39-Hafnsögumaðurinn

Hafnsögumennirnir voru jafnan úrvals sjómenn og víkingar, en ekki voru þeir „sterkir í dönskunni“.

Þegar skipstjórarnir gömlu komu í land til þess að sækja skipsskjöl sín og voru orðnir leiðir á biðinni, spurðu þeir hafnsögumann, hverju hann spáði um veðrið.

,,Hvad mener De om Vejret i Dag, Herr Lods?“

Gamli maðurinn gretti sig, gaut augunum í allar áttir og upp í himinhvolfið og sagði síðan með miklum spekingssvip:

,,Jæ trúer vindurinn han blífur skral í dag, herr kaptæn!“ Þetta dæmi og mörg önnur sýna, að „bæði voru nú skæðin góð“, þegar um málakunnáttuna var að ræða hjá Dönum og Íslendingum. Venjulega lögðu Bakkamenn harla litla alúð við danska tungu og gerðu sér far um, að láta hana sem minnst áhrif hafa á málfar sitt. Mættu margir og ekki sízt Reykvíkingar taka þá sér til fyrirmyndar í þessu efni, svo að, segja mætti um þá hið sama og Eggert Ólafsson sagði um Bakkamennina forðum og Flóafíflin, að „hjá þeim væri málið hreint og óbjagað“.

Alla þá, sem íslenzkri tungu unna, hlýtur að taka það sárt að heyra ungar og fagrar blómarósir höfuðstaðarins segja, að eitt eða annað sé „agalega lækkert“!

Þykir mörgum nú á dögum betri íslenzka að segja „O-key“ og „bless“ í stað orða þeirra, er vér höfum notazt við um langan aldur. Enskusletturnar eru að ryðja sér til rúms og dönskusletturnar að þoka fyrir þeim. Bráðum verða það ef til vill rússneskar slettur, og hefur íslenzkan þá þokað fyrir þeim öllum!

Leave a Reply

Close Menu