38-„Vínbruggunin“ á Bakkanum

Í norðurenda nýlenduvörubúðarinnar á Eyrarbakka var allstórt afþiljað svæði, sem kallað var „kjallarinn“. Þetta var þó eigi hinn raunverulegi vínkjallari. Hann var aðeins undir nokkrum hluta svæðisins og að nokkru eða mestu leyti undir enn stærra húsi, sem sé vörugeymsluhúsinu.

Inn um vesturhlið kjallarans lá járnbraut alla leið neðan frá sjó um portið og inn í öll vörugeymsluhúsin. Þar, sem járnbrautin endaði inni í kjallaranum, var stórt op upp í gegn um loftið, og voru vörurnar teknar þar af vögnunum og dregnar upp á loftin og skipt niður í hinar ýmsu deildir.

Í kjallaranum sátu oft tímum og dögum saman nokkrir ungir menn. Voru þeir viðvaningar, sem ekki þurfti við til afgreiðslu frammi í búðinni nema á aðallestunum og þegar ös var mikil, t. d. um og eftir vertíðarlokin eða um Jónsmessuleytið.

Þessir menn höfðu ýmis störf með höndum, því ávallt var séð fyrir því, að enginn væri iðjulaus. Þeir töldu og vigtuðu sleginn saum og steyptan, 50 og 100 stykki í hvert knippi. Þeir vigtuðu hellulit, blástein, vitriol, brjóstsykur, kanel og kúrenur, ýmsar smávörur aðrar og bjuggu svo um, að hægara væri að afhenda þessar vörur, þegar að því kæmi, að ösin á aðallestunum varð svo mikil, að nærri óviðráðanlegt var.

Einn góðan veðurdag kom svo að því, að brugga þurfti hið svonefnda „kvennavín“, og þótti þá mörgum okkar, sem jólin væru komin, því vínbruggunardagarnir voru sannkallaðir hátíðisdagar, sem við hlökkuðum til allt vorið. Óskuðum við, að þeir stæðu sem lengst, yrðu helzt þrí- eða fjórhelgir, regluleg stóru brandajól!

Það var æfagamall siður þar við verzlunina, að sérhver sá, er þar hafði fastan reikning, en þeir voru nær fjórum þúsundum, fengi hinn svonefnda „ferðapela“. Það var oftast þriggjapelaflaska full af brennivíni, og var ferðapelinn ávallt ókeypis úti látinn sem nokkurs konar uppbót ásamt mörgu öðru smávegis fyrir góð viðskipti.

En þótt sjálfsagt þætti, að hver karlmaður fengi ferðapelann sinn vel og svikalaust úti látinn, þá þótti hitt eigi síður sjálfsagt og eðlilegt, að konan hans, kærasta eða „gamla konan“, sem svo lengi hafði haft góð og mikil viðskipti við verzlunina, fengi einnig ferðapelann sinn sendan heim til sín til minja um viðskiptin eða sem viðurkenningu fyrir því, að verzlunareigandinn eða forstjóri hennar myndi líka eftir húsfreyjunni, kærustunni eða gömlu konunni. Þeir vissu vel og engu síður en aðrir, hve vel það kom sér að fá slíka dýrmætis-sendingu heim á heimilið og að margri konunni þótti það meira en lítils virði að geta dregið „tiltrekkta“ vínflösku upp úr kistuhorninu og sýnt nágrannakonu sinni það, sem blessaður kaupmaðurinn hafði sent henni heim á lestunum í vor með manninum hennar, kærastanum eða drengnum hennar.

Kvennavíns-ferðapelinn var margra tuga króna virði og meiri og betri vináttu- og virðingarvottur frá kaupmannsins hendi en nokkurn grunaði eða gæti því lýst.

Og nú áttum við að brugga þennan ódáinsdrykk. Hann var þannig gjörður:

Tekinn var stór flókahattur, grár að: lit, hreinn og vandlega þveginn. Hann var keilumyndaður og opið nærri ein alin í þvermál. Þrjú bönd voru fest í röndina á opinu og hatturinn látinn hanga þannig á þeim ofan frá bita í „kjallaranum“.

Hatturinn var síðan fylltur nærri til hálfs með ýmsum sætindum, svo sem umsópum öllum úr sykurskúffunum og síðan bætt í. hann svo miklu af púðursykri (farin) sem þurfa þótti. Því næst var sjóðandi vatni hellt í hattinn og sykurlögurinn látinn síast í gegn um hann ofan í afarstóran trébala eða stamp og hæfilega miklum vínanda og kirsuberjalegi blandað saman við. En til þess að liturinn á legi þessum yrði sem fegurstur og líkastur möttli þeim, er Mardekaj Júdi skrýddist, þegar hann gekk í konunglegum skrúða út úr höll Ahasverusar konungs í borginni Súsa, eins og því er lýst í Esterarbók, 8. kap. 15. versi, en það er hinn fagurrauði purpuralitur, var litur sá, er indicum nefnist eða öðru nafni alin, látinn drjúpa í kerið og lögurinn síðan látinn kólna, unz hægt væri að reyna hann með vínandamæli, er sýndi 3 1/2 stig styrkleika.

Að þessu búnu voru teknir fram tveir trékassar tómir, þeim hvolft og sín þríkveikju olíuvélin sett á hvorn þeirra. Á aðra þessara véla var svo látinn lítill skaftpottur og í hann mulið grænt lakk eða rautt, sem látið var malla við hægan hrís. Á hina vélina var settur ofurlítill límpottur, límið mulið eða brotið í hann og það svo látið krauma. Þessu næst var stór skjóla fengin, full af sjóðandi vatni, og í hana látnir korktappar margir, svo að þeir gætu bólgnað sem mest, áður en þeir yrðu reknir í flöskustútana með tappavélinni, sem nú einnig var við hendina ásamt 5-6 þumlunga löngum, flatmynduðum og ferstrendum stálteini, sem síðar var not fyrir.

Nú var allt til reiðu í góðri röð og reglu, svo að óhætt var að byrja á athöfninni: Hella vínblöndunni á hálfsannarspelaflöskur, reka tappa í stúta með steyttum hnefa á bullustöng vélarinnar, dýfa flöskustútunum niður í bráðið lakkið, snúa þeim vandlega og velta þeim í hendi sér, svo að lakkið ekki rynni niður og loks að taka ferstrenda stálteininn og halda honum undir einum fingri eða tveim ofan á miðunum, sem líma átti á flöskurnar, meðan því var strokið yfir þá, sitt hverum megin við teininn, og flöskunum síðan valtað yfir þá. Umgjörð miðanna var með myndum af vínberjakönglum og innan umgjarðarinnar með logagylltum engla-hámyndum á öllum hornum og vængjuðum Amor og Venus í miðju.

Þannig var þetta sköpunarverk okkar á að líta, og – ,,sjá – það var harla gott!“

Leave a Reply

Close Menu