03-Um ætt Brands í Roðgúl og niðja hans

Ætt Brands á Roðgúl hefur hingað til verið ókunn að öðru leyti en því, að menn hafa vitað, að hann var Magnússon, og er talið, að Magnús sá hafi búið á Grjótlæk, Skal hér því til fróðleiks bætt við því, sem ég hef fundið um það efni eftir þeim heimildum, sem nú eru fyrir hendi.

Framætt Brands og föðursystkin.

Árið 1703 bjó í Sandlækjarkoti í Eystrihrepp bóndi sá, er Þorsteinn Jónsson hét, fæddur 1653. Guðrún Bjarnadóttir hét kona hans, fædd 1655, og er hún á lífi 1729 á Minna-Núpi hjá Herdísi, dóttur sinni. Börn þeirra Þorsteins og Guðrúnar voru þessi:

1) Guðríður Þorsteinsdóttir, f. 1689. Hún átti Einar, f. 1692, Bjarnhéðinsson í Vestri-Garðsvika í Hvolhreppi, f. 1658, Guðmundssonar í Langagerði, Ólafssonar, og bjuggu þau í Ólafsvallahverfi 1729, en á Stokkseyri 1735. Bernharður hét sonur þeirra ( ekki Vernharður, eins og segir í Smævum IV, 135- 136), er átti heima uppi í Flóa, en dóttir Þuríður, og kann ég ekki að svo stöddu fleira frá þeim að segja.

2) Jón Þorsteinsson, fæddur 1691. Hann bjó í Traðarholti á árunum 1729-1735 eða lengur. Hann átti konu þá, er Guðríður Guðmundsdóttir hét, og hafa þau að líkindum verið barnlaus.

3) Herdís Þorsteinsdóttir, fædd 1692. Hún átti Hierónýmus, 1685, Ólafsson frá Heylæk í Fljótshlíð Jónssonar, og bjuggu þau á Minna-Núpi á árunum 1729-1735 eða lengur, en síðar í Halakoti í Biskupstungum. Börn þeirra voru: a) Bjarni á Tjörn í Biskupstungum, faðir Guðrúnar, konu Jóns silfursmiðs í Laugarási Jónssonar;[note]Sjá um hann Ísl. sagnaþætti og þjóðsögur IV, 90-92.
[/note]   b) Ólafur á Reykjavöllum í Biskupstungum, faðir Þóru, kona Bjarna Gunnarssonar á Reykjavöllum; c) Salgerður; d) Halla, og e) Þuríður, kona Gísla á Svarfhóli í Svínadal í Borgarfirði, Magnússonar á Efra-Skarði í Leirársveit, Gíslasonar, og er allmikil ætt frá þeim komin (sbr. Smævir IV, 26-27).

4) Magnús Þorsteinsson, f. 1695, faðir Brands í Roðgúl, sjá hér á eftir.

5) Bjarni Þorsteinsson, f. 1701. Hann átti Salgerði Bjarnadóttur frá Svarfhóli. í Flóa, Sighvatssonar, systur Guðrúnar, móður Mag. Bjarna skólameistara í Skálholti og síðar prests í Gaulverjabæ. Þau Bjarni og Salgerður bjuggu í Ólafsvallahverfi árið 1729, en fluttust síðan niður í Stokkseyrarhrepp og bjuggu í Traðarholti 1735. Börn þeirra voru: a) Ingibjörg, átti enga afkomendur; b) Þorsteinn, líklega faðir Jóns, föður Þórðar, er dó á Þórustöðum í Ölfusi 1839; c) Helga eldri á Stéttum, átti enga afkomendur; d) Guðríður, kona Jóns Gizurarsonar í Helludal í Biskupstungum (Helludals-Gudda); e) Helga yngri,)[note]Í Sögunni af Þuríði formanni (Br. J., Ritsafn I, 3) er Helga talin ,,Bjarnadóttir bónda á Eyrarbakka, Þorsteinssonar bónda í Fossnesi, Einarssonar“, Þar ætti að standa: í Sandlækjarkoti, Jónssonar, en ættir þessar voru mér eigi svo kunnar sem nú, er ég gaf söguna út. Þau Brandur í Roðgúl og Þuríður formaður hafa verið að 2. og 3. að frændsemi. [/note] kona Einars á Stéttum í Hraunshverfi, Eiríkssonar í Borg, er Skerflóðs-Móri hófst af, Jónssonar. Börn þeirra: Bjarni á Stéttum, Þuríður formaður og Salgerður, kona Kristjáns Jónssonar á Seli í Stokkseyrarhreppi.

Öll börn Þorsteins í Sandlækjarkoti nema Herdís fluttust niður í Stokkseyrarhrepp og staðfestust þar.

Systkin Brands og niðjar þeirra.

Magnús Þorsteinsson er búandi á þriðjungi Traðarholts 1729, en 1735 býr hann á hjáleigu frá Traðarholti, líklega Grjótlæk, sem hann er kenndur við og hefur víst búið lengst. En árið 1762 býr hann ekkjumaður með tveim börnum sínum í Hraunshverfi, líklega í Stöðlakoti, og þar mun hann hafa verið síðast. Kona Magnúsar hét Anna Brandsdóttir. Hún var fædd 1706, og þori ég ekkert að fullyrða um ætt hennar. Brandur, elzta barn þeirra er 2 ára gamalt hjá foreldrum sínum í Traðarholti 1729. En í manntali 1818, þar sem tilgreindir eru fæðingarstaðir manna, segir, að Brandur sé fæddur í „Höfnum“. Veit ég eigi, hvaða Hafnir við er átt, ef það eru ekkí Hafnir í Gullbringusýslu, og ef þetta er rétt í manntalinu, liggur nærri að gizka á, að Magnús hafi kynnzt Önnu þar syðra, gifzt þar og jafnvel byrjað að búa þar. Mætti þá geta þess til, að Anna hefði verið ættuð úr Höfnunum eða af Suðurnesjum. En um það verður ekkert fullyrt, og raunar þykir mér fæðingarstaður Brands í manntalinu grunsamlegur.

Börn þeirra Magnúsar og Önnu voru með vissu þessi:Brandur Magnússon smiður í Roðgúl, sjá hér á eftir.
2) Guðni Magnússon bóndi í Foki og Efra-Seli í Stokkseyrarhreppi, f. 1736, d. 5. febr. 1819. Kona hans var Ragnheiður, f. 1733, Helgadóttir. Börn þeirra: a) Jón, átti Guðrúnu Sigvaldadóttur frá Herru í Holtum Sveinssonar á Árgilsstöðum Guðnasonar, barnlaus, b) Margrét, átti Guðmund Guðmundsson á Efra-Seli, og c) Kristrún, ógift.

3) Katrín Magnúsdóttir, f. 1742, d. 17. febr. 1819, bjó lengi í Gerðum á Stokkseyri. Hún var seinni kona Jóns í Gerðum Sæfinnssonar. Í ættartölubókum (Snókdalin ) er Jón talinn sonur Sæfinns Þorlákssonar á Hjalla, Guðmundssonar, en það fær alls ekki staðizt tímans vegna; til þess er Sæfinnur Þorláksson of ungur. Jón í Gerðum mun hafa verið sonur Sæfinns Björnssonar, sem býr í Stokkseyrarhverfi 1735. Fyrri kona Jóns var Ingveldur Sigurðardóttir, systir Rafnkels, föður Sigríðar, fyrri konu Hannesar Ögmundssonar á Litla-Hrauni. Sonur Jóns og Ingveldar var Þorsteinn í Hól við Stokkseyri, er getið verður hér á eftir. Hins vegar voru þau Jón og Katrín barnlaus. En áður en Katrín giftist, átti hún einn son, er Gísli Pétursson hét og bjó á óttarsstöðum í Hraunum. Jón í Gerðum var talinn lítilvirkur, en Katrín greind vel og athafnasöm, siðavönd og vel til þess fallin að kenna tornæmum börnum.

4) Þorbjörg Magnúsdóttir, d. fyrir eða um 1785. Hún átti Gísla bónda í Stöðlakoti og síðar á Kalastöðum Eyjólfsson sterka á Litla-Hrauni, þess er glímdi við blámanninn, Símonarsonar í Neistakoti, Björnssonar s. st., Jónssonar. Þau áttu þrjár dætur, og voru þær þessar: a) Anna Gísladóttir, f. í Stöðlakoti 1769, d. 25. apríl 1843, átti Þorstein í Hól, sem áður er nefndur, Jónsson í Gerðum Sæfinnssonar. Þ. b.: aa) Halla, kona Snæbjarnar Sigurðssonar á Ásgautsstöðum, bb) Jón formaður í Hól, átti Húnbjörgu Grímsdóttur frá Traðarholti, Jónssonar s. st., Bergssonar hreppstjóra í Brattsholti. (Sjá Bergsætt, bls. 147- 148, cc) Gísli bóndi á Ásgautsstöðum, faðir Önnu, konu Sturlaugs Jónssonar í Starkaðarhúsum. (Sjá Bergsætt, bls. 161-162), dd) Þorbjörg. – b) Guðríður Gísladóttir, f. í Stöðlakoti 1771, d. 22. jan. 1854, átti Jón hreppstjóra hinn ríka í Vestri-Móhúsum Þórðarson á Refstokki, Pálssonar. Þeirra börn voru Sigríðar þrjár, og eru niðjar þeirra taldir í Bergsætt, bls. 167- 195. – c) Margrét Gísladóttir, f. í Stöðlakoti 1775, d. 24. des. 1852, átti fyrr Þorgils bónda á Kalastöðum, er drukknaði 30. marz 1815, Jónsson í Bakkakoti í Landeyjum Guðbrandssonar, en síðar Hannes bónda Ögmundsson á Litla-Hrauni, og voru þau barnlaus. Börn hennar og Þorgilsar voru þessi: aa) Gísli Þorgilsson, bóndi á Kalastöðum og Syðra-Seli, átti Sesselju Grímsdóttur frá Traðarholti, Jónssonar s. st., Bergssonar í Brattsholti. (Sjá Bergsætt, bls. 149-156, bb) Helga Þorgilsdóttir, giftist ekki, en átti tvær dætur, cc) Elín Þorgilsdóttir, átti Þorvarð í Brattsholti Hallgrímsson á Efra-Velli, Brynjólfssonar, og dd) Guðmundur Þorgilsson, bóndi á Litla-Hrauni, átti Málfríði Kolbeinsdóttur í Ranakoti, Jónssonar.

Frá börnum Brands.

Brandur Magnússon í Roðgul var, sem fyrr segir, 2 ára gamall hjá foreldrum sínum 1729 í Traðarholti, en hann andaðist 26. ágúst 1821. Hann hefur því orðið 94 ára gamall ( ekki 96, eins og kirkjubókin segir). Í manntali 1801 er Brandur talinn kvæntur í 3. sinn, og sannast það af orðalagi í skiptagerð eftir Helgu, dóttur hans, 15. maí 1822, þar sem talað er um börn ,,fyrri kvenna“ hans. ókunnugt er, hverjar verið hafi fyrri konurnar tvær. En þó tel ég mjög sennilegt, að fyrsta kona Brands hafi verið dóttir Jóns Björnssonar og Sæbjargar Þorvaldsdóttur, er bjuggu í Kumbravogi 1729, og ræð ég það af nöfnum barna Brands. Síðasta kona hans var Gróa Bjarnadóttir frá Efra-Velli, síðar í Gegnishólaparti, Jónssonar. En kona Bjarna og móðir Gróu var Helga ljósmóðir Eyjólfsdóttir sterka á Litla-Hrauni, Símonarsonar. Með Gróu átti Brandur aðeins eina dóttur, er Helga hét, og verður hennar getið hér á eftir.

Árið 1762 býr Brandur í Stokkseyrarhverfi, líklega þá þegar í Roðgúl, þar sem hann bjó alla ævi síðan. Er hann þá sennilega með fyrstu konunni, sem er talin 32 ára að aldri, og eiga þau þrjár dætur. Af þeim er aðeins kunnugt um eina, er Sæbjörg hét. Að öðru leyti er eigi unnt að greina milli fyrstu og annarrar konu barna Brands. Brandur og Gróa, síðasta kona hans, giftust um 1788, hann þá rúmlega sextugur, en hún 29 ára gömul, enda lifði hún hann í allmörg ár.

Skulu þá talin börn Brands, sem um· er vitað. En hann hefur átt að minnsta kosti 10 börn, þótt ekki þekkist nöfn nema á 8 þeirra:

1) Sæbjörg Brandsdóttir var fædd 1761. Hún var vinnukona á Kotleysu 1801, ógift.

2) Jón Brandsson eldri var fæddur um 1765. Hann bjó lengi í Rauðarhól og dó þar 22. júlí 1819. Hann þótti engi afburðamaður. Kona hans hét Ellisif Magnúsdóttir frá Vatnagarði í Garði, Gunnarssonar, og voru þau barnlaus. Ellisif var fædd í Háholti á Skeiðum, en Magnús, faðir hennar, var ættaður úr Villingaholtshreppi.

3) Jón Brandsson yngri var fæddur um 1767. Hann bjó lengst af í Upp-Ranakoti, en andaðist í Söndu 6. des. 1824. Einnig bjó hann um hríð í ‘I’íðaborg, sem var tómthúsbýli eitt í Stokkseyrarheiði, suður af Kotleysu, og sagt er, að hann hafi byggt Móakot, norður af Eystra-Íragerði, og búið þar um hríð. Kona hans hét Guðný Jónsdóttir, og fluttist hún með foreldrum sínum, Jóni og Guðrúnu Bessadóttur, norðan frá Hólum í Öxnadal.

Jón, faðir Guðnýjar, var nefndur Jón læknir, enda hjálpaði hann mörgum með læknisaðgerðum sínum, þótt harðla væru þær einkennilegar sumar og óvenjulegar. Meðal þeirra var sú ein, að hann hankaði menn við ýmsum kvillum, þar á meðal Brand í Roðgúl við sjónleysi hans. Hjálpaði það mjög um alllangt skeið, 8-9 ár, en er það kom eigi lengur að haldi, vildi Brandur láta Jón lækni hanka sig framan á hálsinum, en áður hafði Jón hankað hann í hnakkann eða uppi undir hársrótum þar. Aftók Jón læknir það með öllu og kvaðst enga ábyrgð á því taka, ef gert væri og mein yrði að. Þá læknaði Jón þessi einnig Gunnlaug Loftsson í Götu með því að skera í burtu vararmein hans, og. varð hann fjörgamall maður. Unga stúlku eina læknaði Jón af hörundskvilla í höfði, og mjög margt annað læknaði hann ýmist með blóðtökum eða meðölum alls konar, er gerð voru úr íslenzkum grösum. Í þá daga var ekki í mörg hús að venda um læknishjálp, enginn lærður læknir á svæðinu frá Reykjavík austur í Fljótshlíð og síðar Vík í Mýrdal.

Eftir lát Jóns Brandssonar bjó Guðný með sonum sínum í Móakoti. En börn Jóns og hennar voru þessi : a) Oddný og b) Gróa, munu báðar hafa dáið ungar, c) Guðmundur; hann drukknaði við hrognkelsaveiði í Stokkseyrarfjöru; d) B.farni. Hann var yngstur af systkinunum, fæddur 1805. Hann var nefndur ýmsum kynlegum nöfnum, ýmist Bjarni móhnaus, Bjarni móhaus, Bjarni móni eða jafnvel Bjarni mónsson. Viðurnefni þessi mun hann hafa fengið af því, að hann kallaði móður sína mónu í stað móður eða mömmu og sagði til dæmis: ,,Heyrðu, móna mín“ eða „Hérna, móna mín“. Ári síðar en Guðmundur, bróðir hans, drukknaði dó Guðný, móðir þeirra, og fór Bjarni þá vistferlum suður á Álftanes eða Seltjarnarnes, misjafnt leikinn, enda fákunnandi og geðstirður. Þar syðra mun hann hafa dáið á árunum 1875-79.

4) Þórunn Brandsdóttir var fædd 1772. Hún var enn heima hjá föður sínum 1818, ógift og barnlaus.

5) Ingibförg Bra.ndsdóttir, f. 1780, hygg ég einnig verið hafa dóttur Brands í Roðgúl. Hún var vinnukona í Dvergasteinum á Stokkseyri 1801 og í Eyvakoti á Eyrarbakka 1818, ógift. Segir í manntalinu það ár, að hún sé fædd í Vestri-Móhúsum, og ef það er rétt, er það kynlegt, ef hún er dóttir Brands í Roðgúl. Þó gátu vissar orsakir valdið því, að hún væri ekki fædd heima í Roðgúl. En hvað sem þessu líður, má eigi blanda henni saman við alnöfnu hennar og jafnöldru, Ingibjörgu Brandsdóttur í Breiðamýrarholti, Ögmundssonar, sem átti Pál Sigurðsson í Votmúla.

6) Katrín Brandsdóttir var fædd 1784, er hjá föður sínum 1801. Hygg ég, að hún hafi dáið ógift, uppkomin stúlka.

7) Kristín Brandsdóttir var fædd 1786. Hún var lengi vinnukona á Stokkseyri og drukknaði í fiskiróðri þaðan á Stokkseyrasundi með 9 mönnum öðrum 5. maí 1828, ógift og barnlaus.

8) Helga Brandsdóttir var fædd 1793 og dó 23. marz 1822, aðeins 29 ára gömul. Hún átti Magnús í Roðgúl, síðar á Kotleysu, f. 1793, d. 2. ágúst 1829, Gíslason á Kalastöðum Eyjólfssonar sterka á Litla-Hrauni, sem fyrr er nefndur. Var Magnús sonur Gísla af seinna hjónabandi. Var fyrri kona Gísla, eins og áður segir, Þorbjörg, systir Brands í Roðgúl, en seinni kona hans og móðir Magnúsar var Guðrún Þorkelsdóttir á Kekki, Arnþórssonar í Hamarshjáleigu, Björnssonar. Þau Magnús og Helga áttu aðeins tvö börn, og voru þau þessi: a) Katrín Magnúsdóttir, átti Kristján á Kekki Kristjánsson á Efra-Seli, Jónssonar í Vorsabæjarhjáleigu, Bjarnasonar. Meðal barna þeirra var Magnús mormóni. b) Gísli Magnússon bóndi í Vestri-Móhúsum, d. 1868. Hann ólst upp á Leiðólfsstöðum hjá Sveini Eiríkssyni og Sigríði Jónsdóttur ríka í Vestri-Móhúsum (Mið-Sigríði). Með þeim fluttist hann að Vífilsstöðum nokkuru eftir tekt, en tveim til þremur árum síðar fór hann án vitundar húsbænda sinna eða annarra allslaus austur í Flóa aftur og kom sér þar í dvöl. Þótti þetta tiltæki Gísla, svo ungur sem hann var, lýsa fáheyrðu áræði. En við ýtarlega rannsókn á því máli reyndist aðbúnaði hans og meðferð svo ábótavant, að honum var engin sök gefin á brotthlaupinu. Eftir þetta fór Gísli vinnumaður til Þórðar Jónssonar á Efra-Seli, er var þá ellihrumur orðinn og dó fáum árum eftir það. Kvæntist Gísli þá húsmóður sinni, ekkju Þórðar, Guðrúnu Jónsdóttur frá Sumarliðabæ. Sýndi hann í flestu, að hann var atorkusamur maður og stórhuga. Nokkuru eftir lát Jóns ríka í Vestri-Móhúsum fluttist Gísli þangað og bjó þar til dauðadags. Þar missti Gísli konu sína og kvæntist aftur Guðrúnu Sigurðardóttur frá Auðsholtshjáleigu, Steindórssonar í Auðsholti, Sæmundssonar. Bæði hjónaböndin voru barnlaus.

Dauða Gísla bar að með þeim hætti, að hann varð bráðkvaddur í fiskiróðri 28. jan. 1868, fyrsta róðrinum, sem sægarpurinn Benedikt í Íragerði fór á sinni löngu og merku formannsævi.

Frá Gróu, síðustu konu Brands.

Gróa, ekkja Brands í Roðgúl, var hjá Magnúsi, tengdasyni sínum, eftir lát Helgu, dóttur sinnar. En skömmu síðar kvæntist Magnús aftur, og var seinni kona hans Hallgríma Hallgrímsdóttir frá Efra-Velli, Brynjólfssonar. Hún var skörungur .mikill og skapstór. Þau Magnús og hún eignuðust eina dóttur, er Guðrún hét. Hún átti barn með Jóhannesi Jóhannssyni í Grænhól, og var það Hallgrímur skipasmiður á Kalastöðum, en síðan giftist hún Þórði hreppstjóra og silfursmið í Brattsholti Pálssyni og var mikilhæf kona. Eftir að Hallgríma kom til bús með Magnúsi, þótti Gróu heldur þrengjast um sinn hag, og lyktaði með því, að hún flýði vegna ófriðar af heimilinu og leitaði um sinn á náðir systur sinnar í Brennu í Gaulverjabæjarhreppi. Er til bréf frá Gróu til sýslumannsins í Árnessýslu, þar sem hún biður hann ásjár af þessu tilefni. Bréfið er varðveitt í Bréfasafni Árnessýslu II, 5 í Þjóðskjalasafni, og þar sem það veitir ýmsan fróðleik um Brand og Gróu og hagi hennar og ástæður, læt ég það birtast hér.

,,Brennu, þann 12. maí 1827.

Veleðla herr sýslumann!

Þar ég órólegrar samvizku vegna að lifa með konu fyrrum mágs míns, Magnúsar Gíslasonar á Kotleysu innan Stokkseyrarhrepps, er þaðan burt flúin og ei sjálfráð væntanleg þangað aftur að fara, bið eg yður auðmjúklega so vel gjöra og álíta nauðsyn mína og sjá mér fyrir framfæri, nú 68 ára, ófær til að vinna mér brauð framar. Er eg hér fædd í Bæjarhrepp og dvaldi hér, þar til ég var 29 ára, þá eg giftist út í Stokkseyrarhrepp Brandi sál. Magnússyni á Roðgúl. Bjuggum við þar í liðug 30 ár, og vonast eg til við fáum vitnisburð fyrir að hafa staðið í skilum það okkur bar til útgjalda og sveitarskila, – þar til fyrr nefndur Magnús giftist dóttur okkar, nú sál. Helgu. Var þá búið virt og uppskrifað. Var þá hans partur með honum lagður, sem þá var orðinn kararmaður, en minn skyldi vera óeyddur. Lifði hún ekki full fimm ár. Var þá enn uppskrifað og virt; náðist ei umboð til barnanna, nema eg eftirgæfi minn part, hvað eg eftirlét utan kistu mína og rúmið, sem eg þurfti nauðsynlega sjálf, fyrir margreynda dygð hans og mannæru mér auðsýnda um téðan tíma með þeim skilmála, að hann lofaði mér að lifa með sér við sömu kjör og ánægju sem eg hafði þangað til haft, – hvað okkar á milli varð aftalað. En síðan hann aftur giftist, hef eg hjá honum í fjögur ár dvalið við mestu óánægju ófriðar vegna, hvers vegna eg fyrirtók að fara heldur góðra manna á milli. Fór eg fyrst til reppst (jóra) J (óns) Þórðarsonar og sagði honum ástæður mínar. Sagðist hann ei geta meinað mér það eg fyrirtók, – aðra ásjá veitti hann mér ei. Þaðan fór eg til prófastsins, hvern eg beiddi að tala mínu máli við reppst(jóra), sem sagðist ei því gegna, fyrr en hann fengi þar um orð frá sýslumanni. Innilegast bið eg fyrir eg mætti hér kyrr vera, hvers eg get ei notið, sé mér ei líkn lögð af hlutaðeigendum. Eg treysti yður til hins bezta.

Gróa Bjarnadóttir.“

Um bréf þetta ætla ég ekki að fjölyrða, – það skýrir sig sjálft og sýnir um leið átakanlega, hver urðu laun þessarar konu fyrir langt og þjónustusamt líf. Ef dygðin verðskuldar slík laun, hvað mun þá ódygðin eiga skilið?


Þess skal getið, að frásagnirnar um Jón Brandsson yngra, sonu hans og tengdaforeldra og þá einkum Jón lækni eru frá Jóni Pálssyni eftir fyrrnefndum blöðum Jóns Gíslasonar í Meðalholtum. ,,Um hankanir Jóns læknis er það að segja“, bætir Jón Pálsson við, ,,að menn voru áður fyrrum hankaðir við ýmsum innvortis meinum á sama hátt og hestar og aðrir stórgripir. Í hanka þá, er menn voru hankaðir með, var notaður silfurþráður. Var Ísólfi, bróður mínum, kunnugt um, að hankar þessir voru notaðir með góðum árangri“. Það, sem sagt er frá Gísla Magnússyni í Vestri-Móhúsum, er einnig frá sömu heimild runnið – G. J.].

Leave a Reply

Close Menu