003-UMFS 50 ára

Upphafið að hugsjónum og starfi ungmennafélagsskaparins, er í beinu framhaldi af þeim þjóðlegu vakningaröldu sem margra alda niðurlægingu íslenzku þjóðarinnar var vakin af Fjölnismönnum og Jóni Sigurðssyni á öndverðri 19. öldinni. Áhrif þeirrar vakningar voru mikil og djúptæk, sem æska landsins var hugfangin af. Verkefni voru mörg: Fegrun móðurmálsins. Alhliða sókn fyrir frelsi landsins og þjóðarinnar. Að gera þjóðina að nútímamenningarþjóð, andlega og efnahagslega, eins og þegar þjóðin var alfrjáls og hér dafnaði menning sem ekki átti sinn líka í álfunni.

Ungmennafélagshreyfingin barzt hingað til landsins í byrjun aldarinnar með ungum Akureyringum, Jóhannesi Jósefssyni og Þórhalli Bjarnasyni prentara, sem verið höfðu við nám í Noregi og kynnst þar félagsskapnum.

Leiddi það til þess, að ungmennafélag Akureyrar, sem var fyrsta félagið hér á landi, var stofnað 7. janúar 1906.

Í kjölfar þess voru á næstu misserum fjölmörg félög stofnuð, í sveit og við sjó. Þeir sem muna þá tíma er félögin voru að hefja starf sitt og festa hér rætur, minnast þeirrar hrifningar og eldmóðs sem greip hugi unga fólksins. Heit voru unnin að hrinda svefni og sækja fram til stórra átaka og dáða. Bar margt til þess. Verkefni sem félögin höfðu á stefnuskrá sinni voru fjölþætt og mörg að skapi æskunnar, ræktun lands og lýðs á grundvelli ættjarðarástar, þjóðrækni og trúrækni. Unnið var að margvíslegum viðfangsefnum og þau rökrædd. Ekkert mannlegt var þeim óviðkomandi, en helztu áhugamálin voru málverndun, skógrækt, íþróttir og hverskonar félagsstarfsemi. Baráttan fyrir stjórnarfarslegu frelsi þjóðarinnar stóð sem hæst. Hún var að sprengja af sér fjötra kyrrstöðurnar og vakna til meðvitundar um nauðsyn efnahagslegrar þróunar og alhliða þroska hvers einstaklings. Hún skildi að „Lífsnautnin frjóa, alefling andans og athöfn þörf” er grundvöllur betra og fullkomnara lífs.

Þeir sem fæddir eru fyrir og um aldamótin síðustu eru það hamingjusamir, að hafa lifað þær gagngerðustu og æfintýraustu breytingar og framfarir sem yfir íslenzku þjóðina hefir komið allt frá landnámstíð. Ungmennafélögin sameinuðu alla æsku landsins til að verja tíma og kröftum rétt.”

Aldamótamennirnir, sem svo eru nefndir, minnast með gleði og þakklæti þeirra tíma, er þeir áttu í ungmennafélagsskapnum fyrstu árin og vildu ekki fyrir nokkurn mun hafa farið á mis við þau góðu áhrif og þroskavænlega gildi sem starfið innan þeirra hafði á þá.

Margir þeir er hlutu uppeldi sitt þar og ruddu brautina telja félagsstarfið hafa verið sér hinn bezta skóla til manndóms og þroska. Hafa líka margir þeirra reynzt vel þegar „heill og forráð þessa lands“ hefir færzt yfir á þeirra herðar og þeir hafa tekið við hinum vandasömustu störfum þjóðfélagsins. Margar þær framfarir sem hér hafa orðið fyrir helming aldarinnar eru fyrst ræddar og hugsaðar í ungmennafélögunum, en síðan orðið að veruleika er áhrifa þeirra hefir farið að gæta meira í þjóðlífinu.

Ef ætti að rekja sögu U.M.F. Stokkseyrar þá hálfu öld sem það hefir starfað, er hætt við að yrði að fara fljótt yfir sögu. Margt það er gerðist fyrstu árin er gleymt og heimildir glataðar. Þeir eru næsta fáir sem nú eru ofan foldar hinna áhugasömu og lífsglöðu sveina, sem fullir þróttar og vordrauma hófu upp merkið á stofndegi. Nú munu aðeins þrír úr þeim hópi vera lifandi.

Ungmennafélag Stokkseyrar var stofnað hinn 15. marzmán. árið 1908. Stofnendur voru alls 39. Meðal þeirra nokkrir ungir áhugamenn úr öðrum sveitum, sem dvöldu hér um stundarsakir við sjóróðra. Upphaflega voru það einungis piltar sem gerðust félagar, en þegar á fyrsta starfsári bættust stúlkurnar í hópinn. Fyrsti formaður félagsins var Kjartan Guðmundsson ljósmyndari frá Hörgsholti í Hrunamannahreppi, síðar útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, er nú látinn fyrir nokkrum árum síðan. Ritari Ingvar Jónsson verzlunarmaður á Stokkseyri og jafnframt ritstjóri skrifaðs blaðs, sem hóf göngu sína þegar á stofnfundi og hlaut nafnið Þór. Birtust í því margar vel ritaðar og skemmtilegar greinar um ýmislegt efni. Vegna brottflutnings úr þorpinu var Kjartan ekki formaður nema stuttan tíma, tók þá við formennsku Páll Bjarnason skólastjóri, gáfaður mælskumaður, sem var frumkvöðull að stofnun margra fyrstu ungmennafélaganna í sýslunni; við formennsku af honum í félaginu tók Þórður Jónsson bókhaldari, mjög duglegur maður og áhugasamur um öll félagsmál. Var hann formaður þess í 12 ár samfleytt og má vafalaust telja þann tíma mesta blómaskeið félagsstarfseminnar.

Eins og víðar fór starfið smá saman hnignandi eftir 1920. Lágu til þess ýmsar ástæður, hinir elztu félagsmenn sem mest hafði hvílt á frá upphafi hurfu úr sögunni, fólki fækkaði í kauptúninu og önnur áhugamál greip hugi unga fólksins.

Á fyrstu starfsárum félagsins var mest áherzla lögð á íþróttir, einkum íslenzka glímu og sund. Voru æfingar stundaðar af kappi allan veturinn og opinberar sýningar 3-4 skifti á hverjum vetri. Fór orð af því, að félagið ætti snjalla og vel þjálfaða glímumenn, sem með góðri ástundan voru vel á vegi með að gera hina fornu þjóðaríþrótt að sannri list. Unnu nokkrir þeirra til verðlauna í glímukeppni á íþróttamótum Íþróttasambandsins Skarphéðins að Þjórsártúni.

Samheldni, trúnaður og einlæg vinátta einkenndi allt starf gamla glímuflokksins í þá daga. Minnist ekki sá er þetta ritar, að nokkru sinni hafi risið upp missætti eða ágreiningur meðal þeirra. Er gott að eiga slíkar endurminningar.

Við ýmsa erfiðleika var þó að stríða, einkum var aðstaða til æfinga slæm. Engin viðunandi íþróttahús, sem boðleg mættu teljast, bæði köld og óþrifleg. Í þessu sambandi vil ég taka hér upp kafla um þessa aðstöðu okkar úr bréfi, sem birt er í afmælisriti héraðssambands Skarphéðins 40 ára.

,,Aldrei mun áhugi á iðkun íþrótta, einkum glímunnar, hafa verið jafnmikill og á fyrstu 5-6 árum sambandsins (Í.S.K.) Þó voru hin ytri skilyrði mun verri en síðar varð. Höfðu unglingar þá færri frístundir frá vinnu, og öll þægindi og aðbúð mun lakari til æfinga en nú. Var oft harðsótt hjá þeim sem um langan veg áttu að sækja til æfinganna. Húsnæði svo kalt og óvistlegt, sem mest mátti verða. Þætti slíkt ekki mönnum bjóðandi nú á tímum. En erfiðleikarnir drógu þó hvorki úr áhuganum né stóðu viðfangsefnunum fyrir þrifum.

Ætti þeim, sem nú leggja stund á íþróttir, þætti sér ekki misboðið, ef þeir sættu sömu kjörum og undirbúningi undir íþróttakeppni og við glímumenn þá áttum eitt sinn við að búa nóttina fyrir sjálft íþróttamótið. Við lágum úti í Dælarétt mest alla nóttina í klasarigningu. Glömruðu í okkur tennurnar, um svefn var ekki að ræða, og sulturinn svarf að. Við þessar aðstæður eftir slíka nótt áttum við að þreyta kappraun að morgni – og þrátt fyrir allt vorum við glaðir og kviðum engu – en það er önnur saga.”

Eitt mesta áhugamál félagsmanna var að eignast viðunandi húsnæði til starfsemi sinnar. Hafði það mál verið oft til umræðu á fundum, og að undirbúningi þess unnið af miklum dugnaði. Samningar tókust loks við hreppsnefndina að ganga til samstarfs við félagið um byggingu samkomuhúss, sem skyldi vera kostað að hálfu af hvorum aðila. Lokið var byggingunni árið 1921.

Húsið var 12×25 álnir, hæð 6 álnir undir loft. Byggingarkostnaður nál. 24500 kr. Þótti það á þeim tíma eitt fullkomnasta og glæsilegasta félagsheimili hér austan fjalls.

Sögðu félagsmenn mikla vinnu í að afla tekna til greiðslu á kostnaði vegna húsbyggingarinnar. Á fyrsta ári þess var æfður sjónleikurinn „Skugga-Sveinn” og sýndur oft við mikla aðsókn og þótti með afbrigðum vel leikinn. Gekk allur ágóði af sýningunum til samkomuhússins. Voru fleiri samkomur haldnar á næstu árum til tekjuöflunar í sama skyni. Lögðu félagsmenn fram mikla vinnu og fyrirhöfn, án nokkurs endurgjalds.

Enn eru ótalin mörg verkefni sem starfað hefur verið að á vegum ungmennafélagsins og hvert út af fyrir sig hafði þroskavænlegt gildi á uppvaxandi æskufólk sem þar starfaði. Má þar til nefna fundina sem oft voru vel undirbúnir og skemmtilegir. Lærðu þar margir að koma fyrir sig orði, sem þeim hefir komið að góðu gagni síðar í lífinu. Venjulega byrjuðu fundirnir með því að sungið var eitt eða fleiri lög og að þeim enduðum sungið, dansaðir þjóðdansar og farið í ýmiskonar leiki.

Oft voru á fyrri árum félagsins fengnir fyrirlesarar til að flytja fræðandi erindi um ýmiskonar efni. Má þar fyrstan telja fræðimanninn og æskulýðsleiðtogann Guðmund Hjaltason, sem ferðaðist um á vegum ungmennafélaganna, Helga Valtýsson, Jónas Jónsson, Bjarna Ásgeirsson, Jón Jónatansson, Stefán Hannesson, sr. Gísla Skúlason, Pál Bjarnason o.fl. ágætra ræðumanna sem sóttu okkur heim. Var það fræðandi og hvatning í félagsstarfinu að hlusta á erindi slíkra snillinga í ræðumennsku.

Sá háttur hefur lengi verið á hafður að félagsstarfið hefur verið greint í margvíslega hópa, eða flokka, sem hver út af fyrir sig hefur haft sérstaka stjórn og afmarkað verkefni. T.d. glímuflokkur, leikfimisfilokkur, fræðsluflokkur, hannyrðaflokkur, taflflokkur, skautaflokkur, sundflokkur, málfundaflokkur o. s. frv.

Sumir þessara flokka hafa ekki orðið langlífir. Starfað aðeins í fá ár; aðrir eru ennþá starfandi, þó áhuginn sé hnignandi og lítið að gert, samanborið við það sem áður var.

Á fyrstu árunum var erfiðara um samgöngur og ferðalög en nú er orðið, þó kom það fyrir að félagarnir fóru í lengri og skemmri hópferðir til nafnkenndra staða, og þá einnig í heimsókn til nágrannafélaganna. Höfðu menn oft mikla ánægju af slíkum ferðum og góðar minningar.

Um eitt skeið hugðist félagið koma sér upp trjágarði, sem var eitt af áhugamálum ungmennafélaganna, að klæða landið skógi. En þessi tilraun misheppnaðist gjörsamlega eins og víðar. Virðast skilyrði slæm til þess að slíkur gróður geti þrifizt, hér niður við ströndina.

Voru þó mörg dagsverk unnin við þetta af félagsmönnum við að girða landið og undirbúa það undir gróðursetningu plantnanna, en þrátt fyrir vonbrigðin, sem þessu voru samfara höfðum við gott af áreynslunni og skemmtun af samstarfinu þær stundir er varið var til þessa.

Þegar litið er til baka og við látum hugan reika um minningarnar frá liðnum árum og löngu liðna atburði í starfi og leik fyrir hugsjónamálum ungmennafélagsins verður sú spurning ofarlega,

,,Hvað er þá orðið okkar starf í þau 50 ár sem liðin eru frá stofnun U. M. F. Stokkseyrar?

Þess má víða sjá merki, að sú kynslóð sem tileinkaði sér hugsjónamál ungmennafélagsskaparins í æsku og starfaði í þeim anda þau settu sér í upphafi hefir ,,gengið til góðs götuna fram eftir veg“. Vegna áhrifa frá þeim hefur margt áunnist, sem til hagsbóta og framfara horfir með þjóðinni, það hálfrar aldar skeið, sem liðið er frá því þau hófu göngu sína. Má vafalaust þakka þeim að miklu leyti skjóta og giftusamlega lausn þeirrar frelsisbaráttu, sem endaði með endurreisn lýðveldisins og fullkomnu sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar.

Þó að okkur eldri mönnum, sem erum að dragast aftur úr, og finnum að við erum að verða gamlir, sýnist að afturkippur sé komin í félagsstarfið og því hafi farið síhnignandi síðustu áratugina, er það ef til vill ellinnar varra nöldur; ,,heimur versnandi fer.“

Unga fólkið í dag hefur allt aðrar skoðanir og skapgerð en aldamótaæskan, enda hefir margt breyzt á þeim árum.

Upplausn sú er siglt hefir í kjölfar tveggja heimsstyrjalda hefur leitt hugi unga fólksins inn á nýjar leiðir; ólíkar því sem einkenndi störf brautryðjandanna, og fjarlægt það þeirri fórnfýsi í verki og tryggð við hugsjónir sem krafizt er af hverjum góðum ungmennafélaga.

Eirðarleysi komið í stað vinnugleði við þroskavænileg störf, og meiri kröfur gerðar til annara fyrst og fremst, en minna hugsað um að gera kröfur til sjálfs sín.

Vonandi er þetta aðeins stundarfyrirbrigði. Sú er ósk mín að góða gamla félagið okkar hefji sig brátt uppúr þeim öldudal sem það er nú statt í, og það eigi ennþá eftir að vinna göfugt starf, sem eins og áður er byggt á hinni þjóðlegu sveitamenningu, unnið úr fjársjóði þjóðtrúar og sagna.

Mín bezta afmælisósk til félagsins er, að sá andi er sveif yfir vötnunum á fyrstu árum þess megi endurvekjast, að sá hugsjónaeldur og heiðríkja er því var samfara megi verða því „langra kvelda jólaeldur.”

Ásgeir Eiríksson

Leave a Reply

Close Menu