54-Heimilishættir og hollir siðir

Allra þeirra mörgu heimilismanna og annarra, er heima áttu að Syðra-Seli, þar sem foreldrar mínir bjuggu allan búskap sinn frá 1854 til 1887, minnist ég ávallt með virðingu og þakklæti sökum þess, hversu trúir þeir voru, hver í sinni stöðu, vinnusamir og vildu allt hið bezta, sem þeim gat til hugar komið, gjöra til heilla og hagsbóta fyrir heimilið, sem þar væri allt þeirra eigin eign. Með þakklæti minnist ég þeirra og fyrir alla góðvildina í garð okkar barnanna, foreldra okkar og annarra, er með þeim voru, sumir um mörg ár.

Heimilisfólkið að Syðra-Seli var um eitt skeið þetta:

Hjónin Páll Jónsson hreppstjóri, fæddur 3. september 1832, dáinn 24. febrúar 1887, og Margrét Gísladóttir ljósmóðir, fædd 16. marz 1830, dáin 20. marz 1914. Þau giftust 6. október 1854. Börnin: Jón Pálsson, fæddur 3. ágúst 1854, dáinn 21. október 1906, fimleikamaður og skytta. Pálmar Pálsson, fæddur 4. júlí 1855, dáinn 22. júlí 1855, 18 daga að aldri. Sesselja Pálsdóttir, fædd 27. júní 1856, dáin 23. júní 1871. Var veik alla ævi. Bjarni Pálsson, fæddur 18. júní 1857, dáinn 24. febrúar 1887, organisti frá 1876 til 1887. Þórdís Pálsdóttir, fædd 26. júní 1858, dáin 19. febrúar 1859, 8 mánaða og 22 daga að aldri. Pálmar Pálsson, fæddur 5. maí 1860, dáinn 24. janúar 1931, formaður á Stokkseyri. Júníus Pálsson, fæddur 3. júní 1861, dáinn 12. apríl 1932, formaður og sýslunefndarmaður. Gísli Pálsson, fæddur 16. febrúar 1863, dáinn 25. marz 1863, 27 daga að aldri. Jón Pálsson, fæddur 3. ágúst 1865, aðalféhirðir Landsbankans og organisti. Gísli Pálsson, fæddur 5. apríl 1868, dáinn 24. maí 1943, organisti frá 1910 til 1943. Ísólfur Pálsson, fæddur 5. nóvember 1869, dáinn 3. desember 1869, 27 daga að aldri. Ísólfur Pálsson, fæddur 11. marz 1871, dáinn 17. febrúar 1941, smáskammtalæknir og organisti.

Þess má geta um læknisdóma Ísólfs, að þeir voru undursamlegir, eins og hann var sjálfur. Bjarni hafði og sams konar lækningar á hendi, er heppnuðust ágætlega. Hann, svo og þeir Pálmar og Júníus voru meðal hinna beztu og heppnustu formanna Stokkseyrar. Bjarni fór 6 ára að aldri til Bjarna Björnssonar bókbindara í Götu og föðurafasystur okkar, Þórdísar Stulaugsdóttur. Orgelspil lærði hann hjá Sylvíu Ljunge, f. Thorgrímsen, og var barnakennari á Stokkseyri frá 1881 eða 1882 til dánardægurs.

Þessum vinnumönnum man ég eftir:

Nabba-Birni og Pétri Jónssyni. Hvers son Nabba-Björn var, man ég ekki, enda var ég þá ungur. Pétur var mörg ár og oftar en einu sinni og þá stundum að hálfu. Hann var einnig hjá tengdaforeldrum mínum, Adólf á Stokkseyri og Ingveldi, konu hans, einnig í Götu og Íragerði. Þegar hinir eldri bræður mínir, Jón, Pálmar og Júníus, komust upp, þurfti síður vinnumanna með, enda oft teknir menn í vinnu við og við til bygginga, ferðalaga og annars þess háttar, en ekki man ég eftir neinum kaupamanna. Þá voru þeir og á Seli Ólafur gamli Jónsson frá Hafliðakoti, dáinn 4. apríl 1878 62 ára, og var hann góður smiður, einkum á járn. Einnig var þar Ólafur Jónsson frá Nabba, faðir Samúels fátækrafulltrúa, en hann var karlægur aumingi og á sveitinni. Hann andaðist á Tóftum 2. október 1878, 79 ára að aldri.

Vinnukonur voru: Guðrún Sveinsdóttir, sem síðar giftist Stefáni, bróður Péturs. Var hún þar um mörg ár og hin fyrsta, sem ég man eftir. Þá var og Guðrún Jónsdóttir frá Seljatungu mörg ár og Hólmfríður Jónsdóttir, tengdamóðir Þorsteins frá Meiðastöðum. Þar var og Þórdís Hansdóttir um tíma, en hvort hún var fremur vinnukona eða matvinnungur, man ég ekki.

Ein hin fyrsta manneskja, sem ég man eftir fyrir utan foreldra mína og systkin, var Kristín Gísladóttir, sem nefnd var Stutta-Kristín, hálfsystir Margrétar, langömmu minnar og Guðríðar, konu Jóns hins ríka Þórðarsonar í Móhúsum, langömmu konu minnar. Harmaði ég hana mjög, þá er hún féll frá, 14. marz 1870, 76 ára að aldri. Allt var þetta ágætis fólk, trútt í sinni stöðu, guðelskandi og góðar manneskjur. Aðeins var sá ljóður á ráði Péturs Jónssonar, Pésa gamla, að hann var vínhneigður, en sjaldan kom það að sök. Hann var framúrskarandi barngóður maður og ástundunarsamur, skyldurækinn og vandaður til orða og verka. Þetta má ég með sanni segja um öll hin, bæði konur og karla, enda var heimilið friðsamt og til fyrirmyndar í öllu bæði úti og inni. Þar var unnið af kappi, en þó með forsjá, góðar viðgjörðir og gestrisni mikil.

Faðir minn var hæglátur maður mjög og stilltur, og aldrei sá ég hann bregða skapi, en stjórnsemi hans á öllu var þannig, að ef menn vissu, hvað hann vildi láta þá hafast að þann og þann daginn, þá var hver höndin annarri fljótari til að vinna verkið, hversu erfitt sem það var, eins og menn kepptust um að gera honum allt til geðs, enda vissi ég ekki til, að hann vandaði um við neinn eða léti óánægju sína í ljós út af neinu.

Móðir mín var svo sinnuð, að ég á bágt með að lýsa henni, eins og hún var. Síglöð, sívinnandi, ræðin, fróð og minnug með afbrigðum, en einkum var hún þó ættfróð og skarpskyggn á menn og málefni. En oft var hún lasin og lagði miklu meira á sig en hún var fær um að þola, enda eignuðust þau öll sín börn, l2 að tölu, á 17 árum. Hún var ólærð yfirsetukona, en tók þó á móti mörgum hundruðum barna, sem allt heppnaðist vel. Hún var ágætur dýralæknir og hjálpsöm við alla menn og málleysingja. Þá var hún ör á fé, einkum til þeirra mörgu, er hún vissi, að áttu bágt, og flest þau börn, er hún tók á móti, hélt hún hjá sér eigi skemur en vikutíma og oft lengur, allt án endurgjalds, enda var það bjargföst trú hennar – og reynsla-, að því meir sem hún gæfi eða gerði gott, því meiri blessun fylgdi öllu því, er hún sjálf hefði yfir að ráða, og ég er viss um, að í því sem mörgu öðru varð henni að trú sinni. Hún var veðurglögg mjög, og ég er viss um, að hún sá marga óorðna hluti fyrirfram.

Bæði voru þau, foreldrar mínir, góðir söngmenn, einkum hún, og rödd hennar fögur og skær eins og Gísla á Hrauni, bróður hennar, og Bjarna, sonar hennar. Sennilega mundi faðir minn talinn meðal íhaldsmanna og fremur afturhaldssamur. En hann var, þótt hægt færi, framsækinn hugsjónamaður. Móðir mín var örari í lund og hefði nú eflaust staðið meðal hinna framsæknari kvenna í þjóðmálum, en þó engin skerjála í þeim sökum, heldur hyggin og athugul, en ósérhlífin og Iylgin sér. En þau höfðu öðrum blöðum að fletta á þeim tímum en þeim að vera að vasast í þjóðmálum. Þó var faðir minn um mörg ár hreppstjóri, oddviti og sáttasemjari og meðhjálpari við Stokkseyrarkirkju ásamt svila sínum, Páli Eyjólfssyni í Íragerði. Það var að orðtaki haft um þá nafnana og svila, að þar sem Pálarnir væru báðir saman, þyrfti enginn að óttast flasfengið eða fruntaskapinn. Þeirra var ávallt minnzt með virðingu og virktum sökum gætni þeirrar og stillingar, er auðkenndi þá svo mjög.

Ávallt á hverju hausti frá Mikaelsmessu og fram að jólum voru á hverju rúmhelgu kvöldi sungnir Hugvekjusálmar séra Sigurðar Jónssonar. Eru þeir 50 að tölu, og svarar það vel til tímalengdarinnar, sem þeir skyldu notaðir. Allir eru sálmarnir langir eða að meðaltali 10-11 vers með 7-8 hendingum. Þótt innan um þá megi finna allvel sögð heilræði og smellnar samlíkingar, er þó meginhluti þeirra eigi einungis hið mesta skáldskaparhnoð, heldur og hið argasta bull, sem gengur guðlasti næst. Lögin eða lagboðarnir eru mjög óvenjulegir og naumast nokkurt lag hægt við þá að finna, jafnvel ekki í grallaranum, t. d. við þessa „sálma“: Einn tíma var sá auðugur mann, Miskunna þú mér, mikli Guð, Guð oss sinn lærdóm ljósan gaf, Að iðka gott með æru og Eilíft lífið er æskilegt. Þetta kom sér að vísu vel fyrir mig, sem oftast varð að vera forsöngvari heima, því að ég varð æ latari og þreyttari á að kyrja langlokur þessar sem ég var lengur látinn gera það, oftast einn eða þá með Jóni sál, bróður mínum, þegar hann var heima. Að vísu voru foreldrar mínir góðir söngmenn, eins og áður er sagt, einkum móðir mín, en hún gaf sér ekki tíma til þess að halda á bók og syngja vegna heimilisanna sinna. Hún vildi heldur nota þennan rólega tíma til þess að fylla í gat á fati, gera skó eða annað, sem mest kallaði að, því að heimilið var stórt, og sjaldnast hafði hún nema eina vinnukonu í einu. Þótt börnin væru ll að tölu, voru stúlkurnar aðeins tvær. Andaðist önnur þeirra á fyrsta ári, en hin varð aumingi og andaðist á 15. ári. Það var því alveg furðulegt, hvað móðir mín fékk mikið verk af hendi leyst: Að þjóna öllum þessum sæg barna, svo og þrem eða fjórum fullorðnum karlmönnum, auk einhvers, eins eða fleiri, ósjálfbjarga aumingjanum, sem á heimilinu var, og matbúa handa öllu þessu fólki með einni vinnukonu sér til aðstoðar. Að vísu vorum við piltarnir brátt vandir á að vinna öll þessi verk og hjálpa til við þau bæði utan húss og innan, og má vera að nokkurt lið hafi verið að því. Árið 1875 fæddist Bjarna, bróður mínum, annað stúlkubarn sitt, Þórdís, kona Jóns Adólfssonar, mágs míns, og tóku foreldrar mínir hana að sér fárra nátta gamla og ólu upp sem sín eigin börn. Var yngsta barn þeirra, Ísólfur, þá á 4. ári og heilsuveill mjög.

Húslestrar voru iðulega og óslitið haldnir frá haustnóttum til hvítasunnu. Eins og áður er getið, voru Hugvekjusálmarnir sungnir fram að jólum, þá Fæðingarsálmarnir fram að sjöviknaföstu, þá Passíusálmarnir fram að páskum og Sigurljóðin fram að hvítasunnu.

Um föstuna voru á sunnudögum og miðvikudögum sálmar sungnir af Grallaranum og Píslarþankar og Sjöorðabók þá hafðar sem lestrarbækur. Þessa daga önnuðust foreldrar mínir sönginn, því að ég kunni ekki og vildi ekki – því miður – læra gömlu lögin. Vildi ég nú kunna þau öll, því að lagið Víst ertu, Jesús kóngur klár hefur loðað í minni mínu alla tíð síðan, og því bað ég fyrir tilmæli séra Haralds Níelssonar, vinar míns, Pál Ísólfsson að raddsetja það. Var það í fyrsta sinni sungið á föstudaginn langa 1927 og ótaloft síðan. Væri það nú óþekkt með öllu og algjörlega gleymt, hefði ég eigi endurvakið það.

Sem forsöngvari við alla þessa mörgu og löngu sálma hafði ég fengið það einkaleyfi að mega hlaupa yfir öll þau lög, sem ég ekki kunni. Þennan rétt minn notaði ég út í yztu æsar, en ég varð að skrifa sálmanúmerin á blað, því að sérhverjum flokki enduðum var Guðmundur sál. Þorgilsson, afabróðir minn, fenginn til þess að dvelja á heimilinu viku eða hálfan mánuð eftir því, hversu hin niðurfelldu lög voru mörg, aðeins til þess að syngja þau við. húslestrana, því að enginn sálmur mátti niður falla nema tveir eða þrír hinir síðustu í Hugvekjusálmunum, en efa var ekki unnt að syngja þá eða lesa vegna hinna ógurlegu formælinga og blótsyrða, sem í þeim voru.

Þessi guðræknisiðkun og húslestrahald er skýrasta dæmið um hina miklu fastheldni og ófrávíkjanlegu reglu við eldri venjur og siði, sem þá var á öllu, og ég held nú, – þótt leitt þætti mér þá, – að þetta hafi verið hollir siðir, sem alls ekki hafi mátt leggjast niður með þjóð vorri. Nú er öldin önnur, en hvert leiðir hún? Tíminn segir til um það.

Það var venja á heimilinu, að fullorðna fólkið tæki sér rökkursvefn frá kl. 5-6 á hverju rúmhelgu kveldi. Fengum við krakkarnir þá að vera úti og leika okkur fram að kvöldverði kl. 6 1/2-7, en eftir það hófst vakan. Þennan kvöldtíma til leikja notuðum við til þess að renna okkur á ísi, ýmist á frosnum klakatorfum (byrjendur í þeirri list), velslíptum hrossleggjum eða vel sorfnum skautum.

Á vökunni spunnu konur band eða þráð í prjónles og til vefja, en börnin tættu ull, hrosshár og fífu til kveikja í grútarlampa og kolur, spóluðu band til vefja, röktu í sundur tjörukaðla og hamp til færa o. s. frv., en karlmenn fléttuðu reiptögl, smíðuðu hagldir, þæfðu sokka og nærföt. Var einn þeirra í vefstólnum og oft einhver drengjanna þar einnig til þess að rétta í haföld eða vefjarskeið. Einn kvað rímur, en væri sögur lesnar, þá lenti það oftast á mér, því að bæði var ég brátt vel læs og ávallt latari til allrar vinnu en nokkur hinna. Sjaldan las ég þó húslesturinn. Það gerði faðir okkar oftast nær eða þá Jón sál., bróðir minn.

Húslestrabækurnar voru ávallt teknar fram kl. 11, og sagði þá faðir okkar: ,,Við skulum fara að lesa!“ Varð þá hver og einn, eldri sem yngri, að leggja frá sér alla vinnu, meðan sjálfur lesturinn fór fram, og hlýða með athygli á það, sem lesið var, en ekki náði þessi niðurfelling vinnunnar til þess, að sungnir væri sálmarnir. Að lestrinum loknum sögðu allir þeir, er á hlýddu: „Ég þakka fyrir lesturinn!“ og svaraði þá sá, er las: ,,Guð blessi ykkur og gefi góðar nætur!“ Síðan var gengið til náða um kl. 11 1/2 og sofið til kl. 5-6 að morgni. Fóru þá allir fullorðnir á stjá og hver til sinna verka, en við börnin máttum sofa til kl. 7.

Klukkan 9 var etinn litli skatturinn: Þverhandarbreitt fiskstykki af fiskhelmingi, hálf rúgmjölskaka með hrossatólgarbræðingi, – sem var betra viðbit en bezta smjör, – og kaffi drukkið með litlum kandíssykursmola, sem lá á undirskál hvers eins utan við kaffibollann.

Um hádegið var miðdegisverður: þorskkjammi, væn sneið af blóðmör, oftast hrossablóðmör, sem öllum þótti góður, ásamt hálfri rúgmjölsköku, tveim mörkum af skyrhræringi og kaffi á eftir. Um nónbilið kl. 3 var drukkin ein mörk af mjólk og söl etin við henni eftir vild. Kl. 6½-7 var svo loks etin hrossakjötssúpa. Sjaldan var súpa með sauðakjöti, nema sérstaklega stæði á, gestir væru eða sunnudagur, og voru oftast einn eða tveir bitar af kjöti í súpunni og ávallt sallaskorið súrkál, sem soðið var með henni. Undantekningar frá þessu voru þó vitanlega margar. Á haustum var etinn nýr blóðmör úr sauðfé og hrossum, hrossa- og kýrhraun vel reykt, svo og nýr og gamall fiskur í miðdegisverð, kútmagar, sundmagar, svil og hrogn, nýir ýsuhausar og þorskhöfðastappa með þorsklifur, ýsudúfur, skötumagar, reyktur háfur og þurrkuð skata, vel kæst og verkuð. Þá voru og notuð reykt hrogn og svil, súrsuð vil, lundabaggar og hnakkaspik, súrsaðir skötumagar, sundmagar og hertur hákarl, – án brennivíns.

Sölin, mjólkin og hrossaslátrið, einkum hrossabræðingurinn og hin breytilega fæða, held ég, – auk vinnunnar -, að komið hafi í okkur krakkana seigjunni, þolinu og þrekinu og gert okkur léttari í geði, fjörugri og líflegri en verið hefði, ef við hefðum lifað á kræsingum eða við eftirlátsemi þá alla, sem börn nútímans eiga við að búa, óánægð og illa haldin af ofmikilli eftirlátssemi og óþarfa dekri, enda vorum við brátt hraustir unglingar og hæfir til þess að hugsa – og vinna.

Undirbúningur fyrir jólin hófst þegar á haustnóttum. Jólasauðurinn, einn eða tveir, hafði þá þegar fengið hefðarsæti sitt yfir hónum og hlóðum eldhússins Kertaformið var fægt og hreinsað með bómullarþræði í miðju og kertin steypt, því hver maður, eldri sem yngri, átti þess vísa von að fá kerti sitt heilt og vel steypt um jólin. Áður en kertaformin komu til sögunnar, voru steyptir dásar, – þar af orðtakið að steypa dása, þegar einhver dottaði mjög af svefni, – og þá var sjálfsagt „að fara á Bakkann“ til þess að fá þaðan það, sem enginn mátti án vera og sízt um jólin: kaffi, sykur og brennivín, eldspýtur og ýmislegt fleira.

Ég ætla að skjóta því hér inn í, að olíulampa sá ég fyrst árið 1874 og stundaklukku árið eftir (1875). Áður voru notaðir grútarlampar, einn eða fleiri, sem hengdir voru við stoðir milli rúma í baðstofunni, og kolur voru notaðar frammi við og í göngum, hvort tveggja með snúnum fífukveikjum og lýsi til ljósgjafa, en oft var þetta „lítið ljós“ og dauft, svo að furðu sætti, hversu lengi menn gátu notazt við það án þess að missa sjónina. En annað var ekki að hafa, og menn urðu að sætta sig við þetta sem margt annað erfitt og ófullkomið á þeim tímum. Því var dagsljósið notað út í yztu æsar. Í stað klukkunnar varð að nota dagsmörkin; árris, dagmál, hádegi, miðmunda, nón, miðaftan, náttmál, óttu, sólina á daginn, en sjöstirnið að nóttunni, og þótti þá vel vakað, ef „stjarnan“ (sjöstirnið) var komin í miðmundamál, hversu ótal mörg merki á himni, á láði og á legi, menn urðu að nota sér og öðrum til aðstoðar og leiðbeiningar, og hef ég skrifað um þetta, einkum um veðráttufarið og veðurspárnar á öðrum stað. Hygg ég, að flest af því sé ábyggilegra og öruggara en veðurfregnir útvarpsins reynast oft og einatt. En nú lítur enginn til lofts! Það er því óhætt að segja, að „seint munu svínin að sólinni gá“, án þess að ég vilji þó telja alla menn „svín“, en þeir eiga þó að þessu leyti skyldleik nokkurn með þessum dýrum, og má því þetta til sanns vegar færast, hvað þá menn áhrærir, sem aldrei gá til sólar eða veðurs, en það: var beinlínis lífsnauðsyn manna áður fyrrum, og því skildu þeir svo margt, sem menn nú á tímum hafa engan skilning á, en þó gæti komið þeim að góðu.

Á aðfangadag jóla eða það kvöld var hafður grjónavellingur með kanel, rúsínum og sykri, – þannig var einnig á fyrsta sumardag og daginn, sem túngjöldin voru, en aldrei endranær, – og þá mátti enginn fara neitt frá bænum, enginn hreyfa spil eða neitt það, er raskað gæti helgiró þeirri, er ríkja varð með öllum heimilismönnum. Þá mátti aðeins lesa í góðum bókum, helzt guðsorðabókum, skrifa bréf og annað þess háttar, þar til lesinn var jólakvöldlesturinn eða farið var til kirkju til kvöldsöngva og komið þaðan, en kvöldsöngvarnir þar eystra komust fyrst á árið 1874 á Stokkseyri bæði á aðfangadagskvöld og á gamlaárskvöld. Man ég enn, hve hrifinn ég var, þá á 9. ári, er ég heyrði lögin: Við sérhver takmörk tíða eftir J. A. P. Schultz og Nú sefur grund og bjarkablómi eftir N. W. Gade, sem ávallt voru sungnir á gamlaárskvöld.

Á aðfangadagskvöld jóla að lestri loknum eða heimkomu frá kirkju tók faðir minn upp úr dragkistu sinni öll þau sendibréf, er honum höfðu borizt á árinu, og þau voru mörg. Las hann þau öll yfir og reif það frá, sem óskrifað var, og skipti því millum okkar. Sat þá hver drengur á sínu rúmi með kistilinn sinn eða púltið á kné sér, hver með sína forskrift, sem hann hafði sjálfur skrifað, og skrifaði nú hver okkar eftir henni. Þeir, sem lengra voru komnir, skrifuðu bréf eða þá kvæði úr bókum, sögubrot eða annað, og var algerð kyrrð og þögn þetta kvöld, unz gengið var til hvílu kl. 10 og hverjum heimilismanni boðin gleðileg jól í Jesú nafni með kossi og handabandi. Var þessi siður endurtekinn aftur næsta morgun, jóladagsmorguninn um leið og kaffið með hinum lostætu, sykruðu lummum var fært hverjum og einum í rúmið, væri hann þá eigi kominn á fætur og farinn til morgunverka. Væri hann það, þá var kallað á hann inn, svo að allir gætu sýnt þennan gamla sið og fagnað jóladeginum í sameiningu.

Ég vil geta þess, að ein hin fyrsta forskrift, sem ég fékk, gaf Eyjólfur Magnússon mér (hann var nefndur Eyjólfur „ljóstollur“), en hann var framúrskarandi vel gefinn maður og barngóður með afbrigðum. Að ég þyki hafa haft áferðarfallega og skýra rithönd á ég m. a. honum að þakka og svo kennara mínum Guðmundi sál. Guðmundssyni bóksala, en hjá honum var ég í 4 mánuði í barnaskólanum á Eyrarbakka veturinn 1877-78 og aðra 4 mánuði hjá Ísleifi sál. Vernharðssyni á Stokkseyri tveim vetrum síðar veturinn 1879-80. Var það öll sú skólafræðsla, sem ég naut bæði fyrr og síðar á ævinni, að undanteknum nokkrum vikum fyrir jólin 1874, hjá séra Gísla sál. Thorarensen á Ásgautsstöðum og Sigurði, syni hans. Var ég þá á 9. ári. Séra Gísli Thorarensen varð bráðkvaddur á jóladaginn 1874, þá er hann stóð upp úr sæti sínu í Stokkseyrarstofu og bjóst til að ganga í kirkju til messugjörðar. Af því leiddi það fyrir mig, að lærdómi mínum var lokið þá að sinni. Hvað ég lærði, man ég ekki, nema það, að ég komst svo langt í einfaldri deilingu, að ég gat deilt með þrem tölum í 6 eða 7 tölustafi í deilingarstofni. Man ég það af því, að ég sat allan daginn, meðan Sigurður Thorarensen brá sér út á Bakka og dvaldist nokkuð lengi, við að finna það út í lok dæmisins, hvaða staf ég ætti að fá í útkomunni með því að skipta 701 í 701 stað! Þetta varð mér erfiðara dæmi en flest önnur síðar, og var ég þó talsvert glöggur á tölur og fær í reikningi, enda hafði ég mikinn áhuga á þeirri grein og sæmilegan skilning.

Jóladeginum var fagnað með því, að allir, yngri sem eldri, vöknuðu kl. 5 og fóru að gegna þörfum kvikfénaðarins, sem var 10-12 nautgripir, 60-70 gemlingar (lömb), um 100 ær og 15-20 hross.

Kl. 9 var kaffi drukkið, og fékk hver maður 2-3 lummur með því. Kl. 12 var steikt kjöt með skyri og rjóma sem eftirmat, og kl. 3 var mjólk drukkin með kaffibrauði, því eina, sem þá þekktist, en það voru lummurnar. Kl. 6 kom svo aðalhátíðarmaturinn: hangið kjöt svo mikið sem hægt var að raða á vænan disk og á honum tolldi. Voru þar á meðal tvö feit rif, nóg af brauði og kökum. Þótti þá jólamaturinn eigi vel úti látinn né heldur vel með hann farið, ef hann entist eigi fram á þrettándakvöld, þannig að þá væri síðasti bitinn af jólaketinu þó eftir óétinn. Vitanlega var þó eigi dregið úr venjulegum matarskammti þennan tíma, en hjá mér var þessi ketbiti ekki orðinn stór á þrettándakvöld!

Að borðhaldi loknu á jóladagskvöld var setzt að spilum, og sátu flestir við þau til miðnættis, aðrir til óttu og hinir þaulsætnustu til miðmorguns, Var þá hitað „púns“, – vatn með rommi, – og máttu allir neyta þess, sem vildu, aðrir en börn og unglingar. Enginn sást fullur nema Pési, ef hann var þá heima, en hann kom ef til vill stundum heim einhvern tímanæturinnar rétt í bili til þess aðeins að halda hinn venjulega „eldhúsdag“ sinn yfir húsbændunum og vinnukonunni, einni eða fleirum. Að því búnu fór hann í leiðangur á aðra bæi og sást e. t. v. ekki heima á því ári oftar. Það var engin hætta á því, að við krakkarnir drykkjum púns eða annað vín, því að okkur þótti það vont og vildum það ekki.

Þetta kvöld voru margir boðnir og það boð endurgoldið og þakkað með öðru boði fyrir einstaka menn af heimilinu hjá þeim, sem jólaboðið þáðu. Spilað var hundvist, alkort, treikort, marlas, kasína, púkk, svarti-Pétur og langhundur, en almennust var þó hin svonefnda „neyðarnóló“, en hún var þannig, að sá, er í bakhönd var, varð að spila „nóló“, hversu „vond spil“, sem hann hafði. Sá, sem á móti honum var, átti að „verja“ hann, en hinir tveir að sjá svo til, að hann fengi sem flesta slagina! Því var það, að karlinn, sem spilað hafði neyðarnóló alla nóttina, sagði í kirkjunni daginn eftir, þegar aðrir stóðu upp til þess að taka á móti blessun prestsins: ,,Ha! Er ég í neyðinni, með alla kóngana?!“ Ásarnir voru nefnilega lægstir í neyðarnóló, en kóngarnir hæstir.

Aldrei var spilað upp á peninga og aldrei sungið, því að spilin tóku allan tímann, – og veitti ekki af, því að þá var hann sízt of langur.

Jólakertin okkar urðu að endast eins vel og jólaketið, fram á þrettánda. Væri messur eða kvöldsöngvar haldnir, urðu hinar daglegu „gegningar“ alls kvikfénaðar að ganga fyrir öllu, en oftast voru þær einum klukkutíma fyrr þá daga en endranær.

Það þótti mikill ljóður á hátíðum, ef svo bar undir, að vaka varð yfir kú, sem var að bera. Þá fóru 8 eða 4 út í fjós með spilin sín og spiluðu í einhverjum auða básnum, sem venjulega var kórbásinn, jafnvel þó þar væri kálfur eða vetrungur fyrir. Skemmtu menn sér þá einnig vel og höfðu þar allt til alls eins og þeir sem inni voru, þótt eigi væri það jafnmargbreytileg skemmtun fyrir þá.

Væri illveður, – ég man reyndar ekki eftir neinu illviðri um jólin, því mér fannst þá, að það væri eini blíðviðrisdagur ársins, – eða veikindi á heimilinu, var vitanlega enginn gleðskapur um hönd hafður.

Gamlaárskvöld og nýárshátíðin var að flestu leyti jafntilkomumikil sem sjálf jólahátíðin, en að því leyti frábrugðin, að þá voru blysfarir hafðar og brennur svo miklar, að ég hef ekki séð þær meiri síðan, jafnvel ekki hér í Reykjavík, en aldrei vissi ég til, að dans eða önnur skrípalæti væri þeim samfara. Á Stokkseyri og á Eyrarbakka, eftir að ég fluttist þangað, árið 1889, var það hlutskipti mitt að vera „álfadrottning“, sökum þess að ég þótti geta sungið nógu mikið – og hátt. Álfakóngurinn var þá ætíð Guðni Jónsson formaður, venjulega nefndur „stóri“ eða „sterki“ Guðni, því að svo sterkur var hann, að ég sá hann oft lyfta fullri lagertunnu (brennivínstunnu) upp á brjóst sér og að munni sér, eins og væri það hálf-anker, enda sá ég það til hans, að hann renndi af fullri brennivínsflösku í sama teyg, án þess að taka hana frá munni sér, fyrr en hún var tóm niður í botn! Sterki-Guðni var stór vexti, en svo stilltur og gæfur maður, að ég hef fáa vitað hans líka. Hann var lengi vinnumaður hjá fósturforeldrum konunnar minnar, þeim Andrési sál. Ásgrímssyni, föður Þorleifs pípugerðarmanns, og Jóni Sveinbjarnarsyni, föður Sveinbjarnar hæstaréttarmálaflutningsmanns, og konu þeirra hvors eftir annan, Málfríði Þorleifsdóttur Kolbeinssonar ríka. Guðni var einn meðal hinna sókndjörfustu og aflahæstu formanna á Eyrarbakka, en hann varð ekki gamall maður, þótt hraustur væri og heilsugóður á yngri árum. Er

sennilegt, að vínið hafi flýtt fyrir dauða hans, og gat hann þó enginn drykkjumaður kallazt og sízt meiri en margir aðrir þar eystra á þeim tímum, áður en Goodtemplarastarfið hófst þar 1885. Guðni varð, eins og margir góðir menn aðrir, meðal beztu Templara síðustu æviár sín.

Hvert sem litið var af Eyrarbakka á gamlaárskvöld eða þrettánda, út í Ölves, upp í Grímsnes eða um allan Flóann, mátti sjá minni og stærri brennur. Voru sumar þeirra að vísu eigi stórar, aðeins úr torfi, heyi og mosa, en allar sýndu þær hina sömu viðleitni: Að brenna út árið á hátíðlegan hátt, en engar komust þar í hálfkvisti við brennurnar á Stokkseyri og Eyrarbakka, því að þar þótti ekki minna nægja auk nægs timburs en að brenna upp tveim tjöruköggum fullum og steinolíutunnu að auki.

*

Framanritað er að nokkru leyti samhljóða því, er ég hef áður ritað um ýmislegt það, er við hefur borið og fram við mig komið á ævi minni. En sökum þess að ég finn nú hvergi þessi „skrif“ mín, en ætlaðist til, að þessi atriði gæti ef til vill komið til mála, að ég flytti í útvarpserindi, hripaði og þau hér að nýju. Sennilega gætir einhvers ósamræmis, enda er þetta hripað í flýti, eins og sendibréf væri, og eftir minni.

Reykjavík, 19. júlí 1938.

Leave a Reply

Close Menu