01-Formáli (1. bindi)

Það hefur ýmsum mönnum kunnugt verið, að Jón Pálsson fyrrverandi aðalféhirðir hefur um margra ára skeið varið tómstundum sínum til þess að skrá ýmiss konar fróðleik, er hann nam á yngri árum og hefur aflað sér síðan af margþættum kynnum sínum við menn og málefni samtíðar sinnar. Er það og kunnugt þeim, er þekkja hann, að maðurinn er allt í senn greindur vel, stálminnugur og vandlátur við sjálfan sig um það að segja það eitt, er hann veit sannast og réttast í hverju efni. En viðfangsefni Jóns hafa verið harðla margvísleg, hvort sem litið er á ævistörf hans eða ritstörf. Um ævi hans og athafnir verður hér ekki ritað, því að sitt af hverju mun væntanlega birtast um það efni síðar í ritum þessum. Þess skal aðeins getið, að Jón er fæddur að Syðra-Seli í Stokkseyrarhreppi 3. ágúst 1865 og er því nú, er þetta fyrsta hefti rita hans kemur út, vetri miður en áttræður. Þar eystra stundaði hann alls konar störf til sveita og sjávar, sem mönnum voru þá tíð, var auk þess verzlunarmaður í mörg ár, organisti og kennari. Nálægt aldamótum fluttist hann til Reykjavíkur og hefur síðan átt heima þar, gegnt margháttuðum trúnaðarstörfum og lengi verið einn hinna traustustu og merkustu borgara hér í bæ og löngu þjóðkunnur maður.

Jón Pálsson byrjaði snemma að safna ýmsum fróðleik og færa í letur. Handrit hans eru nú orðin geysimikil að vöxtum og um harðla sundurleit efni. En magn þeirra og megin eru þó hin þjóðlegu fræði. Þar sitja í fyrirrúmi þættir af merkum eða einkennilegum mönnum, frásagnir af ýmsum sögulegum atburðum, vinnubrögðum til sjávar og sveita, ýmiss konar þjóðháttum og þjóðtrú og alþýðlegum reynsluvísindum. Þar er og allmargt þjóðsagna, sem eigi eru til annars staðar. Skrítlur af ýmsu tagi skipta þúsundum. Yfirleitt er safn þetta svo auðugt, að ekki sér högg á vatni, þótt af sé numið í eitt hefti sem þetta er.

Vinir og kunningjar Jóns Pálssonar, sem vissu, á hverju gulli hann lá, tóku sig saman eimi góðan veðurdag í fyrra, gerðu hjá honum vinsamlega innrás og fóru þess á leit, að hann leyfði að láta gefa út eitthvað af safni sínu, svo að það mætti verða almennings eign sem fyrst. Tók hann því ekki alls fjarri, en taldi þó ýmis vandkvæði á að gefa það út, margt hvað væri eigi fullsamið eða nógu skipulega niður raðað og yrði það því að ganga í gegnum hreinsunareld nokkurn, áður en það væri prentað. Þó kvaðst Jón mundu láta sér lynda að ráðizt yrði í að gefa út „eitthvað af þessu ranamoski”, ef ég vildi taka að mér að .búa það undir prentun. Mér var að vísu ljóst, að þetta var talsvert vandaverk, en þó vildi ég eigi láta slíkt fyrir standa, og varð því úr, að ég tók það að mér. Verkefnið var á margan hátt heillandi fyrir mig og svo að kalla í sérgrein minni. Gaf Jón Pálsson mér og öldungis frjálsar hendur um efnisval og niðurskipun og meðferð efnisins, enda hefur samvinna okkar verið hin bezta. Verður nú þetta hefti að bera vitni um það, hvernig verkið hefur farið úr hendi.

Svo er til ætlazt, að út komi að minnsta kosti eitt hefti á ári af safni þessu, unz því er lokið, sem prentað verður af því um sinn. Enga áætlun vil ég gera um það að svo komnu, hvað heftin verða mörg alls. En þess vil ég geta hér, að með þriðja heftinu verður nafnaskrá við þrjú fyrstu heftin, og telst þá fyrsta bindi lokið. Annars verður hvert hefti um sig sjálfstætt að efni.

Reykjavík, 20. desember 1944.

GUÐNI JÓNSSON.

Leave a Reply

Close Menu