26-Hornriði og fjallsperringur

Suðurströnd landsins liggur, eins og kunnugt er, fyrir opnu hafi. Er þar enginn vogur eða vík til afdreps eða skjóls fyrir hinum æðanda austanvindi. Vatna-, Mýrdalsog Eyjafjallajöklar draga hann til sín, en bægja honum svo jafnframt frá sér, suður og vestur með sjávarströndinni, um Vestmannaeyjar og jafnvel alla leið vestur um Reykjanes, þar til austanáttin mætir norðangarðinum, sem oft á tíðum leggur leið sína suður og meðfram Vestfjörðum. Suðurlandsundirlendið liggur þá, á stundum, í víðáttumiklu lognsæbrigðabelti milli þessara höfuðátta, austanstormsins og norðangarðsins.

Á vorum og sumrum, fram til haustnátta, mynda austanvindarnir, fyrir atbeina jöklanna, ýmist stórfellt regn eða helliskúrir, sem steypast vestur yfir allt Suðurlandsundirlendið að sunnanverðu, en ná þó sjaldnast ofar en upp á Rangárvöllum, á móts við Tindafjallajökul. Norður af Heklu er þá aftur á móti norðlægari vindstaða, ýmist með þeyvindum eða þræsum á vorum, þurrviðrum á sumrum og frostum á vetrum. Er sú veðrátta nefnd „fjallsperringur“, en sterkviðrisstrengurinn og dembuskúrirnir, niður við sjávarströndina, eru almennt nefnd „hornriði“. Því er og nefnt hornriðaalda, hornriðabrim, hornriðasjór o. s. frv.

Nafnið hornriði er sennilega gamalt orð í málinu, og þekkist það víða á landinu, a. m. k. í Borgarfirði og sunnarlega á Vestfjörðum, en þar mun ávallt vera átt við norðlægari eða nokkru hærri átt en eystra, enda er hún þá oftast þurrviðrasamari þar og kaldari.[note]Gamall maður, Bjarni sál. Björnsson, bókbindari í Götu við Stokkseyri – hann var fóstri Bjarna sál. bróður míns og átti afasystur okkar. Þórdísi Sturlaugsdóttur, fyrir konu, – sagði mér, að frá ómunatíð hefði sú saga í munnmælum verið þar eystra, um nafnið á hornriðanum, að áður fyrri, þá er menn af Austursveitum sóttu nauðsynjar sínar út á Bakkann, hafi þeir riðið á meljum eða marhálmsdýnum og við horníslöð, – en það tíðkaðist ekki á Bakkanum. – Fyrir því hafi Bakkamenn tekið upp á því. að kalla þá .,hornriða“. og síðan, í niðrunarskyni við þá, látið þessa hvumleiðu veðráttu heita í höfuðið á þeim. Þeir skírðu hana því hornriða, og er hún talin einhver versta og langvinnasta veðráttan í Flóanum og við sjávarsíðuna á Suðurlandsundirlendinu, eins og að er vikið hér að framan. – Bjarni Björnsson var fæddur 1808 og dó um 1890. Hann var fjölfróður mjög. minnisgóður og mesti ágætismaður.  [/note]

Í illmúruðum hornriða og harðindatíð á vetrum renna afarháar kviköldur og hvítfyssandi fallsjóir undan sterkviðrinu á vesturleið til djúpanna og valda ógurlegu brimi við suðurströnd landsins, einkum í Eyrarbakkabugðunni. Eru kvikur þessar nefndar harðindakvikur, enda jafnan fyrirboði mestu illtýruharðinda, og brimið, sem undan þeim rennur, er kallað hornriða- eða harðinda-brim.

Í þannig háttaðri veðráttu er oft lygnt nærri landinu – lognsæbrigði – og aðeins andvari af norðri, og eykst þá brimið ávallt því meir sem meira blæs á móti úr gagnstæðri átt eða í aflandsvindi. Getur sá andhyglisháttur, milli hornriðans og há-áttarinnar, staðið svo dægrum skiptir, unz hornriðinn verður að láta í minni pokann, og útslétta er á komin, svo að hvergi örlar við stein, engin agga sést við landið og öræfasund öll eru fær jafnvel mús á mykjuskán; en sjaldan stendur sú ládeyða lengi, því undirdráttarveðrið – sem oftast er aðeins svikahler – með hornriðann í fararbroddi, er þá oft, áður en varir, í aðsigi og lætur sjóinn sjaldan naðurlausan svo langtímum skiptir. Hornriðinn hefur þá á stundum aðeins eina eyktarstund til undirbúnings og er þá oft svo skjótur á sér og skriðdrjúgur, að hann eyðileggur á svipstundu mestallan heyjaforðann, sem úti liggur, eða þá fisk þann, sem breiddur hefur verið til þerris þann daginn, og er þá vinnuharður mjög og móðhrokafullur.

Af ótal dæmum um það, hve hornriðinn getur oft verið heimsækinn og hlálegur, vil ég aðeins minnast á þrjú dæmi, enda eru þau mér enn í fersku minni frá þeim tíma, í 22 ár, sem ég stundaði sjó nærfellt allan ársins hring þar eystra:

1. Vorið 1881, hinn 28. maí, var ný-útsprungið tungl og því hádegis-ginfjara þá um daginn. Sjómenn fóru í maðkasand að vanda, en gerðu sér ekki miklar vonir um að finna svo mikinn maðk, sem nægði á kastið í það sinn, því Leiran var uppurin mjög frá fyrri fjörum. En þá brá svo við, að maðkurinn „óð uppi“, og höfðu menn á mjög skömmum tíma aflað meiri maðks en þörf var á til róðursins þá um daginn og leizt þeim ekki á blikuna, því sú var gömul trú manna og enda reynsla, að þegar maðkurinn var svona óvenjulega ör, þá gaf sjaldan með hann, svo að gagni yrði. Sú varð og reyndin á í þetta sinn. Að vísu var ekkert athugavert við sjóveðrið. Sjórinn var lygn og ládauður, en loft all-drungalegt, eins og oft á sér stað í lognmollutíð á vorum. Lóðir voru því beittar í skyndi og skotizt út með kastið, en er að því var komið, að draga lóðirnar inn aftur, fór sjóinn að ókyrra allört. Flest brimaukaeinkenni fóru að gera vart við sig: Drjúg undiralda, dráttarsog og straumiðudiskar strekktu í lóðirnar, purpuralitar marglittutágar flæktust um árablöðin, og allur varð sjórinn rauðflekkóttur, eins og blóðvöllur væri. Fallið jókst afskaplega og varð nærri óviðráðanlegt, svo að langt bar af leið, meðan lóðirnar voru teknar inn, og var þó blæjalogn. Bátar allir, er úti voru, leituðu lands, svo fljótt sem unnt var, og reru upp að sundunum og komust aðeins tveir þeirra inn úr slyndrulaust, á slettingslögum. Þriðja bátnum, með 5 mönnum, barst á þannig, að þeir tveir, er reru bakborðsmegin, festu árarnar í sjónum, sem sópaði þeim sjálfum, með hástokkum og ræðum útbyrðis og skolaði þeim út í brimgarðinn, án þess nokkurt viðlit væri til að bjarga. Hinir tveir, sem á stjórnborða sátu, áttu nú úr vöndu að ráða, þar sem ræðin af hinu borðinu, svo og árarnar, voru flotin útbyrðis og þeir staddir úti á miðju sundinu, albrima. Tók þá annar þeirra, Torfi Jónsson frá Seli, til þess snjallræðis, sem lengi mun í minnum haft, að hann lagði ár sinni út á bert borðið og reri við kné sér inn úr sundinu og bjargaði þannig sjálfum sér og félaga sínum frá bráðum og bersýnilegum dauða. Torfi þessi var föðurbróðir Einars Þórðarsonar, dyravarðar í Nýja Bíó, þrekmaður mikill, en þó hniginn að aldri, er þetta varð, og sýndi þrekvirki það, er hann vann í þetta sinn, að gott lag og lipurð, en loðbandshandtök engin, þurftu til, svo að vel færi.

Hinir bátarnir allir lögðu frá til Þorlákshafnar og lentist þar vel, þrátt fyrir það, að þar var einnig stórbrim. Er mörgum enn í minni, hve há og hrikaleg aldan var á leiðinni út í Þorlákshöfn, einkum úti fyrir mynni Ölfusár, því að hún huldi langsamlega hæstu fjöll, og var djúp lægð í kollinum á þeim flestum.

Svo langt var á kvöldið liðið, er lent var í Höfninni, að hæpið þótti, að hægt væri að ná í ferju í Óseyrarnesi, áður en ferjumenn færu alfari heim. Fyrir því voru tveir menn valdir úr vinahópnum til þess að kalla ferjuna, áður en fólk gengi til náða í Óseyrarnesi. Var Helgi nokkur Þorsteinsson annar þeirra, er til þessa var valinn, fótlipur maður og frár á fæti, en hinn var ég, þá 15 ára, og var þetta ein hin fyrsta virðingar- og vegtyllustaðan, sem mér var falin, nema ef vera .kynni sú, að reka kýrnar og moka fjósið. Við lögðum síðan af stað, og fórum í fyrstu sem eldur yfir akur, þó af okkur drægi, er á leið, því löng og erfið var leiðin og því erfiðari sem lengra dró austur á bóginn. Skipverjar þeir, er eftir voru, brýndu förum á flóra, fönsuðu færur sínar og farvið og lögðu síðan af stað í hámót á eftir okkur.

Eftir nokkra fyrstu sprettina fékk ég all-hlálegan hlaupasting og hafði því ekki í fullu tré við Helga, sem var léttur sem hind og lagði drjúglega land undir fót, þó enginn háleggur væri né hrikamenni, en hann skondraði á undan mér sem skopparakringla á sæúrgum og sléttum eyrunum Skeiðið á enda.

Það var hvorttveggja, að við Helgi höfðum lítið næði til að tala saman á þessari löngu leið, sem og hitt, að naumast heyrðist mannsins mál fyrir brimniðnum og öldubrakinu, þó í bláhvíta logni væri og bezta veðri, en er að Hásteinum dró, heyrðum við þó fram undan okkur ámátlegt og eymdarkennt hljóð, sem við í fyrstu gátum ekki gert okkur grein fyrir, hvað væri. Við runnum á hljóðið, hærra upp á Háamelinn, unz við hittum fyrir okkur ungan og íturvaxinn brimil, sem bylti sér í sandinum, en sem bráðlega bjóst til varnar, ef á væri leitað, enda var þar urta hans, ung og fögur, að kæpa og hafði komizt hart niður, en nú voru þrautir hennar um garð gengnar og gleðin skein í augum hennar. Vitanlega kom okkur Helga ekki til hugar að hrella þessi fögru og föngulegu hjón, sem nú, sennilega í fyrsta sinni, átti því láni að fagna, að þeim var ofurlítill angi, grár eða grænklæddur Faraósniði, í heiminn borinn. Mér hefur oft í hug komið síðan, hve ógurleg sú ásökun hefði verið og ill samvizka að okkur lagzt, hefðum við, sjálfir nýsloppnir úr dauðans hættu, farið að reyna að myrða þessi fögru frygðardýr, enda datt víst hvorugum okkar það í hug. Við glöddumst af því, að við hefðum hvorki annað né meira að gjört en það, að forvitnast um hagi þeirra og heimilisástæður þarna í kveldkyrrðinni uppi á Háamel og hlupum svo sem fætur toguðu austur að ferjustaðnum, en er þangað kom, urðum við þess vísir, að flas okkar og flýtir var ástæðulaust, því ferjumennirnir höfðu haft snoðrænu af okkur á útleiðinni um kvöldið, þó skuggsýnt væri, enda fengið einhvern pata af því úr annarri átt, að okkar væri von.

Um óttuskeið var ofsarok á skollið með öskrandi hornriða, sem hamaðist, eins og hans var von og vísa, í mörg dægur eftir þetta.

2. Hinn 16. marz 1895 var hvassviðri af norðri allan fyrri hluta dagsins, en brimlaus sjór. Um miðmundabilið lygndi svo, að öll skip úr veiðistöðunum milli ánna (Þjórsár og Ölfusár), svo og Þorlákshöfn, reru til fiskjar. Þeir, er síðbúnastir voru, sáu, er þeir fóru úr landi, að dimman og drungalegan skýflóka dró upp á Eyjafjallajökul, mor og mistur byrgði allt útsýni frá Austurfjöllum fram til Vestmannaeyja og afarlöng, en ofurlág, brimhára gekk að landi meðfram endilöngum skerjagarðinum, svo að segja í einu falli. Á rúmum stundarfjórðungi varð sjór allur svo álbrima og ófær í þrautasundum, hvað þá annarstaðar, að aðeins fá skip fengu lent. Hin öll urðu að leita nauðhafnar í Þorlákshöfn og voru það nálægt sjö tygir skipa, sem lentu þar, heilu og höldnu þó, þá um kvöldið, en mörg þeirra þó eigi fyrr en myrkt var orðið af nóttu.

Austur af Hafnarnesi er stór boði, sem Kúla heitir, og fellur hún sjaldan nema í aftökum. Í þetta sinn var hún ótt og títt uppi og yfir Bredduna alla gengu langarmasjóir, alla leið sunnan frá nesinu og langt inn á Skeið. Skipin, nærri öll, lentu í norðurvörinni, og tók sjórinn eitt þeirra og skellti því á hliðina, langt upp á Helluna (landfast sker) svo, að menn allir, er á voru, gengu þurrum fótum úr því á land upp. Annað skip dró sjórinn og straumurinn upp á Skarf (útfirissker, sem brimið svellur sífellt á) og losnaði skipið við það, að skiphaldsmenn fóru, sinn á hvort borð, utanundir það og ýttu því út, en nærri var það sokkið, vegna leka, er að landi kom. Snarræði þessara skiphaldsmanna hefur lengi verið við brugðið fyrir vikið og telja víst flestir, er kunnugir eru um þessar slóðir, að óhugsandi sé, að Skarfur skili skipi og mönnum aftur á heilu húfi til lands, ef svo skyldi vilja til, að þeir steyttu á honum, jafnvel þó um lítið brim væri að ræða, hvað þá í slíkum aftökum sem þarna voru þennan dag.

Undanfari foráttu þessarar var í fyrstu hægur vindur af norðri, meðfram allri sjávarströndinni, en jókst svo á skömmum tíma, er á daginn leið, að hvínandi austanrokviðri var í Vestmannaeyjum, og svo langt vestur á við til djúpanna, að sjór var illsætur út við Reykjanes.

Eins og áður er að vikið, var langt á kvöld liðið, er skip öll höfðu náð lendingu í Þorlákshöfn, og var þá slotað mjög stórsjóunum, enda hellti Jón sál. Árnason, sem þá bjó þar, mörgum tunnum af grút og lýsi í varirnar, og lægði það sjóinn mjög; ljósker hafði hann og mörg í landi til leiðbeiningar við lendinguna, ella hefði hún ekki tekizt svo vel, sem raun varð á, í náttmyrkrinu og brimærslunum. Asfiski mikið var alstaðar þar eystra þennan dag, svo að altítt var að andinn,[note]Ávallt, þá er lóðir voru dregnar inn, sat einn skipverja á skorbila og krækti í fiskinn, afgoggaði hann og blóðgaði um leið. Kallaði hann þá oft til þeirra, er undir árum sálu og ekki áttu kost á að sjá, hverju fram færi aftur á skipinu, og ekki höfðu annars að gæta en þess, að vel færi á lóðinni, svo og þess, að halda skipinu í réttu horfi, hafa (,,hálfa hönd“) áfram eða láta bara, svo að niðurstaða væri á lóðinni eða hún bugaði frá borði, – þessi hughressandi hvatningarorð: ,,Einn fer úr botni, piltar! (þ._e.: einn fiskur sást niðri í sjónum). ,,Tveir eru þeir!“ ,,Andinn (3), prikið (4), veðrarnir (5), broddurinn (6), lestin (7), ,,seilin“ (8) og þaðan af meira, ef svo langt var talið og skyggni gott. – Í stað síðustu orðanna (5-8 o. s. frv.) sagði hann einnig oft: ,,Fiskur á hverju járni!“ Var það venjulega nefnt asfiski, en ördeyða, ef lítið var. Sbr. ,,Sjaldan er upsi í ördeyðu“. – ,,Andinn, prikið“ o. s. frv. átti við það, að þrenningin sæist og gengi hún við staf, ýmist án eða með veðrum og broddí, eftir því sem á stóð.  [/note] prikið, veðrarnir og broddurinn o. s. frv. sást úti fyrir, hvenær sem út yfir borðstokkinn var litið, enda voru flest skipin svo marhlaðin, að létta varð mjög á þeim, áður en lent var. Sjávarströndin öll, inn í Skötubót og langt inn með Skeiði, var ein samfelld og slitalaus fiskhrönn, og féll hún víst að mestu leyti í hlut Hafnarbóndans, sem sjálfsagður hlutur, fyrir góðan beina, er hann vann fjölda þeirra, er fiskinn áttu og fyrir hrakningi höfðu orðið þá um daginn. En þar voru og margir þurrabúðarmenn, sem engu síður en hann gjörðu sitt til að hrakningsmönnum vegnaði vel um nóttina, svo og allir hinir mörgu formenn og hásetar, er búðirnar gistu. Alstaðar var krökt af aðkomumönnum, og þóttu þeir úr helju heimtir.

3. Hinn 13. júlí 1901 voru vegagjörðarmenn við vegavinnu austur í Mýrdal; gátu þeir hvorki hamið sig né haldið niðri tjöldum sínum fyrir austan-sterkviðri og steypiregni. Um sömu mundir var hægur sólfarsvindur og sólarhiti vestur í Þorlákshöfn. Þar gekk þó sjórinn þá svo hátt á land upp, að manna varð út bát heiman frá bænum suður yfir túnið til þess að bjarga kúnum, sem verið höfðu á beit frammi í nesinu um daginn. Kúla hefur víst sjaldan sézt kemba hvítari hærur eða skauta hærra faldi en þá, og öll var Breddan brimfallandi sjóir, sem í samfelldu falli náðu alla leið sunnan fyrir Sýslu og langt inn fyrir Skötubót. Er slíkt sjaldgæf sjón á sumardegi og í blíðulogni. – Langvarandi rosatíð lagðist að eftir þetta, sem jafnan þá, er slík hornriðaveðrátta fær yfirhöndina.

Stórfellt, en haflægt hornriðabrim er ein hin mikilfenglegasta sjón, sem getur að líta, enda er og þá oft heiðskírt veður og himinn klár: Himinháar holskeflisöldurnar, einatt meira en rastarlengd, koma steðjandi af hafi utan og falla með heljarafli að fótum hins vegfaranda manns og brotna þar með brauki og bramli. – Brimdráttarsogin róta sendnum sjávarbotninum til og mynda háa sandölduhryggi á grunnsævinu við sjávarströndina. – Mannvirkin á landi, sem nærri standa, sandverpast, rótast og falla til grunna eða molna mélinu smærra. – Hálfrotnuðum hraunmiðafiskinum skolar á land upp, í stórum hrönnum, þar sem hann svo flæðir upp í háflæðisfarinu, innan um ýmislegt ranamosk[note] Ranamosk = rusl, þ. e. þari, þönglar og þöngulhausar, kjarni, söl og þang. Orðið er einnig haft um flóðrek utan með tjörnum, sef- og starar-flóðum, er það rekur að landi, þá er ísa leysir upp á vorum og liggur þar í dyngjum á flóða- og tjarnarönum og rimabörðum, sem sjór eða vatn hefur flætt yfir á vetrum. [/note]  og rekald af öðru tagi, en er svo tíndur upp, er ísa leysir og étinn með murum og harðasæjum í harðindatíð á útmánuðum, enda hefur þá e. t. v. engin önnur björg fengizt úr sjónum um lengri tíma og almenningur orðið að láta sér nægja mjólk. fjallagrös og söl í bæði mál, mestallan veturinn, með fiskspili og hálfri köku í litlaskattinn og lýsisbræðingi til viðbits. Var þetta, þó lítið væri, engu óhollara en ýmislegt það, sem nú er notað til manneldis. – Rekatrén endasendast og brotna í spækur og spýtnabrak, sem, áður en þar var komið, voru margar álnir á milli losa[note]Los. Þar er átt við, að annað losið sé rót trésins, hitt sé sá endinn, sem brotinn er frá trénu. Los eru það einnig nefnd, þó rótin fylgi ekki með. Eru þá losin nokkur hluti trésins og brotið er af því á báðum endum, en flaskarnir sem lengra ná og ekki eru þverstýfðir fyrir enda, eru nefndir snasir.   [/note] eða snasa, og því tífalt leiguliðagagn,[note]Leiguliðagagn. Í gömlum byggingabréfum, sem gjörð voru milli eiganda heimajarðarinnar (torfunnar) og heimabóndans. sem á henni bjó, var oft ákveðið, að hann skyldi eiga ýmist „álnarkefli“ eða allt að „þrem álnum milli losa“ (eða snasa) fyrir að hirða rekana, þ. e. að bjarga öllum stærri trjám og viðum, sem að bárust, undan sjó og skila þeim í hendur eiganda rekajarðarinnar, án annars endurgjalds. Að hafa þetta starf í, hendi, með hverju flæði, nætur sem daga, var kallað að ganga á reka og sú, er það gjörði rekagöngumaður. Nú á síðari árum ber það sjaldan við, að nokkuð reki af stórviðum, en áður var það altítt, að sum rekatrén voru allt að 30 álnum að lengd, ýmist söguð (,.köntuð“’) eða sívöl og að gildleika alin að þvermáli (,,alin fyrir kant“), oftast rauðaviðartré, fura. eski eða selja (rekadrumbar) o. s. frv. Voru mörg þeirra notuð til húsabygginga, svo og í sundtré (sívöl) og brýr yfir ár og læki, einnig til húsgagnasmíðis, t.d. skatthol, byrgður undir korn og söl, í aska, öskjur og legla (eskitrén), báta og binur, o. s. frv. Ýmsar þessara trjátegunda, t. d. rauðatrésrætur, voru seldar manna á milli eftir vigt. Seljan þótti jafnan til lítils nýt, enda var hún oftast gegnsósa, maðksmogin frauð og feyskja.   [/note]  eins og það gat verið bezt úti látið.

Slíkar eru oft á tíðum hamfarir hafrótsins og hornriðabrimsins við suðurströnd landsins, jafnvel þó á sólbjörtum sumardegi sé, enda sést þá og bezt, hve tilþrifamikið og tignarlegt það er.

Leave a Reply

Close Menu