44-Ábyrgðarfélag opinna róðraskipa

Stofnandi þess og aðalumsjónarmaður var P. Nielsen gamli.

Þótt aldrei væri hann sjómaður, lét hann sér svo annt um allt það, er að sjómennskunni laut þar eystra, og hafði enginn, hvorki fyrr né síðar, sýnt því máli jafnmikinn áhuga. Sérstaklega voru það bjargráðin og umbætur allar, sem hann bar mjög fyrir brjósti.

Hvort nokkuð er eftir af félagi þessu, veit ég ekki, en get hugsað mér, að það hafi lagzt niður með öllu, þegar aðrar vátryggingar á skipum og bátum voru settar á stofn hér syðra.

Málefni þetta varð þó til þess að hvetja til annarra framkvæmda í þessa átt og stuðla að frekari aðgjörðum. Var svo um margt þar eystra, að ýmislegt, sem byrjað var í smáum stíl og af vanefnum, varð vísir til annars meira og upphafið að mikilsverðum framfaramálum.

En að verzlunarstjóri Lefoliisverzlunar skyldi vera einna fremstur í flokki framfaramanna sýnir það, að Eyrarbakkaverzlunin átti það sízt skilið að vera sökuð um afturhaldssemi og stirðbusahátt. Hún var oftast driffjöðrin í flestum framfaramálum austur þar, og án hennar og atbeina forstöðumanna hennar hefði minna áunnizt en raun varð á. Það kann að hafa þótt lítið, en þess verður að gæta, að kyrrstaðan hafði lengi ráðið þar sem annars staðar lögum og lofum um margra alda skeið.

Leave a Reply

Close Menu