43-Lestrarfélag Árnessýslu

Aðalfrumkvöðull þess, að Lestrarfélag Árnessýslu náði svo miklum vexti og viðgangi sem raun varð á, var Kristján sál. Jóhannesson. Dugnaður hans í þessu sem öðru var með ágætum. Hann var lengst af formaður félagsins, aflaði því fjölda góðra bóka og merkilegra og lét sér mjög annt um, að almenningur notaði þær. Hann samdi skrá yfir allar bækurnar og hélt ágætri reglu á geymslu þeirra og útlánum.

Meðal annarra styrktarmanna Lestrarfélags Árnessýslu var hinn gáfaði og góði merkisprestur séra Eggert Sigfússon að Vogsósum. Meðal bóka þeirra, er hann gaf félaginu, var eintak af Salomonsens Leksikon í gylltu bandi. En er Kristján Jóhannesson fór að virða fyrir sér bækurnar, sá hann sér til mikillar undrunar, að í öll bindin vantaði hverja einustu litmynd, er hann átti von á, að þar væru.

Þegar nú séra Eggert korn til Eyrarbakka skömmu síðar, þakkaði Kristján honum fyrir hina veglegu gjöf, en spurði um leið, hverju það sætti, að engar litmyndir fyndust í þessu mikla alfræðiriti.

„Já, myndirnar!“ sagði séra Eggert, ,,ég reif þær úr og gaf krökkunum! Eða hvað á að gera við myndir í Leksikoni? Þær eiga þar ekki heima og eru alveg óþarfar. Menn eiga að muna það, sem þeir lesa, en ekki vera að skoða myndir!!“

Séra Eggert þurfti þess sízt allra manna að skerpa minnisgáfu sína við myndaskoðun. Hann las hverja bók einu sinni spjaldanna á milli, reif hana síðan upp úr bandinu og brenndi hana! Spjöldunum hélt hann aðeins eftir handa krökkunum til að leika sér að. Innihald, ártöl öll og atburði mundi hann svo vel, að hann sagði frá því og helztu setningum, sem læsi hann það úr bókinni sjálfri.

Hvað er nú orðið um þetta mikla og góða Lestrarfélag Árnessýslu?

Engin einasta bók til, allar farnar út í veður og vind. Því eftir að bókahirðirinn góði og samvizkusami, Kristján Jóhannesson, féll frá 8. febrúar 1910, fékkst enginn til þess að sinna því framar. Bókunum var eigi skilað úr útlánum, sumum var hnuplað, en aðrar seldar á uppboði eða til einstakra manna.

Þannig fer um flest, þegar forustuna og fórnfýsina skortir og foringjans missir við, án þess að nokkur sé eftir, sem hefur vilja og getu til þess að halda í horfinu að honum látnum. Þannig er um margt á landi hér. Íslendingar eru oft kærulausir um hirðusemi, nýtni og viðhald verðmæta sinna, því það er álitið svo gamalt og úr sér gengið, að enginn nennir neitt við það að eiga. Hið nýja á að ryðja öllu gömlu af sér og engu öðru að sinna nema aðeins því, sem nýtt er, þótt lélegt sé og lítt að gagni.

Eyrarbakki missti mikið við fráfall þessa mæta manns, Kristjáns Jóhannessonar, er varð aðeins 43 ára að aldri. Meðal annars varð Sparisjóður Árnessýslu fyrir óbætanlegum hnekki við fráfall hans og einnig ýmiss konar félagsskapur annar, er hann lét sig miklu varða og studdi á ýmsa lund.

Leave a Reply

Close Menu