis heiman frá sér. Var þetta oftast nær eina matarbjörgin, sem við fengum daginn þann, sem Nielsen var þar á ferð, enda hvarf öll matarlyst við tilhugsunina um það að mega vera með honum á veiðiferðum hans og þiggja af honum hressingar þær, er hann hafði meðferðis og áður er getið.

Nielsen þekkti mig því vel frá veiðiferðum þessum, þegar ég kom í barnaskólann til leikfimiæfinganna, og hann var alltaf alúðlegur við mig sem aðra, þótt alvörugefinn væri hann og svo strangur, að við urðum að hlýða honum strax og á sama augnabliki, sem hann lagði fyrirskipanir sínar fyrir okkur.

Nú fóru æfingar þessar fram eftir föstum reglum og fyrirskipanir allar á dönsku, en þær voru einfaldar og eigi langar. Þær voru á þessa leið:

,,Stille! Lige frem!“ (Horfa beint fram).

,,Drej til Höjre! Drej til Venstre!“ (Höfuð til hægri eða vinstri). ,,Höjre Haand frem! Venstre Haand frem!“

,,Höjre Fod frem! Venstre Fod frem!“

,,Vend om til Höjre! Vend om til Venstre! March! March!“ Síðasta fyrirskipunin, en þær voru miklu fleiri en hér verða taldar, ,,marchinn“, var einna lærdómsríkust fyrir okkur, því að þá lærðum við fyrst að ganga eins og menn og máttum ekki slettast fram eins og ormar né hlykkjast sitt á hvora hlið. Við urðum að ganga beinir, uppréttir og beint fram, líta hátt, en vera eigi niðurlútir, en þó án reigings og rembings: Een! To! Tre! var hljóðfallið, og hreyfingar hvers og eins þátttakanda urðu að vera eins.

Æfingar þessar voru áreynslulausar og miklu heppilegri en kapphlaup þau og knattspyrnuleikir, er nú tíðkast svo, að við öfgum liggur. Þær voru til þess að einbeita huganum til reglusemi, hugrekkis og djarflegra átaka, en engin „met“ voru sett í ofraunum og tilgangslausum leikaraskap, aðeins til þess að sýnast, en ekki að vera.

Endurminningarnar frá æfingum þessum urðu til þess nærri 60 árum síðar, að ég stofnaði „Fuglavinafélagið Fönix“ (F. F. F.) á 90. afmæli P. Nielsens 17. febrúar 1934 til minningar um hann og ofangreinda starfsemi hans í þágu fjölda ungmenna austur þar.

Leave a Reply

Close Menu