082-Vísur úr Sunnlendingagamni 1914

Veturinn 1914 voru ortar formannavísur um alla formenn í veiðistöðvunum austanfjalls, Selvogi, Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Stokkseyri og Loftsstaðasandi, og voru þær prentaðar á Eyrarbakka sama ár undir nafninu Sunnlendingagaman. Aðalhöfundar og útgefendur kversins voru þeir Karl H. Bjarnason prentari, sem kallaði sig Spóa, og Einar E. Sæmundsen skógarvörður, sem kallaði sig Þröst. Aðrir höfundar voru Páll Guðmundsson á Hjálmsstöðum, er nefndist Brúsi, og Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, er nefndist Úlfur. Þetta um höfundana sagði Einar E. Sæmundsen mér. Samkvæmt því eru vísurnar um Stokkseyrarformenn eftir Karl H. Bjarnason. Þá voru 15 formenn á Stokkseyri, 6 á opnum skipum, en 9 á vélbátum.

Ljóðaglingur látum klingja mengi,
fram er þvinga flóða mar
formenn slyngir Stokkseyrar.

Þar í grjóti glymur og rótast hára,
formenn hót ei hræðast þó
halda skjótir fram á sjó.

Heyrðu, góða, gefðu hljóð á meðan,
hrannar glóða grundin rjóð,
gel eg ljóð um sævarþjóð.

a. Róðrarskip.

Bjarni þrekinn báru dreka ekur,
þegar vekur vindur lá,
vaskur tekur stýrið þá.

Þegar boðar brotna á gnoðar stafni
og hylur froða hástokka,
hækkar voð á „Sæfara”.

Ára gandi út frá sandi stefnir
eftir vanda Eyjólfur,
ekki í landi rólegur.

Við Björgvin kenndur klóta bendir snari,
einatt renndi „Íslending”
áls um lendur hetja slyng.

Bragnar tjá úr Brattsholtshjáleigunni
Gísli fái fisk úr sjó,
flytur ósmáan borða jó.

Báran hjóst, þar bylur róstu vekur,
svalt í gjósti sollinn mar
sýður á brjóstum „Hafmeyjar“.

Grími borinn Guðberg þor ei brestur,
utan úr Forum heim í höfn
hæli sporar úfna dröfn.

„Þorra“ halur hleypir um hvala bala.
Storms við hjal er harðsnúinn
hjálmunvala fákurinn.

Knerri bendir knár um lendur síla,
hraustur renndi hart á mið Hannes,
kenndur Sæból við.

Út um grundu Ægis skundað getur,
hranna sprundið harðlynda
hampar stundum „Blíðfara“.

Jafnlundaður Jón frá Traðarholti
kemur hlaðinn heim í vör,
hlunna glaði beinir för.

„Karen“ hrindir halur lyndisglaður,
lyftir vindur voðinni,
vænu skyndir gnoðinni.

b. Vélabátar

Jónsson Einar ára hreini beinir
út frá hlein í Drafnar dans,
Dúfa reynir þrekið hans.

Veður á súðum véla prúður dreki.
„Heppnin“ gnúði hranna vang,
hafs við brúðir þreytti fang.

Friðrik lengi fræknum drengjum stýrir,
margan fenginn Fróða méls
flytur af vengi Ránar hvels.

Vélar hlymja, hrannir rymja í bræði,
stormar þrymja, stíga dans,
strengir ymja „Sæfarans“.

Súða vali siglir halur djarfur
geyst um hvala gretta lá
Gísli Kalastöðum frá.

Siglu dýrið sá um mýri hlýra
vélum knýr mót kólgunni,
kappinn stýrir „Ingólfi“.

Adólfs niður út á miðin heldur,
Jón er iðinn aflann við,
Ægi biður sízt um grið.

„Ingu“ hrindir út á strindi hvala,
vélar kyndir, kólgu hind
knáan syndir móti vind.

Höpp ei skerðast hraustum sverða meiði
Íragerðis ötull Jón
oft á ferð um laxa frón.

„Sæbor“ fleytir fram um reiti þara,
véla neytir, lið sem ljá,
löðri þeytir stefni frá.

Sturlaugs arfi stjórnar karfa fríðum,
kænn að starfi um flyðru frón,
flestum djarfur þykir Jón.

„Þorra“ stýrir þrekinn Týrinn spanga,
vélar knýr við afla önn,
aldrei flýr, þó bólgni hrönn.

Áls um traðir, oft í svaðilförum,
heldur glaður hlunna mar
hafnsögumaður Stokkseyrar.

Ægir gnýr og ólgu spýr á borðin,
þegar stýrir þrautseigur
þóftu dýri Lénharður.

„Farsæll“ báru brjóst og hárið rífur,
véla márinn flýtir för,
frísar Kári móti knör.

Hinriks kundur hrannar grundu skundar,
Sigurður stundar fiskiföng
fram á sundi um dægur löng.

„Vonin“ skeiðar skeljungs heiði breiða,
hnísu leiðar hrafni þá
hrannir freyða stafni á.

Nefna verður Vilhjálm Gerðabónda
strengi herða straums á sjó,
stýrir ferð um rostungs mó.

„Íslendingi“ oft um binginn hvala
siglir slyngur svo í höfn,
sinn þó hringi makka dröfn.

Þrýtur óður, þagnar ljóða kliður.
Vil eg glóða græðis lín
gjarnan bjóða kvæðin mín.

Leave a Reply

Close Menu