35-Þættir frá Eyrarbakka og Stokkseyri

„Húsið“ á Bakkanum

Stutt ágrip af heimilisháttum þar og ýmsar endurminningar aðrar

Því var það „Húsið“ nefnt í daglegu tali þar í þorpinu, að löngum var þar ekki um neitt annað íbúðarhús að ræða. Þar voru aðeins torfbæir.

„Húsið“ var ekki einungis miðstöð allrar menningar þar um slóðir, heldur og einnig eitt hið mesta höfðingjasetur landsins að minnsta kosti um 70 ára skeið eða frá þeim tíma, að verzlunarstjórinn alkunni, Guðmundur Thorgrímsen, og kona hans, frú Sylvia, f. Nielsen, fluttust þangað árið 1847, og þar til tengdasonur þeirra hjóna, P. Nielsen, og kona hans, frú Eugenia, létu af búskap, þá er hún andaðist 9. júlí 1916, 65 ára að aldri, f. 2. nóv. 1850.

Þetta var í sannleika sagt eitt hið mesta fyrirmyndarheimili á landi hér og langt á undan sínum tíma í flestu, en einkum þó í allri háttprýði utan húss sem innan, ákveðinni reglusemi, snyrti og rækt við alla góða síðu, guðrækilegar iðkanir, söng og hljóðfæraslátt. Er mér nær að halda, að þaðan eigi sönglistin að minnsta kosti sunnanlands rót sína að rekja miklu frekar en menn hafa nú almennt hugmynd um eða vitneskju, og gæti ég fært óyggjandi rök að þessu, ef með þyrfti, en í frásögum mínum um verzlunina á Eyrarbakka fyrir 50-60 árum er nokkuð ítarlega frá þessu sagt og rökstutt af eigin reynslu.

Hér verður nú með nokkrum orðum að því vikið, hvernig daglegir heimilishættir voru í tíð Thorgrímsenshjónanna gömlu, og er óþarfi að taka það fram sérstaklega, að þeir héldust með sama sniði í tíð Nielsenshjónanna.

Frá fyrstu tíð var sú regla viðtekin, að með árrisi var úr rekkju risið, börnin þó eigi fyrri en stundu síðar, kl. 7, en á sunnudögum hálfri stundu fyrir dagmál eða kl. 8½. Stór ketill var þá við höndina með heitu vatni og stórt baðker, er þau voru látin baða sig í. Á sumrum fóru þau á fætur með árrisi sem aðrir. Var þá drukkið kaffi, en einkum te með tvíbökum eða smurðu brauði.

Að kveldi hvers dags var að loknum kvöldverði allt tekið til fyrir næsta morgun og þess vandlega gætt, að öllum hirzlum væri lokað og dyrum úti og inni. Lyklum öllum var komið fyrir á ákveðnum stað í eldhúsinu, svo að hver og einn heimilismanna gæti gengið þar að þeim vísum, hvenær sem á þyrfti að halda, og var þetta ákveðin og föst regla án nokkurrar tortryggni, enda aldrei misnotuð af neinum. Í þessu fólst vitanlega ugglaus tiltrú til allra á heimilinu, engu síður til undirgefinna en yfirboðara, og sýndi, að þeim var trúað fyrir öllu og öllum jafnt og að góðrar umgengni, ráðvendni og reglusemi væri krafizt í hvívetna.

Að morgni hvers sunnudags, kl. 8-9, klæddist húsbóndinn sloppi sínum, settist í hægindastól sinn með sálmabók eða einhverja aðra góða bók sér í hönd og tók að lesa, en fyrir og á eftir sungu öll börnin fleirrödduð sálmalög og tíðast við sálminn: ,,Dagur austurloft upp ljómar“.

Á virkum dögum var öllum tilkynnt, að nú væri „klukkan orðin níu“, og tók þá hver til sinnar vinnu. Hafði þá sérhvert barnanna eða stúlknanna sína vikuna hvert til þess að taka til í herbergjunum, búa um rúmin og þurrka af borðum, en önnur að hjálpa húsmóðurinni til þess að leggja borðdúka, hnífa, skeiðar og gaffla á borð, unz allt var í reglu og undirbúið til neyzlu morgunverðar kl. 10, og var síðan staðið upp frá borðum kl. 11, borð rudd og öll áhöld þvegin og þurrkuð, en síðan lögð hvert á sinn ákveðna stað, nákvæmlega eins í dag og í gær, svo að ávallt væri að vísu að ganga næsta dag eða hvenær sem til þess þurfti að taka.

Þannig var sérhverjum manni og ekki síður börnunum en hinum eldri ætlað sitt ákveðna verk að leysa af hendi sérhvern dag ársins.

Að borðhaldinu loknu á sunnudögum var húslestur lesinn á dönsku. Það gjörði húsbóndinn, en börnin sungu sálmana á undan og eftir húslestrinum ávallt fleirraddað með undirspili á hljóðfæri, píanó eða gítar.

Um miðmundabilið var dúkur á borð breiddur og kaffi drukkið með kökum. Að því loknu máttu börnin lesa barnabækur sínar, kvæði, vers og skáldsögur, en þó aðeins þær bækur einar, sem faðir þeirra eða móðir höfðu lesið áður og gátu mælt með, að lesnar væru. Annars var öllum bókaskápum vandlega lokað fyrir þeim og þess stranglega gætt, að þau læsu ekkert annað en það, sem foreldrar þeirra vissu, að þeim var hollt að lesa og, kynnast.

Daglega, jafnvel hvernig sem viðraði, gaf húsbóndinn það: til kynna með því að veifa stafi sínum fyrir utan búðardyrnar, væri hann þar staddur, meðan henni var lokað og öllum gluggum, að nú skyldi kona hans og börn búa sig til göngu í hálfan eða heilan klukkutíma.

Miðdegisverður var snæddur kl. 4 síðdegis. Að því loknu máttu börnin æfa leiki sína, syngja og spila á spil, sem oftast var Svarti-Pétur og fleiri spil af líku tagi, er hjónin tefldu skák, einkum á sunnudögum.

Virka daga var fótaferðartíminn hinn sami alla daga, eins og áður er sagt um fótaferðina á sunnudögum, en að vetrarlagi var hann frá kl. 7 1/2 til 8. Gengu þá allir að dúklögðu kaffiborði og síðan hver að sinni vinnu. Húsbóndinn gekk niður á skrifstofu verzlunarinnar eða til afgreiðslu og umsjónar í búðinni.

Konur, þar á meðal dætur, unnu að tóvinnu. Voru öll nærföt, m. a. þau, er húsbóndinn notaði, svo og kjólar allir unnir úr íslenzku efni og sendir utan til litunar og pressunar. Sömuleiðis var allt vaðmál, einskefta og sokkaplögg öll unnin úr íslenzku efni, og fengu dæturnar ekki aðra sokka en þá, er þær höfðu unnið í að öllu leyti og prjónað, enda urðu þær um 12 ára aldur að hafa lært að gera við sokka sína sjálfar og stoppa í þá. Var það húsmóðirin sjálf, sem kenndi þeim það og einnig að þekkja stafina og að lesa. Hún kenndi þeim einnig kristin fræði og gekk ríkt eftir góðri kunnáttu í öllu þessu.

Annars voru heimilishættir allir litlum breytingum háðir allt árið, nema eitthvað sérstakt kæmi til, svo sem ferðalög um helgar, kirkjuferðir eða annað þess háttar.

Um matmálstíma er það að segja, að þegar eftir fótaferðartíma var kaffi drukkið eða te með smurðu brauði, eins og áður var sagt. Kl. 10 var árbítur, kl. 1 kaffi með brauði, kl. 4 miðdegisverður og síðan te, kaffi eða mjólk með brauði að kveldi til um kl. 7-8. Gönguferðir voru, eins og áður er sagt, kl. 3 eða 3½, áður en matast var kl. 4, og kl. 5 hófst lærdómstíminn.

Húskennarar voru séra Þorvaldur Ásgeirsson, séra Jón Guttormsson, séra Ísleifur Gíslason, séra Eggert Sigfússon og fleiri kandídatar. Sjálfur kenndi Thorgrímsen börnum sínum reikning og ensku, en dönsk tunga var vitanlega hið daglega mál fjölskyldunnar, enda var hún af dönsku bergi brotin.

Frú Thorgrímsen var jafnan árrisul. Fótaferðartími hennar var oftast laust eftir óttuskeið. Sat hún þá venjulega við sauma fram undir miðjan morgun, og þegar mikið var að gjöra, fékk hún stundum stúlku sér til aðstoðar við þau störf. Á vorum og sumrum sá hún um, að hlaðvarpinn væri ávallt vandlega sópaður og þrifinn, og á vetrum, að karlmenn mokuðu vel frá öllum dyrum og af gangstéttum.

Í þvottahúsi var bæði þvottavél og vinda og í eldhúsi var allt brauð bakað, að jafnaði 6 rúgbrauð til vikunnar, 8 franskbrauð og tvíbökur eftir þörfum auk annars, sem með þurfti, því enn var ekkert brauðgerðarhús þar í þorpinu. Það kom fyrst árið 1884 og var eign verzlunarinnar.

Venjulega voru 5 kýr í fjósi. Smjör var strokkað annan hvern dag og notað til heimilisþarfa. Hestar voru þar 5 og stundum 6, flestir nothæfir til reiðar og sumir góðhestar, t. d. hinn nafnkunni „Thorgrímsens-Mósi“ og nokkrir aðrir.

Þyrftu Bakkamenn að vitja læknis, en hans var lengst af ekki nær að vitja en austur að Móeiðarhvoli, þótti sjálfsagt, að Thorgrímsen lánaði hesta til þess og stundum mann. Sama máli var að gegna, ef vitja þurfti yfirsetukonu, en hún var austur á Loftsstöðum (Ingibjörg á Loftsstöðum Guðmundsdóttir). Þá fékk sá, er sækja átti yfirsetukonuna, lykilinn að hesthúsinu, hvort heldur var á nóttu eða degi. Svo sjálfsagt var að lána hesta til þvílíkra ferða. Sængurkonum var að jafnaði færður matur til tveggja eða þriggja daga, og þótti börnum hjónanna það hin mesta „skemmtiferð“ að færa þeim hann.

Þá má geta þess, að frú Thorgrímsen hafði ekki einungis stjórn á öllu innanhúss og eftirlit með því, heldur og á öllu utanhúss. Hún kappklæddi sig á vetrum og fór upp í heygarð til þess að líta eftir umgengninni þar, hvort „stálið“ væri slétt eins og fjalarveggur eða allt útborað eins og apalhraun, hvort geilarnar væri ekki fullar af heyi og umsópi eða skjólin svo vel byggð, að eigi fennti inn um þau í heyið eða á þann, sem leysti og lét í meisana eða hrossahripin. Þá gekk hún og í fjósið til þess að líta eftir kúnum, að básarnir og þær sjálfar væru hreinar og þrifalegar og flórinn vel mokaður og að þar væri ávallt hreinn sandur eða aska. Hænsnahúsið og fugla þá, er þar voru, lét hún heldur ekki afskiptalausa né heldur hið svo nefnda „Enska hús“, sem Englendingarnir notuðu í ferðum sínum til niðursuðu á laxi og silungi. Að öðru leyti var hús þetta notað til geymslu á reiðtygjum, því hver maður, karl og kona, átti þar sinn hnakk, söðul, hnappheldu, beizli og svipu. Í öðru húsi var jarðarávöxtur allur geymdur, amboð öll, orf og hrífur, er merkt var sérhverjum þeim, er það tilheyrði og nota átti. Þar voru og hjólbörur geymdar, kláfar og meisar, milli þess að þau voru í notkun. Þar var og mókofi til geymslu mós, kola, uppkveikju og annars eldiviðar.

Ekkert af þessu var undanþegið nákvæmu eftirliti húsmóðurinnar, þá er hún fór í þessar reglubundnu ferðir að minnsta kosti einu sinni í viku. Vegna þessa sannaðist hinn sígildi málsháttur, að „húsbóndans auga vinnur hjúsins hálfa gagn“.

Hey eitt í heygarðinum var jafnan nefnt „Ferðamannaheyið“, en það var, eins og nafnið bendir til, einungis ætlað hestum gesta þeirra, er að garði bar, og þess gætt, að ekki væri af því tekið handa öðrum fénaði.

Bæði voru hjónin samtaka í því sem öðru að halda börnum sínum til vinnu. Þau voru látin buga að hestum, látin snúa heyi, raka saman og drýla ásamt öðrum svipuðum störfum. Þau urðu að fara í sérstök föt til þess að hreinsa fjósið og bera sand eða ösku í flórinn. Þau voru látin hjálpa til við að stinga upp garðana og jafnvel lúa úr þeim arfann með ,,Siggu Kolu“, sem venjulega hafði það verk með höndum. ,,Sigga Kola“ hét annars Sigríður Kolbeinsdóttir, og var hún systir Þorleifs gamla ríka á Háeyri, Kolbeinssonar. Hún var fædd 1793 og andaðist 21. september 1883, 90 ára að aldri.

Aldrei var svo annríkt í „Húsinu“, að húsmóðirin áminnti ekki dætur sínar um það á hverju kvöldi að æfa sig í söng og hljóðfæraslætti. Ekkert mátti undan fella, svo að hin ákveðna regla eigi raskaðist. Þannig var það og á hverju kvöldi, þá er allt var orðið fágað og hreint og til borðs var gengið, að þá fékk hver sinn pentudúk, hvað þá annað, er nota skyldi við borðhaldið.

Vinnumenn í „Húsinu“ voru um langt skeið þessir:

Sveinn Brynjólfsson í 20 ár. Hann var ömmubróðir Sigurðar Jónssonar læknis í Færeyjum og í Danmörku (d. 30. des. 1935 í Kaupmannahöfn) og Sigurjóns P. Jónssonar skipstjóra, síðar kaupmanns á Eyrarbakka.

Bjarni Þorvaldsson, bróðir Þorvaldar í Sleifinni, síðar á Loftsstöðum.

Magnús Magnússon frá Sölkutóft. Var hann jafnan nefndur ,,Hús-Mangi“, atkvæðasjómaður, sem bjargaði mörgum mönnum úr sjávarháska þar á Bakkanum, lipurmenni hið mesta og framúrskarandi skipstjóri. Frú Thorgrímsen kenndi honum „kverið“. Þótti hann næmur, en fremur skilningssljór.

Gísli Einarsson, er síðar bjó á Skúmsstöðum, var þar í 16 ár.

Hann var faðir þeirra Sólveigar Danielsen, Jónínu, konu Páls Grímssonar frá Óseyrarnesi og Gísla hér í Reykjavík. Kona Gísla Einarssonar var Guðný Jónsdóttir frá Eyvakoti, Þorsteinssonar, og var bær þeirra nefndur „Guðnýjarbær“, austastur í bæjaröðinni á Skúmsstöðum. Áður bjó þar Sigfús „snikkari“ Guðmundsson, faðir séra Eggerts á Vogsósum, og þar var séra Eggert fæddur 22. júní 1840. Mun séra Eggert hafa verið einn meðal þeirra kennara í „Húsinu“, sem áður voru nefndir.

Eins og kunnugt er, var oft gestkvæmt í „Húsinu“, því auk innlendra og erlendra ferðamanna kom þangað oft fjöldi vina og kunningja úr nágrenninu. Meðal annarra var „Sigga á Litla-Hrauni“, – frú Sigríður, kona séra Jóhanns Þorsteinssonar í Stafholti, – einkavinur systranna. Kom hún jafnan laugardagskveld hvert í færu veðri og dvaldi til mánudags. Þá komu og bræður hennar þar, og var þá oft „tekið lagið“ og sungið bæði úti og inni.

Þá voru systkinin frá Norðurkoti tíðir gestir. Á þeim lék það orð, að þau væri hvinnsk. Frú Thorgrímsen talaði oft vel um fyrir þeim og bað þau að gæta sin, og reyndust þau öll síðan ráðvandar manneskjur.

Í sambandi við það, sem hér er stuttlega vikið að, vil ég, – svo að það eigi gleymist, – geta nokkurra vísna, sem ortar voru þar á Bakkanum og sennilega standa að einhverju leyti í sambandi við fólk það, er í „Húsinu“ bjó, eða vini þess.

Sigfús .,snikkari“ orti um „Siggu á Háeyri“, – Sigríði Þorleifsdóttur, konu Guðmundar Ísleifssonar, – en hún var vinstúlka þeirra Thorgrimsensdætra. ,,Sigga“ var þá barn að aldri og grét:

,,Sigga góða! Hættu að hljóða!
Heyrðu ljóðasvörin mín!
Hún er að sjóða í salnum hlóða,
silkitróðan, móðir þín“![note] Vísa þessi er áður prentuð í Austantórum I, 64, og eignuð þar Þorleifi á Háeyri að sögn próf. Árna Pálssonar. [/note]

Eftir hvern eða af hvaða tilefni eftirfarandi vísa er til orðin. veit ég ekki, en sennilega er hún þaðan austan að:

„Að spila vist er lífsins list,
lífgun tvistu sinni,
eins og kysst sé refla-rist
rjóð í fyrsta sinni“.

Einhverju sinni var Guðrún Pálsdóttir (skálda) stödd við Stokkseyrarkirkju, sennilega „kennd“ að vanda. Þustu þá að henni við bæjardyr drengir margir til að sjá hana. Leit hún hvasseygð mjög til þeirra og sagði:

„Orð hér hvölfa ekki góð,
ykkur skrattinn flengi!
Hvaða bölvað strákastóð!
Standið þið fjær mér, drengir!“

Bandaði hún hendi til þeirra um leið, en þeir hrukku undan, hræddir mjög, og sinn í hverja áttina.

Að lokum vil ég geta þess, að á vorum og sumrum var það venja fólksins í „Húsinu“ að ríða út á sunnudögum með „nesti og nýja skó“. Var þá farið austur í Rauðárhóla og oft til Stokkseyrarkirkju um leið eða þá austur að Loftsstaðahól, upp á Kaldaðarnesbakka eða að Reykjum í Ölfusi í björtu og blíðu veðri, setzt þar, matazt og drukkið. Ómaði þá um nágrennið fagur og fleirraddaður söngur, því þar var margt gott söngfólk saman komið. Vakti þetta undrun mikla og hrifningu ungra manna og fyrnist aldrei þeim, er með voru, og hvatti þá mjög til þess að sækjast eftir öllu því, er fagurt var, gott og göfugt, fremur en hinu illa, lága og ljóta, sem jafnan fylgdi menningar- og siðleysinu, ekki sízt vínnautninni, þá er hún gekk úr hófi fram. En í þvílíkum ferðum sem þessum var ekki um slíkt að ræða né heldur heima fyrir, því þótt vín væri þar vitanlega um hönd haft, sennilega oft, þá heyrðist aldrei orð um það, að það væri frekar en góðu hófi gegndi. Þarna var menntað og siðað fólk, sem síður en svo gæti þolað, að heilbrigðri skynsemi manna væri á nokkurn veg miðboðið með ofnautn víns og þeim drykkjusvalls-ólátum, sem henni fylgja. Það var sönglistin, hrein og saklaus gleðin, sem þar sat í öndvegi, og væri vel, ef allir, ungir og gamlir létu sér stjórnast af þeirri gullvægu dyggð: Að kunna að stjórna sér!

Ég á í fórum mínum eiginhandarrit eða skjal með hinni fögru rithönd Thorgrímsens sáluga, dagsett 27. janúar 1876, – nú, 1937, 61 árs gamalt, – þar sem hann ásamt meðnefndarmönnum sínum í sóknarnefnd Stokkseyrarkirkju skorar á alla sóknarmenn að skjóta saman fé nokkru, að upphæð 400 krónum, til orgelkaupa í kirkjuna. Samskotalistana alla á ég einnig, og má af þeim sjá, að samskotaféð varð kr. 399.98. Það vantaði 2 aura til þess, að hið umbeðna fé fengist! Á skjalinu er þess og getið, að dóttir Thorgrímsens, Sylvia, síðar frú Ljunge í Kaupmannahöfn, bjóðist til þess að kenna Bjarna Pálssyni í Götu orgelspil ókeypis.

Þannig var Guðmundur sálugi Thorgrímsen brautryðjandi og frumkvöðull að flestu því, er til framfara horfði þar eystra. Tengdasonur hans P. Nielsen og hin ógleymanlega kona hans, Eugenia, dóttir Thorgrímsenshjónanna, tóku þar við, sem hin hættu, og leiddu fjölda góðra málefna til farsælla lykta. Má þar til nefna iðkun og útbreiðslu sönglistarinnar af frúarinnar hálfu og starfsemi hennar í þágu bindindismálsins, hjúkrun sjúkra og margt fleira, er hún tók virkan þátt í af miklum dugnaði og festu. P. Nielsen hafði einnig óbilandi áhuga fyrir vísindum og fögrum listum, en einkum hafði hann þó yndi af náttúrufræði og söfnun náttúrugripa. Hann bar mikla umhyggju fyrir velferð sjómanna, tryggingum fyrir þá og eignir þeirra.

Eitt sinn dvöldu margir frakkneskir skipbrotsmenn að heimili þeirra Thorgrímsenshjóna um nokkurt skeið, komust ekki leiðar sinnar vegna illviðra og ófærðar. Í þakklætisskyni fyrir þetta sendi frakkneska stjórnin þeim hjónum fagurbúið mahogniskrín með málmleggingum og áletrun sem verðlaun og viðurkenningu fyrir góða aðbúð og gestrisni í garði hinna erlendu hrakningsmanna.

Um aðrar viðurkenningar, opinberar og leyndar, vissu fáir, en það er víst, að þær voru hvorki fleiri né meiri en verðskuldað var, enda sjaldnast þegin borgun fyrir veitta aðstoð og hjálp, gistingu, hestlán og ferðalög í annarra þarfir.

Ég sagði í upphafi, að daglegir heimilishættir og siðir beggja heimilanna, Thorgrímsens og Nielsens, hefðu verið „með sama sniði“. Þeir voru einnig í sama anda. Þótt ég hafi beint athygli minni og orðum einkum að hinu eldra, þá á það einnig við um hið síðarnefnda. Hin almenna virðing fyrir þeim var hin sama, enda var hér um þau fyrirmyndarheimili að ræða á mörgum sviðum, að þau áttu vart sinn líka á landi hér og stóðu ekki að baki mestu höfðingjum erlendum að snyrtimennsku og reglusemi, nema öllu frekar væri i ýmsu, einkum þó í skilningi á erfiðum kjörum annarra, virkri þátttöku í flestu því, er til heilla horfði og aukinnar þjóðmenningar.

Og hvernig mátti annað vera, þar sem trúin og siðgæðið héldust í hendur. Hin innilega trúhneigð kom meðal annars fram í því, að aldrei var ljósið á heimilinu slökkt eða gengið til náða án þess að húsbóndinn, Thorgrímsen, segði eigi áður:

,,Nú skulum við slökkva og sofa öll í Jesú nafni!“

Loks má geta þess, að Thorgrímsen gamli hafði þann sið að lesa erlendar skáldsögur eftir enska og danska rithöfunda einn klukkutíma á dag, hvenær sem því varð við! komið. Sagði hann síðan börnum sínum og heimilisfólki aðalefni frásagnanna, og má nærri geta, hversu þýðingarmikið atriði þetta var fyrir heimilið sjálft.

Það var ekki ætlun mín að þessu sinni að minnast á annað en hið sérstæðasta, sem mér er kunnugt um þetta þjóðkunna heimili, háttu þess og siðu, Ég tel, að það mætti og ætti að verða öllum til fyrirmyndar og eftirbreytni.

Leave a Reply

Close Menu