006-Eftir aldarhelming

Hálf öld er liðin frá upphafi Ungmennafélags Stokkseyrar. En hvað þetta virðist ótrúlega stutt, þegar litið er til baka. Við gamlir Stokkseyringar, sem ungir fluttumst úr átthögum okkar, höfum margs góðs að minnast frá fyrri dögum austur þar. Fyrir hugarsjónum okkar rís oftlega mynd af litlum kaupstað, með grænum túnum og stórum matjurtagörðum. Við sjáum í anda lónin við ströndina, þar sem við iðkuðum sund i æsku, en úti fyrir er skerjagarðurinn þar sem „ bylgjubreiðfylkingar bjartfaldaðar sækja að strönd.“ Minnisstæð er okkur hin fagra fjallasýn, þegar „sólargljá og sumarblær sveif um bláa tinda.“ Ungmennafélagið er þó mörgum okkar hugstæðast. Frá því eigum við ýmsar okkar ágætustu æskuminningar. Það var okkar skóli. Þar lærðum við fyrst að beita starfiskröftum dkkar í baráttu fyrir fögrum hugsjónum. Þar nutum við hollra skemmtana í hópi góðra félaga.

Eflaust er það, að unglingum, sem alast upp við næg og holl viðfangsefni, hættir síður til að leiðast út á villigötur. Jafnvíst er hitt, að iðjuleysið er undirrót margs ills. Á því hvernig unglingarnir eyða tómstundum sínum veltur það oft, hvort þeir verða nýtir menn og góðir þjóðfélagsþegnar. Tómstundaiðja okkar strákanna á Stokkseyri var ekki á marga fiska áður en við kynntumst félagsmálastörfunum. Við eigruðum húsa á milli og slæptumst í sölubúðum. Ægir konungur er mislyndur og oft gaf ekki á sjó um langan tíma. Okkur vantaði verkefni.

En þá kom Ungmennafélagið til sögunnar og það gjörbreytti öllu okkar athæfi. Nú höfðum við nóg að gera í tómstundum okkar. Við áttum að iðka íþróttir og við áttum að læra að koma fyrir okkur orði á mannfundum. Fyrir þessu var barizt af ýmsum góðum forystumönnum, en lengst og bezt af þeim Þórði Jónssyni og Sæmundi Friðrikssyni, sem á þeim árum stjórnuðu sínum höfuðþættinum hvor í starfi félagsins. Og markið var sett hátt. Við urðum að lofa því að neyta ekki áfengra drykkja. Við lofuðum að vinna af alhug að heill félagsins, að framförum sjálfra okkar og annarra, bæði andlega og líkamlega, og yfirleitt að styðja og efla allt það, sem mætti verða þjóð okkar til gagns og sóma. Það voru svo sem engar smáræðis byrðar, sem við ætluðum að binda á okkar ungu herðar.

Ekki sæmir að við dæmum sjálfir um það, gömlu ungmennafélagarnir, hversu okkur hafi tekizt að vinna að þessum stóru verkefnum og halda þau heit, sem við gáfum félagi okkar á morgni ævinnar. Hitt leyfi ég mér að fullyrða, að áhrifin frá vakningarstarfsemi U.M.F. Stokkseyrar hafa verið mikil og margþætt. Félaginu tókst að skapa glæsilega og landskunna íþróttamenn. Og þess er gott að minnast, að þessir íþróttamenn urðu einkum frægir fyrir fagra glímu og drengskap í kappleikjum. Málfundir félagsins höfðu mikil áhrif til menningar og þroska. Þegar við vorum farin að taka þátt í umræðunum, þá varð okkur fljótlega ljóst að okkur skorti tilfinnanlega þekkingu. Úr þessu var reynt að bæta með öflun góðra bóka, eftir því sem föng voru á. Fundirnir glæddu því lestrarog fróðleikslöngun unga fólksins um leið og þeir æfðu það nokkuð í orðsins list.

Skrumlaust mál er það, að Ungmennafélög Íslands sköpuðu nýtt tímabil í menningar- og framsóknarbaráttu þjóðarinnar. U.M.F. Stokkseyrar hefur átt merkan þátt í því menningarstarfi, á sínu sviði. Við, gömlu félagarnir, höfum margt að þakka frá fyrri árum. Ungmennafélagið vakti hjá okkur hollan baráttuhug og bjartsýni. Það færði út landamæri hugans og leitaðist við að gera okkur að vöskum mönnum og batnandi.

Þá afmælisósk á ég bezta til U.M.F. Stokkseyrar, að það megi ætíð hafa jafn góð og gifturík áhrif á æskulýð staðarins eins og á fyrstu árum sínum. Við, sem þess nutum, yljum okkur enn við þá elda, sem okkar góða, gamla félag kveikti fyrir fimmtíu árum.

Kjartan Ólafsson

Leave a Reply

Close Menu