37-Vinnubrögð Bakkamanna

Sumarið 1894 eða fyrir réttum 50 árum var ég að vegalagningu í Kömbum undir stjórn hins árvakra og ötula verkstjóra, Erlendar sál. Zakaríassonar, er síðar bjó að Kópavogi. Vestari hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður árið 1893 undir stjórn Páls Jónssonar vegagjörðarmanns, en yfir eystri hluta hennar árið eftir og samtímis því, að Kambavegurinn var lagður, sömuleiðis undir stjórn Páls.

Vegalagning þessi, einkum í Kömbum, var krókótt mjög, enda eigi ætluð fyrir annað en gangandi menn og ríðandi, svo og vagnhesta, því að bifreiðaumferð yfir Hellisheiði og Kamba hófst ekki fyrr en 20 árum síðar eða árið 1913. Frá ferð minni, hinni fyrstu með bifreið yfir heiðina, 24.-26. júlí 1913, hef ég sagt nokkuð á öðrum stað.

Vegna vagnhestanna var vegurinn því miður lagður þar, sem lægst var, svo að eigi þyrfti að „skera“ hólabörð og hæðir eða fylla mjög upp í lægðirnar. Því er svo snjóþungt á þessum slóðum. En hefði vegurinn verið lagður upp á ranana norðan og sunnan vegarins, hefði naumast nokkurt snjókaf haldist við stundinni lengur.

Bakkamenn nokkrir voru þarna að verki um sumarið, enda sóttist Erlendur Zakaríasson mjög eftir þeim til þessarar vinnu og sagði, að þótt hann hefði haft menn undir sinni stjórn víðs vegar af landinu, hefði Bakkamenn skarað fram úr þeim öllum í iðjusemi, hagsýni við vinnu og umfram allt að dugnaði.

Kaupið var þá frá 2.50 til 3.25 á dag, frá kl. 6 að morgni til kl. 7 að kvöldi, og þótti það betra kaup en annars staðar var fáanlegt. Kaup karlmanna í kaupavinnu var hæst um þær mundir 12 kr. um vikuna, að helmingi greitt í peningum, en að hinu leytinu í smjöri. Stóð hún venjulega yfir um 8-9 vikna skeið, og var dagvinnutíminn frá kl. 6 að morgni til kl. 9-10 að kvöldi, einkum ef um heyhirðingu var að ræða eða ef hirða þurfti hey undan langvarandi rosa.

Haustvertíðin gekk í garð um Mikaelsmessu, 29. september, og stóð hún yfir til Þorláksmessu, 23. desember. Gæftir voru þá oft stopular, en langir góðviðrisdagar á milli, sem sjómenn, einkum á Stokkseyri, notuðu ósleitilega og af kappi.

Við sjóferðir þessar var það einkum beituskorturinn, sem torveldáði þær og tafði fyrir, einkum maðkasandgöngurnar, því að þá var engin síld veidd eða notuð til beitu, enda engin frystihús til þess að geyma beituna.

Væri sjólegt að morgni eða næsta dag, fóru menn á maðkasand daginn áður og beittu lóðir sínar sama kvöldið til þess að verða því fljótari til með morgninum „að skjótast út fyrir boðana“, þ. e. brimgarðinn, þegar er lýsti af degi og sundbjart var orðið. Tók það aðeins eyktarstund, rúma þrjá klukkutíma, að ljúka róðrinum, ef engar tafir urðu, t. d. ef liggja þurfti lengi til laga við sundin eða ef straumfallið var svo mikið, að lóðirnar bar á hraun eða að hákarlar, háfar eða hámerar klipptu þær í sundur. Fór þá langur tími í það að ná í bólin og enda lóðarinnar, sem slitnað hafði af ofangreindum ástæðum eða öðrum.

Oft kom það fyrir, að þótt menn færi á maðkasand og þeir beittu lóðir sínar í því skyni að geta róið morguninn eftir, þá kom ekki til þess, að beitta lóðin yrði notuð að því sinni. Frástökin gátu enn staðið um 2-3 vikur, og varð því að taka beituna af lóðinni aftur og hreinsa hana, því ella ryðguðu önglarnir og lóðartaumarnir fúnuðu. Þannig var hin erfiða maðkasandsvinna oft unnin fyrir gíg.

Væri eigi um maðk að ræða fyrir beitu, notuðu menn kindagarnir, lungu og ljósabeitu, þ. e. ýsudúfur eða kútmaga úr ýsu, kverksiga og greppi (lúsagreppi). Haustvertíðin var oft aflarík, aðallega smáýsa, en sjaldan koli eða þyrsklingur. Þá ein og ein ,,kind“ í róðri, þótt aflinn væri annars um eða yfir 30 í hlut. Lóðin var þá sjaldan lengri en 1200-1400 önglar eða 200 í bjóði eða laupi eins og á vorin, og hafði hver skipsmaður þann fjölda öngla fyrir sig.

Aflanum var skipt þannig, að báturinn, venjulega sexæringur, en stundum aðeins fjögurra manna far, fékk ýmist hálfan hlut eða heilan, formaðurinn jafnmikið og hver hásetanna heilan hlut, því þá var ekki um neina hálfhlutunga eða „hálfdrættinga“ að ræða eins og á vetrarvertíðinni, þegar færin voru notuð. Formannskaupið var hálfur hlutur, er hann fékk auk hlutar síns.

Frátökin voru, eins og áður segir, löng um þetta leyti árs, Eigi voru menn þó iðjulausir. Þeir fóru þá þegar að búa sig undir vetrarvertíðina, vinna að tilbúningi veiðarfæranna, tæja hamp, tjörukaðal í stjórafærin, snúa öngultauma, hnýta þeim á önglana, bera færi og lóðarlínur til þess að ná af þeim snúði og snurðum. Þegar kæla og þurrviðri kom, tóku þeir til „reipslagaraverksins“ og sneru saman í því færin og línurnar. Hef ég lýst því annars staðar, m. a. kuldanum, sem menn urðu þá að sæta við það „að sitja á kláfinum“ eða „leiða kerlinguna“.

Þá unnu menn að því að draga heim mó sinn ofan af mýri, þar sem hann hafði verið geymdur í mótóttinni frá síðasta vori, eða þeir tóku upp grjót til garðhleðslu og girðinga. Að kvöldi til sátu þeir við ullarvinnu, vefnað í vefstól eða þeir fléttuðu reiptögl, beizlistauma, riðu hnakkgjarðir, tegldu hagldir, tinduðu hrífur og smíðuðu amboð, heymeisa, hrip og laupa, allt til undirbúnings fyrir komandi tíma.

Víðast hvar þurftu þeir að annast venjulegar gegningar og fjárhirðingu, a.m.k. í fjósi og hesthúsi, er þeir mokuðu einu sinni í viku. Þá var og karlmönnum ætlað að þæfa voðir, oft 30 álna langar, brynna kindum og bera vatn í fjósið, ganga á beitarhús, oft 1-2 kílómetra langan veg hvorn leið, standa yfir fé og halda því á haga, ef um ástöðuveður var að ræða eða nokkur snöp, er til náðist vegna áfreða, frosta- og ísalaga. Þótti það enginn spölsvegur að ganga vegalengdir þessar og að fara yfir fen mörg og fúamýrar, graflæki marga og keldur.

Flest heimili iðkuðu húslestra á helgum dögum og kirkjugöngur, þótt um langan veg væri að fara og stundum illfæra sökum árflóða eða uppbelgings ótal lækja og vatna, er á. leið þeirra voru, sumstaðar svo, að ferja varð yfir þau á bátum. Húslestrar voru iðkaðir á hverju kvöldi frá veturnóttum til páska og sumstaðar til hvítasunnu. Sungið var úr hugvekju-, fæðingar-, Passíusálmum og Sigurljóðum, sem allt er að finna í ,,Flokkabókinni“ gömlu. Hef ég lýst þessu annars staðar.

Víðast hvar var vakað til kl. 11 og stundum lengur. Voru þá lesnar sögur, kveðnar rímur og spjallað við næturgesti, er að garði hafði borið, og var það oft. Féll þá sögulesturinn niður og rímnakveðskapurinn, því margt var við gestinn að tala.

Rökkursvefn frá kl. 5-6½ var tíðkaður mjög meðal fullorðinna manna, en börn og unglingar voru þá á klakatorfum sínum, hross- eða kýrleggjum úti á ísunum eða þá á skautum, og vorn þeir miklu flestir. Skautasvell var venjulega gott um þessar slóðir og víðáttan svo að segja takmarkalaus.

Um jólin voru aftansöngvar haldnir í kirkjunum, en þó einkum um áramótin. Voru þeir jafnan ágætlega sóttir, enda voru hátíðasöngvar séra Bjarna Þorsteinssonar lærðir, æfðir og notaðir m. k. tveim árum fyrr þar eystra, en annars staðar á landinu.

Um áramótin og á þrettándanum fóru árlega fram stórfelldar álfabrennur og blysfarir. Sóttu þær margir úr nærliggjandi hreppum. Lefoliisverzlun lagði til þeirra eldsefni mikið, bikað timburbrak úr gömlum húsum og skipsströndum, tjörukagga einn eða tvo til hverrar brennu, fulla af hrátjöru, og full olíuföt án þess að taka borgun fyrir. Brennumar stóðu yfir í nærri tvo tíma, og var svo dansað til miðnættis. Man ég eigi til þess, að vín sæist þá á nokkrum manni.

Samsöngvar voru haldnir bæði á Stokkseyri og á Eyrarbakka.

Var byrjað að æfa þá, þegar er vetur gekk í garð. Um líkt leyti var byrjað að æfa leikrit, er leikin voru fram á vetrarvertíð með mikilli aðsókn, Fyrsti leikurinn, sem ég sá, var „Narfi“ eftir Sigurð Pétursson, og var hann leikinn á Eyrarbakka veturinn 1880-1881. Veturna 1885 til 1887 komu svo leikir eftir Bjarna Pálsson í Götu: ,,Eitt kvöld í klúbbnum“, er gerist í Hafnarfirði, enn fremur „Fundurinn í Dunki“ og fleiri leikir eftir sama höfund, er sóttir voru um langt skeið og þóttu hinir ágætustu, enda sprenghlægilegir. Um 1890 og eftir það voru svo sýnd ýmiss konar leikrit önnur eftir ýmsa erlenda höfunda, einkum Ludvig Holberg.

Fyrirlestrar voru oft haldnir um þessar mundir. Meðal þeirra, sem. fyrirlestra fluttu, voru þeir séra Ólafur Ólafsson í Arnarbæli, síðar fríkirkjuprestur í Reykjavík, séra Matthías Jochumsson, Klemenz Jónsson landritari, séra Magnús Helgason, Hjálmar Sigurðsson, Guðmundur Ögmundsson, Bjarni í Götu og Ísleifur Vernharðsson. Aðgangseyrir að fyrirlestrum þessum sem og öðrum opinberum skemmtunum, leikjum og samsöngvum var 35 aurar fyrir fullorðna og 15 aurar fyrri börn. Flestar voru skemmtanir þessar haldnar á vegum Goodtemplarareglunnar. Sjaldan sátu menn að spilum nema þá í „Húsinu“ og þá jafnan um helgar. Var það „Lhombre“, sem tíðast og víðast var spilaður.

Leave a Reply

Close Menu