Einn þeirra manna, sem enn lifði skýrt í endurminningum fólks í átthögum mínum eystra á yngri árum mínum, var Brandur gamli Magnússon smiður í Roðgúl. Hann var fæddur 1727 og andaðist 26. ágúst 1821, 94 ára að aldri. Varð hann því svo gamall, að margir voru enn lífs í æsku minni, sem mundu eftir honum og þekktu hann af eiginni sjón og raun. Gengu af honum ýmsar sögur, er allar báru vitni um það, hvílíkur afburðamaður hann var á marga lund, hverjum manni meiri og sterkari, flestum fremri að áræði og atorku, hagleiks maður mikill á alla smíði, afbragðs formaður, söngmaður einn hinn mesti, skapfastur og skapstór. Bar mönnum einnig saman um það, að andlegir hæfileikar hans væru engu síðri en líkamlegt atgervi hans.
Foreldrar Brands munu lengstum hafa búið á Grjótlæk, og þar hefur Brandur alizt upp hjá þeim. En um 1755 hefur hann farið að búa, og er ekki kunnugt, að hann hafi búið annars staðar en í Roðgúl, þar sem hann átti heima allt til æviloka. Hann var þríkvæntur og átti mörg börn. Var það sem annað um hann stórmannlegt. Býlið Roðgúll, þar sem Brandur bjó yfir 60 ár, er smábýli eins og flest önnur býli í Stokkseyrarhverfi, 3-4 hundraða kot, með túni, sem framfleytt gat einni til tveimur kúm og er vel grasgefið eins og önnur tún þar um slóðir. Býlinu fylgdi nær óbrigðul fjörubeit og svo slægjur á Breiðamýri. Auk þess voru mikil hlunnindi af sjó, sem gerðu mönnum lífvænlegt þar í hverfinu, og það svo, að jafnvel í harðærum og fiskileysisárum fyrr á tímum mun þess hvergi getið, að fólk hafi fallið þar vegna harðréttis. Eins og nærri má geta um slíkan atorkumann sem Brandur var, aflaði hann fanga bæði til lands og sjávar, og auk þess hafði hann jafnan tekjur nokkrar af smíðum sínum. Bjó hann því ætíð við sæmileg efni og þurfti ekki að vera upp á aðra kominn í ellinni.
Áður en Brandur fór að búa, var hann nokkur ár vinnumaður á Skipum, og fara fyrst sögur af honum þar. Þá bjó á Skipum Guðmundur Hafliðason. Hann var talinn merkur maður, afbragð annarra manna að gáfum og listfengi, iðkaði meðal annars dráttlist og stærðfræði, sem fátítt var um menn á þeim tímum.
Meðan Brandur var á Skipum, vann hann það þrekvirki, að hann flutti grjóthellu eina mikla austan úr Baugsstaðagrjótum heim að Skipum, og er það alllangur vegur. Hellu þessa setti hann niður í hlaðvarpanum á Skipum til þess að nota hana þar sem barsmíðastein, berja á harðfisk og því um líkt. Var hellan 2¼ alin á hvern veg, en þykkt hennar 7 þumlungar. Grjót er þarna brunnið og holótt nokkuð, svo að þyngd hellunnar er eigi að tiltölu við stærðina, en engu að síður hefur þurft ærið afl til þess að flytja hana einn þessa vegalengd, eins og Brandur gerði. Var það og almælt, að hann hefði tveggja til þriggja manna afl, þeirra er vel voru færir, og aldrei vissu menn til þess, að honum yrði aflfátt. Mælt er, að einhver hafi haft orð á því við Brand, er hann stóð í helluflutningnum, að þetta væri óþarfa fyrirhöfn. Þá svaraði Brandur: ,,Hún skal heim á Skipahlað”.
Viðbragðsfljótur var Brandur og snarráður, ef á þurfti að halda. Einhverju sinni bar svo við, að smalinn á Skipum kom hlaupandi heim með öndina í hálsinum og sagði frá því, að kindur væru á flæðiskeri staddar frammi í Skipafjöru. Brandur var úti staddur, tók viðbragð mikið og hljóp af stað niður í fjöruna, en kallaði um leið til annarra heimamanna og sagði: ,,Komið þið strax með bátinn”. Smábátur var á hvolfi þar heima, og hlupu menn til, tóku upp bátinn og settu fram að sjó. Þegar þeir náðu þangað, var Brandur búinn að vaða út í skerið og var nú að reka féð þaðan yfir í næsta sker, er nær var landi og nokkuru hærra en hitt. Straumharður ós var í milli skerjanna, og beljaði sjórinn inn um hann í næsta lón fyrir innan. Brandur lét féð synda yfir ósinn, en óð sjálfur með því ýmist upp í mitti eða undir hendur og studdist við rekatrésás einn, er hann hafði gripið, um leið og hann hljóp af stað. Féð veltist um í ósnum, en svo fast fylgdi hann því eftir, að engri kindinni gafst ráðrúm til að fara í kaf. Kom Brandur öllu fénu yfir í skerið, og var það svo flutt á bátnum til lands. En með því að báturinn gat eigi meira borið, tók Brandur að vaða lónið yfir í næsta sker, meðan hann skyldi bíða bátsins, og tók sjórinn þá Brandi í herðar. Þar beið hann loks, unz báturinn kom og sótti hann.
Eitt sinn þrættu menn um það á Skipum, hvort vætt væri út í æðarvarpshólma einn þar í vatninu eða eigi. Þar lá þá álft ein á eggjum í dyngju sinni. Ekki er þess getið, hvað Brandur lagði til málanna, en morguninn eftir kom hann með þrjár fjaðrir úr hólmanum til merkis um það, að hann hefði getað vaðið út í hann, þótt djúpt væri og þar til aurbleyta mikil. En hann komst yfir með því að spenna aurþrúgur á fætur sér eða hlemma, svo að hann sykki ekki í leðjuna.
Fram undan Gerðum og Götu er stórt lón, sem Bleikalón nefnist. Í því eru sker tvö, eigi allstór, sem nefnd eru Hökunaddur og Herðasker. Lónið allt er djúpt, og veðjuðu menn um það, að engum væri fært að vaða út í sker þessi. Brandur í Roðgúl óð út í bæði skerin og vann veðmálið. Af því eru nöfnin á skerjunum dregin, og sýna þau, hve djúpt Brandur hefur vaðið: út í annað skerið upp í herðar, en út í hitt upp í höku.
Brandur var formaður á Stokkseyri í marga áratugi, heppinn vel og aflamaður góður. Hann var til þess tekinn, hvert langræði hann hafði, og stundum reri hann alla leið fram í svonefnda Bessabrún. Hún er vestur af Vestmannaeyjum og svo djúpt, að vatnar yfir allt láglendi upp undir miðjar fjallahlíðar.
Einu sinni sem oftar lá Brandur frammi á Bessabrún og bjóst til heimferðar. Er hásetar tóku til róðrar, fundu þeir, að skipið var óvenju þungt undir róðrinum og gekk illa. Á þessum slóðum var allmikið um beinhákarl eða barða, sem kallaður er, en hann átti til að gera sjómönnum þann leiða grikk að bíta sig fastan í skipshælinn og láta draga sig langar leiðir undir þyngslaróðri. Svo var nú í þetta sinn hjá Brandi, og urðu þeir að dragast með hákarlinn langan veg við ærið erfiði, því að engin tæki voru í skipinu til þess að vinna honum geig. En Brandur hugsaði harða þegjandi þörfina, ef hann fyndi sig í annað sinn. Tók hann sig til og smíðaði sveðju eina geysimikla. Hún var á fjórðu alin fyrir egg og allbiturt vopn, og lét hann hana liggja í skipinu. Nokkuru síðar, er Brandur var að leggja upp úr sátri, finnur hann, að skipið er tregt til gangs, og mátti segja, að steinmarkaði ekki hjá honum, þótt vel væri róið. Skyggnist Brandur þá út fyrir borðið og sér grána í skepnu nokkura niðri undir kjölnum. Þrífur hann þá til sveðjunnar, og er ekki að orðlengja það, að Brandur gengur af barða dauðum og fekk úr honum þrjár tunnur lifrar til hlutarbótar.
Margra ára fiskileysi á árunum 1773-1 780 svarf svo mjög að Stokkseyringum, að flestir formenn þar fluttu skip sín út í Selvog til útróðra þar á vetrarvertíðinni, því að þar þótti helzt aflavon. Tveir formenn fóru þangað þó aldrei, og voru það Brandur í Roðgúl og formaður á fjögra manna fari einu, er aðeins gat á sjó farið, þegar bezt var veður og blíðast. Oftast fekk Brandur bjarglega hluti, einkum þó árið 1777. Kom þá eitt sinn mikill fiskur á mið með sílhlaupi miklu, og var þá róið 8 daga slitalaust, tví- og þríhlaðið á degi hverjum. Varð þá svo sem jafnan, þegar farið var að aflast á Bakkanum, að bændur í nærsveitum og einnig lengra að komu til þess að fá sér í soðið og róa sem skotturóðrarmenn, jafnvel þótt upp á hálfdrætti væri, og fengu með því góða björg í bú sitt. Tók Brandur menn þá ýmist til fiskaðgerðar og hjálpar í landi eða lét þá róa á hinu stóra skipi sínu, eftir því sem rúm leyfði, til þess að veita sem flestum úrlausn. Meðal þeirra, er nutu þannig hjálpar Brands, voru fjórir prestar. Tvo þeirra lét hann róa, og voru þeir afbragðs sjómenn. Einhverju sinni kallaði Brandur höstulega til annars prestsins og sagði: ,,Komdu hérna, þú prestur, hér aftur í, og seilaðu fiskinn upp úr skipinu”. Vertíð þessa aflaði Brandur svo vel, að hann fekk 5 hundruð stór af sílfiski til hlutar. Kom það sér þá vel, því að um langt skeið var hart mjög í búi manna þar eystra sem annars staðar, og stafaði það bæði af siglingaleysi og harðindum, en einkum þó fjárkláðanum, sem þá var nýlega af staðinn. Upp úr þessu fór að aflast betur á Stokkseyri, og fekk Brandur þá sæmilega hluti, en formenn þeir, er flutzt höfðu út í Selvog, komu þá með skip sín til Stokkseyrar aftur.
Eins og fyrr var getið, var Brandur í Roðgúl smiður mikill. Einkum lagði hann fyrir sig járnsmíði, en hann var einnig smiður á tré og skipasmiður góður. Sagt er, að hann hafi þegar á unga aldri fengizt mjög við smíðar, en vitanlega án nokkurrar tilsagnar, sem teljandi væri, eða lærdóms, sem hvergi var að fá hér á landi á þeim tímum.
Smíðatól Brands voru við hans hæfi, sterk og stór, en liðleg þó. Smíðahamar hans var tvískallaður og vó 3 pund. Slaghamarinn var þó miklu þyngri. Löð átti Brandur með 12 götum, 6 í hvorum enda, öll með mismunandi vídd fyrir stóra nagla og smáa. Járnklippur átti hann stórar, en eyddar voru þær mjög af ryði, er heimildarmaður minn, Jón Gíslason í Meðalholtum, sá þær um 1840. Flest verkfæri sín smíðaði Brandur sjálfur. Eftir hans dag komust smíðatól hans í eigu Brynjólfs Andréssonar smiðs á Kotleysu, er fluttist að Roðgúl eftir lát Brands, en eftir lát Brynjólfs eignaðist Helgi Jónsson, er bjó að Borg, Ásgautsstöðum, Bugum, Leiðólfsstöðum og víðar, smíðahamar Brands, og sá Jón Gíslason hann árið 1845 hjá Helga.
Meðal þess, sem Brandur smíðaði, voru ýmiss konar búshlutir og áhöld. Meðal annars gerði hann sér malarakvörn eina ærið stóra. Var hún svo þung og mikil, að tvo fullfæra menn þurfti til þess að snú á henni, en Brandur sjálfur sneri henni léttilega einn. Annan kvarnarsteininn sótti hann austur í Baugsstaðagrjót, en hinn utan úr Tröllendum, en það er skerjaklasi allstór úti í brimgarði. Kvörn þessi var síðar mikið minnkuð og gerð viðráðanlegri. Var hún til til skamms tíma. Öskjur smíðaði Brandur svo stórar, að þær tóku 10 merkur smjörs. Ask einn smíðaði hann, er dró 9 merkur lagar, keröld stór og vatnsfötur, er eigi voru neitt barnameðfæri.
Árið 1770 var Stokkseyrarkirkja endurbyggð. Var Brandi þá falin járnsmíði sú, er að því verki laut, þar á meðal klukknaumbúnaður, en þáverandi kirkjuhaldari, Brynjólfur Sigurðsson sýslumaður í Hjálmholti, hafði útvegað stærri klukkuna til kirkjunnar árið 1754 og látið steypa fangamark sitt B. S. S. ásamt ártalinu á hlið hennar. Rammgerva læsingu, hvolfskrá, smíðaði Brandur einnig að kirkjunni, og vó lykillinn 2 merkur. Hurðajárnin voru þrísett, og kostaði efnið til þessa 13 álnir, vinnulaun 12 álnir og skráin sjálf 20 álnir. Yfirsmiður kirkjunnar um alla trésmíði var Ámundi Jónsson snikkari í Syðra-Langholti, og um líkt leyti er einnig talið, að hann hafi byggt Gaulverjabæjarkirkju. Þegar Ámunda var vant verkfæra, sem ófáanleg voru hér á landi, fór hann til Brands í Roðgúl, lýsti fyrir honum lögun verkfæranna og stillingu þeirra, og smíðaði Brandur þau síðan, svo að þau litu út og reyndust allt að einu sem erlend verkfæri sömu tegundar, enda var handverk hans eigi aðeins stórsmíði úr tré og járni, heldur og smíði á fjöðrum í blóðtökubílda og byssur og enn smágervari hlutum. Árið 1856 eða 86 árum síðar var Stokkseyrarkirkja rifin og byggð upp aftur. Þótti þá umbúnaður kirkjuklukkunnar hinnar stærri eigi svo tryggur, að treysta mætti því, að hann bæri klukkuna öllu lengur, því að hespurnar og klukkuásinn, það er öll ramböldin, voru orðin ryðguð eftir svo mörg ár.
Ýmsar aðrar sagnir eru um Brand, hagleik hans og listfengi, er gengu manna á meðal löngu eftir lát hans. Þar á meðal voru sagnir um skipasmíði hans, sem var orðlagt fyrir styrkleika sakir og sérkennilegt lag, er á skipum hans var. Þau voru breiðari en almennt þekktist áður, viðtakabetri og því hentugri í brimsundum.
Einhverju sinni var Brandur að smíða skip og var að setja í það efsta umfarið. Bilaði þá vinda sú eða klemma, er hann sveigði borðið með, og sló það Brand svo hörðu höggi, að hann hrökk rétt mælda 5 faðma frá hrófinu og féll við. Stóð hann þó brátt upp aftur og sagði, en hann stamaði nokkuð, þegar honum var mikið í hug: ,,Þa- það skal þó við!” Síðan gekk hann til smiðju sinnar, smíðaði vinduna úr tré og kom borðinu fyrir, eins og hann vildi hafa það.
Það er talið, að Brandur hafi fyrstur manna fundið upp á því að járna keipa í bátum og skipum bæði undir árahlummunum, í áfellum og við bakskauta, svo að árarnar gæti leikið því léttara og liðugra í keipunum, og var það nefnt að gelda í keipa. Var því skip Brands í háði nefnt Járnnefur, en annars hét það réttu nafni Bæringur, og var hann formaður fyrir því nærri 60 ára skeið. Skip það var sterkt mjög og viðamikið, lengd kjalarins var 9½ alin, en breidd miðskips 4½ alin. Að framan og aftan var það svo viðtakamikið, að það afbar jafnvel stærstu brimsjói, þá er eigi lykkjuféllu yfir það og fylltu það og ef stjórn þess bilaði eigi, þótt árar væru settar í kjöl og skipið væri látið hlaupa með án þess, að undan skæri.
Unglingspiltur einn fór fram á það við Brand, að hann kenndi honum skipasmíði eða veitti honum tilsögn í því. Brandur tók því fálega og kvaðst eigi geta kennt það, er hann hefði eigi sjálfur lært, en vísaði piltinum á að skoða vandlega skip þau, er hann hefði smíðað, og sagði: ,,Ef þú vilt eða getur, þá hafðu skip þín lík skipum þeim, er þú veizt, að eg hef smíðað, og hafðu þau eins í lagi. Og einkum skaltu gæta þess, að viðtökin að aftan og framan séu góð og svo mikil, að þau brjóti sjóinn, en sjórinn eigi þau eða gleypi skipið.” Piltur þessi var Jón Snorrason, er lengi bjó stórbúi í Óseyrarnesi og að Ásgautsstöðum, formaður og skipasmiður góður. Synir hans voru Guðmundur og Jón, er voru báðir bændur í Óseyrarnesi og merkismenn hinir mestu. Er afkomenda Jóns Snorrasonar margra getið í Bergsætt og í útgáfu Guðna Jónssonar af Kambsránssögu, bls. 31.
Það var á síðari árum Brands eða um 1785, að hann tók sér ferð á hendur suður að Hvaleyri við Hafnarfjörð til þess að skoða og kynna sér stórsmíði Þorsteins Jónssonar skipasmiðs þar. Þótti Brandi þar margt ærið vel gert og stórmerkilegt, og lýsti hann því öllu, en sagði að lokum: ,,Væri eg 10-12 árum yngri, skyldi smiðja Þorsteins á Hvaleyri verða kríli eitt.”
Hér fara að lokum fáeinar sögur, er sýna einbeitni Brands, stórlyndi hans og stefnufestu.
Einu sinni varð Brandur fyrir því óhappi, að smiðja hans brann til kaldra kola, og varð hann þá fyrir alltilfinnanlegu tjóni. Bjóst hann þegar til að reisa hana af nýju, fór út á Eyrarbakka, tjáði kaupmanni, hvernig komið var, og bað um timbur og annað efni til smiðjubyggingarinnar hjá verzluninni. Lagði hann hendur fram á búðarborðið og bað um skjót svör og skýr. En er honum þótti svörin dregin á langinn, sagði hann með háum rómi og sterkum: ,,Hafi þessar hendur mínar nokkuð unnið fyrir höndlun þessa, krefst ég svars.” En Brandur hafði smíðað margt og mikið fyrir Eyrarbakkaverzlun, og meðal annars hafði hann sett niður festarstólpana í skerin, en þeir voru úr járni dg sterkir mjög. Kaupmaður mun hafa haft gaman af að reyna Brand og lét bera honum brennivín í pelamáli, en Brandur ýtti því frá sér og sagði hvasst: ,,Ekkert, ekkert annað en svar!” Fekk hann þá tafarlaust loforð fyrir timbri því og öðrum vörum, sem hann hafði beðið um. Þá tók hann pelamálið sér í hönd og tæmdi í botn.
Einu sinni sem oftar sat Brandur að stórsmíði í smiðju sinni og var að smíða járnsleggju. Kom þá maður nokkur í smiðjuna til hans, og varð þeim mjög sundurorða. Varð Brandur svo æfur, að hann hóf upp glóandi járnsleggjuna og miðaði á manninn. Hann skauzt út, en Brandur kastaði sleggjunni á eftir honum og hefði slysað hann eða drepið, ef á hefði komið. Annars var sagt, að Brandur hefði stundum ekki haft aðrar sveiflur við menn, sem gerðu alvarlega á hluta hans, en að leysa niður um þá eig flengja þá.
Þegar séra Jakob Arnason í Gaulverjabæ vildi innleiða söng við sálma hinnar nýju sálmabókar í kirkjum sínum, var Brandur í Roðgúl forsöngvari í Stokkseyrarkirkju, og var hann raddmaður mikill. Hann neitaði að byrja hinn nýja söng. Prestur lét það eigi fyrir standa og byrjaði sjálfur. En þá hóf Brandur upp hinn venjulega söng í grallaranum og söng svo hátt, að eigi heyrðist til prests, og þagnaði hann. Eftir messu skaut prestur á fundi og ræddi við Brand og aðra kirkjugesti, en engu fekk hann um þokað í það sinn fyrir ákafa Brands. Um kvöldið, er prestur fór heimleiðis, lá leið hans um götuna fyrir framan túngarðinn í Roðgúl, og brá hann sér þá þangað heim og dvaldist þar fram á nótt. Eigi vissu menn, hvað þeim Brandi og presti fór á milli, en eftir þetta sýndi Brandur eigi annan mótþróa en þann, að hann fór eigi í kór, heldur sat þegjandi í stólnum hjá konu sinni. Um þennan atburð orti Kolbeinn í Ranakoti vísur nokkurar, og eru þær ásamt sögunni um kappsöng Brands prentaðar í Sögunni af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum. Þetta eru síðustu vísurnar:
Forsöngvari náði nýr
nýjan söng að byrja
á nýársdegi næsta órýr,
nokkrir undir kyrja.Annar gamall annað lag
einnig taka náði
nú þann sama nýársdag,
svo nývillingur áði ( = hætti).Víða berst um grund og geim
gamansfregnin slynga.
Forsöngvara þökk sé þeim,
sem þaggaði nývillinga.
Brandur var nær hálfáttræður, er þetta gerðist. Fimmtán síðustu æviár sín var Brandur sjónlaus. Gróa, síðasta kona hans, var honum dýrmæt stoð í ellinni.
Bjarni Björnsson í Götu á Stokkseyri, sem ólst upp í Dvergasteinum og var 13 ára gamall, þegar Brandur dó, lýsti honum svo: ,,Brandur var mikill maður vexti, hár og herðibreiður, svo að ég hef aldrei séð nokkurn mann eins þrekvaxinn. Hann var rjóður í andliti með beint nef og falleg augu, ennið var hátt og svipur hans ákveðinn mjög og hreinn. Að vísu var hann blindur orðinn, er ég var honum samtíða og frá því ég sá hann í fyrstu, en augu hans lýstu þó enn skarpleik miklum og svipur hans ákveðnum vilja. Kona hans, Gróa, var mikilhæf kona, sívinnandi og iðjusöm, og sá hún vel um hann í ellinni. – Ég sá ýmiss konar smíðaverkfæri Brands löngu eftir fráfall hans, og þótti mér þau gerðarleg og vel til búin, en hann hafði smíðað þau flest sjálfur, því að hann var þjóðhagasmiður. Einnig sá ég bæði barsmíðahelluna á Skipum og malarakvörn Brands. Sá ég hana að vísu í minna formi en áður var, en hvorttveggja þetta, hellan og kvörnin, hafa verið svo mikil bákn, að furðulegt er, að nokkur maður skyldi geta grasað þeim.”
Sagnirnar um viðskipti Brands við beinhákarlinn, um það, er hann varpaði sleggjunni á. eftir manninum, og um kappsöng síra Jakobs og hans í Stokkseyrarkirkju eru eftir því, sem ég heyrði móður mína og fleiri segja. En að öðru leyti eru sagnir þessar teknar eftir skrifuðum blöðum móðurbróður míns, Jóns Gíslasonar í Meðalholtum. Hann var fæddur 1826, aðeins fimm árum eftir dauða Brands, greindur maður og fróður um margt, það er hann heyrði á æskuárum sínum, en þá voru sögur um Brand enn í fersku minni margra manna.