Árið 1904 urðu þáttaskil í sögu þjóðarinnar. Í febrúar, það ár, var innlend stjórn mynduð í fyrsta sinn, Íslandsbanki stofnaður og starfaði nú auk Landsbankans. Erlendar selstöðuverzlanir höfðu lagzt niður. 1906 komst landið í símasamband við umheiminn. Heildverzlanir við Þýzkaland og England án milligöngu um Danmörk, fyrst í smáum stíl, en vaxandi á hverju ári.
Fólksflutningar til Ameríku lögðust niður 1906, eftir að hafa verið á hverju ári frá 1872. Árferði batnaði, verzlunin varð hagstæðari, gamlar vonir rættust og nýjar vöknuðu.
Það mun aldrei hafa verið ánægjulegra en á árunum frá 1906-1920 að vera unglingur og eiga starfsæfina eftir. Á þessu tímabili hófu U.M.F. störf sín, sem er glæsilegasta tímabil félaganna.
Ungmennafélag Reykjavíkur var stofnað 3. október 1906. Blöðin skýrðu frá starfi og stefnu félagsins, sem vakti athygli æskumanna. Í Árnes- og Rangárvallasýslu voru 2 eða 3 félög stofnuð haustið 1907, og mörg árið eftir. Árið 1909 voru starfandi félög í nær öllum sveitum austan fjalls.
Við unglingarnir á Stokkseyri ræddum oft um að stofna til slíks félags. Fengum við lög Ungmennafélags Reykjavíkur og höfðum þau til fyrirmyndar. Stofnfundar var svo boðaður og félagið stofnað 15. marz árið 1908. Fyrsti formaður félagsins var Kjartan Guðmundsson ljósmyndari.
Stofnfundurinn var haldinn í Templarahúsinu hjá Vinaminni, og hafði félagið þar fundi og skemmtanir, þar til húsið var selt verkalýðsfélaginu Bjarma. Stofnendur voru eingöngu karlmenn, þar með nokkrir aðkomumenn, er voru við sjóróðra frá Stokkseyri og urðu ekki félagar nema til vertíðarloka. Fyrstu stúlkurnar, sem gengu í félagið voru Helga systir mín, nú í Keflavík, og Guðrún systir Sigurðar Sigurðssonar, nú í Reykjavík. Fleiri bættust við þegar frá leið. Næstu ár fjölgaði meðlimum félagsins og varð það á fáum árum fjölmennt miðað við íbúatölu kauptúnsins. Fundir voru oft haldnir hvern sunnudag frá því í september og fram í maí. Fundarsókn var venjulega góð og urðu fundirnir til heilbryggðrar ánægju þeim, er þar mættu. Mun enginn ágreiningur vera um það meðal þeirra, sem nú líta aftur til unglings- og þroskaára sinna í glöðum endurminningum um ánægjuleg umræðuefni. Á fundum tóku oft margir til máls um hugsjónir og störf félagsins og ýmiss mál, sem orðið gætu til þjálfunar meðlima í meðferð hins talaða orðs eða til skemmtunar. Deilur allar voru í fullri vinsemd. Einkum voru deilur milli mín og Kjartans Ólafssonar og urðum við þó jafn góðir vinir á eftir, og vinátta okkar, sem myndaðist í félaginu er enn óbreytt.
Eins og venja ungmenna er, hvar sem er á landinu, byrjuðu og enduðu fundir með því að sungin voru ýmiss þjóðlög, en síðan dansaðir þjóðdansar og aðrir dansar í klukkutíma og spilað undir á munnhörpu, harmoniku, en oftast fiðlu. Stundum var sungið með fiðluundirleik, oftast ættjarðarkvæði. Á fyrstu árum félagsins samdi Ísólfur Pálsson lag við hið snilldarfagra kvæði Guðmundar Guðmundssonar : ,, Vormenn Íslands,“ sem hann tileinkaði ungmennafélögum. Lag Ísólfs var fyrst sungið á Stokkseyri, en varð fljótt vinsælt og er nú mikið sungið um allt land, eins og fleiri sönglög hans.
Eitt stefnumál ungmennafélaganna var að þau störfuðu á kristilegum grundvelli og því var eitt sinn á nýjársdag lesinn húslestur. Lesið var úr Vidalíns Postillu. Félagar komu með sálmabækur og sungu sálma á undan og eftir. Þetta var í Templarahúsinu, en húslesturinn las Ingvar Jónsson.
Þorgeir Bjarnason Hæringsstöðum var um 1910 við nám á Hvanneyri. Hann kom heim um jólin og gerðist þá meðlimur félagsins. Á annan dag jóla kenndi hann okkur 6 norska og sænska þjóðdansa og var æft af kappi. Við lærðum þau lög, sem við kunnum ekki áður, en notuð voru við dansana. Dagurinn fór nær allur í æfingar, svo við lærðum dansana til hlítar. Þjóðdansar urðu okkur til mikillar ánægju síðar á fundum og skemmtunum félagsins.
Við fengum ýmsa til að halda fyrirlestra um fræðileg efni. Guðmundur Hjaltason kom frá sambandi ungmennafélaganna 1909-13 og flutti árlega 2 fyrirlestra ágætlega samda. Frá sambandinu komu svo þeir Sigurður Vigfússon frá Brúnum, Bjarni Ásgeirsson, síðar alþingismaður og sendiherra og Páll Bjarnason skólastjóri, Jón Jónatansson alþingismaður og máske fleiri. 20. apríl 1913 flutti Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi ágætt erindi um Jónas Hallgrímsson. Blaðið Suðurland segir að aðsókn hafi verið sem húsrúm frekast leyfði. Auk þess voru eftir beiðni stjórnarinnar fluttir fyrirlestrar. Séra Runólfur Runólfsson í Gaulverjabæ sagði frá lífinu í Ameríku, en hann dvaldi þar lengi og fór þangað aftur.
Á skemmtanalífi varð mikil breyting eftir að U.M.F.S. var stofnað. Á fyrstu árum þess hélt félagið afmælisskemmtanir með fjölbreyttri dagskrá. Notaðir voru að mestu eigin starfskraftar. Til skemmtunar voru ræðuhöld, söngur, íþróttir, sjónleikir og síðast dans. Afmælisskemmtunin var því talin fjölbreyttasta skemmtunin yfir veturinn, enda bættust oft við nýir félagar næsta fund fyrir afmælið, og var svo til 1924 eða lengur. Oftast mun ég hafa flutt erindi á afmælum félagsins. Ég á þannig 6 erindi í handriti. Veturinn, sem félagið hafði húsnæði í barnaskólanum flutti ég erindi um sögu Stokkseyrar. Annað erindi um sjávarflóðið mikla þann 2. janúar 1652 og landsspjöll, sem urðu á Eyrarbakka, þriðja um Bjarna ríka Sigurðsson og afkomendur hans. Fjórða um Stokkseyrar-Dísu, og svo um aldamótaflóðið 1799. En áður á afmæli félagsins um manngjöld á landnámstíð, silfurverð, svo og verðgildi landaura breytt í verðgildi í krónum.
2 eða 3 ár hélt félagið útiskemmtun á fyrsta sumardag. Skemmtanirnar voru haldnar fyrir austan Rauðhóla, nær sjó, þar sem nú er sumarbústaður Páls Ísólfssonar. Ein slík skemmtun var 1. sumardag 1914, sem ég man vel eftir. Voru þar yfir 200 manns, nokkrir frá Eyrabakka. Það ár sem oftar keyptu Norðmenn lifur af öllum mótorbátunum eftir samningi við útgerðarmenn. Bræðslumaður var ungur Norðmaður Arne Olsen. Hans aleiga voru nauðsynleg föt og harmonika, sem hann spilaði oft á, þar sem hann hafði herbergi. Við urðum þess varir og varð það að samkomulagi við hann að vera á fundum okkar og skemmtunum. Spilaði hann þar og varð næstum alltaf fyrstur til þess að mæta á fundum með harmonikuna. Hann sagði mér síðar, hér í Reykjavík, að sér hefði leiðst mikið fyrst, en eftir að hann komst í kynni við félagið undi hann hag sínum vel.
Við gengum í fylkingu að skemmtistað, fánaberi fremstur, þá Arne Olsen og spilaði marz á harmonikuna alla leiðina. Ræðustóll var hryggjaliður af stórum hval, er rak á Langarifi fyrir mörgum áratugum og fluttur hafði verið stuttan veg úr fjörunni. Ég flutti á þessum óvenjulega ræðustól, ræðu þá, sem birt er í blaðinu Suðurland 4. júlí 1914. Á eftir ræðunni var sund, ísl. glíma og reiptog. Er skemmtuninni var slitið gengu félagar í fylkingu, fyrst fánaberi, þá Arne Olsen og spilaði á harmonikuna marz alla leið að húsi mínu. Síðast sungu allir: „Vormenn Íslands”, og skyldu svo allir glaðir og ánægðir. Þessar skemmtanir lögðust niður vegna þeirra breytinga á lífsvenjum er urðu eftir fyrra stríðið.
Árið 1920 var ákveðið að félögin á Eyrabakka og Stokkseyri heimsæktu hvort annað. Fyrst fórum við um 30 í hóp til Eyrabakka og fengum ágætar viðtökur. Fylgdu þeir okkur að vegamótunum. Síðan komu þeir til okkar og reyndum við að taka vel á móti þeim, sem þeir líka viðurkenndu. Fylgdum við þeim að Hraunsá. Af tilviljun komst þetta nýskeð á tal við nú þekktan Eyrbekking og minntist hann þessa funda með ánægju. Þetta var aðeins í 1 eða 2 ár.
Um 1920 héldum við skemmtisamkomu á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar, þann 17. júní. Á ég í handriti ræðu, er ég flutti þar. Auk þess var til skemmtunar íþróttir og dans. Ýmsar skemmtanir voru haldnar til ágóða fyrir félagið, sem ekki verður þó greint hér frá.
Veturinn 1919-20 var á vegum félagsins starfandi saumaklúbbur, þátttakendur um 15 og höfðu þær dvalarstað í húsi mínu. Komu þær saman tvisvar í mánuði.
Félagið hafði fyrst húsnæði í Templarahúsinu, en er stúkurnar lögðust niður var gert ráð fyrir því að við keyptum húsið, en það var þó selt verkalýðsfélaginu Bjarma. Talin ástæða að félagið rækti ekki vel bindindisheitið. Til mín kom ágætur maður og vildi að ég skipaði rannsóknarnefnd. Hann hafði heyrt að nokkrir félagar hefðu setið yfir víndrykkju, en ég neitaði og taldi að félagið hefði ekki haft af því opinbera vansemd, ef rétt væri, þeir hefðu þá blótað á laun, enda væri bindindismálið ekki aðalstefnumál félagsins. Nokkrum árum síðar mættu nokkrir meðlimir undir áhrifum víns á samkomu félagsins og voru þá 6-8 reknir úr félaginu eftir heitar umræður.
Það, sem gerði félaginu mestu vandræði var meðal annars að félagið hafði ekki húsnæði til afnota, enda höfðu nokkrir menn reynt hið sama áður. Nokkrir eldri menn töldu starf okkar aðeins til fjáreyðslu og til þess að tefja frá nauðsynlegum störfum. Og það var víðar en á Stokkseyri, að ráðamenn sveita litu sömu augum á störf U.M.F. Þetta verkaði oftast öfugt. Félögin komu sér upp húsnæði og urðu samstæðari félagsheildir, eins og oftast verður þegar ráðist er á einstaklinga eða félög með rangindum.
Veturna 1919 og 20 voru ráðagerðir í félaginu um að byggja hús til eigin afnota, og um leið sæmilegt samkomuhús fyrir kauptúnið, er lyktaði með því að félagið gerði samning við hreppsnefndina um að húsið yrði að jöfnu eign hreppsins og félagsins, en með því skilyrði að félagið greiddi kr. 2000.00 áður en byggingin yrði hafin. Peningarnir söfnuðust frá meðlimum á einum fundi og var það mikið fé þá. Loforðin voru öll að fullu greidd. Sá fundur var skemmtilegur.
Húsið var byggt 1921 og vígt um haustið á fjölmennri samkomu. Ég hélt vígzluræðuna og er hún í blaði félagsins ,,Þór”. Einn vetur hafði félagið haft húsnæði í barnaskólanum en síðar í Bjarma, þar til húsið var byggt.
Árið 1922 héldu þeir þáverandi forsætisráðherra Jón Magnússon og Magnús Guðmundsson, stjórnmáfafund í húsinu og töldu þeir að það mundi vera glæsilegasta samkomuhús utan kaupstaðanna á þeim tíma.
Þann 16. okt. 1938 heimsóttu 27 gamlir félagar frá Reykjavík, Keflavík og Hafnarfirði félagið og héldu skemmtifund óbreyttan frá eldri árum. Á fundinum voru 130 manns, ágæt skemmtun og allir ánægðir. Nokkrum árum áður heimsótti fjölmennur hópur úr U.M.F. Velvakandi í
Reykjavík félagið og var það ánægjuleg skemmtun og fjölmenn.
Á fyrstu árum félagsins fór það að starfa að íþróttum. Sund kenndi fyrst Páll Þorgeir Bjarnason Pálssonar í Götu. Margir tóku þátt í þessum sundæfingum og urðu eftir það vel syndir, t.d. Símon Sturlaugsson, sem varð sá gæfumaður að bjarga konu frá drukknun. Kjartan Ólafsson fékk tilsögn í sundi hjá Páli Erlingssyni og synti svo hvern dag, hvernig sem viðraði, þar til hann fór í verið í Þorlákshöfn. Í einn vetur eða fleiri var nýjárssund í misjöfnu veðri og tóku nokkrir félagar þátt í því.
Sæmundur Friðriksson hóf kennslu í ísl. og grísk-rómveskri glímu haustið 1909. Árið 1912 var Sæmundur sæmdur silfurskildi af glímumönnum á Stokkseyri og í des. sama ár fór hann ásamt 2 eða 3 glímumönnum frá Stokkseyri í heimsókn til U.M.F. Reykjavíkur.
Sæmundur vann mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta í mörg ár fyrir félagið. Hann hélt uppi stöðugum æfingum og fyrir hans forgöngu var glímuflokkur félagsins talinn með beztu glímuflokkum landsins og hafði yfirburði yfir alla aðra á suðurlandi, utan Reykjavíkur. Fyrsta íþróttamótið var haldið við Þjórsárbrú 6. júlí 1910. Grísk-rómverska glímu sýndu þeir Sæmundur Friðriksson frá Stokkseyri og Haraldur Einarsson frá Vík, er hlaut Skarphéðinsskjöldinn og klöppuðu áhorfendur mikið.
Glímuskemmtanir voru flest árin frá 1910. Venjulega byrjuðu þær með því að íþróttamenn sungu sjálfir glímusönginn eftir Sigurð frá Arnarvatni: ,,Lifa enn hjá lýði.” Heiðursgestur var nokkur fyrstu árin, Jón Adólfsson, Grímsfjósum. Iðkaði hann íþróttir á yngri árum. Hann var lágur vexti, þrekinn og rammur að afli.
Árið 1911 varð Bjarni Bjarnason nú á Laugarvatni skjaldhafi, næstur Ásgeir Eiríksson. Árið 1912 varð Páll Júlíusson frá Syðra-Seli skjaldarhafi. Árið 1914 Bjarni Sigurðsson frá Ranakoti. Árið 1913 voru veitt verðlaun í fegrunarglímu. Hlaut þau Ásgeir Eiríksson Stokkseyri og aftur 1915, fyrstu verðlaun. Síðasta glímusýningin fram til 1924 mun hafa verið 1921. Magnús Torfason sýslumaður flutti fyrnt erindi um íþróttir og svo var glímusýningin. Ég sat við hlið hans og sá hve hann fylgdist með af lifandi áhuga. Vildi hann vita nöfn allra þátttakenda, einkum þeirra, sem hann taldi kraftalega í vexti. Síðar gaf hann félaginu 100.00 kr. til kaupa á íþróttaáhöldum. Hann sagði mér er ég fylgdi honum að náttstað að hann hefði ekki skemmt sér eins vel í 20 ár eða lengur.
Hver var ástæðan fyrir því að við megnuðum að gera starf félagsins svo glæsilegt í kauptúni, sem var afskeggt miðað við samgöngur þeirra tíma? Stokkseyri var friðsamt kauptún, ef einhverjir mættu erfiðleikum vildu allir hjálpa þeim, sem voru hjálparþurfi. Málaferli og illdeilur þekktust ekki þar, sem þó átti sér stað í öðrum kauptúnum. Í þessum jarðvegi, sem meðlimir félagsins voru aldir upp við, hafði umhverfið áhrif sín á félagana. Félagið varð friðsöm félagsheild eins og kauptúnið, vel samtaka og illdeilulaust. Slíkt félag getur orkað miklu. 50 ára starfsæfi er venjuleg mannsæfi.
Af stofnendunum eru nú aðeins 3, sem ekki eru fallnir í valinn. Þeir Ásgeir Eiríksson, Þórður Jónsson og Ingvar Hannesson. En félagið hefur „gengið til góðs götuna fram eftir veg.” Félagið var viðurkennt eitt hið glæsilegasta fyrir íþróttir á Suðurlandi utan Reykjavíkur og víðar í mörg ár. Fyrir okkar starf var byggt glæsilegasta samkomuhús austanfjalls og félagsstarfsemin talin ágæt. Þar sem slíkt félag hefur starfað og aldrei lagst niður, ætti það að vera talin sæmd kauptúnsins að félagið lifði lengur og vel. Gamlir félagar minnast með ánægju samstarfsins og gleðjast við að rifja upp minningar um störf félagsins.