60-Athugasemdir

Í riti Jóns Pálssonar, ,,Austantórum“ II, er minnzt á afa minn, Hannes á Litlu-Háeyri, og er persóna hans gjörð mjög auðvirðileg. En þar sem umsögn Jóns er ekki sannleikur, vildi ég gjöra eftirfarandi athugasemd:

Sannorðir menn, sem nú ern flestir dánir, minntust hans sem góðs nágranna, sögðu hann barngóðan og hjálpsaman og töluðu aldrei um hann nema samhliða góðum endurminningum og í öllu gagnstætt umsögn Jóns. En sennilegt er, að Jón hafi viljað gjörast siðameistari afa míns á gamalsaldri, en hann gefið honum það svar, sem honum hefur orðið minnistætt, þó það hefði átt að vera gleymt, eftir að hann hefur legið nær 60 ár í gröfinni.

Hannes bjó á Litlu-Háeyri, sem fyrr segir. Þar var tvíbýli. Á móti honum bjó Jón, sonur Jóns Hafliðasonar, og kona hans, Þórdís Þorsteinsdóttir, systir Elínar konu Þorleifs Kolbeinssonar á Stóru-Háeyri. Jón og Þórdís áttu 3 syni, Helga, Sigurð og Guðjón, er allir urðu nafnkunnir formenn austan fjalls. Þessir bræður ólust upp með Hannesi, og var þeim sérstaklega hlýtt til hans, og að honum látnum lét Sigurður dóttur Sína heita eftir honum.

Ólafur, sonur Hannesar, fór til Ameríku 1872, og þann dag, er hann fór, fór Hannes austur í Hraunshverfi og dvaldi þar allan daginn, því hann gat ekki kvatt hann. Fjórtán árum seinna fór Jóhanna, dóttir hans, einnig til Ameríku. Þann dag fór Hannes út að Óseyrarnesi og dvaldi þar. Þetta sýnir hans sára söknuð og viðkvæmu tilfinningar.

Gísli Gíslason bjó á jörðinni Steinskoti. Þegar hann missti konu sína, kom hann syni sínum ungum, Jóhanni að nafni, til fósturs hjá Hannesi, nágranna sínum, og það hefði hann ekki gjört, hefði Hannes ekki tímt að eta eða tímt að veita öðrum. Jóhann varð kunnur formaður austan fjalls, og hann taldi ávallt Hannes og konu hans sem sína aðra foreldra.

Séra Páll Sigurðsson, síðar í Gaulverjabæ, var heimiliskennari á Litla-Hrauni og barnakennari á Eyrarbakka árin 1863-66, og var faðir minn nemandi Páls, Þegar Páll kom austan frá Litla-Hrauni til barnakennslunnar á Eyrarbakka, var hann ríðandi og kom þá alltaf til Hannesar á Litlu-Háeyri og skildi þar eftir hest sinn og fór úr reiðfötum. Ekki er líklegt, að þessi stórbrotni gáfumaður veldi auðvirðilegasta heimilið til að koma á.

Að endingu vil ég segja, að það er með mig sem fleiri, þegar þeir heyra ósönn, óverðskulduð ummæli um sína nánustu, þá geta þeir ekki orða bundist,

Reykjavík, 10. maí 1947.

Sigurjón Jónsson frá Litlu-Háeyri.

Leave a Reply

Close Menu