25-Veðurmerki og veðurspár við Faxaflóa

Þótt ég hafi nú dvalið um 43 ára skeið hér í Reykjavík, á ég miklu erfiðara með að segja mikið um veðurútlitið hér en eystra, m. a. vegna þess, að hér er víðsýnið nokkru þrengra, einkum í austuráttina 0g til norðursins, að hér sést ekki hið stórvaxna haföldubrim og að sjávarhljóðið er svo dauft og lágróma og hverir engir.

Eigi að síður vildi ég þó freista þess að benda á fáein atriði, er ég hef athugað og borið undir góða og gamla sjómenn hér, m. a. Kristin skipstjórn Brynjólfsson í Ráðagerði, sem fæddur er í Engey og hefur alizt þar upp. Segir hann, að athuganir mínar séu réttar, svo langt sem þær ná.

Sé norðanátt í aðsigi, en hennar gæti þó eigi hér, sést, að hann setur norðan í Snæfellsjökul, og fjöllin þar norður af eru kúfuð skýjabólstrum alla leið norður að Fagraskógarfjalli. og Kolbeinsstaðahamri, sem sjást vel héðan í góðu skyggni, þótt í fjarska séu og eigi mjög há, en Úr því skyggir Akrafjall á, en bak við það er Hafnarfjall, austan og sunnan Borgarness, en þó má sjá norðanáttina hreykja sér þar, þegar hún er búin að ná sér. En austan Akrafjalls, á Kambsheiði, norður undan Hvalfirði eru þó enn gleggri merki þess, hvað henni líður, því að þá liggja þokuslæðurnar, alloftast háar og þykkar, niður eftir öllum geilum og giljum heiðarinnar, og er það nefnt, að nú sé hann „genginn upp á Dragann“. Það er Geldingadragi, en þar eru miðuð við fiskimiðin helztu á Sviðinu og innan við það. Er því mönnum títt að líta þangað eða svo var það, meðan smábátaútvegurinn var við líði. Frá miðum þessum urðu menn margs vísari á þeim árum.

Botnssúlur taka svo við austur frá Draganum, en þær sjást eigi héðan og eigi fyrr en komið er upp fyrir Árbæ, enda skyggir Esjan á, en svo kemur hún sjálf til skjalanna og segir frá því, hvernig veðráttan er á Botnssúlum og fjöllunum norðan Þingvalla, á Ármannsfelli og jafnvel á Skjaldbreið, því að upp á Esjuna dregur háa og hvítleita skýjabólstra, sem sýna það, að norðanáttin er að færast nær. Er þá komið háarok út af Borgarfirði, Hvalfirði og á Kjalarnesi, með hávaxinni báru og hvítfyssandi, sem veldur allmiklu brimi á Suðurnesjum, enda stendur þá norðanstrengurinn enn harðari vestan Snæfellsjökuls og er þá oftast langt að kominn, alla leið norðan fyrir nyrztu fjöll Vestfjarða, norðan Ísafjarðardjúps og meðfram öllu Vesturlandi. Er þetta rakin norðanátt, sem oft getur staðið yfir um vikutíma eða lengur (,,vikuveður“). Norður og austur af Esjunni má þá sjá hvítgráa bliku í fjarska, og er það nefnt „fyrirstaða“, því að þá er austanáttin að þoka sér nær, en norðanáttin að veita henni mótstöðu. En því er það „fyrirstaða“ nefnd, að þessi viðureign áttanna veldur því, að á meðan hennar gætir, hefur norðanáttin yfirhöndina, og er það nefnt „þræsingur“. Loks kemur þá að því, að Norðri gamli kiknar í hnjáliðunum. Vesturfjöllin öll og þau, er norðar og austar liggja, hyljast þoku, og er þá útsýnið horfið, austanátt skollin yfir eða útsynningur, ef norðanáttin hafði verið að berja hann niður eða þoku bakka þann, er lá á hafi úti milli Snæfellsjökuls og Suðurnesja eins og velhlaðinn garður fyrir öllum Faxaflóa. Er þá svo mikil móða yfir Suðurnesjum austur fyrir Trölladyngjur, að þau sjást ekki, en skýjaslæður þar uppi yfir á víð og dreif, a. m. k. meðan norðanáttin er væg. Sé hún hörð, koma skýjabólstrar og oddaský í þeirra stað, og er þá eigi von á, að henni linni, fyrr en sunnanáttir – af austri eða útsuðri – hafa náð völdunum, en báðar eru þær í ætt við nöfnur sínar og kynsystur austan Reykjanessfjallgarðsins og því óþarft að lýsa þeim eða gera upp á milli þeirra.

Þegar austanátt snýst til vesturáttar, má sjá viðbúnað þess á því, að þá gerir rof ( eða „gat“) á þykkviðrið í suðvestri, enda fer þá að gæta áttarinnar þeim megin og svo mjög á vetrum, að verra veður og illhryssingslegra stendur sjaldan til lengdar hér við Faxaflóa eða í Reykjavík og þar í grennd.

Veðráttan austan og vestan Reykjanessfjallgarðsins er, eins og áður er að vikið, svo lík, að litlu munar, enda verða helztu áhrif austan- og norðanáttanna hin sömu, vegna nábýlis þeirra og skyldleika, og er landnyrðingurinn nokkurs konar „hálfbróðir“ þeirra beggja.

Öðru máli er að gegna með suðvesturáttina ( útsynninginn), sem oftast er sæmilega svæsin beggja vegna Vesturfjallsins (svo nefnt eystra) eða frá Hengli til Krísuvíkurhálsa. Þá er oftast nær eins og hún nái sér betur við að leika sér á Faxaflóa, og veldur hún því brimi hér og þar eða hvar sem sker eða útgrynni er að finna á leið hennar inn eftir flóanum. Það eru að vísu eigi himinháir sjóir, sem þar falla, heldur sarnfelldur brimsvaði, langir, krappir og þunnir kvikusjóir, svo að yfir að líta er flóinn allur drifhvítur og hvítfyssandi, eins og væri það land, sem maður sæi, alþakið snjó og háa-skafrenningi.

Austanfjalls er þetta að vísu líkt, hvað útsjóinn áhrærir í hatrömmustu útsynningunum, en miklu stórfelldara. því að þar eru það harðindakvikurnar af austri, himinháir holskeflusjóirnir, sem að steðja úr suðvestri og mæta harðindakvikunum, svo að af þeim myndast króköldur þær, er hávaxnastar verða við suðurströndina og valda þar briminu mestu og ægilegustu og bakkaflóðunum, þeim sem vaða yfir alla sjávarkampa og varnargarða, hvað þá annað, eins og lýst er að nokkru í „Austantórum“, 1. hefti, og eru þau jafnan stórfenglegust, ef vindur (11-12 vindstig) stendur af hásuðri eða austanhallt við það (úr hádegisstað). Einkenni norðanstórviðranna, einkum þeirra, er vænta má, að standi um þriggja daga skeið eða lengur og þá eru nefnd ,,vikuveður“ munu oftastnær vera þessi:

Bakki og blikudrög sjást í suðri og suðvestri, en til vesturs að sjá er svo mikil móða, að eigi sést nema til næstu fjalla. Norðangarðurinn fer að hreykja sér yfir Dragann, Esjuna og við og við upp á Hengilinn, og ávallt er hann að herða á sér, unz komið er afspyrnurok. Er það oftast að næturlagi, og harðast er það frá óttu til árriss eða lengur. Klósigarætur sjást í andstöðu hvor við aðra í norðri og suðri, og myndast þá bráðlega himinháar hríslur út frá þeim um háloftin öll, og enn standa þær, þótt veðrinu sloti, En sé þeim athygli veitt, t. d. á hálfs eða heils tíma fresti, má sjá, að norðanhríslan er að þokast vestur á við, en suðurhríslan austur á við. Í vesturátt er víðfeðma heiðríkju að sjá, með skýjaflyksum hér og þar og eigi allfjarri. Sjáist þá til Snæfellsjökuls og vesturfjallauna norður af honum, er hann hákúfaður skýjabólstri og þau einnig. Þá sést og, að hvítar skýjarákir liggja niður um öll gil og gljúfur Dragans, hástrókur upp af Esjunni og Henglinum, en víðáttumikil fyrirstaða í fjarska milli þeirra, því dekkri og meiri sem veði-átta þessi á fyrir sér að standa lengur. Suðurloftið er að mestu hreint og óskýjað nema upp af Lönguhlíð, Grindavíkurfjöllum og Trölladyngju og jafnvel, að ský sjáist á Þorbirni og Gunnu, en afar sjaldan á Keili, nema úrkoma sé nærri mjög. Harðastur er vindstrengurinn beggja vegna við Akrafjall, fram úr Borgarfirði að vestan og Hvalfirði að austan, en magnaðastur þó fram með Esjunni og austur með henni. Þar er oft ofsaveður af þessari átt, og enda fleirum, því að undirlendið meðfram Esjunni er hátt og berskjaldað mjög fyrir flestum vindum.

Meðan veðrátta þessi stendur yfir, er allt á ringulreið með skýjafarið, en um það leyti, sem veðrið fer að draga niður, myndast þykkir skýjaflákar, sem ná upp í háloftin, og út frá þeim oddaský, björt og fögur.

Á vetrum bregður oft til útsynnings upp úr hörðum norðanveðrum og honum svæsnum mjög, en á sumrum til langvarandi þræsings og þurrveðurs, þ. e. a. s. ef austanáttin er þá ekki svo nærri, að hennar fari að gæta. Venjulegast verður þó nokkur bið á illviðri eftir flest þau illviðrisköst, sem norðanáttin tekur, þegar hún hamast svo sem hér var lýst, enda var hún þá að púa í einhverja blikuna eða bakkann, sem menn eigi sáu til, meðan hún var að fást við þetta. Stundum er það aðeins klósiginn í suðri, sem henni virðist mest umhugað um, að eigi ráði hér ríkjum frekar en hann á rétt á samkvæmt lögum lægða þeirra, er á leið sinni eru hingað utan af hafi, og þá einkum af hafinu milli Englands og Íslands eða þá frá Grænlandshafi og illvættinni, hafísnum, sem mestu illu kemur til leiðar með veðráttufarið hér á landi, hvenær sem er á árinu. Er það þá hitinn í lofti og í sævi, sem mestu ræður um áhrif íssins og illlyndis hans.

Meðan hrein norðanátt er hér syðra við Faxaflóa, er það eins og eystra, að þá er brimlaust að öðru leyti en því, að á Garðskaga og vestur af honum er vitanlega meiri eða minni áhlaðandi, sem segja má, að sé brim, – brim er hér sjaldan nema í útsynningum á vetrum með harðri norðanátt fyrir Vestfjörðum, – en taki þá til að brima, meðan norðanáttin er að detta niður, boðar það svæsinn útsynning og brim, einkum meira en áður var við Garðskaga.

Landnyrðingur eða há austanátt er hér lík því, sem hún er eystra, en fari landsynningur að, byrgir fyrir öll fjöll að austan og sunnan, og stendur þá vindstrókurinn niður úr Grindaskörðum, ofan af Hellisheiði og beggja vegna við Vífilsfell, og fylgir honum oftast stórregn.

Sólfarsvindur er hér sem annars staðar syðra ein hin ágætasta veðrátta: hægur vindur af norðri fram undir dagmálin, og færist hann á vesturleið fram undir hádegisstað, miðmunda og nón, með allharðri útrænu, en lygnir svo með kvöldinu, og um náttmál fer að kula á norðan aftur. Útrænan er og oft nefnd hafræna, og sé hún sterk, er hún nefnd bræla. Slíka og þvílíka daga er hér eins og eystra ágætur þurrkur á hey, fisk og söl, enda var sú venjan áður, meðan stunduð var sölvafjaran, að fara í fjöru þessa daga öðrum fremur, því að þá kom sér vel að fá náttdöggina á sölin, meðan þau lágu breidd yfir nóttina. Þau voru þá bæði hæfilega afvötnuð – annars á aldrei að afvatna söl á annan hátt – og skraufþurr um hádegisbilið, enda þá borin í byrðu og fergð um þriggja vikna tíma, unz kveitan er komin út á þeim.

Oft var talað um „stríðandi áttir“ áður fyrrum, m. a. þegar „hann var að þræsa í öfugan klósigann“, norðanáttin var að bæla niður hafáttina og útsynningshroðann. Var þá oft barizt hart og lengi, því að hér áttu stórveldin stundum fleiri en tvö eða þrjú, hlut að máli og „vopnaburðurinn“ oft harður og tíður, einkum þegar frost og kólga komu til sem sjálfboðaliðar til að skakka leikinn. Eina ráðið var þá oftastnær það, að líta til lofts og sjávar til þess að sjá, hvað herfylkingum þessum leið. A þá lund var oft hægt að sniðganga þær og komast undan þeim.

Leave a Reply

Close Menu