55-Suðurferðir

Ferðalög fótgangandi manna á leið til Reykjavíkur og þaðan aftur voru mjög tíð einkum að vetrarlagi, fyrir jólin og eftir nýárið. Oftast voru 3-4 menn í hópi, og fóru þeir ferðir þessar til þess að viða að sér ýmsum þeim vörum, er þá og einkum útgerðarmenn vanhagaði um, en á þrotum voru eða með öllu þrotnar í verzlunum þar eystra. Hafði þá stundum ekkert skip komið síðan á miðju sumri nema þá með þungavöru, svo sem kol, salt og járn, er á sumarið leið. Síðasta skipið, sem hafnaði sig á Eyrarbakka, varð ávallt að vera ferðbúið og lestum þess lokað fyrir lok ágústmánaðar ár hvert, ella lagðist jafnvel margfalt vátryggingargjald á skipið sjálft og vörur þær, er það hafði að flytja. Hef ég getið þessa á öðrum stað.

Vörur þær, sem þannig voru fluttar á vetrum, eins og áður segir, voru einkum þessar:

Hampur, lóðarlínur, færi og önglar, svo og kaffi, sykur og tóbak og ýmislegt annað, svo sem spil, skófatnaður, hattar, húfur og fleira.

Nærri má geta, að eigi gat hver einstakur maður flutt mikið af vörum, jafnvel þótt baggi hans væri allt að sex fjórðungum að þyngd að minnsta kosti á heimleiðinni. Á suðurleiðinni bar hann aðeins nesti sitt, hlífðarföt, sokkaplögg og vettlinga til þess að skipta um, ef hrakviðri voru, en stundum bar hann einnig smjör, kjöt og skinn til þess að selja hér syðra eða þá leigur af ábúðarjörð, ef eigandinn átti hér heima, en sjaldnast voru þær þó þyngri en 2-3 fjórðungar.

Einstaka sinnum kom fyrir, að sendimaður bar allvænan slatta af silfurpeningum frá verzluninni á Eyrarbakka til viðskiptavina hér. Verður að þessu vikið síðar.

Þegar eftir að ég náði fermingaraldri, var ég oft meðal sendimanna þessara, og ætla ég nú að minnast á nokkrar ferðir mínar frá þeim tímum og síðar. Sennilega verða þetta þó að einhverju leyti endurtekningar á því, sem ég hef áður skrifað um þetta, en sumt af því hefur áreiðanlega gleymzt eða aðeins lauslega verið að því vikið.

Fyrsta ferð mín til Reykjavíkur var að vísu engin gönguför, heldur nokkurs konar „lausamannsreið“ í fylgd með föður mínum, sem var að flytja rauðskjöldótta kú, er hann seldi Tómasi Hallgrímssyni lækni, og rak ég á eftir kúnni. Ekki man ég nú upp á víst, hversu gamall ég var þá, sennilega hef ég verið á 11. eða 12. ári. En sökum þess, hversu aðdragandinn að ferðalagi þessu var eða ætlaði að verða örlagaþrunginn fyrir mig, svo að við lá, að ég gæti eigi farið þessa fyrstu för mína út af heimilinu og til höfuðstaðarins, sem ég hlakkaði svo mjög til að sjá og kynnast, verð ég að segja nokkru gerr frá tildrögum og undirbúningi þessa ferðalags.

Foreldrar mínir voru boðnir í brúðkaupsveislu Eyleifs Einarssonar og Margrétar Pétursdóttur, er þá bjuggu að Egilsstaðakoti í Villingaholtshreppi, en jörð þessa áttu foreldrar mínir. Faðir minn var svaramaður Eyleifs, en móðir mín var búrkona í brúðkaupsveizlu þeirra. Það var því sjálfsagt, að þau sækti brúðkaupsveizlu þessa, en daginn eftir ætlaði faðir minn með kúna — og mig – til Reykjavíkur.

Eyleifur Einarsson, bróðir Gunnars á Selfossi, og Margrét Pétursdóttir bjuggu um margra ára skeið að Árbæ í Mosfellssveit.

Nú bar svo við, þegar foreldrar mínir voru farnir til brúðkaupsins, en þangað var um 4-5 tíma reið og þeirra því eigi von heim aftur fyrri en einhvern tíma um nóttina, að ég fann reykjarpípu föður míns og langaði til þess að reyna það sjálfur, hvernig það væri að „fá mér reyk“, en tóbakið fann ég hvergi.

Ég vissi, að Pési gamli „brúkaði upp í sig“, og gjörði ráð fyrir, að ég fyndi eitthvað af uppþorrnuðu munntóbaki í fórum hans, sem nota mætti með því að mylja það niður í pípuna og reykja svo allt hvað af tæki. Þetta fór eins og ég átti von á. Ég fann uppþorrnað tóbakið hjá Pésa, muldi það niður í pípuna og settist síðan út í hesthús til þess að reykja þar í næði og án þess, að nokkur yrði mín var.

Segir svo eigi frá reykingum þessum, – hinum fyrstu, en því miður ekki hinum síðustu, – fyrri en Jón sál., bróðir minn, kemur þarna að mér steinsofandi í allri mykjunni á hesthúsgólfinu. Bar hann mig síðan inn í rúm. Lá ég þar, það sem eftir var dagsins og langt fram á nóttina með heiftarlegum uppköstum og niðurgangi, kvölum hinum mestu og óhljóðum, svo að mér var naumast hugað líf. Verri líðan hef ég aldrei átt á ævi minni en þá, er ég varð að þola allan þennan langa tíma. En verst þótti mér, ef þetta yrði til þess, að ég gæti ekki farið með föður mínum kl. 8 morguninn eftir til þess að reka á eftir kúnni.

Foreldrar mínir komu frá veizlugleðinni um miðnæturleytið og brá heldur en ekki í brún, er þau sáu, hversu þungt ég var haldinn. Enginn fræddi þau um orsökina og því óskiljanlegra var, að krakkagreyið hafði orðið svona fárveikt, – alveg að ástæðulausu!

Faðir minn beið svo eftir því til hádegis, að ég hresstist. Það varð, og lögðum við svo af stað með rauðu kusu kl. 1 um daginn.

Yfir Ölfusá fórum við á ferjustaðnum Kotferju, og man ég eftir því, hve Gísli gamli var góður við mig. Hann var alltaf að spyrja, hvort ég væri lasinn, ég væri svo gugginn. En ég kvað það auðvitað ekkert vera.

Aldrei gleymi ég bleytunni og ófærðinni frá ferjustaðnum, einkum nálægt Kirkjuferju vestur að Bakkárholts- og Gljúfurárholtsám. Þær voru báðar næstum ófærar af ausandi rigningu, sem staðið hafði allan síðari hluta dagsins. Og sama ófærðin var vestur holtið alla leið að Torfeyri og Varmá. Þar var áð, en ekki tjaldað, og segir svo ekki af ferð okkar, fyrri en við komum niður að. Hraunsnefinu kl. að ganga tvö um nóttina, og tjölduðum við þar á flöt einni austanvert við Silungapoll. Er það nú leikvöllur hinna mörgu barna, sem þar hafa dvalið, – fátæk og veikluð börn, – á vegum Odd-Fellowa á sumri hverju um tólf ára skeið foreldrum sínum og aðstandendum að kostnaðarlausu. Hefur þessi starfsemi verið rekin síðan 1918.

Þarna við Silungapoll, held ég, að ég hafi í fyrsta sinni sofið í tjaldi, og óraði mig þá eigi fyrir því, að síðar á ævinni ætti það fyrir mér að liggja að vera þar öllum stundum, meðan börnin hafa dvalizt þar.

Ég sofnaði fljótt. Hestarnir voru heftir sunnan við Silungapoll, og var kýrin þar hjá þeim með brekáni yfir baki og lendum. Veðrið var milt og gott, en himinn skýjum hulinn og ýrði úr þeim regn við og við eða smáfelldur úðvaði undir morguninn. Ég vaknaði hress og glaður, sótti hestana og kúna, meðan faðir minn tók niður tjaldið og batt það saman, til þess að ég reiddi það sem áður fyrir aftan mig.

Að liðnum miðjum morgni lögðum við af stað til Reykjavíkur og komum þangað um dagmálabilið og afhentum Tómasi lækni hina rauðu kú. Tók faðir minn við andvirði kýrinnar, en eigi man ég nú, hversu mikið það var, en ég held, að það hafi verið! innan við eitt hundrað krónur. Skildu þeir ánægðir hvor við annan, faðir minn og læknirinn.

Faðir minn þurfti að fara hingað og þangað um bæinn. En af því að hann vissi, að ég var ekki vel hraustur frá deginum áður og þreyttur eftir svo langt ferðalag, kom hann mér fyrir í húsi einu uppi í Þingholtum, og svaf ég þar mestan hluta dagsins. Hét húsbóndinn Zakarías, faðir Erlendar og Árna vegagerðarmanna, er síðar urðu verkstjórar. Var ég svo 20 árum síðar við vegavinnu í Kömbum undir verkstjórn Erlendar.

Ég hafði því lítið af Reykjavík að segja í ferð þessari, því um miðaftans bilið lagði faðir minn upp aftur, og var ég þá vel útsofinn. Var þá komið hvassviðri af suðaustri með asarigningu, sem jókst því meir sem á kvöldið leið. Við komum að Lækjarbotnum til Hallberu gömlu og fengum þar bæði mjólk næga og kaffi gott. Hélt ég þá, að faðir minn ætlaði að nátta sig þar. Ég var of ókunnugur leið þeirri, er við vorum á, og sérstaklega því, hversu langt var til næsta gistingarstaðar, til þess að ég gæti verið ánægður og öruggur um að komast í húsaskjól undan hrakviðri því, er nú stóð yfir, beljandi stórviðrisrigning og öskrandi rok. Ég vonaði því að mega taka á mig náðir í Lækjar-botnum og fara ekki lengra að sinni. En faðir minn hafði víst annað í huga og hóf ferð sína lengra. Var klukkan þá orðin rúmlega níu, og ég vissi engan náttstað nær en á Kolviðarhóli, og þangað virtist mér langur vegur, þótt ekki hefði ég sett það á mig daginn áður.

Þegar við vorum komnir skamma leið frá Lækjarbotnum, herti ég upp hugann og spurði föður minn:

,,Hvar eigum við að vera í nótt?“

„Hérna uppi í Vötnunum“, sagði hann, ,,þangað er nú ekki löng leið“.

„Hvaða „Vötn“ eru það?“.

„Þau heita Fóelluvötn, vestur og norður af Sandskeiðinu, en sunnan Lyklafells, skammt héðan“.

Ég var nú litlu nær, en spurði ekki frekar um þetta.

Þegar við komum upp undir Sandskeiðið, sá ég tjald eitt lítið sunnan undir heiðarbríkinni neðan við fell nokkurt, er faðir minn sagði mér, að væri Lyklafell.

Við nálguðumst tjaldið og heyrðum ýmist, að menn töluðu þar saman, eða að einhver maður væri að kveða þar rímur eða vísur.

Klukkan var rúmlega hálfellefu. Faðir minn gekk að tjaldinu og talaði við mennina. Heyrði ég, að annar þeirra sagði: „Vertu ekkert að tjalda þínu tjaldi, Páll minn! Við komumst hér fjórir hæglega fyrir og okkur verður öllum hlýrra við að sofa saman, en að vera tveir og tveir sinn í hvoru tjaldi“.

Heyrði ég þá einnig, að faðir minn sagði:

„Ég ætla að tjalda mínu tjaldi samt og hér í skjóli við ykkar tjald og láta þar inn farangur okkar, beizli og hnakka“.

Komu þeir þá báðir úr tjaldi sínu mennirnir, er fyrir voru, og hjálpuðu okkur til að tjalda okkar tjaldi, hefta hestana og láta farangur okkar inn.

Annar maðurinn var ungur, en svo mjór og langur, að mér virtist tjald hans eigi vera of stórt fyrir hann einan. Hinn var gamall og svo digur og stuttur sem dvergur væri.

Nú settum við okkur allir inn í tjaldið, og sá ég þá, að faðir minn þekkti mennina báða, en ég hvorugan þeirra.

Eldri maðurinn hét Gísli Gíslason og sá yngri sama nafni, báðir frá Miðhúsum í Gnúpverjahreppi. Þeir voru óskyldir með öllu, en yngri Gísli var uppeldissonur eldri Gísla og var nefndur Gísli „lönguskáld“. Eigi vissi ég um þetta viðurnefni hans þá, en síðar var hann sjómaður á Stokkseyri og orti þá m. a. formannsvísur um nærri 50 formenn, er þar voru þá. Vísur þessar og allt það, er Gísli lönguskáld kvað, var hið mesta leirhnoð, klámkennt og klúrt.

Þegar inn í tjaldið var komið, var þar fjóshiti, sæmilega rúmgott, og var nú tekið til nestisins, en Gísli lönguskáld tók nú til að kyrja kvæði sín og vísur, og sofnaði ég undir því einhvern tíma undir morguninn, því að alltaf kvað Gísli og skrafaði um alla heima og geima. Síðast hafði hann við engan að tala nema sjálfan sig, og sofandi var hann, þegar við lögðum upp í bezta veðri um morguninn.

Heim komum við svo heilu og höldnu síðar um daginn, en lítið hafði ég lært í ferðalagi þessu. Ég ungur og annríkið við að ljúka ferðinni sem fyrst svo mikið, að ég hafði engan tíma til að átta mig á neinu.

Næstu ferðir mínar þrjár fram og aftur milli Stokkseyrar og Reykjavíkur voru vorferðalög mín til sjóróðra í Bollagörðum árin 1882, 1883 og 1884. Hef ég sagt frá þeim á öðrum stað og man ekki að bæta neinu við það nú. En svo var það einnig á þessum árum og oft síðar, að ég fór fótgangandi í vetrarferðir, og vil ég minnast á nokkrar þeirra.

Fyrstu ferðina af því tagi fór ég með Einari Jónssyni formanni í Götu síðar í Aldarminni, og segir eigi neitt markvert af því ferðalagi, fyrri en við komum nálægt Hólmi. Svo mikill snjór var þá á jörðu, að hvergi sást dökkur díll. Tungl var í fyllingu, heiðskír himinn og bjart veður með nokkru frosti.

Þegar að Hólmi kom kl. 7-8 að kvöldi, vissum við, að við áttum að fara yfir Hólmsá og á vaði eigi mjög fjarri bænum. Tókum við nú að leita að vaðinu, en fundum það hvergi. Í stað þess að fara heim að bænum og spyrja til vegar héldum við niður með ánni. Þar fundum við góða og glögga braut, og henni fylgdum við alla leið niður að Dimmu eða suður undir Vatnsenda.

Hvergi var unnt að komast yfir ána, og sáum við loks, að braut sú, er við höfðum rakið okkur eftir, var eftir hross, sem rekin höfðu verið á haga þangað niður eftir. Við snerum því við, og er við komum þar á móts við, sem Baldurshagi er nú, grilltum við í bæ nokkurn, er okkur virtist vera þar á holtinu, og meira að segja okkur sýndist þar vera ljós í glugga. Við stöldruðum þarna og kölluðum, en enginn svaraði, enda var þess eigi von, því að þetta voru þá tóftirnar af Klapparholtinu gamla, sem síðast var byggt mönnum 1873, og sér fyrir þeim sunnan Baldurshaga enn í dag.

Gengum við nú lengra upp eftir ánni, þar til við vorum komnir norður undan Rauðhólum. Þar virtist okkur áin svo grunn, að væð væri, en hún tók okkur í buxnastreng.

Þannig útleiknir, holdvotir upp að mitti, héldum við svo niður í Reykjavík, komum í bæ einn í Skuggahverfi, en þar bjó Eyjólfur Helgason frá Hraunhlöðu, er síðar fluttist til Ameríku með konu sinni Sigríði, dóttur Þórðar Pálssonar silfursmiðs og konu hans, Guðrúnar Magnúsdóttur í Brattsholti. Drukkum við þar kaffi, en á meðan við biðum eftir því, leið tvívegis yfir mig, enda var ég yfirliðagjarn á þeim árum og þoldi eigi svo mikinn mismun hita og kulda, sem ég hafði orðið fyrir, er við komum upp úr helköldu vatninu í Hólmsá, höfðum hitnað á göngunni og vorum nú setztir inn í heita stofu.

Við þekktum engan mann í bænum, og þarna hjá Eyjólfi var ekkert rúm fyrir okkur. Stakk ég þá upp á því að fara suður að Bollagörðum til Einars gamla Hjartarsonar og konu hans, Önnu Jónsdóttur, foreldra Guðmundar í Læknisnesi og Sigurðar í Pálsbæ, því að þar hafði ég róið vorið áður og vissi, að vel mundi verða tekið á móti okkur.

Meðan við stóðum við hjá Eyjólfi Helgasyni, undum við föt okkar, fórum í þurra sokka og lögðum svo af stað suður á Nesið, en er þangað var komið, var svo framorðið og allir gengnir til náða á bænum, að við tímdum ekki að vekja neinn eða gera vart við okkur.

Tókum við það ráð að fara þar inn í heyhlöðuna og láta fyrirberast þar um nóttina. Hlaðan var nærri full af heyi, en efsta lag þess var klakaskán ein og því drepandi kalt um nóttina. Um morguninn gerðum við vart við okkur í bænum og fengum þá, sem vænta mátti, hinar beztu viðtökur, en jafnframt harðvítugustu ávítur hjónanna fyrir það að gera ekki vart við okkur kvöldið áður. Iðruðumst við þessa mjög og sáum, hversu óskynsamlega við höfðum farið að á ferðalagi þessu, enda gat það haft hinar verstu afleiðingar og jafnvel riðið heilsu okkar að fullu.

Upp frá þessu gekk ferðin vel, og segir svo ekki frekar frá henni.

Þessu næst var það hinn sama vetur og þá nokkru eftir nýár, að við þrír, Pálmar sál., bróðir minn, Einar sál. Gíslason frá Borgarholti og ég, fórum til Reykjavíkur og er frá því ferðalagi greint að nokkru á öðrum stað, m. a. í grein minni um verzlunina á Eyrarbakka, er við urðum veðurtepptir á Kolviðarhóli í þrjú dægur eftir að hafa verið 10 klukkutíma að þokast frá Lækjarbotnum upp á Kolviðarhól í fylgd með tveim Ketilvallabræðrum og Ingva frá Snæfoksstöðum, er tróðu brautina fyrir okkur. Þeir báru aðeins nesti sitt, en við nærri 60 punda bagga hver, ég t. d. 58 pund.

En hinn sama vetur nokkru fyrir vertíðarbyrjun fórum við þrír saman í suðurferð, Pálmar sál., bróðir minn, Jón sál. Sveinsson frá Starkaðarhúsum og ég.

Jón Sveinsson var þá vinnumaður hjá séra Jóni sál. Björnssyni á Eyrarbakka eða fór þessa ferð fyrir hann. Bar hann auk annars hálfan fimmta fjórðung smjörs, en ég álíka þyngd, en það var ekki smjör, heldur 4 þúsund krónur í silfurpeningum, er faðir minn hafði lofað vini sínum og frænda, Einari sál. Jónssyni „borgara“, að flytja suður fyrir hann. Mun það hafa verið verzlunarhagnaður Einars á verzlun hans árið áður. Við fórum yfir Ölfusá í norðanhvassviðri og ísskriði miklu. Þegar ég hljóp upp úr ferjubátnum við vesturlandið, hélt ég á pausa mínum í hægri hendi, en féll með allt saman niður í ána. Voru þá lítil líkindi til, að ég bjargaðist og því síður peningarnir, sem nú urðu ærið þungir í vöfum. En ég hélt fast um pokann og hugsaði mér, að eitt skyldi yfir báða ganga. Vildi þá svo vel til, að félagar mínir stóðu á árbakkanum, tilbúnir til að rétta mér hendur sínar á sama augnabliki, og sýndu þeir snarræði mikið við að ná í mig, og tókst þeim það svo fljótt, að: ég varð ekki gegnvotur, nema um mittið.

Héldum við svo áfram ferðinni að Hraunshjáleigu til vinar okkar, Símonar gamla Einarssonar, og tveggja dætra hans og Jóns, sonar hans. Var þar tekið á móti okkur með kostum og kynjum, matur, kaffi og mjólk óspart í té látið, ég færður úr fötunum og þau þurrkuð frammi í eldhúsi. Sofnaði ég vel og vært á meðan og var vakinn með glóðheitum ábrystum. Lögðum við síðan á Lágaskarðsveginn og fórum út af honum að Lönguhlíð slepptri eða nokkru sunnar vestur með Meitlahrauni og yfir Ólafsskarð. Hafði ég farið það fyrsta vorið, sem ég fór til sjóróðranna hér syðra árið 1882, og stytti það leiðina svo mjög, að við náðum niður í Reykjavík um kvöldið.

Meðan við dvöldum í Reykjavík, versnaði veðráttan svo, að engin ástæða var til að flýta för sinni austur, enda létum við fyrirberast þar einum deginum lengur en ætlað var og skoðuðum við okkur nú vel um, fórum í kirkju, því sunnudagur var, og man ég enn, hversu hrifinn ég var af því að heyra sönginn í Dómkirkjunni, einkum bassana, en meðal þeirra voru bræður tveir frá Hóli, Jón og Þórður Guðmundssynir, svo og Níels Larnhertsen að mig minnir. Við skoðuðum ýmislegt hið markverðasta í bænum, og fór Erlendur Zakaríasson með okkur til þess að: sýna okkur þetta, en hjá honum bjuggum við Pálmar sá:l., bróðir minn.

Við heyrðum, að margir austanmenn væri í bænum og að líklegt væri, að þeir vildu verða okkur samferða, en við urðum engra þeirra varir fyrr en uppi á Árbæ á mánudagskvöldið. Þar ætluðu þeir flestir eða allir að nátta sig, 10 talsins. En þegar við komum þangað, slógust þeir í förina með okkur „eitthvað upp á bæi“. Þeir voru með hest einn, gráan að lit, en engin trúss á honum önnur en einhverjar pjönkur, sem þeir voru sjálfir með og hefðu annars þurft að bera.

Þegar við komum upp undir Hólm, var setzt að ráðstefnu um það, hvar við skyldum nátta. Við vorum 13 talsins og komum okkur saman um að skipta liðinu þannig, að 6 okkar færu að Elliðakoti, en 7 færu ekki lengra en að Vilborgarkoti. Þar bjó þá maður sá, er Björn hét Kaprasíusson, ættaður af Kjalarnesi, bróðir Ingibjargar, konu Jóns Ásmundssonar „Formands“ hjá Sameinaða gufuskipafélaginu danska um langt skeið. Björn var einnig bróðir Gísla Kaprasíussonar, er með mér reri í Bollagörðum og þá átti heima á Kjalarnesi eða í Kjós, en fór síðan austur í Mjóafjörð og var þar á lífi fyrir nokkrum árum.

Meðal þeirra 7, er kusu sér náttstað að Vilborgarkoti, vorum við bræðurnir og Sigurður Sigurðsson frá Langholti, er síðar varð búnaðarráðunautur og alþingismaður Árnesinga. Húsakynnin í Vilborgarkoti voru svo þröng, að við urðum að vera 3 og 4 í hvoru rúmi, og vorum við bræðurnir, Sigurður „búi“, og Jón Sveinsson í öðru þeirra. Þeir voru með svo mikil ærsl og gáskalæti, að botninn í rúminu brast, og undan því hljóp þá smalatík bóndans, skrækjandi af hræðslu, en ekki hafði hún meiðzt. Fengum við, sem von var, þungar ávítur bóndans fyrir gáskalæti þessi og óþarfan gleðskap. Mikill hluti kvöldsins fór í það að finna fjalir í rúmbotninn og koma honum í lag aftur. Síðan vorum við eins og mýs undir fjalaketti og hinir skikkanlegustu. Morguninn eftir skildum við við Björn bónda hinn ánægðasta og borguðum honum vel næturgreiðann. Átti „Siggi búi“ eigi hvað sízt þátt í því.

Hinir sex, er að Elliðakoti fóru, – þar bjó þá Guðmundur Magnússon, faðir Eggerts á Hólmi, – komu til móts við okkur neðan Hólmsár fyrir vestan Lækjarbotna og höfðu gráa hestinn með sér. Var nú tekið til að skipta böggum okkar þannig á klárinn, að hann hefði einnig sína byrði að bera, þegar sinn pinkillinn frá hverjum okkar var kominn í samanbundna poka tvo, er við hengdum þverbaks yfir hrygg hans, með lótorfu eða melju undir, er þeir félagar höfðu sníkt af Guðmundi í Elliðakoti í þessu skyni.

Veðrið var indælt og færðin góð. Loftsútlitið var samt ekki neitt glæsilegt, þykkur bakki í suðri, sem hækkaði nokkuð eftir því sem á daginn leið og komst loks upp á háloftin. Heiðríkja var í vestri, og gekk bakkinn á hana og birgði að mestu, og í norðri fór að sjást lágur bakki, sem einnig hækkaði eins og hinn suðræni keppinautur hans. Um hádegisbilið grisjaði þá nokkuð í gumbur það, er þeir, hvor um sig, voru að velta fyrir sér. Sáum við og kom öllum saman um það, að svo vont veður væri í vændum og eigi langt undan, að betra væri að hraða ferðinni sem mest og standa hvergi við.

Nú var það grái klárinn, sem tafði för okkar svo, að við gátum eigi farið hraðara en hann, og því var það, að valdir voru tveir menn úr hópnum, þeir er líklegastir voru til að vera fótléttastir, og skyldu þeir nú losaðir við bagga sína, áður en lagt var á Lágaskarðsveginn, og þeir hlaupa á undan til þess að ná í ferjuna á Óseyrarnesi, áður en myrkrið skylli á. Til þessa vorum við valdir, Einar Jónsson í Aldarminni og ég.

Við skildum nú við klárinn og hina 11 félaga okkar og hlupum við fót beinustu leið og án þess að þreyta okkur um of. Þegar við komum suður úr Lágaskarði, var farið að húma, og sáum við þá niður á vestustu bæina í Ölfusinu. Varð okkur þá sundurorða um það, hvaða bæir þetta væru, og slógum veðs um það einni krónu, sem Einar vildi borga, en fékk ekki, þótt hann tapaði veðmálinu.

Frá Óseyrarnesi hafði sézt til tveggja gangandi manna koma utan Gljárnar og stefna austur í Eyri. Ferjumennirnir voru því vakandi og varir um sig, ef til manna þessara sæist við ferjustaðinn, enda var nú myrkrið skollið á. Við komumst austur í Eyrina og kölluðum á ferjuna, sem þá var, án þess að við sæjum til, komin út á ána og innan lítillar stundar lent við vesturbakkann, og sögðum við þeim af félögum okkar, er eftir voru, báðum þá að bíða ofurlitla stund, en það urðu nú hvorki meira né minna en fullir tveir klukkutímar og var það löng bið, því að ferjumennirnir urðu æ því órólegri sem lengur leið.

Loks komu svo félagar okkar með gráa klárinn. Var hann skiplagður og við allir látnir fara yfir ána í sama bátnum, sem segja mátti að flyti með listum. Hér var því hætta mikil á ferðum, ef „sá grái“ hreyfði sig mikið, en hann stóð studdur af þeim, sem ekki voru undir árum, en þeir voru fjórir. Allt fór þetta samt vel.

Morguninn eftir, þegar birti af degi, var kominn óhemju útsynningur, árflóð eitt hið mesta í Ölfusá og brim svo mikið, að bakkaflóð varð með allri Suðurlandsströndinni. Veðurlag þetta stóð í 11 daga, og komst enginn maður yfir Ölfusá í Óseyrarnesi allan þann tíma. Við hefðum orðið tepptir utan árinnar og í Ölfusinu, ef við hefðum ekki tekið til þessa ráðs að senda menn á undan austur í Eyri og kalla á ferjuna.

Sást þá sem oftar, að gott var að veita útlitinu athygli, sjá hvaða breyting yrði á veðrinu, en jafnframt að kunna ráð við því að lenda ekki í ófæru. Það voru þeir Pálmar og Einar í Aldarminni, sem bezt þóttu sjá, hvaða veður var í vændum, enda voru þeir báðir meðal hinna beztu og glöggskyggnustu formanna á Stokkseyri.

Slíkar ferðir sem þessar á landi og þvílíkar einnig á sjó, hafa kennt bæði mér og öðrum að fara varlega, gæta vel að öllu, en þó einkum veðráttufarinu, – ,,útlitinu“. Því hef ég skrifað nokkuð um það, jafnvel þótt ég viti, að nútímakynslóðin er „lærðari“ en svo í þessum efnum sem öllum öðrum, að hún þykist eigi þurfa þvílíkrar fræðslu við. Veðurathuganir Útvarpsins eru henni nægar og hin eina véfrétt, er hún leitar til, án þess þó að fást nokkuð um það, að hún reynist eigi aðeins marklaus oft á tíðum, heldur og beinlínis skaðlegt að taka hana á nokkurn veg til greina, sízt svo, að lægðirnar þar séu látnar ráða mestu um það, hvort menn hætta lífi sínu í tvísýnu, hvort heldur er á sjó eða landi. Hitt er annað, þótt menn hafi einhverja trú á því, að á einhverju tilteknu augnabliki sé heppilegast að laka saman flekk undan rigningu, en þó getur þetta einnig verið að óþörfu og oft í ótíma. Þótt veðurfregnirnar hafi sagt, að regn væri yfirvofandi eða þegar á skollið, -hefur engin rigning orðið, heldur hefur þurrkurinn haldizt og jafnvel aukizt að mun. Til þessa eru mörg og óhrekjanleg dæmi.

Til þess að finna þessum orðum mínum nokkurn stað vil ég segja frá veðurspá einni, er útvarpið flutti dag eftir dag, kvöld eftir kvöld og sérhverju sinni, sem veðurfregnir voru sagðar.

Það var harðindakafli um miðjan vetur, frost nokkurt, einkum á nóttum, og hafði svo staðið um nokkurra daga skeið eða nokkuð á aðra viku. Útvarpið sagði, að nú væri að bregða til sunnanáttar og rigningar að vænta þegar í nótt. Daginn eftir var veðrið nákvæmlega hið sama og áður, frostið þó ávallt meira. Þetta var endurtekið svo oft, að menn fóru að veita því sérstaka athygli.

Þá var það eitt sinn, að ég hitti Ísólf, bróður minn, að máli, en hann hef ég vitað allra manna eftirtektarsamastan og glöggastan á veður, og segi við hann:

„Þau ætla að verða nokkuð drjúg harðindin þau arna og lítið útlit, að þeim linni í bráð!“

Segir Ísólfur þá allkýmilega:

„Þetta er útvarpsblikan, sem okkur hefur verið boðuð nú um nokkurt skeið!“

Mér þótti þetta nýyrði hans bæði smellið og vel viðeigandi.

Hef ég því oft minnzt þess í huga mínum, er útvarpsveðurfregnir hafa verið sagðar, og þótt þær reynast þessu líkar á mörgum öðrum sviðum.

Segi ég svo ekki frekar af suðurferðum mínum eða annarra að svo komnu og læt þetta nægja að minnsta kosti í bili.

Leave a Reply

Close Menu