04-Kolbeinn Jónsson í Ranakoti

Kolbeinn í Ranakoti var fæddur í Múla í Aðaldal í Þingeyjarsýslu 15. sept. 1756, og voru foreldrar hans Jón Kolbeinsson og Sigríður Þorleifsdóttir prófasts í Múla, Skaftasonar. Sigríður dó í Múla árið 1783, komin yfir sjötugt.

Um Jón Kolbeinsson, föður Kolbeins, verður fátt eitt vitað með vissu, en algeng munnmæli í Þingeyjarsýslu segja, að hann hafi verið samfeðra hálfbróðir þeirra Guðmundar Kolbeinssonar á Kálfaströnd og Sigmundar Kolbeinssonar að Arnarvatni. Sigmundur Kolbeinsson er í manntali 1703 talinn 68 ára að aldri. Segir sagan, að þeir bræður Kolbeinssynir á Kálfaströnd Jónssonar, Kolbeinssonar, hafi heitið því að eignast sína prestsdótturina hver, og rættist það um þá alla þrjá. Guðmundur átti Ingibjörgu Gunnlaugsdóttur prests í Möðrudal Sölvasonar, Sigmundur átti Ólöfu Illugadóttur prests í Húsavík Björnssonar, en yngsti bróðirinn, Jón, Sigríði Þorleifsdóttur prófasts Skaftasonar, sem fyrr segir. En sé þessi ættfærsla rétt, hefur aldursmunur mikill verið með þeim bræðrum og ættliður Jóns gengið seint fram. Hafi Jón Kolbeinsson,verið 50 árum yngri en Sigmundur að Arnarvatni, og um líkan aldursmun bræðra og jafnvel meiri eru ýmis dæmi kunn, þá hefur Jón Kolbeinsson verið rösklega sjötugur orðinn, er Kolbeinn, sonur hans, fæddist 1756. Þetta er að vísu fremur óalgengt, en verður þó eigi rengt af þeim ástæðum frekara en munnmælasagan um bræðurna.

Með þessum ráðgerða aldursmun ætti Jón Kolbeinsson að hafa verið kringum 18 ára að aldri, er manntalið var tekið 1703. Að vísu finnst hans ekki getið á þeim slóðum, sem helzt er að vænta, en hugsanlegt er, að hann sé sá hinn sami Jón Kolbeinsson, sem þá er talinn 17 ára gamall og vinnumaður í Presthvammi, næsta bæ við Múla.[note] Að nokkru eftir upplýsingum síra Björns sál. Þorlákssonar á Dvergasteini.[/note]

Af uppvexti Kolbeins fara litlar sögur. Hann mun hafa alizt upp í Múla hjá móðurbróður sínum, síra Jóni Þorleifssyni, og að líkindum með móður sinni, og þar var hann fermdur vorið 1774, talinn þá 1 7 ára gamall. Þá sögu hef ég heyrt frá æskuárum Kolbeins, að kerling nokkur, sérvitur mjög, kenndi honum að þekkja stafina. En er að því kom, að hann gæti farið að taka þá saman og kveða að, bannaði kerling honum það harðlega. Brátt kom þó að því, að kerling taldi Kolbein þekkja stafina svo vel, að hann gæti farið að lesa orð og orð án þess að stafa þau, og fór hún því að reyna kunnáttu hans í þessu. Kom þá í ljós, að Kolbeinn var orðinn fluglæs, áður en kerlingu varði. Brást hún hið versta við og sagði: „Hver fjandinn hefur kennt þér að lesa, Kolbeinn? Ekki hef ég gert það.“

Um eða innan við tvítugt mun Kolbeinn hafa farið að Fagranesi til Guðrúnar, móðursystur sinnar, og dvalizt þar um skeið. Þar orti hann gamankvæði það, sem tilfært er í sögunni af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum, út af samtali tveggja næturgesta í skálanum í Fagranesi, er hann varð áheyrandi að. Ill mun ævi Kolbeins hafa verið nyrðra, því að haft er eftir honum, að þrátt fyrir fátækt sína syðra hefði sér þó aldrei liðið eins illa þar og í Norðurlandi. Voru þá og hin mestu hörmungaár, sem yfir land þetta hafa komið, móðuharðindin með stórkostlegum manndauða og skepnufelli. Upp úr þeim hefur Kolbeinn farið suður á land. Annars fara engar sögur af högum hans á þeim árum eða hvenær hann hefur komið suður, en hitt er víst, að hann er kominn suður í Stokkseyrarhrepp eigi síðar en 1788, því að þar er elzta barn hans, sem kunnugt er um, fætt árið eftir.

Sagnir herma, að Kolbeins hafi fyrst orðið vart í Stokkseyrarhreppi að vetrarlagi um eða eftir nýárið. – Vetur þessi hafði verið einn hinn mesti snjóa og frosta vetur, er þálifandi menn kunnu frá að segja. Snjóskaflar voru svo miklir, að slétt var yfir alla garða, en hús og bæir meira og minna í kafi, svo að naumast sá ofan á þá, Fram af bæjardyrum og fjósum voru byggðir snjóskálar og einnig yfir brunna og vatnsból.

Þá var það einn morgun, er Jón Þórðarson hinn ríki í Móhúsum var að byggja snjóskála fram af fjósi sínu eða dytta að honum, að hann verður þess var, að fremst í bæjarsundinu og beint fyrir ofan hann stendur maður nokkur steinþegjandi og horfir á Jón, þar sem hann var að moka klakann og snjóinn. Aldrei hafði hann séð mann þennan fyrri. Aðkomumaður yrti ekki einu orði á Jón að fyrra bragði og stóð hreyfingarlaus og horfði á hann. Jóni varð hálfhverft við þetta, yrðir á manninn og segir: ,,Hver ert þú?“ Hinn anzar engu. ,,Hvaðan ber þig að, og hvað viltu?“ Þá svarar hinn loks: ,,Ég er nefndur Kolur og kom hingað að norðan. Viljir þú veita mér gistingu í nótt, má vera, að þú fáir að vita nánari deili á mér og um ferðalag mitt, og skaltu að svo komnu láta þér þetta nægja.“ Jón þagði um stund og virti manninn vel fyrir sér, unz hann sagði: ,,Mér þykir þú láta alldrjúglega yfir þér, en svo lízt mér á þig, að þú sért ekki allur þar, sem þú ert séður. En þar sem þú munt þurfa einhvers við, getur þú fengið að liggja hér inni á gólfinu, ef þú vilt gera þér það að góðu, en fara verður þú héðan strax á morgun, ef ég vil.“ ,,Ég er ekki betra vanur,“ svaraði Kolur, ,,og því lofa ég að fara héðan, þegar þú vilt.“ Jón fylgdi síðan gesti sínum í bæinn, veitti honum góðan beina og lét hann fá legurúm um nóttina gagnvart sínu eigin rúmi, en eigi sofnuðu þeir fyrr en undir birtingu morguninn eftir. Dvaldist Kolur síðan hjá Jóni í Móhúsum í hálfan mánuð í góðu yfirlæti. Voru þeir vinir alla tíð síðan, og þótti Jón jafnan sýna Kolbeini nærgætni og meiri hjálpsemi en mörgum öðrum.

Sagt var og, að það hefði verið að ráðum Jóns í Móhúsum og með hjálp frá honum, að Kolbeinn byggði sér bæ næsta vor norðanvert við Traðarholtsvatn í tanga einum: sem gengur þar út í vatnið frá svonefndri Stelpuheiði. Kotið nefndi Kolbeinn Ranakot, en sökum þess að annar bær er þar einnig og eigi mjög fjarri, er Ranakot heitir, var þessi bær Kolbeins nefndur Upp-Ranakot.

Norðan við Traðarholtsvatn er bær sá, er Traðarholt heitir. Er það landnámsjörð, því að þar bjuggu þeir Atli Hallsteinsson og Þorgils örrabeinsstjúpur. Liggur bærinn Traðarholt sunnan á hæð nokkurri eða hvammi, sem nær niður að vatninu. Holtið er hátt og bratt að norðan. Þar er víðsýnt mjög og útsýni eitt hið bezta sem hugsazt getur. Sennilega hvergi betra á öllu landinu.

Um það leyti, sem Kolbeinn bjó í Ranakoti, bjó Jón Grímsson í Traðarholti. Var hann afi Sigfúsar Einarssonar organista og bróðir Sesselju, móðurömmu minnar. Þeir voru systkinasynir allir þrír Jónarnir: Jón Sturlaugsson, afi minn, Jón þessi Grímsson í Traðarholti og Jón Þórðarson í Móhúsum, langafi konu minnar, og var Bergur Sturlaugsson í Brattsholti langafi þeirra, en Vopna-Teitur fráafi hans. (Sbr. Bergsætt eftir Guðna Jónsson).

Það var eitt sinn að haustmorgni og í ljósaskiptum, að Jón Grímsson gekk austur í Traðarholtstún með sinn heymeisinn í hvorri hendi til að gefa hey úr þeim lömbum í fjárhúsi. Þegar hann er kominn miðja leið að heiman til fjárhússins, sér hann mann einn koma upp fyrir holtsbríkina að norðanverðu, og virðist honum maður þessi vilja hafa tal af honum. Hann staldrar því við og bíður þess, að fundum þeirra beri saman þar á miðju túninu. Aðkomumaður heilsar ekki, en spyr þurrlega: ,,Hvar er Ranakot, þar sem hann Kolbeinn á heima?“ Jón virðir manninn fyrir sér andartak, án þess að svara og virðist hann ærið skuggalegur og reyna að láta eigi sjá í andlit sér. Loks svarar Jón: ,,Ranakot er þarna suðurfrá og vestan við vatnið. Er óhætt að ganga þangað beina leið, því að vatnið skálheldur. En hver er maðurinn?“

Aðkomumaður svarar þessu engu, en vindur sér niður eftir túninu, heldur rakleitt af stað og stefnir á Ranakot. Skildu þeir þannig, og fékk Jón engin deili að vita á þessum einkennilega manni að því sinni, en síðar lýsti hann honum þannig: Hann var stuttur og digur, fóthvatur mjög og snar í hreyfingum, með broddstaf stóran í hendi og kollhúfu á höfði svo neðarlega, að eigi sást nema hálft andlitið, sem var, að því er ég fékk séð, hulið kolsvörtu og snöggu skeggi á vöngum upp undir augu, en þau fékk ég eigi séð, enda virtist mér hann forðast það.“

Svo illan bifur fékk Jón þegar við fyrstu sýn á manni þessum, að hann sagði, að sér hefði aldrei brugðið jafnsnögglega sem þá, er hann sá hann bera við ljósglætuna af daufri morgunbirtunni og nálgast sig, og þá eigi síður, er hann ávarpaði hann jafnkuldalega án þess að heilsa, þegar fundum þeirra bar saman, eða kveðja, um leið og hann vatt sér niður túnið, eða anza honum einu orði, þegar hann spurði hann um heiti hans.

Jón hugsaði sér nú að halda til þarna í fjárhúsinu, unz maðurinn færi þar um aftur, og reyna að hafa þá frekara tal af honum með njósn um för hans, en það fór á aðra leið.

Nú víkur sögunni heim að Ranakoti. Kolbeinn er að klæða sig og ekki kominn í neinar ytri flíkur sínar eða utanyfirföt, þegar hann heyrir, að gengið er upp á bæinn og þekjan lamin utan, en síðan gengið að glugganum og kallað höstulega mjög: ,,Er Kolbeinn heima?“

Kolbeinn gekk fram að glugganum, skimar út og segir:

,,Heima er hann! – Ég kem!“

Klæðir hann sig síðan í skyndi, en segir svo hátt, að kona hans heyrði :

!,Já, já, þar kom að því! Ég hélt, að þetta hefði verið gleymt!“

Þegar svo kona hans innti hann að því, hvað um væri að vera, sagði hami:

,,Ég verð að fara, en vertu óhrædd um mig, jafnvel þótt mér dveljist nokkuð. Þetta verður að ske, og því er ekki unnt að fresta, úr því að hann er kominn að sækja mig.“

Kona hans spurði hann því næst, hvort hann vildi ekki mat, áður en hann færi, eða betri útbúnað. Kolbeinn neitaði því öllu, en þá aðeins mjólk að drekka, eina mörk eða svo. Gekk Kolbeinn síðan út og kom ekki heim aftur fyrr en að þrem dögum liðnum. Veit enginn enn í dag, hvert hann fór eða hvar hann dvaldist allan þennan tíma.

Kona hans, Aldís, varð brjáluð, og var litið svo á, að atburður þessi hefði valdið því.

Nú er það frá Jóni Grímssyni að segja, að hann dvaldist alllengi inni í fjárhúsinu og ætlaði hinum ókunna manni stundirnar, er hann kæmi aftur frá Ranakoti, enda bjóst hann við, að hann hefði þar lengri viðstöðu en raun varð á, og er hann kom út úr fjárhúsinu, sér hann, hvar maðurinn og Kolbeinn í Ranakoti eru að hverfa norður af túnbríkinni í Traðarholti. Gengu þeir hvor á eftir öðrum og stefndu vestanvert við Keldnakot, upp Breiðamýri, svo langt sem hann sá til þeirra. Fór hinn ókunni maður fyrir, en Kolbeinn eftir, og var svo sem 5-6 faðma millibil á milli þeirra. ,,Þeir gengu hratt, en hlupu aldrei,“ sagði Jón Grímsson síðar.

Mörgum árum síðar lentu synir Kolbeins tveir, þeir Jón og Hafliði, í Kambsráninu, sem kunnugt er, og var Kolbeinn þá kominn yfir sjötugt. Hafði hann látið svo um mælt, er hann vissi þessi afdrif sona sinna, að hefðu þeir látið hann fá nokkra grunsemd um fyrirætlun sína eða að þeir ætluðu að stofna til nokkurs konar félagsskapar við Sigurð Gottsvínsson og þá sérstaklega að fara með honum að Kambi til rána, hefðu þeir aldrei komizt í þvílíka ógæfu, og víst hefði hann getað forðað þeim undan manna höndum og vísað þeim á stað nokkurn svo óhultan, að þeir hefðu aldrei fundizt, en getað þó liðið vel. ,,Þetta vildi ég ekki gera,“ sagði Kolbeinn, ,,þótt synir mínir ættu hlutinn að, því að ég átti ekki með það. Þeir hlutu að taka afleiðingum gjörða sinna, enda skyldu menn jafnan hafa íhuga þessi orð skáldsins:

„Vogaðu ei fyrir vinskap manns
að vinna hvað órétt er,
því guðs er aðeins, en ekki hans,
yfir að dæma þér.“

(Hugvekjusálmar síra Sig. Jónssonar, 38, 3).

Héldu menn, að þessi orð Kolbeins hefðu hnigið að því, að hann hafi haft einhver sambönd við óþekktan mann, sem hann hefði getað snúið sér til, ef honum bæri vanda að höndum, enda gátu menn sér og þess til, að ókunni maðurinn, sem heimsótti hann forðum, hefði verið sendur honum til þess að reyna staðfestu hans og þolgæði, og að förin, hvert sem hún hafi legið, hafi orðið honum sigurför hin mesta, þótt eigi léti hann það uppi við nokkurn mann.

Aftur á móti þóttust aðrir þess fullvissir, að ókunni maðurinn hefði verið sending að norðan eða jafnvel draugur, sem Kolbeinn hefði fengið yfirbugað að lyktum, enda er að því vikið í Sögunni af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum eftir Brynjólf Jónsson, er hafði alla fræðslu sína um þessi efni frá gömlu fólki austur þar, sem var ýmist meðal samtíðarmanna Kolbeins og þekktu hann eða heyrt höfðu frá þessu sagt. En það vissi ég, að allt gamalt fólk, sem til þekkti, taldi þessa sögu um hina einkennilegu heimsókn, sem Kolbeinn fékk, sanna og áreiðanlega.

Kolbeinn var hagmæltur vel, og eru nokkur sýnishorn af gamankveðskap hans í Kambsránssögu. Móðir mín kunni margt eftir Kolbein, meðal annars langt og hjartnæmt þakkarkvæði til guðlegrar forsjónar fyrir hjálp í mikilli neyð og annað kvæði, sem var ennþá andríkari bæn í ljóðum, er hann orti, þegar hann heyrði um ófarir sona sinna. Þakkarkvæðið er ort í tilefni af björgun Kol-:beins úr háska miklum, er hann lenti í. Var það með þeim hætti, að hann flæddi uppi á eyðiskeri, Bollaskeri eða Lambatorfu í Traðarholtsfjöru, í kuldaveðri og stórbrimi miklu á dimmri vetrarnóttu og náði eigi til lands fyrr en svo var út fallið, að hann gat vaðið yfir grynnsta ósinn í annað sker og komizt til lands illa til reika og kalinn á fótum. — Bæði þessi kvæði eru nú, að því er ég veit bezt, gleymd og öllum týnd. En ég man, að þau þóttu fögur og lýstu því vel, sem móðir mín sagði um hann, að hann hefði verið „ígrundunarsamur, glaðsinna og ráðvandur til orðs og æðis, ávallt ánægður og aldrei möglað.“ Ógæfa sona hans var hið eina, sem menn urðu varir við, að fengi á hann, enda féll hún honum ærið þungt, sem von var.

Jafnan átti Kolbeinn við fátækt mikla að búa, enda voru börnin mörg og bjargræðisvegir fábreyttir. En aldrei lét Kolbeinn hugfallast af þeim sökum, enda varð honum þá alltaf eitthvað til. Einhverju sinni fékk Kolbeinn aðeins 5 fiska hlut á vetrarvertíð í Þorlákshöfn. Þá kvað hann um sjálfan sig:

Heldur Kolur heim úr veri
hlut með rýran.
Engan mola á af sméri
og illa býr hann.

Fyrri kona Kolbeins hét Ólöf Hafliðadóttir, ættuð austan úr Holtum. Þessi voru börn þeirra:

l. Jón Kolbeinsson eldri, fæddur 1789.

2. Sigríður Kolbeinsdóttir, f. 1793, d. 21. sept. 1883, 90 ára að aldri. Hún var einsetukona á Eyrarbakka og fátæk mjög. Kom hún oft að Syðra-Seli til foreldra minna til þess að tína reyr og kodún, nokkurs konar bómull, í Selsheiði, og man ég vel, að hún gaf mér fyrsta peninginn, sem ég eignaðist á ævinni, þegar ég var á 5. ári. Það var fírskildingur, fagur og skær. Fór þá líkt fyrir mér og Þorleifi ríka, bróður hennar, þegar Arnór í Lölukoti gaf honum ýsurnar: Ég vissi engan mann ríkari en mig hér á jörðu. Sigríður Kolbeinsdóttir var almennt nefnd Sigga Kola. Hún var góð kona og gáfuð.

3) Helga Kolbeinsdóttir, f. 1794, dó á unga aldri.

4) Hafliði Kolbeinsson, f. 19. ágúst 1795. Sjá Söguna af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum, einkum útgáfu Guðna Jónssonar með athugasemdum hans og fylgiskjölum.

5. Þorleifur Kolbeinsson ríki á Stóru-Háeyri, f. 6. júní 1798. Sjá þátt um hann hér á eftir.

6. Guðbjörg Kolbeinsdóttir, f. 1799, var í vinnu“ mennsku alla ævi og dó á Stóru-Háeyri 30. júlí 187 4.

7. Jón Kolbeinsson yngri, f. 8. nóv. 1800. Sjá um hann Söguna af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum.

8. Málfríður Kolbeinsdóttir, f. 1806. Hún giftist Guðmundi Þorgilssyni á Litla-Hrauni, afabróður mínum, og eignuðust þau einn son, er Guðmundur hét. Hann var dugnaðarformaður, en fór þrítugur að aldri til Ameríku 1870, bjó á Washingtoneyju, og þar andaðist hann á 96. aldursári ( f. 8. júní 1840). Guðmundur var kvæntur Guðrúnu Ingvarsdóttur frá Simbakoti, Magnússonar í. Mundakoti, Arasonar. Hún var tveim árum yngri en hann og fór til Ameríku tveim árum á eftir honum. Komst hún á tíræðisaldur sem maður hennar. Þau eignuðust mörg börn, framúrskarandi efnileg og alkunn þar vestra fyrir dugnað og ráðdeild. – Guðmundur ritaði margt í blöðin þar vestra, einkum í Heimskringlu, undir nafninu Gamli Gvendur. Ég á mörg sendibréf frá Gamla Gvendi, fjörlega rituð og vel stílfærð, enda var hann athugull maður, ágætlega greindur og fylgdist vel með öllu meðal Íslendinga austan hafs og vestan. Frá honum fekk ég ýmsan fróðleik um Kolbein, afa hans, og Þorleif, móðurbróður hans. Ég skal geta þess til gamans, að með síðasta bréfi sínu til mín sendi hann mér 5 ameríska dali með þeim fyrirmælum, að ég skyldi verja þeim til þess að drekka erfi hans í góðu kaffi eða súkkulaði, er ég frétti lát hans, og bjóða til ættingjum hans, sem ég næði til.

9. Ólöf Kolbeinsdóttir, f. 1807, var í vinnumennsku í ýmsum stöðum og mun ekki hafa gifzt.

Seinni kona Kolbeins var Aldís Sigurðardóttir, ættuð austan úr Landeyjum. Þau giftust 20. ágúst 1820. Þá var hann 64 ára, en hún 25 ára. Sonur þeirra var:

10. Steingrímur Kolbeinsson, f. 1824. Hann drukknaði á Einarshafnarsundi 27. febr. 1846 ásamt Hafliða, bróður sínum, ókvæntur og barnlaus. Um hann orti Kolbeinn í spaugi vísu þessa, er drengurinn var barn að aldri:

Mikið skeini minn er Steini talinn,
sonurinn eini Saldísar,[note] Hér er stuðlasetningar vegna einum staf, S, bætt framan við Aldísarnafnið. Þannig skýrði móðir mín nafnið Saldís.[/note] sá í leyni getinn var.

Á efri árum sínum dvaldist Kolbeinn um nokkurra ára skeið hjá afa mínum og ömmu, Gísla bónda Þorgilssyni og Sesselju Grímsdóttur á Kalastöðum. En síðasta árið, sem hann lifði, eða litlu lengur átti hann heima hjá Þorleifi, syni sínum, á Stóru-Háeyri, og þar dó hann 9. júlí 1842, hátt á 86. aldursári. Móðir mín, Margrét Gísladóttir, var á 13. ári, þegar Kolbeinn andaðist, og hafði alizt upp með honum þau árin, sem hann var á Kalastöðum. Hún þekkti hann því vel og kunni frá mörgu að segja um hann, sem ég hef því miður gleymt og eigi veitt þá eftirtekt sem skyldi. Þætti mér mikils um það vert nú, ef ég myndi öll kvæðin, sem hún kunni eftir Kolbein, og sögurnar, sem hún sagði okkur börnum sínum um hann. En þannig lýsti móðir mín Kolbeini, að hann hefði verið glaður í viðmóti og ekki látið fátæktina og baslið á sig fá. Hann var mjög sannfærður og einlægur trúmaður, vel hugsandi og viðræðugóður, en þó svo dulur í skapi, að enginn þurfti til þess að hugsa að fá hann til að segja frá leyndarmálum sínum eða annarra eða að hann brygðist í neinu því, er honum var trúað fyrir.

Ég ætla að ljúka þessum þætti með smásögu af viðskiptum þeirra feðganna Kolbeins og Þorleifs, sonar hans.

Þegar Kolbeinn var á Kalastöðum, átti hann einn fágætan grip, sem honum þótti vænt um. Það var flaska ein, er af sjó hafði rekið, áttstrend að lögun og tók rúman pott. Hún var græn að lit með glertappa, fóðruðum korki, og var hann skrúfaður í flöskustútinn. Flösku þessa var Kolbeinn vanur að senda Þorleifi, syni sínum, nokkurum sinnum á ári og fekk hana aftur fulla af brennivíni, sem hann dreypti í við og við eða lét út í kaffið sitt á morgnana á helgidögum og hátíðum. En einu sinni kom flaskan tóm aftur frá Þorleifi. Kolbein setti hljóðan við og sendi ekki flöskuna síðari.

Þegar Kolbeinn var dáinn, fannst flaskan í dóti hans, og lenti hún hjá Þorleifi. Daginn, sem Kolbeinn var grafinn, vildi Þorleifur gæða líkmönnunum á brennivíni og þótti þá vel við eiga að skenkja þeim það úr hinni fáséðu flösku Kolbeins. Þorleifur tekur því flöskuna, fer fram í búð hjá sér, fyllir hana af brennivíni, kemur inn með hana og setur hana hægt á borðið, sem líkmennirnir sátu við. En í sömu svifum klofnar flaskan að endilöngu, svo að enginn dropi var eftir í henni, en vínið flóði allt út um gólfið. Þorleifi brá svo við, að hann hvítnaði í framan, stóð þegjandi um stund og horfði til skiptis á flöskuna og vínflóðið á gólfinu. Loks sagði hann eins og við sjálfan sig, en þó svo hátt, að líkmenn heyrðu:

,,Svona var að senda flöskuna tóma!“

Eigi vissu líkmennirnir fyrr en síðar, hvað Þorleifur átti við með þessum orðum. En síðan er þetta haft að orðtaki eystra, þegar einhver þykist ósvinnur orðinn eða sér ekki fyrr en um seinan, hvað honum bar að gera.


Athugasemdir við þátt Kolbeins.

Við þátt þennan af Kolbeini í Ranakoti verð ég að gera fáeinar athugasemdir til leiðréttingar á sumum atriðum eða til viðauka að nokkuru.

Um aldur Kolbeins er þess að geta, að fæðingardagur hans og ár er tekið eftir prestsþjónustubók Múla í Aðaldal, sem ég hef haft tækifæri til að athuga. Hins vegar er aldur hans talinn 3-4 árum of lágur í manntölunum 1801 og 1818.

Um föðurætt Kolbeins hefur jafnan verið nokkur óvissa að öðru leyti en því, að menn hafa vitað, að faðir hans hét Jón Kolbeinsson. Hin þingeyska sögn um ætterni hans, sem getið er í upphafi þáttarins, gæti að vísu staðizt, en er þó fjarri því að vera sennileg tímans vegna. Indriði Þorkelsson í Fjalli, hinn fróðasti maður um þingeyskar ættir, hefur að líkindum fundið réttu lausnina á ætt Kolbeins. Hann segir, að hann hafi verið sonur Jóns á Lómatjörn, f. 1720, d. 1784, Kolbeinssonar í Botni í Þorgeirsfirði, f. 1680, Ólafssonar. (Sjá Víkingslækjarætt, bls. 147).

Missögn er það í þættinum, að Jón ríki hafi verið farinn að búa í Móhúsum, þegar Kolbeinn kom suður í Stokkseyrarhrepp. Þangað hefur Kolbeinn ekki komið síðar en um 1788, sem fyrr segir, en þá hefur Jón ekki verið nema 18 ára að aldri, því að hann var fæddur 1770. Þó þarf það eigi að vera rangt, að Jón hafi verið fyrsti maður, sem Kolbeinn hitti þar í hreppi, en þá hefur Jón sennilega verið hjá fósturforeldrum sínum á Refstokki. Er og eðlilegt, að Kolbeinn kæmi þar fyrst til bæja í Stokkseyrarhreppi, hafi hann, sem líklegt er, komið sunnan yfir heiði, því að Refstokkur var úti við Ölfusá í sama túninu að kalla sem Óseyrarnes.

Einkennilegt er, að þess skuli ekki getið í þættinum, að Kolbeinn bjó mest af sínum búskap í Brattsholtshjáleigu. Þar eru öll börn hans og Ólafar fædd. Ég þori ekki að segja, að hann hafi byrjað búskap í Brattsholtshjáleigu, en þangað hefur hann þó flutzt mjög snemma, og með vissu er hann farinn að búa þar 1795. Að Ranakoti hefur hann ekki flutzt fyrr en um 1820, og var hann jafnan við það kenndur, af því að hann bjó þar síðar. Af þessu _má marka, hversu mjög hefur skolazt til það, sem í þættinum segir, að Kolbeinn hafi farið að búa í Ranakoti vorið eftir, að hann kom suður í Stokkseyrarhrepp. Þaðan af síður fær það staðizt, að Kolbeinn hafi fyrstur manna byggt Ranakot og gefið því nafn. Þetta var ævagömul hjáleiga frá Traðarholti. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem tekin var saman þar um slóðir árið 1708, er Ranakot kallað „gamalt býli,“ og ég hef engin rök fundið fyrir því, að það hafi farið í eyði eftir það. Enda er víst, að það var í byggð, þegar Kolbeinn fór þangað. Jón Brandsson frá Roðgúl bjó þar næstur á undan honum.

Bæði hér í þættinum og í Kambránssögu er talið, að Kolbeinn hafi verið tvíkvæntur, og í manntali 1801 er hann talinn kvæntur 1. sinn og býr hann á með Ólöfu. En ef nánar er að gætt, bendir ýmislegt til þess, að Jón eldri Kolbeinsson hafi ekki verið sonur Ólafar. Hann er 3-5 árum eldri en næsta systkin hans. Eftir aldri hans og Ólafar hefði hún aðeins verið 18-19 ára, er hún átti hann. Hann ólst ekki upp hjá Kolbeini og Ólöfu, heldur hjá Magnúsi Snorrasyni á Mið-Kekki og Guðbjörgu konu hans, og er kallaður fósturbarn þeirra. Ekkert af þessu er þó næg sönnun. Sönnunin finnst í skiptagerð eftir Ólöfu látna frá 1. febr. 1817. Þar eru, eins og lög gera ráð fyrir, talin öll börn hennar, en Jón eldri er ekki meðal þeirra. Nú var eftir að vita, hver móðir Jóns hefði verið. Og þar hjálpaði Haraldur Pétursson í safnahúsinu mér. Hann sagðist hafa lesið í ættartölubók, að Kolbeinn hefði átt Þuríði Jónsdóttur af Eyrarbakka. Þessi Þuríður hefur þá verið fyrsta kona Kolbeins og Jón eldri sonur þeirra. Ólöf önnur kona hans og Aldís hin þriðja. Kolbein hefir misst Þuríði eftir stutta sambúð og fyrsta kvonfang hans gleymzt furðu fljótt. Þegar ég gaf út Kambránssögu hafði ég eigi veitt þessu athygli.

Jón Kolbeinsson eldri kvæntist ekki og átti engin börn. Hann átti á efri árum lengi heim á Eystri-Loftsstöðum og dó sem niðursetningur í Stokkseyrarhreppi.

Ólöf Hafliðadóttir, miðkona Kolbeins dó 10. júlí 1816, og var búi þeirra hjóna skipt 1. febrúar árið eftir. Upphæð sú, er afgangs var skuldum og til skipta kom, var aðeins 40 rd. 71 sk. Má af því marka, að lítill var hlutur systkinanna sjö, sem þá voru á lífi. – G.J.].

Leave a Reply

Close Menu