126-Upphaf skólahalds í Stokkseyrarhreppi

Allt frá því er skólahald hófst í Stokkseyrarhreppi hinum forna árið 1852 og þangað til hreppnum var skipt árið 1897, starfaði barnaskóli þar lengst af á tveimur stöðum, önnur deildin á Eyrarbakka, en hin á Stokkseyri, og eru núverandi barnaskólar á þessum stöðum beint framhald af þeim. En þó að deildirnar væru tvær, áður en hreppnum var skipt, töldust þær þó báðar einn og sami skólinn, enda lutu þær sömu stjórn, höfðu sameiginlegan fjárhag og meira að segja sama kennarann lengi framan af. Í þessum kafla verður skýrt frá tildrögum þessarar skólastofnunar, starfsemi skólans, stjórn hans og hag á þessu tímabili, svo og því, sem kunnugt er um Stokkseyrardeildina sérstaklega fram að þeim tíma, er kennsla hófst þar með sérstökum kennara 1878.

Veturinn 1845-1846 var Jens Sigurðsson, síðar rektor, heimiliskennari hjá H. P. Duus verzlunarstjóra á Eyrarbakka. Kenndi Jens börnum hans og sennilega fleiri börnum í þorpinu. Þá var síra Páll Ingimundarson aðstoðarprestur móðurbróður síns, síra Jakobs Árnasonar í Gaulverjabæ, og þjónaði að mestu Stokkseyrarsókn, því að síra Jakob var orðinn aldurhniginn. Síra Páll var mikill áhugamaður um kennslu og uppfræðslu barna, og má telja víst, að áhugi hans á þeim málum hafi enn glæðzt við tilkomu Jens Sigurðssonar. Tekur síra Páll þá bráðlega að vekja máls á stofnun barnaskóla og fá til þess liðsinni góðra manna, m. a. Guðmundar Thorgrímsens verzlunarstjóra á Eyrarbakka, sem var þá nýfluttur þangað. Er undirbúningur skólastofnunar þegar kominn á talsverðan rekspöl árið 1848 og samskot hafin í því skyni. Á næstu árum var málinu haldið vakandi og samskotum haldið áfram. Út á við eignaðist skólahugmyndin ýmsa vini og stuðningsmenn, svo sem Jón Guðmundsson ritstjóra Þjóðólfs, en heima fyrir bættust í hópinn öflugir styrktarmenn eins og hreppstjórarnir í Stokkseyrarhreppi, Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri og Adólf Petersen í Steinskoti, síðar á Stokkseyri, en þeir voru báðir stórauðugir.

Um áramótin 1850 og 1851 voru haldnir tveir fundir um skólamálið á Stokkseyri. Fundarstjóri á báðum fundunum var síra Páll Ingimundarson, en ritari Þorleifur Kolbeinsson. Á fyrra fundinum 17. des. 1850 var lögð fram skýrsla yfir þær gjafir, sem komnar voru, og voru það 290 ríkisdalir í peningum, 42 dagsverk og árlegar gjafir: fyrir 4 ár frá einum manni einn ríkisdalur árlega og frá öðrum manni einn ríkisdalur árlega í ótiltekna tíð, og einn maður hafði lofað að gefa með einu barni svo lengi sem hann ætti heima í Stokkseyrarhreppi. Á fundinum bættust enn nokkrar gjafir við, og var ritara falið að gera skrá yfir allar gjafirnar og leggja fyrir fund, sem haldinn yrði eftir áramót.

Á fjölmennum kirkjufundi á Stokkseyri, sem haldinn var sunnudaginn 12. janúar 1851 leiddi síra Páll mönnum fyrst fyrir sjónir, hversu mikið væri nú undir því komið, að þeir tækju allir vel undir þetta mál, og fór nokkrum orðum um nytsemi skólans í bráð og lengd fyrir allan almenning og þá brýnu þörf að koma honum hér á, ef mögulegt væri. Lýsti allur fjöldi fundarmanna sig samþykkan skólastofnuninni. Að tillögu síra Páls kaus fundurinn síðan nefndir til þess að annast ýmsa þætti undirbúningsins. Í húsnefnd voru kosnir Sigfús Guðmundsson trésmiður, Guðmundur Thorgrímsen verzlunarstjóri og Teitur Helgason hafnsögumaður. Í nefnd til að semja reglugerð handa skólanum voru kosnir síra Páll Ingimundarson, Guðmundur Thorgrímsen, Sigurður Sigurðsson stúdent á Stóra-Hrauni, Sigfús Guðmundsson trésmiður og Þorleifur Kolbeinsson hreppstjóri. Í fjárhagsnefnd voru kosnir hreppstjórarnir Þorleifur Kolbeinsson og Adólf Petersen og síra Páll Ingimundarson. Loks var kosin nefnd til að annast fjársöfnun og beiðast gjafa til skólans innan hrepps sem utan, og voru kosnir í hana Guðmundur Thorgrímsen, síra Páll og Þorleifur Kolbeinsson. Samkvæmt gjafalistanum námu samskotin til skólans, þegar hér var komið, um 400 ríkisdölum, og mun hvert heimili í hreppnum hafa tekið þátt í þeim. Stórtækastir voru þeir Adólf Petersen með 60 ríkisdali og Þorleifur á Háeyri með 40 ríkisdali.

Svo var ráð fyrir gert á fundinum, að nefndirnar hefðu lokið störfum um páskaleytið sama ár. Það var ætlun forgöngumannanna, að hvert heimili í hreppnum léti af hendi rakna vissa fjárhæð, um 70 skildinga, til skólans árlega, og jafnvel munu þeir hafa farið fram á, að allur kostnaður við skólahaldið yrði greiddur úr hreppssjóði, eins og raunar hefði verið eðlilegast. En þá leizt skattgreiðendum sveitarinnar ekki á blikuna og tóku sig til, 41 talsins, og sömdu mótmælaskjal hinn 16. apríl 1851 og birtu í Nýjum félagsritum. Þar er skólastofnuninni harðlega mótmælt og sérstaklega því, ef sveitarsjóður yrði að bera kostnaðinn. Mun skjal þetta m. a. hafa orðið til þess, að horfið var frá því áformi. Þrátt fyrir þennan andbyr héldu nefndirnar áfram störfum sínum með þeim árangri, að Eyrarbakkadeild hins nýja skóla tók til starfa 25. október 1852. Er það stofndagur barnaskólans á Eyrarbakka, sem mun nú vera elzti starfandi barnaskóli landsins. Um stofndag Stokkseyrardeildarinnar er ekki kunnugt.

Á Eyrarbakka starfaði skólinn frá upphafi í sérstöku húsi, sem var eign hans sjálfs, en á Stokkseyri var ráðgert, að hann fengi húsnæði á leigu. Sett var reglugerð fyrir skólann þegar á fyrsta ári. Voru þar reglur um hegðun barnanna utan skólans sem innan og leiðbeiningar fyrir foreldra barnanna; þá voru ákvæði um réttindi og skyldur kennara og fyrirmæli um störf og verkaskiptingu þeirra manna, sem höfðu yfirstjórn skólans á hendi, hvernig þeir skyldu kosnir o. s. frv. Tekið var fram, hve lengi skólinn skyldi starfa árlega. Samkvæmt fyrstu reglugerðinni átti hann að byrja 15. september og standa í allt að því 8 mánuði, en fjárskortur hamlaði því, að svo gæti orðið. Byrjaði skólinn oft ekki fyrr en eftir miðjan október, jafnvel ekki fyrr en komið var fram í nóvembermánuð og var lokið í febrúar eða marz. Varð því skólatíminn mjög mismunandi, allt frá 3-7 mánaða á vetri, og eins var daglegur kennslutími mismunandi, suma vetur ekki nema 3 stundir á dag. Kennslugreinar voru lestur, skrift og réttritun, reikningur, landafræði, mannkynssaga, danska og kristin fræði. Í aukatímum var stundum kenndur söngur og stúlkum handavinna. Reglugerð skólans tók smám saman nokkrum breytingum. Hún var endurskoðuð 1858, 1874 og 1893, en aðalatriði hennar munu þó hafa staðið óbreytt allan tímann. Árið 1887 var ákveðið, að reikningsnám, er krafizt var með lögum „um uppfræðing barna í skrift og reikningi“ frá 9. jan. 1880, skyldi álitið fermingarskilyrði í Stokkseyrarsókn framvegis.

Lengi framan af naut skólinn einskis stuðnings af opinberri hálfu, og voru tekjur hans samskotafé og aðrar gjafir, svo og skólagjöld nemenda. Samskota var leitað öðru hvoru, og bárust skólanum oft peningagjafir úr fjarlægum héruðum og jafnvel frá Danmörku, en allt voru þetta þó óvissar tekjur og stopular. Árið 1854 hlaut skólinn tvær verðmætar gjafir frá velunnurum sínum tveimur á Eyrarbakka. Önnur var jörðin Efri-Vallarhjáleiga í Gaulverjabæjarhreppi, sem Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri og Sigríður Jónsdóttir, kona hans, gáfu skólanum eftir sinn dag til fullrar eignar. Hin var fjórðungsgjöf Einars Sigurðssonar í Eyvakoti, sem reyndist við fráfall hans 1874 hvorki meira né minna en 800 ríkisdalir. Skólagjöld voru talsvert há, en þau urðu allir nemendur að greiða. Gætu foreldrar barnanna ekki borgað skólagjöld fyrir fátæktar sakir, áttu hreppstjórar að sjá um, að þau væru greidd úr sveitarsjóði. Margir foreldrar munu hafa litið á slíkt sem ölmusu og kosið heldur að láta börn sín ekki fara í skólann. Um skólagjöld fyrir innansveitarbörn er ekki beinlínis kunnugt lengi framan af, en árið 1880 var ákveðið, að það skyldi vera 3 kr. um mánuðinn fyrir eitt barn; eigi sami maður tvö börn, borgi hann 5 kr. á mánuði, en eigi hann þrjú börn í skólanum, greiði hann 6 kr. Árið 1882 var ákveðið, að kennslugjald í Stokkseyrardeildinni skyldi vera kr. 2,50 fyrir hvert barn um mánuðinn. Árið 1886 var kennslugjaldið lækkað úr 15 kr. niður í 10 kr. ,,vegna hins bágborna ástands manna á milli“. Höfðu þá aðeins 5 börn gefið sig fram til skólavistar á Eyrarbakka, en 12 á Stokkseyri. Þar sem skólagjöldin voru talsverður liður í tekjum stofnunarinnar, gerði skólanefndin sér sérstakt far um að hvetja menn til að senda börn sín í skólann, enda af öðrum ástæðum æskilegt, að skólinn væri sem bezt sóttur. Árið 1856 skrifaði nefndin t. d. öllum prestum í Árnessýslu og skýrði frá því, að hún gæti útvegað 8-12 börnum húsnæði, fæði og þjónustu á Eyrarbakka yfir skólatímann, og sama ár var einum nefndarmanna falið að vera skólanum í útvegun um kennslubörn innan sveitar. Þrátt fyrir þetta varð tala skólabarna í Eyrarbakkadeildinni þennan vetur ekki nema 19 alls; oftast voru þau þó færri. Fyrir komu þau ár, að skólanum varð ekki haldið uppi sökum fjárskorts, nemendafæðar eða hvors tveggja. Haustið 1868 var ákveðið, að kennsla félli niður á komanda vetri, ,,sérílagi vegna örbirgðar fólks í þessu harðæri og meðfram vegna eldiviðarskorts, með því kol eru ekki heldur fáanleg hér í kaupstaðnum, en öldungis óbærilega kostnaðarsamt að sækja þau suður í Reykjavík.“ Haustið 1870 var afráðið, að ekkert yrði af skólahaldi vetrarlangt, ,,af því að einungis 3 börn hafa fengizt til að ganga í skólann.“ Veturinn þar á eftir var og enginn skóli haldinn, 1872-73 var honum haldið uppi í þrjá mánuði og 1873-74 féll hann enn niður. En eftir það fór heldur að rofa til, og má vera, að þjóðhátíðin hafi átt sinn þátt í því. Leið og að því, að skólinn ætti opinberum stuðningi að fagna. Árið 1876 og næstu ár hlaut hann 200 kr. styrk úr landsjóði; árið 1881 var styrkurinn hækkaður upp í 300 kr. Eftir 1890 fekk skólinn árlega rúmlega 300 kr. styrk.

Á sameiginlegum fundi skólanefndar og sveitarstjórnarinnar á skírdag (7. apríl) 1887 gerðist merkileg breyting á högum skólans. Samkvæmt bréflegri tillögu hreppsnefndaroddvitans, Einars Jónssonar borgara á Eyrarbakka, var ákveðið, að sveitarstjórnin skyldi hafa umráð með fjármálum skólans framvegis og oddviti vera sjálfkjörinn gjaldkeri hans. Þar með var skólinn orðinn opinber stofnun á vegum hreppsfélagsins í heild og framtíð hans tryggð að fullu.

Hér á nú við að geta þeirra manna, sem báru frá upphafi hita og þunga dagsins í rekstri skólans og studdu hann á legg á frumbýlingsárum hans. Áður hefir verið getið nefnda þeirra, er kosnar voru á fundinum 12. jan. 1851 til þess að undirbúa skólastofnunina. Samkvæmt reglugerð skólans frá 1852 skyldi stjórn hans skipuð 5 manna nefnd, sóknarpresti, sem var sjálfkjörinn, og fjórum mönnum, sem kjörnir væru af hreppsbúum á fundi, sem boðað hafði verið til í því skyni. Fyrsta skólanefndin var þó ekki kosin eftir þessum reglum. Var hún kosin til bráðabirgða 15. nóv. 1852 og skipuð 7 mönnum. Þessir menn voru: síra Páll Ingimundarson, Guðmundur Thorgrímsen, Þorleifur Kolbeinsson, Sigurður Sigurðsson stúdent, Sigfús Guðmundsson, sem var að þessu sinni aðeins eitt ár í nefndinni, og þeir Adólf Petersen og Teitur Helgason, sem hurfu úr nefndinni eftir fyrsta árið. Var Guðmundur Thorgrímsen kjörinn bæði formaður og gjaldkeri.

Nokkrar breytingar urðu á tilhögun kosningar í skólanefndina, og á síðustu árum þessa tímabils voru nefndarmenn kosnir á hreppsskilaþingi sem aðrir embættismenn sveitarinnar. Árið 1867 var það „gjört að lögum“, að hreppstjórar Stokkseyrarhrepps skyldu framvegis eiga sæti í skólanefndinni, en ekki virðast þeir að staðaldri hafa sótt fundi hennar. Árið 1887 var ákveðið, að sóknarpresturinn skyldi vera sjálfkjörinn formaður nefndarinnar og oddviti hreppsins sjálfkjörinn gjaldkeri hennar.

Nú skulu taldir þeir menn, sem sæti áttu í stjórnarnefnd barnaskólans í Stokkseyrarhreppi hinum forna. Formenn nefndarinnar voru Guðmundur Thorgrímsen 1852-87, sem var einnig allan þann tíma gjaldkeri skólans, og eftir hann prestarnir sr. Jón Björnsson 1887-92 og sr. Ólafur Helgason 1893 -97, er voru sjálfkjörnir í þá stöðu. Í stað Guðmundar Thorgrímsens var kjörinn í nefndina tengdasonur hans, P. Nielsen verzlunarstjóri 1887-97. Eins og áður er sagt, var sóknarpresturinn frá upphafi sjálfkjörinn í skólanefnd, og sátu því í henni þessir prestar: sr. Páll Ingimundarson 1852-56, einnig fyrra hluta árs 1866 og loks 1875-76, en hann var einn helzti frumkvöðull skólastofnunarinnar; sr. Guðmundur Bjarnason í Kálfhaga 1856- 58; sr. Björn Jónsson 1858-65; sr. Páll Mathiesen 1866-73; sr. Gísli Thorarensen 1874 og sr. Jón Björnsson 1876-87, svo formaður nefndarinnar. Þorleifur Kolbeinsson 1852-82, mikill styrktarmaður skólans, var í nefndinni til dauðadags, en eftir hann tengdasonur hans, Guðmundur Ísleifsson á Háeyri 1882-90, þá Júníus Pálsson á Syðra-Seli 1890–94 og svo Hannes Jónsson í Roðgúl 1894–97, en þeir tveir voru einu Stokkseyringarnir, sem sæti áttu í nefndinni. Sigurður stúdent Sigurðsson var einn þeirra manna, sem voru í nefndinni frá upphafi 1852-63, er hann varð að draga sig í hlé sakir ellihrumleika; tók þá við Bjarni Hannesson hreppstjóri í Nesi 1863-67, en af honum Sigfús Guðmundsson trésmiður 1867-77 og var til dauðadags, síðan Andrés Ásgrímsson á Litlu-Háeyri 1877-83, einnig til dauðadags, þá Grímur Gíslason í Óseyrarnesi 1883-87, svo Guðmundur Guðmundsson bókbindari 1887-94 og Guðjón Ólafsson í Hólmsbæ 1894–97. Meðal þeirra, sem lengst voru í nefndinni, var Þórður Guðmundsson sýslumaður og kammerráð á Litla-Hrauni 1853-85, er var lengi ritari nefndarinnar; eftir hann kom í nefndina Einar Jónsson borgari 1885-97.

Af öllum þeim, sem sæti áttu í skólanefndinni, störfuðu þrír menn þar miklu lengst, og það einmitt á erfiðustu frumbýlingsárum skólans, Guðmundur Thorgrímsen í 35 ár, Þórður Guðmundsson í 32 ár og Þorleifur Kolbeinsson í 30 ár. Mun áreiðanlega á engan hallað, þótt því sé haldið fram, að skólinn hafi átt þessum mönnum öðrum fremur tilveru sína að þakka. Það er skemmtileg tilviljun, að á síðasta skólanefndarfundi, sem Guðmundur Thorgrímsen stýrði, 7. apríl 1887, var borin fram og samþykkt tillaga, sem tryggði á varanlegan hátt framtíð skólans.

Einn launaður kennari starfaði í senn við skólann allt fram til 1878, er sérstakur kennari var ráðinn að Stokkseyrardeildinni. Fram að þeim tíma hefir kennurunum verið ætlað að starfa á báðum stöðunum, að svo miklu leyti sem kennslu hefir þá einnig verið haldið uppi á Stokkseyri. Skulu þessir kennarar aðeins taldir hér upp í tímaröð, en um frekari upplýsingar um þá verður að vísa til annarra rita:

Jón Bjarnason 1852-53, síðar prestur í Skarðsþingum;
Þorvaldur Stephensen 1853-56, síðar verzlunarmaður í Reykjavík;
Benedikt Gabríel Jónsson 1856-59, síðar amtskrifari í Stykkishólmi;
Jón Guttormsson 1859-61, síðar prófastur í Hjarðarholti í Dölum; Þorvaldur Ásgeirsson 1861-62, síðar prestur í Steinnesi;
Ísleifur Gíslason 1862-64, síðar prestur í Anarbæli;
Páll Sigurðsson 1864–66, síðar prestur í Gaulverjabæ;
Pétur Jónasson 1866-68, síðar landfógetaskrifari í Reykjavík;
Þorgrímur Guðmundseti 1869-70, síðar kennari og ferðamannatúlkur í Reykjavík;
Jens Pálsson 1872- 73, síðar prófastur í Görðum á Álftanesi, og
Guðmundur Guðmundsson 1874- 78, síðar bóksali á Eyrarbakka.

Eg skal nú snúa mér að því að rifja upp það, sem vitað verður um starfsemi Stokkseyrardeildarinnar á þessu tímabili. Þegar í upphafi er gert ráð fyrir því á umræðufundunum um skólastofnunina, að hann starfi í tveimur deildum. Á fundinum 17. des. 1850 segir m. a. svo: ,,Fundarmönnum þótti það ákjósanlegt, að skólinn gæti haldizt að minnsta kosti í tveimur stöðum hreppsins, fyrir utan og austan Hraunsá, svo sem flestum börnum gjörist mögulegt að ganga í skólann og með sem minnstum kostnaði.“ Og á fundinum 12. jan. 1851 „voru allir á því, að skólinn væri haldinn á tveim stöðum, nl. fyrir utan Hraunsá á Útbakkanum og önnur deild hans væri á Stokkseyri; skyldi ytri deildinni ætlað hús, sem skólinn ætti, en á Stokkseyri skyldi vera léð eður leigt hús.“ Þess má og sjá nokkurn vott, að sérstök deild hafi starfað á Stokkseyri. Vorið 1854 gengu tveir synir Adólfs Petersens á Stokkseyri undir próf á Eyrarbakka; höfðu þeir ekki verið í deildinni þar um veturinn, og verður því að ætla, að þeir hafi fengið kennslu á Stokkseyri. Undir miðsvetrarpróf á Eyrarbakka í febrúar 1855 gengur m. a. piltur, sem þessi athugasemd stendur við í prófbókinni: ,,Er sá eini, sem var frá Stokkseyrardeildinni.“ Þegar Benedikt Gabríel Jónsson var ráðinn kennari að skólanum 15. júní 1856, tekur nefndin fram, að hann sé ráðinn með sömu kjörum sem fyrirrennari hans, Þorvaldur Stephensen, og bætir svo við: ,,En á kennaranum hvílir einnig skylda sú að kenna börnum í þeirri deild skólans, sem sækir að Stokkseyri.“ Loks segir svo í fundargerð skólanefndar 17. okt. 1856: ,,Var það afráðið, að kennslan í Stokkseyrardeildinni ei skuli byrja fyrr en sóknarpresturinn er búinn að rannsaka og komast eftir, hvað mörg börn geti þar fengizt til kennslu.“

Ég hefi tínt þetta til vegna þess, að það er hið eina, sem bókað finnst um Stokkseyrardeildina í gerðabók skólanefndar og í prófbók skólans fram til 1878. Af því má sjá, að kennsla hefir farið fram á Stokkseyri, eins og til stóð, – að minnsta kosti fyrstu árin. Samkvæmt eðli og tilgangi skólans verður og að teljast líklegt, að framhald hafi á því verið, þegar nægilega mörg börn gáfu sig fram til kennslunnar og ástæður leyfðu að öðru leyti, og hafi það farið að sömu lögum sem giltu um deildina á Eyrarbakka. Eins og áður er getið, féll kennsla niður í fjóra vetur samtals á þessu tímabili (1868-69. 1870-72 og 1873-74) í báðum deildunum. Þó að Stokkseyrardeildin sé ekki nefnd í gerðabók skólanefndar í mörg ár, þarf það ekki að vera sönnun þess, að deildin hafi ekki starfað. Gengið var að því vísu, að sami maður kenndi á báðum stöðunum, og hefir ekki þótt ástæða til að taka það sérstak, lega fram. Skólasetning hefir aðeins farið fram á Eyrarbakka, þar sem skólahúsið var og kennararnir bjuggu. En sama haustið sem sérstakur kennari er fenginn „til að kenna börnunum í vetur í Stokkseyrardeildinni“, eins og komizt er að orði, er í fyrsta sinn sagt frá skólasetningu þar. Orðalag gerðabókarinnar um ráðningu kennarans bendir ótvírætt til þess, að deildin á Stokkseyri hafi áður verið starfandi, en sé ekki nein nýjung. Engu að síður er starfsemi Stokkseyrardeildarinnar í svo mikilli óvissu um alla framkvæmd á þessu tímabili, að réttara virðist að rekja upphaf barnaskólans á Stokkseyri til þess, er regluleg kennsla hefst þar með sérstökum kennara, og víkur nú þangað sögunni.

Leave a Reply

Close Menu