U. M. F. S. var stofnað 15. marz 1908. Ég gekk í félagið 1909. Í stofnskrá félagsins er meðal annars þetta: Að reyna af alefli að vekja löngun hjá æskulýðnum til þess að starfa fyrir sjálfan sig, land sitt og þjóð, að temja sér að beita starfskröftum sínum í félagi og utan þess, að reyna af fremsta megni að styðja, viðhalda og efla allt það sem þóðlegt er og ramíslenzkt, er horfir hinni íslenzku þjóð til gagns og sóma, sérstaklega skal leggja stund á að fegra og hreinsa móðurmálið. Tilgangi sínum hugsar félagið sér að ná með því, að halda fundi, þar sem fram skulu fara fyrirlestrar, er haldnir séu af félagsmönnum, umræður, upplestur, söngur og annað það sem að líkamlegri og andlegri eflingu og atgjörfi lýtur.
Að ofanrituðu sézt, að tilgangur þess er göfugur, starfssvið þess mikið og margþætt. Annars vegar er einstaklingurinn mjög frjáls, hann getur valið um fjölda mörg viðfangsefni til að auka þroska sinn og manngildi, en hins vegar er hægt að krefjast mikils af honum. Mér er vel kunnugt um menn sem störfuðu allmikið í U. M. F. S. á fyrstu áratugum þess, að einmitt með þeirri starfsemi sinni, lögðu þeir traustan grundvöll undir ævistarf sitt, og hafa sumir þeirra, að einhverju leyti fyrir þann grundvöll, komizt í allmiklar trúnaðarstöður meðal þjóðarinnar.
En jarðvegurinn fyrir stofnun U. M. F. S. var góður, það var búið að plægja hann svo vel. Tímabilið 1880-90, hefur verið allmikið vakningatímabíl á Stokkseyri. Þá var stofnaður þar barnaskóli, lestrarfélag, góðtemplarareglan, þá var farið að iðka sönglistina, svo að segja almennt, þá hefst þar leiklistin, þá var settur á fót skóli sem nefndur var sjómannaskóli; hann starfaði aðeins í landlegum á vertíðinni. Íslenzk glíma var allmikið iðkuð, bæði af heimamönnum og sjómönnum, sem þar voru, víðsvegar að, þessi starfsemi var í fullum gangi þegar U. M. F. S. var stofnað. Allt það sem hér hefur verið nefnt tók U. M. F. S. á stefnu sína ásamt fleiru. Starf U. M. F. S. er því bæði hliðstætt og framhald á því sem fyrir var, enda man ég ekki betur en stofnun félagsins væri vel tekið, líka af eldri kynslóðinni, og meðal stofnenda voru miðaldra menn og jafnvel þar yfir, og það talar sínu máli. Ég á U. M. F. S. mikið að þakka, og það er mér sjálfum, og mér einum um að kenna að það er þó ekki meira en raun hefur orðið á.