59-Í kaupavinnur á árunum 1889-1894

Sumarið 1889 fór ég „að eiga með mig sjálfur“, sem kallað var, og fór ég þá í kaupavinnu til Halldórs gamla Halldórssonar hins ríka að Vatnsleysu í Biskupstungum gegn 12 króna kaupi fyrir viku hverja, að helmingi greiddar í peningum, en að hinum helmingnum „í góðu og vel verkuðu smjöri“. Var þetta hæsta kaup fyrir vinnu þá, er kaupamenn áttu að inna af höndum. Var eigi goldið meira, hversu miklir víkingar sem menn voru til vinnu við slátt, heybindingu eða hvað annað, sem þeir áttu að stunda um sláttinn.

Þau fimm ár, sem ég var kaupamaður, fékk ég ávallt sama kaupið, 12 krónur um vikuna, og var það jafnan goldið á sama hátt, að hvorum helmingi í peningum og smjöri.

Vegna vinnu minnar við I. R. B. Lefoliisverzlun öll þessi ár, einkum á vorin, varð ég síðbúnari í kaupavinnuna en flestir aðrir, og þar eð lestum var eigi lokið fyrri en um 20. júlí, fékk ég mig ekki lausan frá verzlunarstörfum fyrri en um það leyti. Fyrir þessi störf fékk ég sama kaup og í kaupavinnunni eða 2 krónur hvern virkan dag, en á sunnudögum var aldrei unnið, og var það kaup goldið að einum þriðja hluta í peningum og að tveim þriðju í vörum eða innskrift í reikning minn við verzlunina. Að haustinu til og um vetur fékk ég 20 – tuttugu – aura í kaup um klukkutímann við skriftir í skrifstofu verzlunarinnar eða sama kaup og kennari við: barnaskólann. Var þetta hæsta kaup, sem goldið var á þeim tímum fyrir slíka vinnu, og átti ég venjulega helming þess óskertan að vinnutímanum loknum.

Frá þessu svo og tilhögun vinnunnar hef ég sagt á öðrum stað, en hér einungis getið til þess að sýna, hversu kaup manna var þá naumt og ólíkt því, sem nú er. Að vísu var þá allt það, sem nota þurfti til daglegra þarfa tiltölulega ódýrt. Til dæmis kostaði fæði 50 aura á dag, húsaleigan fyrir tveggja manna herbergi 10 krónur eða 5 krónur fyrir hvern og þjónusta 2 krónur á mánuði að undanskildu líni um háls og hendur, sem einnig var ódýrt.

Þegar að því kom að fara í kaupavinnu, beið ég ekki boðanna, tók Grímsfjósa-Skjóna, sem góðvinur minn, Sigurður Jónsson í Grímsfjósum, lánaði mér, lagði á hann reiðtygin og reið svo „lausamannareið“ út um sveitirnar, sæmilega upp með mér af því að vera nú orðinn „kóngsins lausamaður“ og þóttist nú mega létta mér upp. Grímsfjóra-Skjóni var annálaður ágætishestur, viljugur og örskjótur á fæti. Ég var 23 ára að aldri, hraustur vel og heilsugóður. Þótt ég væri enginn kraftajötunn né þrekmaður, var ég iðinn við vinnu mína, ólatur og svo kappsamur, að mörgum þótti nóg um og sumum, að ég væri óþarflega afskiptasamur um vinnu þeirra og jafnvel vinnuharður, enda hataði ég hlédrægni alla og leti.

Ég hafði aldrei fyrr komið í Tungurnar, en þekkti séra Magnús Helgason á Torfastöðum frá því að við vorum saman í Bakkabúðinni nokkuru áður. Hjá honum var ég fyrstu nóttina, og daginn eftir lánaði hann mér Boga Þórðarson, ungan pilt og röskan, til fylgdar mér að Vatnsleysu. Þegar þangað kom, var búið að slá nokkurn hluta túnsins, góður þurrkur var í vændum, og var vel á móti mér tekið.

Fólkið á Vatnsleysu var flest við aldur og engin börn. Sofið var og matazt í góðri og rúmgóðri baðstofu, einn maður í hverju rúmi. Heimilið var þrifalegt, vel um gengið, en í engu íburðarmikið. Húsbóndinn, Halldór gamli, var háaldraður maður og heilsutæpur mjög. Sonur hans, Halldór yngri, ,,Dóri litli“, var þá hálfþrítugur, d. 22. júlí 1944, 80 ára að aldri, vinnumaður hinn mesti, en virtist þó eigi vera mikill fyrir mann að sjá. Ráðskonan var miðaldra kvenmaður, myndarleg og dugleg. Hún var austan úr Holtum og kaupakonan, ung og lagleg stúlka, var vinnukona Jóns Þórarinssonar í Flensborg. Vinnumaður í vesturbænum var Einar Einarsson frá Kotlaugum. Annað fólk var ekki í vesturbænum á Vatnsleysu, en í austurbænum var margt fólk, allt uppkomið og þ. á. m. góðvinur minn, hið elskulega gamalmenni Einar Guðmundsson, mágur (?) Halldórs gamla.

Þegar úr túnum var komið og taða komin í hlöðu, var farið ,,upp í fjall“, Fellsfjall, til að heyja í hinni svonefndu Gjóstu, mýrarsundi milli tveggja holta þar uppi, forarfeni hinu mesta, er ég hef þekkt, eintómum leiri og lækjardrögum, en loðnu gulstarargrasi. Þegar rigningin og rosinn tóku svo við að „verka“ þetta óféti, var það óhrjálegt við að eiga í hirðingu þess. Síðan var slegið með Gilinu við Svínhöfða og meðfram Fellsfjalli austanverðu. Var það skemmtileg vinna, fólkið kappsamt og ötult vel.

Um sumarið var mér falið að annast söng allan við messugjörðir á Torfastöðum, og varð ég hrifin mjög af kenningum séra Magnúsar, en síður af tóni hans fyrir altari, því ámátlegri róm hef ég aldrei heyrt, enda hætti hann að tóna og las upp kollektur allar og pistla upp frá því. Um aðrar helgar riðum við út, Einar gamli og Einar vinnumaður. Voru það einhverjar hinar skemmtilegustu stundir ævi minnar að vera með þeim, því Einar gamli var fróður vel og skrafhreyfinn, en nafni hans fullur af gamansemi og glettum.

Næsta sumar, 1890, var ég einnig kaupamaður á Vatnsleysu.

Ráðskonan frá árinu áður var þá farin og önnur komin í hennar stað. Hét hún Eyvör, myndarleg stúlka á þrítugsaldri. Kaupakonur voru tvær, önnur úr Grindavík, en hin af Suðurnesjum, framúrskarandi duglegar konur og vel verki farnar. Var nú ekki slegið í Gjóstunni, heldur í mýrinni milli Fellskots og Vatnsleysu. Mýrin var blaut, snögglend og þýfð, og rann lækur um hana úr fjallinu austur í gilið við Svínhöfða, sem áður er getið.

Um miðsumarið var rosakafli, og safnaðist þá fyrir nokkuð hey, er eigi varð hirt. Um vikulok ein sættum við það upp á föstu- og laugardegi, en á sunnudeginum riðum við félagarnir þrír til Úthlíðarkirkju. En er við komum upp á Fellsfell, því að þar lá leið okkar, sjáum við fólk allt við heyhirðingu á öllum bæjum þar í sveitinni. Snerum við þá hið bráðlasta heim, hittum Halldór gamla úti við og létum nú ófriðlega mjög um það að mega fara að hirða sætið frá dögunum á undan. Hann tók því fjarri og sagði:

„Þótt ég hafi sjaldan latt menn frá vinnu, hef ég aldrei látið vinna neitt á sunnudögum nema venjuleg heimilisstörf. Þessu breyti ég nú ekki og banna ykkur að hreyfa við einu einasta strái í dag!“

Við bentum honum á útlitið, blikuna í suðri og vinnubrögð annarra manna þar í sveitinni þá um daginn. En karlinn sat við sinn keip og sagði:

„Það verður ekki mikil rigning á morgun, – veðurútlitið segir mér það, – en úr því vil ég fátt um segja. Þið fáið náð heyinu undan rigningunni, og ég vil ekki, að þið hreyfið við því í dag. Það væri þá í fyrsta skipti, sem ég léti menn vanhelga hvíldardaginn með ónauðsynlegri vinnu!“

Við það sat, en við brunnum í skinninu að mega fara í heyið og ná því heim um daginn. Klukkan hálftvö um nóttina vaknaði Dóri litli og náði í 10 heimburðarhesta. Klukkan þrjú byrjaði ég að binda og hélt því sleitulaust áfram til klukkan níu um kvöldið. Var þá hvert heystrá kornið í hlöðu, því að engin rigning varð um daginn. Einar vinnumaður tók á móti heyinu í hlöðunni, en Dóri litli fór á milli. Reið hann ávallt skokk báðar leiðir og því fóru tvær sátur úr bandinu um daginn. Um hádegisbilið skipti ég um aðstoð kvennanna, og kom þá önnur til óþreyttari til bindinganna með mér á þeim 182 heybandshestum, sem við bundum og hirtum heim í hlöðuna.

Að bindingunni lokinni gerði ég þá vitleysu að hlaupa austur í gilið hjá Svínhöfða og steypa mér þar á kaf í helkalt bergvatnið, svo kófsveittum sem ég var. Hvílík erkivitleysa! En ekkert varð mér þó meint við það.

Daginn eftir var komin ausandi rigning, og sagði þá Halldór gamli:

„Þetta mátti sjá á veðurútlitinu. Ég þakka ykkur fyrir störfin í gær, en hér á Vatnsleysu hefur enginn bundið á svo marga hesta á einum degi sem hann Jón Pálsson!“

Árið 1940 hitti ég konu eina austan af Skeiðum, er að fyrra bragði spurði mig, hvort það hefði ekki verið ég, sem var kaupamaður á Vatnsleysu og bundið þar á 200(!) hesta á dag.

„Svo margir voru þeir nú ekki. En munið þér eftir því?“ sagði ég.

,,Nei, en ég hef oft heyrt þess getið og að það hafi verið óvenjulegt verk“, sagði hún.

Nú mætti spyrja: ,,Hví ert þú að minnast á þetta?“ ,,Vitanlega af monti einu!“, og læt ég það svar nægja!

Halldór gamli á Vatnsleysu var efnaður vel eða jafnvel ríkur.

Hann átti t. d. alla Tungufellstorfuna, Vatnsleysu að minnsta kosti hálfa, Bolafót og margar jarðir aðrar í Hreppum og Tungum.

Einbirni hans, Dóri litli, missti þetta allt saman, vegna sjálfskuldarábyrgða sinna í bönkum og við einstaka menn, en endaði svo ævi sina hér „á bænum“ (Elliheimilinu Grund), enda var hann bóngóður maður, fremur einfaldur og gat engum neitað, sem á leitaði um hjálp hans og styrk Gamli maðurinn hefði eflaust getað hrundið því af sér og séð við brögðum bölvættanna, vesalinganna, sem engu fengu áorkað nema því, að verða öðrum saklausum „vinum“ sínum til skaða.

Til dæmis um vinnusemi og vinnuhörku Halldórs gamla er eftirfarandi saga:

Það var komið fram yfir höfuðdag, tungl kvöldsett og fólk hans allt með honum að slætti svo lengi frameftir kvöldinu, að eigi sást lengur til þess að slá. Var þá haldið heim, og var það rúmrar klukkustundar leið fyrir gangandi menn. A miðri leið staldrar Halldór við, lítur í austrið og sér, að tunglið er að koma upp. Segir hann þá við fólk sitt:

„Of fljótt fórum við! Tunglið er að koma upp, og nú sæjum við til að slá!“ Var þó haldið heim á leið lengra fram, en þetta sýnir hug gamla mannsins þá stundina.

Halldór gamli í Vatnsleysu var hár maður vexti, vel vaxinn, höfðinglegur á svip og gáfulegur Hann var glaður í viðmóti og ræðinn, enda fróður um margt og fylgdist vel með öllu, er fram fór, en einkum var honum sýnt um fjármál og búsýslu, áreiðanlegur í viðskiptum og sannsýnn, þótt eigi léti hann hlut sinn. Nízkur var hann ekki, en aðgætinn vel í viðskiptum sínum við aðra. og laus við alla sýtingssemi. Það, sem sagt var og um samið, varð að standa sem stafur á bók, þótt óritað væri. Hann var þungt haldinn af geðveiki síðustu árin, sem hann lifði, og mun hún hafa leitt hann til dauða rétt fyrir síðustu aldamót.

Haustin bæði, 1889 og 1890, fór ég heim um réttir og var í Tungna- og Skeiðaréttum á heimleiðinni. Gisti ég þá að Kópsvatni hjá vini mínum, Sigurði Magnússyni bónda þar, er var einn hinn skemmtilegasti og fróðasti maður, sem ég hef kynnzt. Hann var bróðir Helga í Birtingaholti, móðurbróðir séra Árna Þórarinssonar prófasts.

Sumarið 1891 varð ég kaupamaður hjá séra Einari Thorlacius að Skarði í Landssveit. Hafði ég eigi komið í þá sveit áður, en hrifinn varð ég af landslaginu þar nema sandgárunum! Allt annað var undrafagurt að útliti og útsýnið yndislegt á allar hliðar. Ég var kominn svo nærri Heklu, að ég gjörði ráð fyrir að geta heimsótt þá gömlu konu um sumarið, en ekkert varð þó af því sumarið það og eigi fyrr en sumarið 1926, að ég fór þangað með þrem Svíum og Guðlaugi Rósenkranz. Fylgdarmenn okkar voru þeir Ólafur Jónsson í Austvaðsholti og bóndinn að Galtalæk, er þá gekk í 31. sinni á Heklu og sagðist aldrei hafa fengið svo bjart og víðsýnt veður sem þá, enda var þar fagurt um að lítast, efst á tindum fjallsins.

Fólkið að Skarði var margt, og voru þar, að mig minnir, 17 manns, er allt svaf í sömu baðstofunni. Sumarið var heitt og sífellt þurrviðri. Ég kaus því að mega sofa einn úti í kirkjunni, og fékk ég það, enda voru þau prestshjónin bæði lipur og góðgjörn. Piltur einn, Sveinn Jóhannsson, innan við tvítugsaldur, glaðlegur og góður drengur, var þar, en nú lá hann veikur og andaðist um sumarið. Var hann söngelskur mjög, og varð ég oft að spila lagið „Þú stóðst á tindi Heklu hám“ fyrir hann. Meðan hann stóð uppi, lá hann í kistu sinni við rúm mitt í kórnum. Nokkru síðar andaðist og einn af helztu bændaöldungum sveitarinnar, Sæmundur gamli frá Lækjarbotnum, og lá hann einnig við hlið mér eina nótt í kirkjunni. Ég fann ekki til líkhræðslu eða myrkfælni, þótt ég hefði þá að félögum báða dána þessar fáu nætur. Hið eina, sem olli mér ónæðis var það, að ekki var hægt að loka kirkjunni innan frá og var því stálskófla ein reist upp að hurðinni að innanverðu. Þegar því piltarnir opnuðu dyrnar til þess að vekja mig, féll skóflan á kirkjugólfið, og glumdi þá við í hvelfingu hennar, svo að ég hrökk upp með andfælum.

Í Skarði var gott að vera, en vegna þurrviðrisins og þess, hve Skarðshólmur er harðslægur, urðum við oft að slá hann um nætur, en sofa á daginn. Þar var töðugæft valllendi á allar hliðar út frá bænum og mest í suðurátt, Við heyjuðum vel, en harðslægt var landið, eins og áður segir, því þurrviðrið var stöðugt nema 8. september, en þá rigndi allan daginn. Ég gat því ekki fremur en aðrir þar austan að farið til vígslu brúarinnar á Ölfusá, sem fór fram þennan dag.

Hlutavelta var haldin um sumarið að Skarði til ágóða fyrir orgel-harmonium þar í kirkjuna, er ég notaði svo við guðsþjónustur séra Einars. Hann flutti vel samdar ræður og skörulegar. Tón hans var einkar viðkunnanlegt, og sómdi hann sér vel sem klerkur Kona hans, Jóhanna Magnúsdóttir, fósturbarn Magnúsar Benjamínssonar úrsmiðs, var einkar geðug kona, glöð og góðviljuð. Voru þau vel metin þar í sókninni og ágætir búmenn. Voru þau áður eignalítil, en komust nú vel af.

Marga góða vini eignaðist ég austur þar, m. a. Guðmund Guðmundsson skáld frá Hrólfsstaðahelli, og vorum við góðir vinir alla tíð upp frá því. Þá var þar og góður félagi, frá því að við vorum á sama skipi hjá mági mínum, Jóni Adólfssyni á Stokkseyri. Var það Guðni Jónsson, er þá bjó að Fellsmúla og síðar að Skarði. Loks skulu nefndir þeir Eyjólfur Guðmundsson í Hvammi, Árni í Látalæti, sem nú heitir Múli, Jón í Króktúni og Guðmundur Árnason, sem nú er í Múla, sonur Árna í Látalæti.

Meðan Sveinn sál. Jóhannsson lá banaleguna, bað presturinn, séra Einar, mig að fara suður að Stórólfshvoli og fá meðul hjá Ólafi lækni Guðmundssyni. Fór ég þangað um nótt og í bezta veðri án þess að hafa komið á Rangárvöllu eða Hvolhrepp áður. Læknirinn var að vísu heima, en vant við kominn og gat eigi afgreitt mig þegar í stað. Ég kom því eigi að Skarði aftur fyrri en um kvöldið, daginn eftir að ég fór þaðan. Lifði svo drengurinn stutta stund eftir það.

Það bar til tveim nóttum áður en ég fór frá Skarði, að Jón frá Hlíðarendakoti var þar um nætursakir á leið sinni til silungsveiði í Fiskivötnum. Norðanrok var á og kuldi. Jón, sem oft var kallaður Jón söðli, var einn hinn gildasti maður, þungfær mjög, fyrirferðarmikill og fremur ólipur í vöfum. Var honum nú vegna þrengsla í baðstofunni valið rúm við hlið mér í kirkjunni og í sama rúmi. Jón söðli varð svo rekkjunautur minn þessa nótt, vafði hverja spjör í rúminu utan um sinn gilda búk, og minnist ég þess eigi að hafa átt kaldari nótt á ævi minni en þessa. Ég lá næstum nakinn í rúminu og nötraði af kulda.

Tveim dögum síðar lagði ég af stað brott þaðan, fékk Árna í Látalæti til fylgdar mér ríðandi yfir Þjórsá á Nautavaði. Vorum við nærri heila klukkustund að komast yfir ána, sem var svo staksteinótt, að hestarnir voru stöðugt að hnjóta og lá við köfnun.

Árni sneri aftur sömu leið, en ég fór {1t að Kópsvatni til Sigurðar gamla, vinar míns. Voru þar margir góðir gestir fyrir, meðal þeirra Jón Jónsson í Melshúsum og Þórður Jónsson í Ráðagerði, báðir í fjárkaupaerindum.

Síðan fór ég á miðvikudeginum út í Tungnaréttir, daginn eftir í Hreppamannaréttir hjá Kópsvatni og loks í Skeiðaréttir. Að svo búnu hélt ég heim á leið. Var þetta skemmtiför hin mesta fyrir mig. Sumarið hafði reynzt hið ánægjulegasta, og hafði ég eignazt marga góða vini. Séra Einar Thorlacius hefur ávallt verið mér mjög vinveittur og oft minnzt samverustunda okkar að Skarði sumarið 1891.

Fjórða sumarið varð ég síðbúnari en vant var og átti mér ekkert víst um kaupavinnu. Að vísu höfðu margir falað mig, en hætt við ráðningu vegna þess, hversu seint ég kom. Þó fór svo að lokum, að ég var kominn á fremsta hlunn með að ráða mig hjá Eyjólfi Ólafssyni á Hesti og systur hans, sem þar voru ein til heimilis. Mér var þá hent á þá nauðsyn, að ég skyldi binda vel fyrir nasir mínar og munn, ef ég hugsaði til að koma þar nærri bænum. Brast mig þá áræðið og varð myrkfælinn við allt saman, ég held í fyrsta skipti, síðan ég komst á fullorðins ár.

Að lokum lenti ég svo í Laugardælum hjá Guðmundi lækni.

Varð hann og kona hans svo hrifin af þessum ráðahag, að fá ,,assistent“ úr Bakkabúðinni sem kaupamann, að þau vildu helzt, að ég snerti hvorki orf né hrífu, heldur væri ég inni í „beztu stofunni“ að segja dætrum þeirra til að leika á píanóið, en eigi gazt mér að þeim vinnubrögðum. Ég byrjaði þó á þessu um nokkurra daga skeið, en þá held ég, að allir hafi orðið ásáttir um að hætta þessu. Frúin mun hafa fundið, að ég kunni jafnvel ennþá minni tök á píanóinu en orfinu. Lærlingarnir hlustuðu ekki á neitt það, er ég sagði þeim um nóturnar og gildi þeirra, forteikn og innskotsmerki, fingrasetningu og hljómfall. Þær vildu heldur dansa undir einhverju danslaginu, sem ég léki fyrir þær, en kunni ekki. Það lenti því allt í óánægju með mig og alla mína tilsögn, svo að vonbrigðin urðu öllum hlutaðeigendum hin sárustu, og ég hvarf að orfinu, klappaði ljáinn minn og hamaðist á kargaþýfinu í túninu. Það var sú músíkin, er mér lét betur en ómarnir úr ramfölsku hljóðfærinu. Glamrið í grjótinu var miklu viðfelldnara og áheyrilegra.

Laugardælaheimilið var mannmargt. Kaupakonur voru þrjár og kaupamenn jafnmargir að tölu, en svo einkennilega vildi til, að þeir hétu allir og hver um sig Jónar og voru Pálssynir: Jón Pálsson frá Kumla á Rangárvöllum, Jón Pálsson af Síðu í Skaftafellssýslu og svo ég. Til þess svo að prýða hópinn var þar ofurlítill karlaumingi austan úr Rangárvallasýslu, sem Þórður hét. Hafði hann hlotið viðurnefnið bolla og var jafnan kallaður Þórður bolla.

Þótt svona tækist til með hljómlistarfræðsluna, var læknirinn enn ekki ánægður með vegsauka þann, er hann vildi sýna mér, og ákvað því, að ég skyldi vera „ráðsmaður“ herfylkingar þeirrar, er að slætti gekk. Tók ég þessum vegsauka fálega, en lét þó svo vera, enda sá ég brátt, að „ráð“ mín voru að engu höfð. Læknirinn sjálfur vildi ekki hlýða þeim né hlíta, og er hér eitt dæmi þess af ótal mörgum.

Við höfðum sætt upp 56 hesta af góðu og þurru heyi. Ráðsmanninum, þessum „setta“, þótti veðrið rigningarlegt. Klukkan var orðin tvö, og sendi hann því Þórð bollu heim að bæ eftir hest.um og reipum. Þórði dvaldist heima, og sá nú ekki til hans fyrri en klukkan fjögur. Hillir þá undir hann á einreið í fjarska, og sér eigi á hann fyrir reipahrúgunni, – að við héldum -, en er nær kom, var það grautarfatan, sem huldi hann eins og flugvél í svörtustu þoku. ,,Hví komstu ekki með reipin?“ spurðu allir í einu. ,,Læknirinn bannaði mér að fara með reipin, en sagði mér að bíða eftir því, að grauturinn væri soðinn. Hann bannaði einnig, að nokkurt strá væri hirt, fyrr en sætið væri nóg á hundrað hesta!“

Þessir 56 heyhestar, er sættir voru, og ljáin þann dag og frá næstu dögum áður, eru enn í mýrinni norðanvert við Laugardælavatn!

Daginn eftir var kominn þéttur úðvaði, sem aldrei stytti upp, svo að neitt næðist inn af heyi. Dag þennan kom læknirinn til okkar, ekki þó á teiginn, heldur settist hann á hverja þúfuna af annarri í kringum okkur án þess að tala nokkurt orð við neinn okkar. Gerðum við ráð fyrir, að hann hafi séð ráð sín rætast og ekki reynast vel!

Það fylgdi þarna sem annars staðar, að ég spilaði á orgelið í Laugardælakirkju, auk þess sem ég fór vitanlega til allra messugerða á Bakkanum. Var þetta sökum þess, að þá voru enn mjög fáir menn þar um slóðir, sem lært höfðu „að spila“, nema ég, Ísólfur, bróðir minn, og Sigurður Eiríksson regluboði, er spilaði í Arnarbæliskirkju, en í Hraungerði var það Illugi Jóhannsson á Laugum, sem hafði þetta starf á hendi.

Ég var hvorki sérlega ger eða matvandur, en í Laugardælum var viðurgerningur allur svo, að tæpara mátti ekki standa, að menn gætu skilað fullum vinnuafköstum, enda voru heimilishættir eftir því, óreglulegir mjög. Um mataræðið þar mátti segja hið sama sem Óli gossari sagði um mataræðið á bæ einum í Borgarfirði:

„Það er grautur á morgnana, grautur um miðjan daginn og grautur út á grautinn á kvöldum!“

Frúin í Laugardælum var hin ágætasta kona, börnin góð, en lítt vanin, læknirinn sjaldan heima og ávallt eins og fló á skinni, hvar sem hann sást. Um tal hans og viðræður vil ég ekkert segja. Það var ekki til mikillar uppbyggingar. Kunni hann þó frá mörgu að segja, var glaður í viðmóti og kom víða við, einkum um þá, sem honum var í nöp við. Kunni ég margar sögur um hann og orð eftir honum höfð, en þau fá nú að falla· í gleymsku. Hann er nú orðinn 91 árs (1944) að aldri og dvelur á Elliheimilinu Grund og lasburða mjög, einkum andlega. Hann þótti góður læknir, lærður vel og fróður um margt.

Loks varð ég kaupamaður hjá Jóni gamla á Loftsstöðum og konu hans, Kristínu Jónsdóttur, sumarið 1893. Er það í einu orði sagt eitt hið gagnmerkasta heimili, sem ég hef dvalið á. Jón, sonur þeirra, var félagi minn einn hinn bezti, sem ég hef átt, og systkini hans Bjarni, Sigríður og Þuríður hvert öðru indælla. Jón gamli var sí-úðrandi, hægur og stilltur og stjórnaði hinu stóra búi sínu með mestu snilld og svo, að menn urðu þess naumast varir, að þeir væri undir styrkri stjórn. Allt gekk af sjálfu sér svo vel sem á varð kosið. En þó held ég, að húsmóðirin hafi borið af þessu fólki öllu með gamansemi sinni og glaðværð.

Frá þessum stað og tíma hef ég ekkert annað að segja en hið allra bezta. Þar var gleðskapur, söngur og góðleikurinn í öllu ávallt í fyrirrúmi og margt manna, konur og karlar, allt hið ágætasta fólk og duglegasta. Þar var meðal annarra Álfur gamli Jónsson. Spiluðu þeir oft saman feðgarnir, Jón og Bjarni, Gísli á Eystri-Loftsstöðum, bróðir Jóns og mágur hans, og Álfur. Einhverju sinni fór Álfur út á Bakka, kom með ný spil, og skyldi nú tekið til óspilltra mála með spilamennskuna. Það var um miðjan dag síðla sumars, hiti og sólskin og því var Jón gamli úti við að bika bát sinn, er „kallið“ kom frá Álfi um að fara nú í „einn slag“. Jón hætti við að bika, fór inn í bæ, og voru nú allir mættir, spilin tekin fram og ánægjubros á hvers manns andliti, þar til Gísli á Loftsstöðum vekur athygli spilamanna á því, að eitthvað sé athugavert við, þessi nýju spil og segir:

„Hvernig eru þessi spil, Álfur? Mér finnst þau stöm!“ Þessu anzar enginn, og er nú haldið áfram að spila. Gísli var ekki ánægður með þetta og segir:

,,Hver fjandinn er í spilunum, Álfur? Þau loða öll saman!

Eru þetta ekki ný spil; Álfur, sem þú varst að kaupa á Bakkanum í gær? Hvers vegna eru spilin svona? Ómögulegt að fletta þeim, og þau alltaf að versna?!“

Fer nú Álfur að ókyrrast, hinir brosa í kampinn, skotra augum til Álfs, sem nú er orðinn vandræðalegur á svipinn og þorði ekki að segja neitt um þetta, en þegar Gísli gekk á hann hvað eftir annað, brast Álfi þögnin og sagði:

,,Sérðu ekki hendurnar á honum Jóni, maður?“

Spilin voru öll útötuð í tjöru. Þeir urðu að hætta við alla spilamennskuna, og Jón gamli gat farið út að báti sínum og haldið áfram að bika hann. Töfin hafði ekki orðið mikil, og þeir þrír félagar Álfs vissu betur en hann, a. m. k. í byrjun, hvers vegna spilin voru „stöm“, en Jón gamli hafði gleymt því að þvo hendur sínar og tjöruna af þeim, áður en þeir settust að spilaborðinu með Álfi, og varð ánægja nokkru minni en þeirra, sem fylgdust vel með, öllu og var ósárt um að erta Álf ofurlítið. Þeir gátu verið hrekkjóttir þessir frændur, og þá einkum við Álf, þótt vel væri þeim til hans. Álfur var hár maður vexti, sívalur um búkinn, fríður sýnum, hagmæltur vel og höfðinglegur á svipinn. Gott þótti honum að bragða vín, en þó eigi um of. Var hann þá glaður mjög og ræðinn. Halldór í Simbakoti var meðal barna Álfs.

Meðal heimilismanna var ennfremur Jakob Bjarnason frá Sviðugörðum, ungur maður og hinn stórvaxnasti, sem ég hef séð. Kjálkar hans, haka og kinnbein voru svo stór sem á stórgripi væri, og var hann þó einkar fríður maður og svaraði sér vel. Hann varð lögregluþjónn í Seattle í Ameríku, og þar andaðist hann miðaldra maður fyrir 15 til 20 árum. Var hann virtur vel þar vestra og hugljúfi hvers manns. Jafnvel sökudólgarnir elskuðu hann og virtu, því að þeir vissu, að hann var göfugur maður og réttsýnn. Þeir þurftu ekki annað en að sjá hann og heyra til þess að hlýða boðum hans og banni.

Einhverju sinni á túnaslætti var verið að hirða töðu af túninu undan rigningu. Jón gamli bað menn að dveljast ekki lengur við miðdegisborðið en þörf væri á. Meðal þess, er á borð var borið, voru skötumagar úr súru, einn hinn ljúffengasti matur. Jakobi eða Jobba, eins og hann var kallaður, dvaldist lengur inni við skötumagana en öðrum, allir voru þotnir út að heyinu. En er að Jobba var komið inni í baðstofunni, var hann nærri kafnaður. Lengja af skötumaganum hafði orðið föst á öðrum enda milli tanna hans, en þær voru stórar eins og í hrossi væru, en hinn endinn var kominn alla leið niður í magann á Jobba, og var hann nú að reyna að slíta þessa seigu og sterku taug, er að var komið og honum bjargað frá köfnun. Var hlegið mjög að þessu og þess oft minnzt, að Jobbi hefði átt í brösum við skötumagalengjuna forðum.

Um smiðinn á Loftsstöðum og bein hans í smiðjunni þar heyrði ég lítið talað, en síðan nokkuð, og hef ég skrifað um það á öðrum stað.

Meðan ég var á Loftsstöðum, kom þar Eyjólfur Magnússon, sem nefndur var „ljóstollur“. Var það fyrir hádegi á sunnudegi. Spurði hann eftir hreppstjóranum, Jóni gamla, og kvaðst vera sendur frá amtmanninum yfir Suðurlandi og n{1 síðast frá sýslumanninum í Kaldaðarnesi, Sigurði Ólafssyni, til þess að taka hreppstjórann fastan. Jón gamli gaf sig fram og spurði:

,,Hvað er þér á höndum, Eyjólfur minn?“

,.Ég kem frá sýslumanninum í Árnessýslu með skipun amtmannsins yfir suðuramtinu, Júlíusi Havsteen, um að taka þig fastan!“ kvað Eyjólfur

,,Fyrir hvað er það nú, Eyjólfur minn?“

,,Fyrir það, að þú lætur fólk þitt vera við heyvinnu á sunnudegi!“

,,Jæja, þú gerir þá ekki annað á meðan, en áður en þú byrjar, vildi ég bjóða þér inn og gefa þér kaffi. Þá verður þú frískari á eftir“.

Eyjólfur kom inn, lagðist á yzta rúmið í baðstofunni og lét lítinn pausa sinn þar á gólfið og í hornið við baðstofudyrnar. Jón gamli lagðist í yzta rúmið! gegnt honum og horfði stöðugt í áttina til poka Eyjólfs. Ráðir þögðu, unz Eyjólfur spyr hastarlega:

,,Á hvað ertu að horfa?“

Jón þegir. Spyr Eyjólfur þá enn alvarlegri:

,,Á hvað ertu að horfa, Jón hreppstjóri? Hvað sérðu?“

„Það er nú ekki merkilegt, sem ég sé. Það er hvorki fallegur poki né því líkur, að hann sé í fórum neins yfirvalds. Skratti er hann ljótur og ómerkilegur, þessi poki!“

Rís þá Eyjólfur upp eins og örskot, þrífur pokann, hleypur út og hefur aldrei sézt þar um slóðir síðan. Þannig fór með handtökuna.

Fólkið, sem Eyjólfur hafði séð á engjunum, var frá Tungu, en löndin þar liggja saman.

Til dæmis um stillingu Jóns er eftirfarandi saga. Bjarni, sonur þeirra hjóna, varð skyndilega veikur á Þorláksmessudag árið 1900. Jón sendi Svein, vinnumann sinn, út á Rakka til læknis, en þar eð hann kom eigi heim um kvöldið, sendi Jón annan mann, og kom læknirinn með honum. Bjarni andaðist daginn eftir, á aðfangadag jóla, og varð öllum harmdauði. Sveinn hafði orðið fullur og gleymt erindi sínu, enda fann hann aldrei lækninn. Svo varð hann viti sínu fjær og hestarnir komu sjálfkrafa heim, en enginn Sveinn né nokkur læknir.

Daginn eftir kom hann, hittir Jón gamla úti við, og segir hann við Svein:

,,Ertu kominn Sveinn? Þú þykist víst vera búinn vel að vinna!

Farðu nú inn og leggðu þig. Þú þarft þess við, drengur minn“.

Sveinn fór inn og „lagði sig“!

Nærri má nú geta, hversu gamla manninum hefur þótt þetta sárt, að vinnumaður hans brást honum í mikilli neyð, er sonur hans lá fyrir dauðanum og var nú andaður, er Sveinn kom aftur!

Fleira mætti segja um þennan merka stillingarmann, en því verður nú sleppt.

Sumarið 1894 var ég svo í vinnu við lagningu vegarins í Kömbum. Erlendur Zakaríasson var þar aðalverkstjórinn, en undirverkstjóri sá, er ég átti að lúta, var Arngrímur Jónsson, keyrslumaður við Vesturgötu hér í bænum. Báðir voru þeir gagnmerkir menn og góðir. Átti ég þar nokkra aðra ágætismenn að félögum, meðal þeirra þá Árna Vilhjálmsson frá Hofi á Rangárvöllum, föður Vilhjálms skipstjóra, og Einar Guðmundsson við Bakkastíg, hinn ágæta smið, fræðiþul hinn mesta og öðlingsmann.

Sumarið var rosafengið, vinnan erfið, en skemmtileg mjög.

Það var gaman að vakna á morgnana við sprengjuskot Árna Hannessonar, Hanssonar pósts, og endurhljómana frá fjallahnúkunum allt í kringum Kamba.

Vitanlega var ég einnig organisti Reykjakirkju um sumarið, en hvort ég var þar eins og í Skarði fyrsti organistinn, vissi ég ekki og man ekki heldur. Ég hafði því haft þetta starf á hendi alls staðar þar, sem ég hafði unnið síðustu sex árin, nema á Loftsstöðum, sem sé tvö sumur á Torfastöðum, eitt sumar að Skarði og annað í Laugardælum og nú á Reykjum. Þetta varð að vera svo. Menn urðu að bjargast við eitthvað vegna vöntunar á mönnum til þessara starfa, og ég gat hvorki né vildi neita þeim um það, þótt það væri fremur bindandi fyrir mig og frjálsara að vera laus við það og geta farið hvert sem mig lysti þær fáu stundir, sem ég mátti vera eða vildi vera laus frá vinnu minni.

Sumarið 1895 var ég við verzlunina á Eyrarbakka og kvæntist um haustið 19 október. Var ég svo þar upp frá því, þar til ég fór með allt mitt í skyndi til Reykjavíkur 6. júlí 1902. Hafði ég þá að engu að hverfa, en úr því rættist þó.

Atvinna mín og vinnubrögð fram að þessu voru margvísleg og lærdómsrík, einkum -sjómennskan um nærri aldarfjórðungsskeið, og vildi ég nú eigi hafa misst af því neinu. Flestra þeirra atriða, er að þessu lúta og öðru því, er ég hef tekið mér fyrir hendur, held ég, að megi finna einhvers staðar í öllu því „dóti“, er ég hef safnað og skrifað, án þess að þar sé neina heildarævisögu að finna En um þetta mætti hafa sömu aðferðina, sem stungið var upp á, að höfð væri við vinnukonu eina og vísa þessi var kveðin um:

Ingibjörg er afar-mjó,
og ógna-þunn að framan.
En mætti ekki skera hana í sundur,
og skeyta hana svo saman?

Sennilega er vísan dálítið brengluð hjá mér, en meiningin er hin sama. Já, það mætti taka allar rennurnar og skeyta þeim svo saman! Væri það lagtækur maður, fengist úr því sæmileg bók, nokkuð fyrirferðarmikil, en þunn yrði hún og gisin og naumast neitt skjólfat.

[PS: Þessa vísu lærði ég sem krakki á Stokkseyri. Hún var svipuð en hljóðaði þá þannig:

Ingibjörg er aftanbrött
og íbjúg að framan
skyldi ekki mega skera hana sundur
og skeyta hana saman

og svo var seinna erindið:

Svo hef ég líka lifa það
að við lokuðum okkur inni
og þá fannst mér nú ekkert að
Ingibjörgu minni!

Bjarki Sveinbjörnsson]

Leave a Reply

Close Menu