33-Úr „syrpum“ séra Eggerts Sigfússonar

Haustið 1868 var ég að tala við Þorleif á hlaðinu á Háeyri. Þá kemur maður og vill fá skipti á sméri og tólg. Þorleifur kvaðst vilja skipta þannig, að hann fengi 1 pund af sméri gegn 1 pundi af tólg.

Þá segir maðurinn:

,,Haldið þér, að ég hafi ábata af þessu?“ Þorleifur svaraði:

,,Nei! Ég held, að þú hafir skaða af því. En þú ert sjálfráður!“ Maðurinn labbaði þegjandi í burtu.

*

Jón í Höfninni og Þorleifur á Háeyri höfðu einhver viðskipti saman. Og viðskiptin enduðu þannig, að Þorleifur sá ekki við Jóni. Þá mælti Þorleifur:

„Þú ert sá fyrsti maður, sem hefur leikið á mig, og þess skaltu njóta!“

Þessa sögu hefur ,Jón í Höfninni sjálfur sagt mér.

*

Árið 1836 fór íslenzkur stúdent til Kaupmannahafnar. Danskur stúdent spurði hann, hvort hann hefði komið sjóveg eða landveg frá Íslandi.

*

Á standaþinginu í Hróarskeldu urðu einhverjar umræður um þúfnasléttun á Íslandi. Þá mælti einn þingmaður:

„Þessar þúfur eru líklega einhver gagnleg Institution, og er því bezt að lofa Íslendingum að halda þeim!“

*

Einu sinni kom einhver flækingshundur í Latínuskólann. Þá sagði Bjarni rektor:

,,Hér er jú framandi hundur!“

*

Prestur gaf saman hjón og byrjaði hjónavígsluna þannig:

,,Aukist og margfaldist fyrsta Mósebók, fjölgi og uppfylli undirdjúpin!“

*

Prestur var að prédika og var fullur. Í ræðunni kom fyrir ritningargrein. Hreppstjórinn, sem líka var fullur, greip fram í og mælti:

„Þú þurftir nú ekki að koma með þessa ritningargrein. Ég þekkti hana áður“.

Þá segir prestur:

,,Þegiðu Jón, ellegar ég kem“. Þá svarar hreppstjórinn:

,,Komdu, ef þú andskotans þorir!“

Þessa sögu sagði mér Jósep Jóelsson, bóndi að Spákonufelli, sem var fæddur 1814. Sagan skeði í hans ungdæmi.

*

Kaþólskur prestur, Bernhard að nafni, dvaldi hér á landi kringum árið 1860. Hann kom að Friðriksgáfu á Möðruvöllum. Reið þaðan til Akureyrar og mælti:

„Allir fullir á Friðriksgáfu og amtmaðurinn sjálfur ekki mikið ófullur!“

*

Kaþólskur prestur var í Landakoti í allmörg ár. Hann var frakkneskur, hálærður maður. Einu sinni kom til hans stúdent í prestaskólanum og var búinn að fá sér í staupinu. Daginn eftir komst hinn kaþólski prestur þannig að orði:

,,Guðmundur Sigurðsson kom til mín í gær, og var hann ofurvel fullur“

*

Á tímabilinu 1850 til 1870 var mikið drukkið hér á landi. Þá þótti frægð í því að vera fullur. Á þessu tímabili gerðist það, sem hér fer á eftir:

1. Tveir menn voru staddir í Lefoliibúð á Eyrarbakka. Annar sagði:

„Ég skal stinga út 1 pott af brennivíni og ganga austur að Garðbæ“.

Það eru rúmlega 1000 faðmar. Hann drakk pottinn og fór þegar af stað. En er hann átti eftir svo sem 2 eða 3 faðma að bæjarveggnum á Garðbæ, datt hann niður og gat ekki staðið upp aftur. Þetta var veðmál. Hann var mjög hraustur. Er nú Ameríku.

2. Annað veðmál:

Maður nokkur í Reykjavík var staddur í „Glasgow“. Það hús stóð vestanvert við verzlunarhús Th. Thorsteinsson, Liverpool. Hann fullyrti, að hann gæti gengið þaðan austur að læknum, þó að hann drykki eina flösku af portvíni í einum teyg. Hann stakk út flöskuna, en komst ekki lengra en á móts við hina núverandi Brydesbúð.

3. Nú skal getið um mjög hraustan mann. Norðlendingur nokkur stakk út einn pott af brennivíni í einni búðinni í Keflavík, gekk síðan suður í Miðnes og datt aldrei!

*

Ælius Donatus var vísindamaður í hinni fornu Rómaborg og lifði nálægt 350 e. Kr. Hann bjó til latínska grammatík, sem notuð var í Latínuskólanum í margar aldir. Þessi grammatík var notuð í Hólaskóla og var þar í daglegu tali kölluð „Dónatinn“. Hún var notuð í neðri bekk, og þeir, sem hana lærðu, voru af efri bekkingum kallaðir „dónar“, þ. e. illa menntaðir menn. Í nútíðarmáli þýðir dóni einnig slæmur maður.

Þessa derivation á orðinu „dóni“ hef ég frá Jóni sál. Þorkelssyni rektor.

*

Norskur málsháttur:

„Konan getur ausið því út í matskeiðum, sem bóndinn flytur inn í skipsförmum!“

*

Neró sagði:

„Ég lét drepa móður mína og konu mína, af því að ég vildi færa einhverjum óþekktum heimi dýrari fórn en nokkur annar hefur gert. ·

Ég hugsaði, að þá opnuðust mér dyr þessa óþekkta heims, svo að ég gæti séð -þar eitthvað, sem hvorki ég né aðrir höfðu áður séð,

Mér var sama, hvort það yrði fagurt eða ógnarlegt, ef það aðeins yrði eitthvað stórfenglegt eða óvenjulegt. ·

En fórn mín var ekki nógu stór.

Til þess að opna hlið hins ókunna heims þarf eitthvað annað og meira en ég hef enn afrekað. En ég skal fullnægja þeirri kröfu!“

Og hann gerði það! En hvort hann hefur séð nokkuð „merkilegt“, er mikið vafasamt, og sennilega ekki einu sinni það, hvað vondur maður hann var.

*

Á hvítasunnudag 1904 voru við messu á Strönd í Selvogi þessir menn frá Armeníu: Dermo Genna, Polas Algas og Lazar Jagub. Hinn síðastnefndi hafði meðferðis þessa skýrslu:

,,Yður skal skýrt frá þeirri ógæfu, sem dunið hefur yfir bróður vorn, Lazar Jagub, úr bænum Urmia í Litlu-Asíu. Hvernig Kurdar og Bashibosukar komu, myrtu og rændu og hindruðu allar samgöngur við önnur þorp, svo þar af leiddi hungursneyð. Föðurbróðir Lazars var drepinn, faðir hans og bróðir fórust í brennunni, og systir hans var dregin í fangelsi, og 600 kristnir menn heimtaðir sem lausnargjald (Matth. 5. 7.). Eftir að öllu hafði verið rænt frá Lazar Jagub, flúði hann til fjalla og settist síðan að í Persíu að vinna fyrir 12 sálum. Hann var áður tyrkneskur þegn, en nú persinskur. Frá honum var meðal annars rænt: 12 kúm og fimm hestum. Nú kemur hann til yðar og biður um gjöf nokkra (Matth. 6. 3.). Lazar Jagub er syrokaldeiskur lútherstrúarmaður, og mikið hefur systir hans orðið að þola í fangelsinu. Lazar Jagub vitnar til trúboðans Theodor Ivanus í hinni evangelisku Asíu. Theodor Ivanus er þýzkur“.

Þessi Lazar Jagub, sem hér kom, kvaðst vera sonur prestsins, sem nefndur er í skýrslunni.

*

Á 2. sunnudag í aðventu 1906 voru 6 stig R. úti við í Vogsósum kl. 10 f. h. Þá fór ég fram að kirkju og var þar sama frost inni í kirkjunni. Á jóladaginn (1906) voru 5 kuldastig í Strandarkirkju. En þegar úti var messa þá = 0. Í Vogsósum voru – 11 R. Af þessu sést, hve heitfeng þau eru áheitin á Strandarkirkju, eða þá hitt, hve forráða.mönnum hennar er annt um hin líkamlegu hlýindi safnaðarfólksins, þó næg séu efnin til þess að bæta úr því. En er þetta ekki svo víðast hvar hér í landi, hvað líf og kjör „kirkjunnar“ og meðlima hennar við kemur?

*

Ýmsir hafa verið að basla við að leggja út á íslenzku orðin: Pessimismus og Optimismus með því að láta þau tákna svartsýni og bjartsýni. En þetta eru slæmar útleggingar, því að Pessimus þýðir: verstur og Optimus: beztur.

Vér segjum oft um sjálfa oss og aðra: Ég er eða hann er allra mesti pessimisti. Með öðrum orðum: Ég er eða hann er allra versti maður! Dáfalleg útlegging að tarna! En svona förum við með mörg orð útlend, er vér höfum ekki hugmynd um, hvaða þýðingu hafa, en slettum þó og „sláum um oss“ með, til þess að sýna skarpskyggni vora og þekkingu á öllu!!

*

Þegar skúmarnir verða ergilegir, þá kalla þeir prestana „guðsmenn“, en sjálfa sig „sóknarbörn“.

*

Árið 1314 voru mikil harðindi. Vegna þess að fénaður var mjög fallinn, varð manndauði mikill af hungri, og er mælt, að 300 lík hafi þá verið flutt að Strandarkirkju.

*

Að éta fyrir sig fram og borga í hægðum sínum er hámóðins í flestum viðskiptum manna hér á landi. Einnig að koma á framsóknar-frelsis-framfara-fundi, steypa þar sápubólur, greiða atkvæði um margt og mikið og gleyma svo framkvæmdum í flestu, þegar heim kemur í búskapar- og skuldabaslið. – Þetta er ritað 1886.

*

Hvað er auðlegð? Margur er auðugur, þótt félaus sé. Til eru menn, svo þúsundum skiptir, sem eru auðugir, þótt þeir eigi ekki einn eyri í eigu sinni. Sá maður, sem er vel af guði gerður, er auðugur. Sá, sem hefur gott hjarta, góða heilsu og góða greind, er auðugur. Hraust bein eru betri en gull. Þróttmiklir vöðvar eru betri en silfur, og fjörugar og stæltar taugar eru betri en fasteign. Það er betra en stóreignir að vera af góðu bergi brotinn. Það er til gott kynferði og slæmt kynferði manna eins og hunda og hesta. Uppeldið getur miklu á orkað til að bæla niður slæmar tilhneigingar og örva góðar. En það er miklu meira í það varið, að hafa fengið að erfðum góðar gáfur og gott náttúrufar til að byrja með lífsferilinn. Sá maður er auðugur, sem hefur gott lundarfar, – sem er geðgóður, þolinmóður, glaðlyndur og öruggur.

*

Öskudagur, dies einerum, heitir svo af því, að biskuparnir stráðu ösku yfir höfuð manna og sögðu:

„Mundu það, maður, að þú ert duft og verður að dufti. Gjör þú iðrun, svo þú öðlist eilíft líf“. (I. Mós. 3. 19).

*

Á Skírdag fóru fram í fornöld margir þvottar. Margir fóru í bað, einkum þeir, er áttu að skírast laugardaginn fyrir páska, og margir hlutir voru þá þvegnir, t. d. ölturu. Þar af er komið norræna nafnið skíri Þórsdagur og skírdagur, þ. e. hinn hreini dagur.

*

Hver þeirra kvenna, sem lifðu í klaustrum, var kölluð nunna, af koptversku orði „nonna“ = skírlíf. En sú nunna, sem var forstöðukona í klaustrinu, var nefnd móðir, amas, og síefar abbadís (Abbatissa).

*

Lord, lávarður, þýðir á engilsaxnesku þann, sem gefur brauðið, þ. e. húsbóndinn. Lady, þann er gengur um beina, þ. e. þjónninn.

*

Fyrrum voru hreppstjórar kallaðir samkomumenn, og voru þeir 5 í hverjum hreppi. Í Jónsbók eru þeir fyrst kallaðir hreppstjórar eða hreppstjórnarmenn.

*

„Hin síðasta smurning“, unctio extrema, var í því fólgin, að augu, eyru, nef, munnur, hendur, fætur og hægri síða var smurt í kross, – með ösku.

*

Meginhluti kirkjunnar, þ. e. allt rúmið frá þverrúminu fram að fordyrinu, var kallað ,,skip“, navis, og var svo nefnt bæði vegna lögunarinnar, en einkum þó vegna þess, að kristileg kirkja var oft hugsuð sem „skip sálnanna“ í ólgusjó þessa heims.

*

Hjá Dönum var einu sinni viðhaft hið svonefnda „Skuffesystem“. Fénu var skipt niður í margar skúffur eða hólf, og mátti ekki nota fé úr einni deildinni eða hólfinu nema til þeirra þarfa, sem það var ákveðið til. Gat því svo farið, að í einu hólfinu væri nóg fé eða afgangur, en í næsta hólfi fullkomin fjárþröng.

*

Sjö-talan var ein af hinum heilögu tölum (3, 9, 12), og kemur hún víða fyrir í austurlenzkum átrúnaði og víðar, til dæmis sjö vikudagar, sjö spekingar Grikkja, sjö höfuðsyndir, sjöstrengjuð harpa, sjö himnar (í Eddu voru þeir níu), sjö múrveggir Ebbatönu, sjö hlið í Thebuborg, sjö hæðir í Róm, Jerúsalem, Miklagarði, Lissabon og víðar.

*

Þá er sérlegur guðsmaður deyr í kaþólsku kirkjunni, getur páfi eftir bráðabirgðarannsókn á æviferli hins látna lýst hann sælan (beneficatio). Er þá leyft að veita honum dýrkun sem heimilisdýrðling eða sveitardýrðling eða landsdýrðling.

Síðar, 50 árum þar frá, má taka hinn sæla mann í dýrðlingatölu (canonisatio), og má upp frá því dýrka hann opinberlega í allri. kaþólsku kirkjunni.

Við canonisatio er settur rannsóknarréttur, og skal þá sanna, að tvö kraftaverk að minnsta kosti hafi orðið fyrir atbeina dýrðlingsins. Er þá einn promotor fidei (þ. e. trúeflandi) skipaður í embættisnafni að véfengja kraftaverkin og koma fram með rök á móti dýrðlingun hins sæla manns. Hann kallast advocatus díaboli (þ. e. talsmaður djöfulsins). Gegn honum er skipaður advocatus dei (þ. e. talsmaður drottins).

*

Kóraninn segir:

„Sá stjórnandi, sem veitir manni embætti, ef annar í ríki hans er betur til þess hæfur, hann syngdar gegn guði og þjóð sinni“.

*

Deorum injuria diis curae: Brot gegn goðunum varða goðin ein, þ. e. mennirnir eru ekki réttir aðilar sakar gegn guðs boðum.

*

Napóleon sagði:

,,Ómögulegt! Það orð þekkist ekki í minni orðabók“.

*

Verzlunina á Eyrarbakka fékk kaupmaður Johan Chr. Sunckenberg, og keypti hann 25. júlí 1795 jarðirnar Einarshöfn og Skúmsstaði af hinni konunglegu íslenzku- finnmersku-verzlunarnefnd fyrir 319 rd. 85V3 sk. Verzlunarstjóri Sunckenbergs var þá Níels Lambertsen. Þegar Sunckenberg dó, gerðist Lambertsen kaupmaður á Eyrarbakka og keypti jarðirnar af búi Sunckenbergs 16. marz 1807 fyrir sama verð.

Viðbót: Einarshöfn hafði áður staðið þar, sem nú eru sundvörðurnar. Hafði sundtréð staðið þar í heygarðinum og þó á sama stað, sem það er nú.

*

Golubelgirnir og skúmarnir í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum segja:

,,Jú, harður er hann, en harðir taka við“.

*

Assessor Bjarni sagði:

,,Guð leit á Suðurnes, þegar hann bölvaði jörðinni!“ Geir góði (Vídalín biskup) svaraði:

„En hann leit á sjóinn hérna fyrir utan, þegar hann blessaði jörðina aftur“.

*

Piparsveinn nokkur líkti lífinu við skyrtuhnapp, – hvort tveggja hangir á bláþræði.

*

Menn geta gert góðverk án þess að vera í eðli sínu góðir, en menn geta ekki framið, illvirki án þess að vera vondir.

*

Á meðan orðið er ótalað, ertu herra yfir því, en um leið og það er talað, ertu orðinn þræll þess.

*

Verzlun Selvogsinga í Þorlákshöfn 1886 nam 7683 krónum.

*

Gamall og reyndur skólakennari sagði: „Það dugir ekki að ausa vitinu í unga menn eins og vatni í hrip“.

*

Ég hef með „Interesse“ lesið hina nýju skólareglugjörð og tók eftir því, að nú læra menn latínu einungis í 3 ár, og er það „nóg af svo góðu“. Eftir gömlu reglugjörðinni voru menn 2 ár að læra latínuna til þess að geta komizt inn í skólann og svo 6 ár í skóla.

Grísku var alveg sleppt. Þetta er stórkostleg framför. Það þarf að leggja mikla áherzlu á ensku, verzlunarmálið, frönsku, mál stjórnmálanna, og þýzku, mál vísindanna.

*

Ég hef í höndum skýrslu um landsjóðsstyrk og skýrslu um ríkisrekstur Danmerkur og Englands. Til að taka á móti Friðrik konungi gengu 250 þúsund krónur.

Hlutfallslega hefðu Danir átt að eyða 20 miljónum króna og England 40 miljónum sterlingspunda. Ef nú okkar hégómi hefði átt sér stað í Englandi, t. d. ef Rússakeisari kæmi þangað, þá er ég hræddur um, að Danir og Englendingar færu að gretta sig stórkostlega. ·

Ef þessari eyðslu heldur áfram, hlýtur þjóðin að falla djúpt í örbirgð og ræfilsskap. Eina ráðið er að gera Frúna að· fjárhagsráðgjafa. Hún vill hafa einn kennara við Latínuskólann! Þarna er sparsemd rétt hugsuð! E. S.

*

Árið 1821 kvöddu Íslendingar í Kaupmannahöfn embættismann einn með vísu þessari:

Hver fékk í hug sér leitt,
að hér fengi frá mér seitt
hnoss aldin mær?
Skraut hverrar þrótt skerðir,
skakvindi og eldsmergðir,
hvar frostið þraut herðir og orgar sær!

Skárri er það nú kveðjan og skáldskapurinn! E.S.

*

Þegar ég útskrifaðist úr prestaskólanum, sagði biskup, að ég tafsaði of mjög, en um Arnljót sagði hann:

„Þú prédikar eins og gamall prófastur, og þú, Páll, þú ert efni í ræðuskörung!“

Þetta var alveg rétt hjá biskupi um okkur alla. Hann var glöggur um margt, karlinn, og hreinskilinn.

*

Sem dæmi þess, hversu nýjungagirni fólksins er oft takmarkalaus, vil ég geta þessa:

Ég er t. d. viss um það, að ef séra Ólafur messaði á Strönd, yrði kirkjan troðfull. Hið sama yrði og uppi á teningnum, ef ég stigi. í stólinn í Dómkirkjunni!

*

Eyjólfur á Grímslæk þekkir ekki sinnep og Þorbjörn í Nesi segir, að „Gamle Carlsberg“ sé súr, viðurkenndur drykkur um öll Norðurlönd. Hvílík fáfræði! Þarna höfum við dæmin um alþýðumenntunina!

*

Þegar talað var um að fá ráðgjafa búsettan í Reykjavík, sagði séra Eggert:

,,Jú takk! Þar þrífst hann ekki í bráð. Prólitararnir hanga auðvitað aftan í þeim, og þegar hálft „dúsin“ af ráðgjöfum er komið á eftirlaun, væri gaman að heyra hljóðið í skúrmunum!“

*

Sumir hrósa sér af því að vera hreinskilnir, en eru í raun og veru aðeins ókurteisir. Þeir smjaðra aðeins fyrir sjálfum sér.

*

Kurteisi þurfa menn eigi að læra. Sá, sem hefur gott hjarta og er mannúðlegur við alla, er hverjum manni kurteisari.

*

Ef maður lemur skúmana, þá klappa þeir! En klappi maður þeim, þá lemja þeir!

*

Þorleifur á Háeyri sagði:

„Það er nokkur munur á því að vera ríkur eða fátækur. En þó er munurinn ekki eins mikill og margir halda“.

 

Leave a Reply

Close Menu