067-Vélbátar
Vélbátar í Stokkseyrarfjöru um 1920

067-Vélbátar

Það voru mikil tíðindi í fiskiveiðisögu Íslendinga, er vélbátar fóru að ryðja sér til rúms upp úr síðustu aldamótum. Eins og vænta mátti, voru menn fljótir að koma auga á þá kosti, sem þeir höfðu fram yfir hin gömlu róðrarskip. Þar leysti eigi aðeins vélaaflið handaflið af hólmi, heldur gerðu hinar nýju fleytur mönnum fært að leita á dýpri og fjarlægari mið en áður. Að vísu voru hinir fyrstu vélbátar litlir og ófullkomnir hjá því, sem nú er, en samt sem áður stórt framfaraspor, sem landsmenn voru tiltölulega fljótir að átta sig á. Leið því skammur tími, unz útbreiðsla þeirra náði til allra helztu fiskivera landsins. Fyrsti vélbátur við Faxaflóa var smíðaður í Reykjavík 1903, aðeins 3½ smálest að stærð með 4 hestafla Danvél. Til Seyðisfjarðar munu fyrstu bátarnir hafa komið 1904 og sama ár var fyrsti vélbáturinn smíðaður í Vestmannaeyjum, en ekki gengu vélbátar þó þaðan á vertíð fyrr en tveimur árum síðar. Til Akraness kom fyrsti báturinn vorið 1906 o. s. frv.[note]Sbr. Þorsteinn Jónsson í Laufási: Formannsævi í Eyjum, 109-124; Ólafur Björnsson: Saga Akraness I, 382-401.[/note]

Þannig hófst saga vélbátanna nokkurn veginn samtímis í helztu verstöðvum landsins, þar á meðal á Stokkseyri og þar þó í fyrra lagi.

Fyrsti vélbáturinn á Stokkseyri var „Ingólfur“. Hann var 6 smálestir að stærð, smíðaður í Friðrikssundi í Danmörku 1904 og kom til Stokkseyrar sama ár.[note]Gjörðabækur Ís- og fiskveiðifélagsins „Ingólfs“ og Ábyrgðarsjóðs opinna róðrarskipa taka af allan vafa um það, að vélbáturinn „Ingólfur“ kom til Stokkseyrar vorið 1904. En vátryggingabók vélbáta telur hann smíðaðan 1905 og svo hafa heimildarmenn mínir yfirleitt talið, og stafar það efalaust af því, að það ár (1905) gekk báturinn fyrst á vertíð.[/note] Báturinn var smíðaður að tilhlutun Ólafs kaupmanns Árnasonar fyrir Ís- og fiskiveiðafélagið „Ingólf“. Var hann sérstaklega ætlaður til þess að draga kaupskip inn á leguna og veiða síld handa íshúsinu, en hann gekk einnig til fiskjar í mörg ár og reyndist vel. Næstu vélbátar, sem komu til Stokkseyrar, voru báðir smíðaðir í Friðrikssundi eins og „Ingólfur“ og voru 6-6½ smálest að stærð. Sá Jón Sturlaugsson hafnsögumaður um smíði þeirra og var meðeigandi annars bátsins. Allir þessir fyrstu bátar höfðu Danvélar, en umboðsmaður þeirra á Suðurlandi var Ólafur Árnason á Stokkseyri.

Á næstu árum fjölgaði bátum óðfluga á Stokkseyri sem annars staðar og 1916 náði bátatalan þar hámarki sínu. Þá gengu 17 vélbátar frá Stokkseyri, en næstu tvö árin 16 hvort árið. Eftir það tók þeim nokkuð að fækka, en héldust þó nálægt tugnum, stundum yfir, stundum undir fram til 1931. Eftir 1936 voru bátarnir lengstum 4-5 að tölu, en síðustu árin hafa þeir verið 3. Stærð bátanna er nú orðin margföld á við það sem upphaflega var. Margir af vélbátum Stokkseyringa voru smíðaðir þar heima. Helztu skipasmiðir, sem að því unnu, voru Ástgeir Guðmundsson í Litlabæ í Vestmannaeyjum og Gunnar Marel Jónsson frá Gamla-Hrauni. Viðgerðir á bátum annaðist Guðmundur Sigurjónsson trésmiður á Sunnuhvoli að mestu leyti.

Sérstakt ábyrgðarfélag fyrir vélbáta, var stofnað 1912 og náði það til Eyrarbakka og Stokkseyrar. Voru bátarnir tryggðir hjá félaginu og endurtryggðir hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, sem stofnuð var með lögum frá alþingi 1909. Nefndist tryggingarsvæðið Eyrarbakkaumboð, og var Friðrik Sigurðsson á Gamla-Hrauni umboðsmaður trygginganna frá 1913, er þær hófust, og til 1938. Í nóvember það ár voru bátarnir færðir yfir á Vélbátaábyrgðarfélagið „Heklu“, sem nær til allrar sýslunnar og endurtryggir bátana einnig hjá Samábyrgð Íslands. Hefir Böðvar Tómasson útgerðarmaður á Stokkseyri síðan verið umboðsmaður trygginganna.

Vélbátarnir á Stokkseyri hafa nú um marga áratugi, eigi síður en róðrarskipin forðum, verið eitt helzta atvinnutæki byggðarmanna og fært þeim mikla björg í bú. Þeir hafa verið eins og hluti af fólkinu, hver með sínu nafni, sínum sérstaka svip og lagi, næstum því að kalla persónulegum einkennum í augum heimamanna, sem höfðu þá daglega fyrir sjónum. Þeir eiga því meira en skilið að fá hér skráð „æviágrip“ sín í stuttu máli, sumir alla ævi sína og aðrir á því tímabili, sem þeir áttu heima á Stokkseyri og deildu kjörum með sjómönnunum þar. Verður því hér á eftir skýrt frá einstökum bátum eftir stafrófsröð, eigendum þeirra og formönnum, eftir því sem mér er framast kunnugt orðið.

„Alda“, síðar „Haukur“, hét upphaflega „Unnur“, sjá það nafn.

„Atli“, 10.45 lestir með 12 ha. Heinvél, smíðaður á Stokkseyri 1916 af Gunnari M. Jónssyni skipasmið, og var það fyrsti báturinn, sem Gunnar smíðaði. Eigendur voru Jón Jónasson hreppstjóri á Stokkseyri, Guðmundur Þorvarðsson hreppstjóri í Litlu-Sandvík og Eiríkur Árnason í Þórðarkoti. Formenn á „Atla“ voru þeir Oddgeir Magnússon í Sandfelli 1916, Ingimundur Jónsson á Strönd 1917-1918, Jón Grímsson frá Móakoti 1919, Kristján Guðmundsson í Búðarhúsi á Eyrarbakka 1920-1921 og síðast Bjarni Sturlaugsson í Eystri-Móhúsum. Báturinn fórst á Stokkseyrarsundi 17. apríl 1922 með allri áhöfn, 7 mönnum. Hjörtur Fjeldsteð í Reykjavík keypti flakið. Þegar bátnum var náð upp, kom í ljós, að orsök slyssins var sú, að akkerisfestin hafði runnið út og vafizt um skrúfuna og mölvað spaðana. Við það missti báturinn ferð, svo að honum hvolfdi á sundinu. ,,Atli“ var traustbyggður og gott skip.

„Baldur“, 10.57 lestir með 15 ha. Alphavél, smíðaður á Stokkseyri síðla árs 1917 af Ástgeiri Guðmundssyni í Litlabæ. Eigendur voru Sigurður Hinriksson í Ranakoti, Pálmar Pálsson á Stokkseyri og Helgi Jónsson kaupfélagsstjóri. Árið 1926 seldu þeir bátinn Árna Tómassyni og fleirum, en þeir seldu hann aftur til Keflavíkur 1928. Þaðan var hann loks seldur til Reykjavíkur og er hann þar enn til með einkennisstöfunum RE 16. Meðan „Baldur“ átti heima á Stokkseyri, voru formenn á honum þeir Sveinn Pétursson á Hólmi 1918, Karl Guðmundsson frá Gamla-Hrauni 1919-1923 og Bjarni Sigurðsson í Ranakoti 1924-1927.

„Björgvin“, 9.41 rúmlest með 8 ha. Danvél og síðar með 11 ha. Alphavél, smíðaður á Stokkseyri 1916 af þeim Guðmundi og Jóhannesi Sigurjónssonum frá Gamla-Hrauni og Þorkeli Þorkelssyni frá Gamla-Hrauni, og voru þeir eigendur bátsins. Formaður á „Björgvin“ var Jóhannes Sigurjónsson, en vélstjóri Þorkell Þorkelsson. Báturinn skemmdist eitt sinn mjög, er hann rak upp í ofviðri, en eigendurnir smíðuðu hann upp og umbyggðu og settu í hann 25 ha. Bolindervél. Árið 1941 var „Björgvin“ seldur til Bolungarvíkur. Þar rak hann að lyktum upp og brotnaði.

„Blíðfari“, 9.20 lestir með 8 ha. Danvél, smíðaður á Stokkseyri 1915 af Ástgeiri Guðmundssyni í Litlabæ. Eigendur voru Hannes Jónsson á Sæbóli, Júníus Pálsson á Syðra-Seli, Magnús Gunnarsson kaupmaður og Einar Gíslason í Borgarholti. Þeir seldu hann 1918 Jóni Magnússyni kaupmanni, Árna Tómassyni og Gunnari Ingimundarsyni í Hellukoti. Skírðu hinir nýju eigendur bátinn upp og nefndu hann „Rán“, en seldu hann tveimur árum síðar til Ísafjarðar. Formenn á „Blíðfara“ og síðar „Rán“ voru Hannes Jónsson á Sæbóli 1915-1917 og Gunnar Ingimundarson í Hellukoti 1918-1919.

„Búi“, 8.87 lestir með 12 ha. Möllerupsvél, smíðaður á Eyrarbakka af Bjarna Þorkelssyni skipasmið í Reykjavík fyrir Kaupfélagið „Ingólf“. Árið 1917 keypti Skúli Thorarensen í Gaulverjabæ o. fl. bátinn af kaupfélaginu, og létu þeir setja í hann 12 ha. Danvél, en 1919 keyptu þeir Þórður Jónsson bóksali, Sigurgrímur Jónsson í Holti og fleiri bátinn og létu endurbyggja hann og styrkja. Formenn á „Búa“ voru Eyjólfur Sigurðsson í Björgvin 1913, Gunnar Ingimundarson í Hellukoti 1914-1915 og Bjarni Sturlaugsson 1916 -1921. Endalok „Búa“ urðu þau, að honum hvolfdi á höfninni á Stokkseyri 20. sept. 1921. Dróst hann út að sundi og rak þaðan upp í fjöru við Kerlingarberg og gerónýttist. Um „Búa“ kvað Magnús Teitsson einhverju sinni:

Á það ber eg engan ef,
og er það kannske nokkuð ljótt,
að „Búi“ meður brotið nef
bíði hérna fram á nótt.

„Enok“, 11.47 rúmlestir með Danvél, smíðaður í Vestmannaeyjum 1913 af Þórði Jónssyni frá Gamla-Hrauni og bræðrum hans. Var Þórður eigandi bátsins og formaður á honum í Vestmannaeyjum. Árið 1921 keyptu þeir Þórður Jónsson bóksali, Sigurgrímur Jónsson í Holti og fleiri bátinn til Stokkseyrar og gerðu hann út þaðan í tvær vertíðir og hina þriðju frá Stokkseyri og Vestmannaeyjum. Eftir það seldu þeir bátinn Ingimundi Bernharðssyni og fleirum í Vestmannaeyjum. Formenn á „Enok“, meðan hann átti heima á Stokkseyri, voru Sigurjón Snjólfsson í Móakoti 1922-1923 og Gunnar Ingimundarson í Hellukoti 1924. ,,Enok“ þótti vera mjög fallegur bátur.

„Farsæll“, 9.95 rúmlestir með 8 ha. Danvél, smíðaður á Stokkseyri 1914 af Ástgeiri Guðmundssyni í Litlabæ. Eigendur voru Lénharður Sæmundsson söðlasmiður, Jón Hinriksson í Túnprýði, Sigurður Magnússon frá Baugsstöðum og Jón Sigurðsson í Bræðratungu, en 1919 keypti Magnús Jónsson í Vestri-Móhúsum bátinn. Formenn á „Farsæl“ voru Lénharður Sæmundsson 1914- 1918 og Magnús Jónsson 1919-1920. Árið 1921 keyptu þeir Árni Tómasson, Gísli og Sigurður Pálssynir í Nesi í Selvogi og Sveinn Halldórsson á Klöpp „Farsæl“, og fluttist hann þá út í Selvog. Var Gísli Pálsson fyrst formaður á honum þar á vertíðinni 1921, en svo Sveinn Halldórsson í mörg ár. Endalok ,,Fersæls“ urðu þau, að um 1932 slitnaði hann upp í Selvogi, rak á land og brotnaði.

„Fortúna“, 9.24 lestir með 10 ha. Danvél og síðar 15 ha. Alphavél, smíðuð á Stokkseyri 1915 af Ástgeiri Guðmundssyni í Litlabæ. Eigendur voru Bjarni Grímsson á Stokkseyri og Eyjólfur Sigurðsson í Björgvin. Árið 1922 seldu þeir Kaupfélaginu „Ingólfi“ bátinn, en kaupfélagið seldi hann aftur 1925 þeim Árna og Böðvari Tómassonum og Sigurði Heiðdal skólastjóra. Formenn á „Fortúnu“ voru Eyjólfur í Björgvin 1915-1926 og Karl Guðmundsson frá Gamla-Hrauni 1927. Árið 1928 var báturinn seldur til Reykjavíkur, þaðan til Seyðisfjarðar og loks þaðan til Siglufjarðar. Þar er hann nú og heitir „Kópur“, SI 45.

„Friður“, 10.38 lestir með 22 ha. Alphavél, smíðaður í Friðrikshöfn í Danmörku 1911, en keyptur frá Vestmannaeyjum 1922. Eigendur voru Þórarinn Guðmundsson í Sandprýði, Böðvar Tómasson og Sigurður Heiðdal skólastjóri. Árið 1925 keyptu þeir Guðni Guðnason í Varmadal og Gísli Gíslason í Sætúni bátinn og seldu hann Jóni kaupmanni Magnússyni árið 1930, en Sigurður Heiðdal mun hafa átt sinn hlut í honum þangað til. Jón setti hekk á bátinn og stækkaði hann. Eftir vertíð 1940 seldi Jón „Frið“ til Keflavíkur, en þaðan var hann seldur fáum árum síðar til Stöðvarfjarðar. Formenn á „Frið“ á Stokkseyri voru Þórarinn Guðmundsson til 1925 og síðan Guðni Guðnason í Varmadal.

„Fylkir“, 15-16 rúmlestir, var keyptur frá Drangsnesi til Stokkseyrar 1956, og var eigandi hans h. f. Atli. Báturinn var gerður út aðeins eina vertíð frá Stokkseyri, en seldur síðan til Stykkishólms. Formaður á honum var Hörður Pálsson í Unhól.

„Hafsteinn“, 22 rúmlestir, keyptur til Stokkseyrar frá Vestmannaeyjum 1955 og hét áður „Skúli fógeti“. Eigandi var Stokkseyrarhreppur. Báturinn var gerður út á Stokkseyri í tvær vertíðir, en var síðan seldur til Vestmannaeyja aftur. Formaður á honum fyrri vertíðina var Ársæll Karlsson, en seinni vertíðina Þorgrímur Eyjólfsson í Skipagerði.

„Hásteinn“ I, 16.47 lestir með 52-60 ha. Tuxhamvél, smíðaður í Friðrikssundi í Danmörku 1934. Eigandi var Samvinnufélag Stokkseyringa. f árslok 1943 keypti Stokkseyrarhreppur bátinn, en seldi í ársbyrjun 1944 % hluta hans formanni og vélamanni, sinn þriðjunginn hvorum. Árið 1954 var báturinn endurbyggður að nokkru í Vestmannaeyjum, stækkaður nokkuð og lengdur um 2 metra og er nú um 20 rúmlestir. Um áramót 1956-1957 keypti Hraðfrystihús Stokkseyrar h.f. bátinn af hreppnum og meðeigendum hans og hefir gert hann út síðan. Formenn á „Hásteini“ I hafa verið Guðjón Jónsson í Vestri-Móhúsum, Svavar Karlsson í Aðalsteini, Helgi Sigurðsson í Bræðraborg og síðustu árin Jósef Zophoníasson.

„Hásteinn II, um 30 rúmlestir með 120-140 ha. Völundvél, smíðaður í Strandby í Danmörku 1956 og kom til Stokkseyrar skömmu eftir páska það ár. Eigendur eru Stokkseyrarhreppur, Helgi Sigurðsson í Bræðraborg, Ásgeir Guðmundsson í Merkigarði og Böðvar Tómasson í Garði. Formaður hefir verið Helgi Sigurðsson.

„Haukur“, áður „Alda“, en hét upphaflega „Unnur“, sjá þar.

„Heppnin“, 5.27 lestir með 8 ha. Danvél og síðar 12 ha. Heinvél, smíðuð á Eyrarbakka 1913 af Bjarna Þorkelssyni skipasmið í Reykjavík. Eigendur voru Helgi Pálsson á Helgastöðum og síðar Ólafur, sonur hans, Einar Ingimundarson í Sæborg og Einar Jónsson í Aldarminni, og seldu þeir bátinn til Reykjavíkur 1928. Formenn á „Heppninni“ voru þeir Einar Jónsson í Aldarminni 1913-1916 og Einar Ingimundarson í Sæborg 1917-1927.

„Hersteinn“ I, 16.47 rúmlestir með 52-60 ha. Tuxhamvél, smíðaður í Friðrikssundi í Danmörku 1934. Eigandi var Samvinnufélag Stokkseyringa. Í árslok 1943 keypti Stokkseyrarhreppur bátinn, en seldi í ársbyrjun 1944 2/2 hluta hans á sama hátt og „Hástein“ I. Fyrsti formaður á „Hersteini“ I var Sigurður 1. Sigurðsson í Dvergasteinum, en síðast Hörður Pálsson. Báturinn sökk á höfninni á Stokkseyri 1954, en var náð upp. Var hann gerður sjófær til bráðabirgða þar á staðnum og seldur Gunnari M. Jónssyni skipasmið í Vestmannaeyjum.

„Hersteinn“ II, 24 rúmlestir, keyptur frá Gerðum í Garði til Stokkseyrar 1955 og hét áður „Ægir“. Eigandi var Stokkseyrarhreppur. Báturinn var gerður út á Stokkseyri í tvær vertíðir, og var Hörður Pálsson í Unhól formaður á honum fyrri vertíðina, en Magnús Ingi Gíslason á Bjargi seinni vertíðina. Báturinn var seldur til Vestmannaeyja.

„Hólmsteinn““ I, 15.73 rúmlestir með 52–60 ha. Tuxhamvél, smíðaður í Friðrikssundi í Danmörku 1934. Eigandi var Samvinnufélag Stokkseyringa, en 1943 keypti Stokkseyrarhreppur bátinn og seldi 2/2 hluta hans 1944 á sama hátt sem „Hástein“ I og „Herstein“ 1. Formenn á „Hólmsteini“ I voru Ingimundur Jónsson á Strönd 1935-1947 og Óskar Sigurðsson á Sólvangi 1948 -1953. Báturinn var seldur til Reykjavíkur 1954.

„Hólmsteinn“ II, 28 rúmlestir með 100 ha. Hunestedvél, smíðaður í Korsør í Danmörku og kom til Stokkseyrar 29. ágúst 1953. Eigendur voru Stokkseyrarhreppur að þriðjungi, Óskar Sigurðsson á Sólvangi, Tómas Karlsson í Hafsteini og Böðvar Tómasson í Garði. Árið 1956 seldi Stokkseyrarhreppur Óskari Sigurðssyni sinn hlut í bátnum. Formaður á bátnum hefir Óskar Sigurðsson verið.

„Inga“, 8.38 lestir með 8 ha. Danvél, smíðuð á Stokkseyri 1914 af Ástgeiri Guðmundssyni í Litlabæ. Eigandi var Jón Adólfsson, síðar kaupmaður. Árið 1920 seldi Jón bátinn þeim Þórði Jónssyni bóksala og Karli F. Magnússyni í Hafsteini, en er Þórður fluttist til Reykjavíkur 1924, keypti Karl hlut hans í bátnum. Formenn á „Ingu“ voru Jón Adólfsson 1914-1919, Nikulás Bjarnason í Bræðraborg 1920-1922, Gestur Sigurðsson í Beinateig 1923, Karl Magnússon 1924-1937, Guðni Eyjólfsson í Björgvin 1938 og Magnús Sigurðsson í Eystri-Móhúsum 1939. ,,Inga“ varð að lyktum óheillabátur. Hinn 17. marz 1938 hlekktist henni á á Stokkseyrarsundi, brotnaði af henni stýrishúsið, og drukknuðu tveir menn, sem í því voru, formaðurinn Guðni Eyjólfsson og Magnús Karlsson frá Hafsteini. Bátnum var bjargað og gert við hann. Veturinn eftir brotnaði hann í spón á Stokkseyrarsundi, einn maður fórst„ en fjórum var með naumindum bjargað.

„Ingi“, 4 lestir, kom til Eyrarbakka 1908 og var einkum ætlaður til þess að draga uppskipunarbáta milli kaupskipa og lands á Eyrarbakkahöfn. „Ingi“ gekk til fiskjar frá Stokkseyri í 2-3 vertíðir, og voru formenn á honum Árni Helgason á Garðstöðum í Hraunshverfi, síðar á Akri á Eyrarbakka, og Friðrik Sigurðsson í Hafliðakoti, síðar á Gamla-Hrauni, sem byrjaði formennsku sína á Stokkseyri á „Inga“. Endalok bátsins urðu þau, að hann strandaði á Leiðarskeri við stórskipaleguna á Stokkseyri, var dreginn út á Eyrarbakka og varð þar til.

„Ingólfur“, 6 rúmlestir með 6 ha. Danvél, smíðaður í Friðrikssundi í Danmörku 1904 fyrir Ís- og fiskiveiðafélagið „Ingólf“, kom til Stokkseyrar sama ár og var fyrsti vélbáturinn, sem þangað kom, eins og áður er getið. Eigendur ,,Ingólfs“ voru margir, fyrst íshúsfélagið og síðan ýmsir hluthafar í því, Bjarni Grímsson og fleiri, Júlíus Gíslason og fleiri. Árið 1917 keypti Páll Guðmundsson á Baugsstöðum bátinn, setti í hann nýja 9 ha. vél 1918 og seldi hann sama ár Jóni Sturlaugssyni hafnsögumanni, en Jón seldi hann aftur 1919 Þórði Jónssyni bóksala og Sigurjóni Snjólfssyni í Móakoti. Þeir seldu ,,Ingólf“ loks til Reykjavíkur 1922. Þó að „Ingólfur“ væri fyrst og fremst ætlaður til þess að veiða síld fyrir íshúsfélagið og draga kaupskip inn á leguna, gekk hann einnig til fiskjar á vertíðum. Formenn á honum voru Gísli Gíslason á Kalastöðum 1905-1914, Gestur Sigurðsson í Beinateig 1915-1920, Sigurjón Snjólfsson 1921 og Gestur Sigurðsson aftur 1922.

„Íslendingur“ I, 8.58 rúmlestir með Gideonvél, smíðaður í Noregi 1905, hafði verið á Austfjörðum og hét „Hermann Jósef“, en keyptur frá Reykjavík til Stokkseyrar 1913. Eigendur voru Vilhjálmur Einarsson í Gerðum, Ingimundur Jónsson á Strönd og Jón Þórir Ingimundarson í Sæborg. Bátnum var haldið út í 5 vertíðir 1913-1917, og var Vilhjálmur í Gerðum formaður; hét báturinn eftir hinu gamla vertíðarskipi hans. Eftir það var „Íslendingur“ settur upp á tún og stóð þar upp undir ár. Þá var hann seldur Siggeiri Torfasyni kaupmanni í Reykjavík upp í „Íslending“ Il.

„Íslendingur“ Il, 11.98 lestir með 15 ha. Alphavél og síðar 22 ha. Alphavél, smíðaður í Vestmannaeyjum 1915 og hét upphaflega „Lára“. Eigandi var Siggeir Torfason kaupmaður í Reykjavík, og bar báturinn nafn dóttur hans. Eigendur ,,Íslendings“ I keyptu bátinn til Stokkseyrar 1917 og skírðu hann nafni gamla bátsins. Formenn á „Íslendingi“ II voru Vilhjálmur í Gerðum 1918 og Ingimundur Jónsson á Strönd 1919-1931. Þau urðu endalok bátsins, að hann rak upp undir Krýsuvíkurbergi og brotnaði í maíbyrjun 1931. Var hann í róðri, og biðu menn yfir línunni í bezta veðri, en vökumaður sofnaði á verðinum. Vaknaði skipshöfnin við það, að báturinn skall upp í bergið. Menn björguðust allir.

„Jón Sturlaugsson“, 10 rúmlestir með 35 ha. June-Munktelvél (sett 1933), smíðaður í Vestmannaeyjum 1915, en keyptur úr Reykjavík til Stokkseyrar 194,0 og hét áður „Neptúnus“. Eigandi var Karl F. Magnússon í Hafsteini, og skírði hann bátinn upp. Formaður var Tómas Karlsson. Báturinn var loks settur upp á Stokkseyri og rifinn.

„Karl Guðmundsson“ hét upphaflega „Þorri“ (II), sjá um hann þar. „Lára“ var keypt til Stokkseyrar 1917 og skírð „Íslendingur“ (Il), sjá hann.

„Rán“ hét upphaflega „Blíðfari“, sjá hann.

„Sísí“, 13 rúmlestir með 36 ha. Danvél, smíðuð í Friðrikssundi í Danmörku 1924 fyrir Gísla J. Johnsen í Vestmannaeyjum. Síðar keypti Ársæll Sveinsson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum bátinn og seldi hann 1935 Böðvari Tómassyni á Stokkseyri, sem gerði hann þar út í mörg ár og seldi hann loks til Reykjavíkur 1953. Formenn á „Sísí“ voru Þórarinn Guðmundsson í Sandprýði og svo Guðni Guðnason í Varmadal.

„Stakkur“, 9 lestir með 24 ha. Deltavél og síðar 40 ha. Bolindervél, smíðaður í Reykjavík 1916, en keyptur frá Keflavík til Stokkseyrar 1924. Eigendur voru Böðvar Tómasson og Sigurður Heiðdal skólastjóri. Báturinn var seldur til Vestmannaeyja í árslok 1929 og þaðan til Reykjavíkur fáum árum síðar. Formann á „Stakki“, meðan hann átti heima á Stokkseyri, voru Kristmann Gíslason í Móakoti· 1924-1927 og Gunnar Ingimundarson í Hellukoti 1928- 1929.

„Suðri“, 8.92 rúmlestir með 8 ha. Danvél, smíðaður á Stokkseyri 1915 af Ástgeiri Guðmundssyni í Litlabæ. Eigendur voru Guðbergur Grímsson á Strönd, Þuríður Gunnarsdóttir í Brattsholti og Hannes Magnússon í Stóru-Sandvík. Formaður var Guðbergur Grímsson. ,,Suðri“ varð skammær í veiðistöð, því að afdrif hans urðu þau, að hann fórst á Hlaupósnum 3. febr. 1917 með allri áhöfn, 4 mönnum.

„Svanur“ 1, 4.63 rúmlestir, smíðaður 1911. Eigandi var Friðrik Sigurðsson á Gamla-Hrauni, og var hann sjálfur formaður á honum. Árið 1914 seldi hann ,,Svan“ til Eyrarbakka og lét smíða sér stærri bát, er „Sæfari“ hét.

„Svanur“ Il, 8.54 lestir með 12 ha. Alphavél, smíðaður á Eyrarbakka 1922 af Bjarna Þorkelssyni skipasmið í Reykjavík. Eigandi var Friðrik Sigurðsson á Gamla-Hrauni, og var hann sjálfur formaður á bátnum til 1929, en Sigurður

Pétursson 1930. Það ár seldi Friðrik bátinn Haraldi Jónssyni í Gróttu, sem skírði hann upp og nefndi „Harald“.

„Sylla“, 11.48 lestir með 15 ha. Alphavél, smíðuð í Vestmannaeyjum 1915 fyrir Siggeir Torfason kaupmann í Reykjavík. Árið 1917 keypti Jón Sturlaugsson hafnsögumaður bátinn frá Vestmannaeyjum og átti hann til dauðadags 1938. Þá keypti Guðjón Jónsson í Vestri-Móhúsum „Syllu“, en seldi hana 1940 Skálafelli h.f. í Þorlákshöfn, er skírði hana „Lambafell“. Þaðan var báturinn seldur til Austfjarða. Formenn á „Syllu“ voru Jón Sturlaugsson 1918- 1930, Símon Sturlaugsson á Kalastöðum 1931-1936 og síðan Guðjón Jónsson í Vestri-Móhúsum.

„Sæborg“, 7.34 lestir með 8 ha. Danvél, keypt frá Vestmannaeyjum og kom til Stokkseyrar á aðfangadag 1913. Eigendur voru Jón Jónsson í Vestra-Íragerði, Jón Grímsson á Sjónarhól, Jón Jónsson í Holti og Guðmundur Þorvarðsson í Litlu-Sandvík. Þeir seldu „Sæborgu“ eigendum „Heppninnar“ 1918, sem seldu hana aftur til Reykjavíkur litlu síðar. Formenn á „Sæborgu“, meðan hún átti heima á Stokkseyri, voru Jón Jónsson í Vestra-Íragerði 1914-1916 og Jón Grímsson á Sjónarhóli 1917-1918.

„Sæfari“, 5.89 rúmlestir með 6 ha. Danvél, smíðaður á Eyrarbakka 1914 af Bjarna Þorkelssyni skipasmið í Reykjavík. Eigandi var Friðrik Sigurðsson á Gamla-Hrauni, og var hann sjálfur formaður á bátnum. Árið 1922 lét hann smíða sér stærri bát, ,,Svan“ Il, og seldi hann þá „Sæfara“ til Eyrarbakka.

„Sörli“, 4.09 rúmlestir, smíðaður 1906, átti heima á Eyrarbakka, en var gerður út frá Stokkseyri, líklega eina vertíð um 1908, og var Árni Helgason á Garðstöðum, síðar á Akri, formaður á honum. Árið 1916 keypti Páll Grímsson í Nesi í Selvogi og fleiri bátinn, og var hann þá fluttur út í Selvog. Þar rak hann árið eftir upp á sker og brotnaði og gereyðilagðist, svo og öxull og skrúfublöð.

„Trausti“, 11.57 rúmlestir með 12 ha. Danvél, smíðaður á Stokkseyri 1915 af Ástgeiri Guðmundssyni í Litlabæ. Eigendur voru Sæmundur Friðriksson í Hól, Markús Hansson í Útgörðum, Símon Jónsson í Eystri-Móhúsum, Jón Sigurðsson í Aldarminni og Einar Guðmundsson í Útgörðum. Báturinn var gerður út á Stokkseyri í þrjár vertíðir 1915-1917, og var Sæmundur Friðriksson formaður; síðar var hann einnig formaður á honum á Akranesi. ,,Trausti“ var fyrsti vélbátur með stýrishúsi á Stokkseyri.

„Unnur“, 10.69 rúmlestir, smíðuð á Stokkseyri 1916 af Gunnari M. Jónssyni skipasmið frá Gamla-Hrauni. Eigendur voru Sigurður Ingimundarson kaupmaður á Stokkseyri, Bryngeir Torfason í Söndu, Guðmundur Snorrason á Læk í Flóa og Guðmundur bóndi í Þingdal, en þeir seldu bátinn til Vestmannaeyja 1920. Árið 1926 keyptu þeir Böðvar Tómasson og Sigurður Heiðdal „Unni“ aftur til Stokkseyrar, skírðu hana upp, og hét hún síðan „Alda“. Þeir seldu hana 1930 Jóni Magnússyni kaupmanni á Stokkseyri. Árið 1934 skemmdist „Alda“ í eldi, brann ofan af henni stýrishús o. fl., en Jón lét gera hana upp, stækka hana og setja í hana nýja vél; jafnframt skírði hann bátinn upp, og nefndist hann þá „Haukur“. Á stríðsárunum (1941) leigði Jón bátinn út til Breta og seldi hann upp úr því Ágústi Guðmundssyni í Halakoti á Vatnsleysuströnd. Formenn á bátnum, meðan hann gekk frá Stokkseyri, voru Bryngeir Torfason 1917-1919, Sæmundur Benediktsson í Baldurshaga 1920, Þórarinn Guðmundsson í Sandprýði 1926-1927, Guðjón Jónsson í Vestra-Íragerði 1928-1929, Þórarinn Guðmundsson aftur 1930-1931, Ingimundur Jónsson á Strönd 1932-1934 og Ólafur Jónsson í Traðarholti eftir það.

„Valdimar“, 13 rúmlestir, smíðaður í Reykjavík 1916, keyptur frá Vestmannaeyjum til Stokkseyrar og gekk þar fyrst á vertíðinni 1941. Eigandi var Guðjón Jónsson í Vestri-Móhúsum, og var hann sjálfur formaður á bátnum, síðast á vertíðinni 1946. ,,Valdimar“ slitnaði upp í Þorlákshöfn, rak á land og eyðilagðist.

v/b „Vilborg“. Mennirnir á bátnum eru taldir frá hægri Jón Sturlaugsson formaður, Hannes, sonur hans og Kristinn Grímsson frá Móakoti vélamaður.

„Vilborg“, 9.45 lestir með 12 ha. Tuxhamvél, smíðuð á Stokkseyri í árslok 1915 af Ástgeiri Guðmundssyni í Litlabæ. Eigandi var Jón Sturlaugsson hafnsögumaður, og var hann sjálfur formaður þær tvær vertíðir, 1916-1917, sem báturinn gekk. ,,Vilborg“ fórst á Stokkseyrarsundi 8. sept. 1917, var að koma frá Reykjavík. Áhöfninni, 4 mönnum, var bjargað af báti úr landi.

„Vonin“, 6-6.58 lestir með 7 ha. Danvél, smíðuð í Friðrikssundi í Danmörku 1908 og kom til Stokkseyrar sama ár. Eigendur voru Sigurður Hinriksson í Ranakoti, Pálmar Pálsson á Stokkseyri og Guðjón Jónsson á Hólmi. Helgi Jónsson kaupfélagsstjóri varð síðar einn af eigendunum. Báturinn var seldur frá Stokkseyri 1918. Formaður á „Voninni“ öll árin, sem hún var á Stokkseyri, 1909-1917, var Sigurður Hinriksson.

„Þorri“ I, 6 lestir með 7 ha. Danvél, smíðaður í Friðrikssundi í Danmörku 1908 og kom til Stokkseyrar sama ár. Eigendur voru Jón Sturlaugsson hafnsögumaður, Jón Adólfsson, síðar kaupmaður og Ingvar Sturlaugsson í Starkaðarhúsum. ,,Þorri“ bar nafn gamla Starkaðarhúsaskipins, sem Jón Sturlaugsson hafði verið formaður á áður og Ingvar, bróðir hans, tók nú við. Formenn á „Þorra“ I voru Jón Sturlaugsson 1909-1915 og Sturlaugur, sonur hans, 1916-1917. Síðan var „Þorri“ seldur suður á Vatnsleysuströnd, komst þaðan til Reykjavíkur og grotnaði loks að sögn niður í óhirðu vestur við Örfiriseyjargranda.

„Þorri“ II, 11. 9 lestir með 18 ha. Tuxhamvél, smíðaður á Stokkseyri haustið 1917 af Jens Andersen, síðar yfirsmið í Friðrikssundi í Danmörku. Eigendur voru Jón Sturlaugsson hafnsögumaður og Sturlaugur, sonur hans. Báturinn var gerður út frá Stokkseyri á vetrarvertíðinni og vorvertíðinni 1918, og var Sturlaugur Jónsson formaður á honum, en um haustið var báturinn seldur til Vestmannaeyja. Kaupendur voru Stefán Guðlaugsson í Gerði og Símon Egilsson í Miðey. Skírðu þeir bátinn „Halkíon“, og átti hann lengi heima í Vestmannaeyjum. Árið 1945 keyptu bræðurnir Svavar Karlsson og Karl Karlsson á Stokkseyri bátinn og skírðu hann „Karl Guðmundsson“ eftir föður sínum. Formaður á honum var Karl Karlsson. Árið 1949 seldu þeir bátinn Jóni Magnússyni kaupmanni á Stokkseyri, en 1951 seldi Jón hann aftur „Meitlinum“ h.f. í Þorlákshöfn. Var báturinn þá enn skírður upp og hlaut nafnið „Jón Vídalín“. Hann var að lokum seldur úr Þorlákshöfn til Hofsóss vorið 1959 og skírður „Svanur“. Þar fórst hann með þremur mönnum seint á því sama ári.

„Ægir“, 24 rúmlestir með 100-110 ha. June-Munktelvél, smíðaður í Friðrikssundi í Danmörku 1935, keyptur af Kaupfélagi Hvammstanga til Stokkseyrar 1951. Eigandi var Jón Magnússon kaupmaður, og lét hann gera bátinn upp, setja í hann nýja vél og gerði hann út til 1954. Formaður var Karl Karlsson á Strönd, nú í Þorlákshöfn. Eftir það seldi Jón bátinn til Keflavíkur, og var hann skírður „Tjaldur“.

„Öldungur“, 8.63 lestir, smíðaður á Eyrarbakka 1923 og átti þar heima fyrstu árin. Árið 1929 keyptu þeir Jón Ólafsson í Bræðraborg, Guðmundur Einarsson í Merkigarði og Karl Guðmundsson bátinn til Stokkseyrar, og var hann gerður þar út í nokkur ár. Síðan varð bankaútbúið á Selfossi eigandi bátsins, en 1933 keyptu þeir Böðvar Tómasson og Jón Magnússon hann af útibúinu og gerðu hann út það ár. Árin 1934 og 1935 er Guðmundur Böðvarsson talinn eigandi bátsins, en eftir það var báturinn seldur aftur til Eyrarbakka. Formenn á „Öldungi“, meðan hann átti heima á Stokkseyri, voru Karl Guðmundsson 1929, Kristmann Gíslason 1930-1932 og Þórarinn Guðmundsson 1933-1935.

Þess er áður getið, að Ábyrgðarsjóður opinna róðraskipa samþykkti 1929 að taka í tryggingu opna vélbáta eða svonefnda trillubáta á félagssvæðinu. Hafa nokkrir menn í Stokkseyrarhreppi fengizt við útgerð slíkra báta. Fyrstur með það var Páll bóndi Guðmundsson á Baugsstöðum. Bát sinn, sem „Græðir“ heitir, smíðaði Páll úti á Stokkseyri ásamt fleirum milli 1920 og 1930. Hefir hann að jafnaði haft bátinn heima og skotizt út á honum í ígripum flestar vertíðir, mest með færi. Tvær vertíðir, 1932 og 1933 að sögn, gerði Páll trilluna út frá Stokkseyri, og var Þórarinn Guðmundsson í Sandprýði formaður á henni fyrri vertíðina, en Einar Vilhjálmsson í Gerðum þá seinni. Var þetta fyrsta trillan, sem gekk á vertíð á Stokkseyri. Annars voru menn helzt með trillur á haustin. Símon Sturlaugsson á Kalastöðum og Tómas Karlsson, tengdasonur hans, voru með eina og Bjarni Brynjólfsson í Skálavík með aðra. Einnig smíðaði Jón Guðmundsson á Sunnuhvoli sér trillu, sem hann á enn. Að þessum útvegi hefir annars ekki kveðið mikið á Stokkseyri.

(Helztu heimildir um vélbátana eru þessar: 1) Vátryggingabók vélbáta í Eyrarbakka umboði 1913-1938, haldin af Friðriki Sigurðssyni á Gamla-Hrauni og nú í vörzlu sonar hans, Friðriks Friðrikssonar í Þórlákshöfn; þar er tilfærð smálestatala og smíðaár báta, aðaleigendur þeirra og formenn á þessu tímabili. 2) Sjómannaalmanak 1926 og síðan. 3) Skýrsla um vélbáta á Stokkseyri frá Jónasi Jónssyni útgerðarstjóra í Vestmannaeyjum, tekin saman eftir minni hans sjálfs og upplýsingum eldri manna, Helga Pálssonar o. fl. 1) Munnlegar frásagnir kunnugra manna: Þórðar Jónssonar bókhaldara, Sturlaugs Jónssonar stórkaupmanns, Jóns Magnússonar kaupmanns, Böðvars Tómassonar útgerðarmanns, o. m. fl. Hafa heimildir þessar verið bornar svo rækilega saman sem kostur er á).

Leave a Reply

Close Menu