Bjartsýn á framtíð lands og þjóðar flykkti íslenzk æska sér undir merki ungmennafélagshreyfingarinnar á morgni þessarar aldar. Kveikingu þeirrar hreyfingar má rekja til norskra æskulýðsfélaga og lýðháskólanna dönsku, en í eðli sínu og framkvæmd var hún ávöxtur innlendrar þjóðernisvakningar, sem hófst með Fjölnismönnum, þróaðist með sjálfstæðisbaráttu Jóns Sigurðssonar og kveikti eldmóð með stórhuga hvatningaljóðum aldamótaskáldanna. Hreyfingin var fyrst og fremst íslenzk þjóðernishreyfing, sem sótti næringu sína í fornan menningararf þjóðarinnar, og kjörorð hennar var „Íslandi allt“.
Verkefni ungmennafélaganna voru mörg og heillandi. Eitt af eindregnustu áhugamálum þeirra var verndun og fegrun móðurmálsins. Sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar og fánamálið voru einnig baráttumál ungmennafélaganna. Að skrýða landið skógi var hugsjónamál allra ungra manna. Hið innra starf beindist að mannrækt, að aleflingu einstaklingsins. Sá, sem vildi vera góður Íslendingur, varð að gera sig sem hæfastan til að rækja skyldur sínar við þjóð og ættjörð, auka manngildi sitt og þroska með andlegri og líkamlegri þjálfun. Að þessu markmiði var unnið með margvíslegri félagsstarfsemi: fundahöldum, þar sem menn vöndust ræðuflutningi; útgáfu skrifaðra félagsblaða, þar sem menn fengu æfingu í að setja fram skoðanir sínar í rituðu máli; leikritaflutningi, sem vandi menn á að koma frjálsmannlega fram og veitti þjálfun í meðferð hins talaða máls; lestrarfélögum, þar sem menn áttu kost góðra bóka; fyrirlestrum um fræðandi efni; ferðalögum til þess að kynnast landinu og síðast en ekki sízt íþróttum. Að sjálfsögðu lögðu ungmennafélögin mikla áherzlu á íþróttir af ýmsu tagi sem þátt í líkamlegu uppeldi ungra manna, en af þeim var hin þjóðlega íslenzka íþrótt glíman í mestum metum. Enn fremur höfðu ungmennafélögin vínbindindi á stefnuskrá sinni, og varð hver félagi að skrifa undir bindindisheit.
Sögulegt gildi ungmennafélaganna fyrir menningu þjóðarinnar á flestum sviðum mun seint fullmetið. Þau vöktu þjóðina af svefni, reifuðu mál, kveiktu áhuga, bentu á verkefni, lögðu hönd á plóginn, kvöddu æskulýðinn til starfa, vöktu með honum traust á sjálfum sér og ást til ættjarðarinnar. Gamlir ungmennafélagar minnast starfsára sinna í félögunum sem ánægjulegasta og frjóvasta tímabils ævinnar og telja sig eiga þeim margt og mikið að þakka. Hugsjónaeldur ungmennafélaganna er þeim minningaylur fullorðinsáranna.
Fyrsta ungmennafélagið hér á landi var Ungmennafélag Akureyrar, er var stofnað 7. janúar 1906. Á því ári voru stofnuð fáein félög, þar á meðal Ungmennafélag Reykjavíkur, en á næstu 2-3 árum breiddist hreyfingin út um allt land og félög voru stofnuð næstum í hverri sveit. Þegar á árinu 1907 mynduðu þau félög, sem þá voru til orðin, samband með sér, og var fyrsta sambandsþingið háð á Þingvöllum 2.-4. ágúst sama ár.
Ungir menn á Stokkseyri, sem fylgdust með vexti ungmennafélagshreyfingarinnar af fréttum og frásögnum blaða, fengu brátt áhuga á því að stofna með sér félag. Útveguðu þeir sér lög Ungmennafélags Reykjavíkur og höfðu þau til hliðsjónar við lagasmíð sína. Boðuðu þeir síðan til fundar í góðtemplarahúsinu, og þar var Ungmennafélag Stokkseyrar stofnað 15. marz 1908 með 39 félagsmönnum. Stofnendur voru eingöngu karlmenn, þar á meðal nokkrir aðkomumenn, er voru við sjóróðra á Stokkseyri og urðu ekki félagar nema til vertíðarloka, en þegar á fyrsta starfsári bættust stúlkurnar í hópinn.
Það hefir verið stöðugt viðfangsefni Ungmennafélags Stokkseyrar eins og annarra ungmennafélaga að afla fjár til starfsemi sinnar. Félagsgjöld eru lág og fastar tekjur því litlar, en starfsemin krefst alltaf nokkurra útgjalda, svo sem kostnaðar við fundahöld og samkomur, lestrarfélag o. fl. Fyrir því hefir félagið allt frá upphafi reynt að afla sér tekna með söluskemmtunum, en svo voru nefndar þær skemmtanir, sem almenningi var seldur aðgangur að, enn fremur með leiksýningum og hlutaveltum og framan af einnig með glímusýningum. Félagsmenn lögðu sjálfir fram ókeypis skemmtikrafta, eftir því sem til vannst, og víluðu ekki fyrir sér að leggja á sig vökur og vinnu við æfingar og undirbúning slíkra skemmtana. En þetta leysti krafta þeirra úr læðingi og þjappaði þeim fastar saman. Þannig hefir félaginu tekizt að sigrast á fjárhagsörðugleikunum framar öllum vonum.
Nátengd fjárhagsmálunum eru húsnæðismál félagsins. Framan af leigði félagið húsnæði fyrir starfsemi sína í góðtemplarahúsinu hjá Vinaminni. Þegar stúkan hætti störfum, var í ráði, að ungmennafélagið keypti húsið, en það fór þó svo, að Verkalýðsfélagið „Bjarmi“ keypti það árið 1912 að talið er. Ungmennafélagið fekk þá húsnæði í barnaskólanum í eitt ár, en síðan í húsi verkalýðsfélagsins næstu árin. Árið 1919 seldi verkalýðsfélagið húsið, og var það tekið undir verzlunarrekstur, en ungmennafélagið varð þá aftur að leita á náðir barnaskólans um húsnæði, sem var þó bæði óhentugt og ófull. nægjandi. Það hafði frá upphafi verið áhugamál ungmennafélagsins að eignast samkomuhús, en nú fekk það mál nýjan byr í seglin. Var unnið kappsamlega að undirbúningi þess á árunum 1919-1920, og loks tókust samningar við hreppsnefndina um að ganga til samstarfs við félagið um byggingu samkomuhúss, sem nægði kauptúninu og skyldi vera kostað að hálfu af hvorum aðilja. Það skilyrði setti hreppsnefndin, að félagið greiddi 2000 kr., áður en byggingin væri hafin. Þessi upphæð safnaðist öll á einum fundi frá félagsmönnum, ýmist í peningum eða loforðum, sem voru öll skilvíslega greidd. ,,Sá fundur var skemmtilegur,“ segir Þórður Jónsson, þáverandi formaður félagsins.
Einn af félögunum í ungmennafélaginu lýsir húsbyggingunni á þessa leið: „Þau ár var stórt áform í félaginu, það var ákveðið að byggja stórt og vandað samkomuhús fyrir byggðarlagið og þá jafnframt fyrir félagsstarfið, og áhugi og samstilling svo með eindæmum, að manni hlýnar alltaf, þegar hugsað er um það. Þá minnist eg kvöldsins, er hinn ágæti foringi, Þórður Jónsson, kallaði liðið saman og stakk fyrstu skóflu til að grafa fyrir grunni hússins. Sandinum var ekið á hestvögnum í uppfyllingu í Þingdalinn. Vagnarnir voru dregnir af sveinum og meyjum, svo mörgum sem að komust, og var helzta óánægjan, að félagar fengu ekki að starfa eins mikið og hugurinn stóð til. Húsið skyldi upp og það undir eins, enda voru hendur látnar standa fram úr ermum, því að húsið var tilbúið og vígt til notkunar 12. nóvember 1921 eða hálfu ári eftir að byrjað var að grafa fyrir grunni þess. Þættu snör handtök í dag með þeirri tækni, sem nú er.“ [note] Ungmennafélag Stokkseyrar 50 ára, bls. 31 [Jónas Jónsson].[/note]
Hið nýja og veglega samkomuhús hlaut nafnið „Gimli“. Það er 12X25 álnir að stærð og 6 álnir undir loft. Byggingarkostnaður nam nálægt 24500 kr. Þótti húsið á sínum tíma eitt fullkomnasta og glæsilegasta félagsheimili austan fjalls og þótt víðar væri leitað. Félagsmenn lögðu mikla vinnu í að afla tekna til greiðslu á kostnaði vegna húsbyggingarinnar. Á fyrsta ári var æfður sjónleikurinn „Skugga-Sveinn“ og sýndur oft við mikla aðsókn og þótti með afbrigðum vel leikinn. Gekk allur ágóði af sýningunum til samkomuhússins. Voru fleiri samkomur haldnar á næstu árum til tekjuöflunar í sama skyni, en félagsmenn lögðu fram mikla vinnu og fyrirhöfn endurgjaldslaust. ,,Gimli“ hefir frá því fyrsta verið aðalsamkomu- og fundahús hreppsins. Áttu ungmennafélagið og hreppurinn það til helminga til ársins 1941, en þá seldu þau sameiginlega þriðjung hússins Verkalýðsfélaginu „Bjarma“ og áttu svo hvort um sig sinn þriðjung. Árið 1955 seldi ungmennafélagið hreppnum sinn hluta úr húsinu. Á framhaldsaðalfundi félagsins 10. febr. 1957 var samþykkt tillaga frá Jóni Guðmundssyni á Sunnuhvoli þess efnis, að fjárupphæð sú, er inn kemur fyrir hluta ungmennafélagsins í „Gimli“, renni í sérstakan sjóð, félagsheimilasjóð, og úr honum skuli aðeins veita til félagsheimilis, sem Ungmennafélag Stokkseyrar verður aðili að. Sést hér hilla undir framtíðarverkefni fyrir félagasamtökin á Stokkseyri.
Veigamikill þáttur í starfsemi ungmennafélagsins hafa fundahöldin jafnan verið. Á fyrstu áratugum félagsins stóðu þau með miklum blóma, því að formaðurinn, Þórður Jónsson, hafði að allra dómi sérlega gott lag á því að gera fundina fjölbreytta og skemmtilega. Hefir Þórður sjálfur skýrt í stuttu máli frá fundastarfseminni á þessa leið: ,,Fundir voru oft haldnir hvern sunnudag frá því í september og fram í maí. Fundarsókn var venjulega góð og urðu fundirnir til heilbrigðrar ánægju þeim, er þar mættu. Mun enginn ágreiningur vera um það meðal þeirra, sem nú líta aftur til unglings- og þroskaára sinna í glöðum endurminningum um ánægjuleg umræðuefni. Á fundum tóku oft margir til máls um hugsjónir og störf félagsins og ýmis mál, sem orðið gætu til þjálfunar meðlima í meðferð hins talaða orðs eða til skemmtunar. Deilur allar voru í fullri vinsemd. Einkum voru deilur milli mín og Kjartans Ólafssonar, og urðum við þó jafngóðir vinir á eftir, og vinátta okkar, sem myndaðist í félaginu, er enn óbreytt.
Eins og venja ungmenna er, hvar sem er á landinu, byrjuðu og enduðu fundir með því, að sungin voru ýmis þjóðlög, en síðan dansaðir þjóðdansar og aðrir dansar í klukkutíma og spilað undir á munnhörpu, harmoníku, en oftast á fiðlu. Stundum var sungið með fiðluundirleik, oftast ættjarðarkvæði. Á fyrstu árum félagsins samdi Ísólfur Pálsson lag við hið snilldarfagra kvæði Guðmundar Guðmundssonar „Vormenn Íslands“, sem hann tileinkaði ungmennafélögum. Lag Ísólfs var fyrst sungið á Stokkseyri, en varð fljótt vinsælt og er nú mikið sungið um allt land eins og fleiri sönglög hans.“[note]Ungmennafélag Stokkseyrar 50 ára, 11-12.[/note]
Það var Þorgeir Bjarnason á Hæringsstöðum, sem flutti þjóðdansana til Stokkseyrar. Veturinn 1912-1913 stundaði hann nám í bændaskólanum á Hvanneyri og kom heim í jólaleyfinu. Á annan í jólum kenndi hann félögum sínum í ungmennafélaginu 6 norska og sænska þjóðdansa, og var æft af kappi. Jafnframt kenndi hann þeim lögin við dansana, sem þeir kunnu ekki áður. Dagurinn fór nær allur í æfingar, en að lokum lærðu menn dansana til hlítar. Urðu þeir síðan mörgum til mikillar ánægju á fundum og skemmtunum félagsins.
Oft voru á fyrri árum félagsins fengnir fyrirlesarar til að flytja fræðandi erindi um ýmiss konar efni. Má þar fyrstan telja fræðimanninn og æskulýðsleiðtogann Guðmund Hjaltason, sem ferðaðist um á vegum ungmennafélaganna, Helga Valtýsson, Jónas Jónsson, Bjarna Ásgeirsson, Jón Jónatansson, Stefán Hannesson, sr. Gísla Skúlason, Pál Bjarnason o. fl. ágæta ræðumenn, sem sóttu félagið heim. Var það bæði fræðandi og líka hvatning í félagsstarfinu að hlusta á erindi slíkra manna.
Einn af forustumönnum Ungmennafélags Stokkseyrar, Sigurður Eyjólfsson skólastjóri á Selfossi, segir svo frá fyrstu kynnum sínum af félaginu: ,,Það var með stærri viðburðum í lífi mínu, er eg fjórtán ára gamall, fekk inngöngu í félagið. Þá var Þórður Jónsson bókari formaður. Var það ómetanlegt félaginu að njóta forystu hans um langt skeið. Eldri og reyndari menn tóku okkur nýliðunum ágætlega og studdu okkur fyrstu sporin. Við vorum strax látnir taka þátt í störfum undir öruggri handleiðslu. Eitt af því, sem erfiðast reyndist, var að koma fram á fundum og taka þátt í umræðum. Þær voru ekki allar langar eða ýtarlegar jómfrúrræðurnar okkar strákanna. Það var oft mjög skemmtilegt á fundunum, ræður fluttar, lesið úr bókmenntum þjóðarinnar, sungið og að síðustu farið í ýmiss konar leiki eða dansað. Félagslífið var okkur skóli, þroskandi og mannbætandi.“[note] Ungmennafélag Stokkseyrar 50 ára, 25. [/note]
Félagið gefur út skrifað blað, sem nefnist „Þór“. Hóf það göngu sína á stofnfundi félagsins og lifir enn. Fyrsti ritstjóri þess var þáverandi ritari félagsins Ingvar Jónsson verzlunarmaður á Stokkseyri, en annars starfar jafnan sérstök, föst ritnefnd, sem sér um efni þess. Er blaðið síðan lesið upp á fundum. Hafa birzt í því margar vel ritaðar og skemmtilegar greinar um ýmisleg efni, og er þar að finna ýmsan fróðleik um félagið og þau málefni, sem þar hafa verið efst á baugi á hverjum tíma.
Á fyrstu árum félagsins hélt það afmælisskemmtanir með fjölbreyttri dagskrá. Notaðir voru að mestu eigin skemmtikraftar. Afmælisskemmtunin var talin ein fjölbreyttasta skemmtun í þorpinu yfir veturinn, enda bættust oft við nýir félagar á næsta fundi fyrir afmælið. Til er samtímafrásögn af einni slíkri samkomu, og segir þar svo: ,,Ungmennafélag Stokkseyrar hélt afmælisskemmtun sína síðastliðið laugardagskvöld að viðstöddum rúmlega 100 manns. Nokkrir af íþróttamönnum félagsins sýndu ýmsar fimleikaþrautir, íslenzka og rómverska glímu, aflraunir o. fl. Síðasti þátturinn í skemmtuninni var, að kveðnar voru rímur, sýndar sex tegundir norskra og sænskra þjóðdansa. Slitið með dansi.“[note] Sama rit, 1. febr. 1913.[/note]
Í tvö eða þrjú ár hélt félagið útiskemmtun á fyrsta sumardag á flötunum við sjóinn fyrir austan Rauðarhól. Þangað var gengið fylktu liði með bláhvíta fánann í fararbroddi við leik göngulaga alla leiðina. Ein slík skemmtun var haldin á fyrsta sumardag 1914, og sóttu hana yfir 200 manns, þar af nokkrir frá Eyrarbakka. Þar flutti formaður félagsins ræðu, en að því búnu voru sýndar íþróttir, sund, íslenzk glíma og reiptog. Er skemmtuninni var slitið, gengu félagar í fylkingu heim aftur með sama hætti og brugðu ekki göngunni, fyrr en komið var að heimili formanns. Þar sungu menn að skilnaði „Vormenn Íslands“ og héldu svo hver heim til sín. Slíkar skemmtanir höfðu mikil áhrif á unglingana í þorpinu og urðu þeim minnistæðar.
Allt frá fyrstu árum ungmennafélagsins og til þessa dags hefir leikstarfsemi verið snar þáttur í félagslífinu, og hefir félagið æft og sýnt fjölda mörg leikrit bæði innan félags og opinberlega á liðnum árum. Hefir sú starfsemi stuðlað drjúgum að samheldni og þroska félagsmanna og veitt mörgum ánægjustund. Um það efni verður hér að öðru leyti að vísa til þess, sem áður er ritað um leikstarfsemina á Stokkseyri. Sama er og að segja um afskipti ungmennafélagsins af lestrarfélaginu.
Nú er að víkja sögunni að þeim þætti í starfsemi Ungmennafélags Stokkseyrar, sem löngum hefir verið einn sá veigamesti og varpaði um eitt skeið allmiklum ljóma á nafn þess, en það eru íþróttirnar. Það var félaginu mikið lán, að það eignaðist þegar á fyrstu árum frábæran forustumann í íþróttamálum að sínu leyti líkan því, sem Þórður Jónsson var á öðrum sviðum félagsmálanna. Sá forustumaður var Sæmundur Friðriksson kennari, sem var hvort tveggja í senn ágætur íþróttamaður og áhugasamur leiðbeinandi. Vann hann mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta í mörg ár fyrir félagið. Hann hélt uppi stöðugum æfingum og fyrir hans forgöngu var glímuflokkur félagsins talinn með beztu glímuflokkum landsins og hafði um skeið yfirburði yfir alla aðra á Suðurlandi utan Reykjavíkur.
Glíman á sér langa sögu á Stokkseyri, þótt lítt verði hún framar rakin. Þar voru oft saman komnir á vertíðum ágætir glímumenn auk heimamanna sjálfra og bændaglímur háðar til skemmtunar í landlegum. Svo sagði Jón hreppstjóri á Hlíðarenda, að um 1860-1870, er hann var að alast upp í Stokkseyrarhverfinu, hefðu þar verið snjallastir glímumenn þeir Grímur Gíslason, síðar bóndi í Óseyrarnesi, og bræðurnir Jón og Adólf Adólfssynir á Stokkseyri. Eftir 1880 og fram undir aldamótin eru þeir Jón Pálsson eldri frá Syðra-Seli og Eyjólfur Bjarnason í Skipagerði taldir beztir glímumenn. Af aðkomumönnum eru einkum tilnefndir Þórður Þórðarson frá Sumarliðabæ og síðar Magnús Magnússon frá Hvítárholti, Stefán Brynjólfsson frá Selalæk og Illugi Jóhannsson frá Laugum í Hraungerðishreppi, er allir voru afbragðs glímumenn. Minnistæð var Jóni á Hlíðarenda bændaglíma á Stokkseyri um 1865, þar sem þeir Grímur Gíslason og Þórður frá Sumarliðabæ voru bændur, og sömuleiðis er Guðmundi Guðmundssyni í Höfn á Selfossi minnistæð bændaglíma, er hann sá á Stokkseyri um 1886-87, en þar voru þeir bændur Illugi á Laugum og Stefán frá Selalæk.[note]Sjá Guðni Jónsson: Grímur Gíslason í Óseyrarnesi. Ævi hans og niðjar, Rvík 1961, bls. 23-24, og Árnesingahók, 208-210.
[/note] Um 1883 gekkst P. Nielsen verzlunarstjóri á Eyrarbakka fyrir íþróttamóti á Stokkseyri á vetrarvertíðinni og var keppt í glímu, hlaupi og skotfimi. Fekk Magnús í Hvítárholti fyrstu verðlaun í glímunni og Jón Pálsson eldri önnur verðlaun. Hlaupið var frá Ranakotströðum að salthúsi Lefoliisverzlunar, og var Illugi á Laugum sigurvegari, en í skotfimi Jón Þorsteinsson síðar kaupmaður í Vík í Mýrdal. Meðal þátttakenda í þessu fyrsta íþróttamóti á Stokkseyri voru auk þeirra, sem nú voru nefndir:
Jón Þorkelsson, Vestri-Móhúsum, Júníus Pálsson, Syðra-Seli, Jón Vernharðsson, Efra-Seli og Bjarni Pálsson í Götu. Þess skal getið hér, að Jón Pálsson eldri var ágætur fimleika- og íþróttamaður auk þess sem hann var með beztu glímumönnum. Hann var drengur góður og gerði sér far um að gleðja börn og gamalmenni. Einu sinni skemmti hann eftir barnastúkufund, svo að börnunum varð minnistætt. Hann gekk fram á gólfið, lét tóma flösku á hvirfilinn á sér og gekk um með hana, lagðist síðan hægt niður, svo að hakan nam við gólfið, reis svo á fætur, unz hann stóð teinréttur, en aldrei haggaðist flaskan.
Þegar það er haft í buga, að glímuíþróttin hafði lengi verið iðkuð og í hávegum höfð á Stokkseyri fyrir daga ungmennafélagsins, verður skiljanlegra, að félagið lagði frá upphafi sérstaka alúð við þessa þjóðlegu og karlmannlegu íþrótt. Má nærri því segja, að félagið gerði glímuna að sérgrein sinni undir forustu hins áhugasama kennara og þjálfara, Sæmundar Friðrikssonar. Hóf hann kennslu í íslenzkri og grísk-rómverskri glímu haustið 1909, og voru æfingar stundaðar af kappi allan veturinn og á næstu árum. Mikil áherzla var lögð á mýkt og fegurð glímunnar. Fór brátt orð af því, að félagið ætti snjalla og vel þjálfaða glímumenn, enda kom það fljótt í ljós. Á fyrsta allsherjar íþróttamót sunnlenzkra ungmennafélaga að Þjórsártúni 9. júlí 1910 sendi Ungmennafélag Stokkseyrar tvo glímumenn, þá Ásgeir Eiríksson og Ásgrím Jónsson, og auk þess sýndi Sæmundur Friðriksson þar grísk-rómverska glímu ásamt Haraldi Einarssyni frá Vík í Mýrdal. Þótti það allnýstárleg skemmtun. Á Skarphéðinsmótinu 9. júlí 1911 varð Ásgeir Eiríksson annar í glímukeppninni. Á mótinu 29. júní 1912 voru 6 þátttakendur í glímunni, og var helmingur þeirra frá Ungmennafélagi Stokkseyrar, en sigurvegari varð Páll Júníusson frá Syðra-Seli. Á mótinu 1913 varð Ásgeir Eiríksson annar í glímukeppninni og hlaut fyrstu verðlaun fyrir fegurðarglímu, sem voru þá veitt í fyrsta sinn. Á mótinu 27. júní 1914 sigraði Bjarni Sigurðsson frá Ranakoti í kappglímunni og 26. júní 1915 hlutu Stokkseyringar öll fegurðarglímuverðlaunin, Ásgeir Eiríksson fyrstu verðlaun, Bjarni Sigurðsson önnur og Bjarni Júníusson þriðju verðlaun. Mun slík frammistaða einsdæmi á Skarphéðinsmótunum og gefur glögga hugmynd um glímustíl þeirra Stokkseyringa, er miðaði að því að gera glímuna að sannri list og íþrótt. Þess skal getið hér, að Stokkseyringar komu nokkuð við sögu íþróttasambandsins Skarphéðins að öðru leyti á þessum árum. Ingimundur Jónsson frá Holti átti sæti í fyrstu stjórn þess, 1910-1911, Páll Guðmundsson á Baugsstöðum 1915-1916, og Sigurgrímur Jónsson í Holti var formaður sambandsins á árunum 1915-1917. Enn fremur var Sigurður Eyjólfsson skólastjóri á Selfossi ritari héraðssambandsins 1931-1934 og Ásgeir Eiríksson forseti héraðsþinganna 1946- 1949.
Glímuflokkur ungmennafélagsins lét ekki sitja við það eitt að keppa á Skarphéðinsmótum. Hann hélt iðulega opinberar glímusýningar, oftast 3-4 á vetri, og þóttu þær hin bezta skemmtun. Hófust þessar sýningar árið 1910, og er einnar þeirra á því ári getið á þessa leið í samtímafréttaklausu: ,,Skemmtisamkomu allfjölbreytta héldu Stokkseyringar síðastliðið sunnudagskvöld í Goodtemplarahúsinu. Samkomusalurinn er ekki gamall, en þó eru Stokkseyringar upp úr honum vaxnir, því hann er bæði of lítill og óvistlegur. Þó gætti þessa galla ekki, meðan glímusýningin fór fram, því þátttakendur þeirra, 12 að tölu, gagntóku hugi manna. Eiga Stokkseyringar vænlega glímumenn, sem sóma sér vel á marga lund.“[note] Suðurland, 22. des. 1910.[/note] Nokkrum árum síðar er sagt frá annarri glímusýningu á þessa leið: ,,Glímuflokkur Ungmennafélags Stokkseyrar skemmti fólkinu með glímu sunnudagskvöldið 25. jan. 1914. Aðsókn sem húsrúm framast leyfði, og er svo jafnan, er glímuflokkurinn sýnir list sína, því hann hefir getið sér bezta orðstír. Einhver fallegasta glíman að þessu sinni var milli Sigurðar Sigurðssonar frá Bræðratungu á Stokkseyri og Páls Júníussonar frá Seli. Ásgeir Eiríksson glímdi ekki að því sinni.“[note] Sama stað, 31. jan. 1914.[/note] Þess skal getið, að Jón Adólfsson í Grímsfjósum var heiðursgestur á glímusýningum fyrstu árin. Hann hafði iðkað íþróttir og verið glímumaður mikill á yngri árum, eins og áður er sagt. Jón var maður lágur vexti, en þrekinn og rammur að afli. Það var og einu sinni á þessum árum, að glímumenn ungmennafélagsins á Stokkseyri skoruðu opinberlega á glímumenn ungmennafélagsins á Eyrarbakka að þreyta kappglímu, en úr því varð ekki, því að ungmennafélagar á Eyrarbakka sáu sér ekki fært að taka áskoruninni, eins og komizt var að orði.[note] Sama stað, 20. og 27. jan. 1912. [/note] Síðasta glímusýningin á Stokkseyri, sem eg hefi séð getið um, mun hafa verið árið 1921. Flutti Magnús Torfason sýslumaður erindi um íþróttir á undan sýningunni. Fylgdist hann með glímunni af lifandi áhuga og var svo ánægður með sýninguna, að hann gaf félaginu nokkru síðar 100 kr. til kaupa á íþróttaáhöld. um.
Þó að Ungmennafélag Stokkseyrar gæti sér mesta frægð fyrir glímuíþróttina, stunduðu félagsmenn auðvitað ýmsar aðrar íþróttir. Þar á meðal var sund, þó að aðstaða til þess væri erfið. Páll Þorgeir Bjarnason frá Götu kenndi fyrstur manna sund á Stokkseyri 1908 og 1909.[note]Sögn Þórðar Jónssonar og Páls Sigurðssonar læknis, sem var einn af fyrstu nem· endum Páls Þorgeirs í sundíþróttinni.[/note] Urðu þarna ýmsir góðir sundmenn á fyrstu árum ungmennafélagsins, nemendur Páls Þorgeirs og fleiri, og má t. d. nefna Ásgeir Eiríksson, Ingvar Jónsson, Símon Jónsson í Móhúsum, sem sótti námið af miklu kappi og sýndi mikla harðneskju við að svamla í köldum lónunum, Þorgeir á Hæringsstöðum, Guðberg Grímsson, Símon Sturlaugsson á Kalastöðum, sem varð svo lánsamur að bjarga eitt sinn konu frá drukknun vegna sundkunnáttu sinnar, og Kjartan Ólafsson, síðar bæjarfulltrúa í Hafnarfirði, sem var í mörg ár einn af áhugasömustu ungmennafélögum á Stokkseyri bæði um þátttöku í félagsfundum og íþróttum. Hann fekk fyrst tilsögn í sundi hjá Páli Erlingssyni og synti svo heima á hverjum degi, hvernig sem viðraði, unz hann fór til vers í Þorlákshöfn. Í fáein skipti var synt nýárssund, þótt í misjöfnu veðri væri, og tóku nokkrir félagar þátt í því. Eins og kunnugt er, er sund nú skyldunámsgrein í barna- og unglingaskólum. Þurfa unglingar nú sem betur fer ekki að leggja jafnhart að sér og fyrrum til þess að nema þessa nytsömu og hollu íþrótt.
Ein var sú íþrótt, sem legið hafði í landi í Stokkseyrarhreppi frá ómuna tíð, en það voru skautahlaup. Aðstaða til skautaferða var þar óvenjulega góð á vötnum og dælum eftir endilöngum hreppnum og þótt lengra væri að fara. Um þetta segir Jón Pálsson m. a. í endurminningum sínum: .,Á vetrum voru skautaferðir tíðar mjög. Átti þá jafnvel hver krakkinn tréskauta sína, smíðaða og vel sorfna eftir Hallgrím Jóhannesson eða Jóhannes Árnason á Stéttum, er báðir voru ágætir og alkunnir smiðir austur þar. Naumast var hægt að stíga svo fæti út fyrir hússins dyr, að þar væri eigi einhver tjörnin, áin, lækurinn eða stöðuvatnið til þess að renna sér á. Svo víðáttumikið flæmi var þar, að menn gátu rennt sér alla leið vestan frá Hrauni í Ölfusi austur undir Jökulsá á Sólheimasandi, án þess að nokkru sinni þyrfti að leysa af sér skautana.“ Og á öðrum stað segir Jón: ,,Sérstaklega voru skautaferðir tíðkaðar, ef langt var að fara, t. d. upp að Hraungerði, upp í Grímsnes eða austur í Holt, en annars voru þær notaðar mjög í rökkrinu ýmist austur í Löngudæl eða Litla-Hraunsvötnum eða þá á Steinskotshópum nálægt Steinskoti og Fælu. Mátti þá sjá marga unga og vaska drengi bruna fram og aftur yfir ísana og taka sem lengst skautaförin. Þar voru oft ungir menn frá Óseyrarnesi, úr Hraunshverfi, austan úr Stokkseyrarhverfi og frá Seljunum.“[note]Austantórur Ill, 107; Il, 121, sbr. Grímur Gíslason í Óseyrarnesi. Ævi hans og niðjar, bls. 22-23.[/note] Þess má geta, að um 1883 gekk=t P. Nielsen á Eyrarbakka fyrir skautakappmóti á Steinskotshópi, og voru kepp· endur margir. Hlutskarpastur varð Guðmundur Þorkelsson frá Óseyrarnesi, síðar hreppstjóri á Syðra-Velli. Af öðrum keppendum hefi eg aðeins heyrt getið Hallgríms Jóhannessonar á Kalastöðum, en hann varð úr leik, vegna þess að annar skautinn bilaði. Ungmennafélag Stokkseyrar tók skautaíþróttina á íþróttaskrá sína, og starfaði sérstakur skautaflokkur í félaginu um nokkurt skeið.
Auk þess, sem nú hefir verið talið, lagði félagið að sjálfsögðu stund á ýmsar aðrar íþróttir, svo sem hlaup, stökk, leikfimi o. fl. Getið er um, að ungmennafélagið hafi haft fótboltaflokk veturinn 1912-13, en annars virðist ekki hafa kveðið mikið að þeirri íþrótt innan félagsins. Við og við voru haldin íþróttanámskeið á Stokkseyri á vegum félagsins, og um nokkurt skeið voru starfandi taflflokkur og hannyrðaflokkur kvenna. Hefir sá háttur lengi verið á hafður, að félagsstarfið hefir verið greint í margvíslega hópa eða flokka, sem hver út af fyrir sig hefir sérstaka stjórn og afmarkað verkefni. Sumir þessara flokka hafa ekki orðið langlífir, starfað aðeins fáein ár, en aðrir halda velli enn í dag.
Um eitt skeið hugðist félagið koma sér upp trjágarði, en það var eitt af áhugamálum ungmennafélaganna að klæða landið skógi. Tilraunin misheppnaðist algerlega, enda virðast skilyrði ekki góð til trjáræktar í Stokkseyrarhreppi, eins og annars staðar er að vikið. Árið 1952 hafði ungmennafélagið samvinnu við Stokkseyringafélagið í Reykjavík um gróðursetningu skógarplantna í Ásgautsstaðaeyju.
Á árunum 1950-1953 var Helgi Ólafsson verzlunarmaður formaður félagsins. Hann var mjög áhugasamur, og var þá reynt að blása lífi í félagið. Voru þá meðal annars haldin sameiginleg íþróttamót með Eyrbekkingum í tvö ár, annað árið á Baugsstaðakampi, en hitt á Eyrarbakka. Til þess að gefa mynd af starfi félagsins á þeim árum skulu hér birt aðalatriðin úr skýrslu formanns á aðalfundi 1951.
Fyrsta verkefni stjórnarinnar var að ráða íþróttakennara og efna til námskeiðs í fimleikum. Þátttakendur voru 19 stúlkur og 18 piltar. Stóð það yfir frá því í nóvember og til jóla. Þó að námskeiðið stæði ekki lengur yfir, þá gerði það ómetanlegt gagn fyrir íþróttastarf félagsins og félagsandann.
Félagið tók einnig þátt í tómstundakvöldunum, en þau voru alger nýjung í félagslífi þorpsbúa.
Vorstarfið hófst með undirbúningi undir þátttöku Stokkseyringa í samnorrænu sundkeppninni. Gekkst félagið fyrir því, að farnar voru margar hópferðir til Hveragerðis til æfinga. Þátttaka Stokkseyringa var góð, og létu þeir ekki sinn hlut eftir liggja að tryggja sigur Íslendinga.
Einnig tók félagið þátt í hátíðahöldunum 17. júní Það átti hugmyndina að því, að öll menningarfélög í hreppnum tækju höndum saman til að gera hátíðahöldin sem myndarlegust. Tókst þetta það vel, að sennilega verður litið á það sem sjálfsagðan hlut að hafa þetta fyrirkomulag eftirleiðis.
Um Jónsmessuna var farið í skemmtiferð vestur í Borgarfjörð; þátttaka góð og mikil heppni með veður. Verður það vonandi fastur liður í starfi félagsins að fara slíkar ferðir árlega.
Sumarstarfið var helgað undirbúningi að sameiginlegu íþróttamóti milli Eyrbekkinga og Stokkseyringa. Þrír menn sýndu félaginu þá vinsemd að koma á æfingar í frjálsum íþróttum og leiðbeina. Mótið var haldið við Knarrarósvita sunnudaginn 26. ágúst í undurfögru veðri. Á undan keppninni prédikaði síra Árelíus Níelsson. Keppt var í 11 íþróttagreinum, þar af í þremur kvennagreinum. Keppninni lauk með sigri Eyrbekkinga, 59 stigum gegn 56. Fjölmenntu bæði Eyrbekkingar og Stokkseyringar á mótið. Fór það vel fram og sömuleiðis dansleikur í „Gimli“ um kvöldið; var þar húsfyllir.
Til keppni á meistaramóti Árnessýslu sendi félagið tvo keppendur, Sigurbjörgu Helgadóttur, sem keppti í langstökki og 80 m hlaupi, og Jón Guðmundsson, sem keppti í kringlukasti. Varð Sigurbjörg Árnessýslumeistari í 80 m hlaupi.
Nú í haust réðst félagið í það ásamt Stokkseyrarhrepp að láta mála „Gimli“ og gera á því nauðsynlegar endurbætur. Þó að þetta kosti allmikið fé, munu menn sammála um, að þetta hafi verið nauðsynlegt, því að húsið var orðið til skammar fyrir þorpið. Ákveðið er að halda íþróttanámskeið í haust til jóla, og er kennari ráðinn. Formaður lýkur skýrslu sinni með þessum orðum: ,,Stjórnin tók við félaginu niðri í öldudalnum eftir langvarandi sundrung í félagsmálum. Eg vona, að þessari stjórn hafi tekizt að móta þar ofurlitla stefnubreytingu og að næsta stjórn geti áorkað mikið meira í þessum málum heldur en fráfarandi stjórn og að starf stjórnarinnar hafi verið vísbending í rétta átt.“
Samkvæmt lögum ungmennafélagsins, sem samþykkt voru á framhaldsaðal. fundi 10. febr. 1957, skal árlega kjós.a á aðalfundi eftirtaldar þriggja manna nefndir: íþróttanefnd, leikritanefnd, málfundanefnd, skemmtiferðanefnd, ritnefnd „Þórs“ og bridgenefnd. Enn fremur kýs félagið nefnd til að sjá um tómstundakvöld og einn mann í stjórn bókasafnsins. Af þessu má sjá að nokkru, hver eru helztu viðfangsefni félagsins. Til nýjunga mega teljast bridge- og tómstundakvöldin, sem hafa orðið vinsæl, og að nokkru skemmtiferðirnar. Að vísu kom það fyrir á fyrstu árum félagsins, að farið væri í lengri eða skemmri hópferðir til nafnkenndra staða þrátt fyrir erfiðar samgöngur, en á síðari árum hafa slíkar ferðir verið talsverður þáttur í félagslífinu. Farið hefir verið í Borgarfjörð, til Stykkishólms og í Dali; til Kirkjubæjarklausturs; í Landmannalaugar; til Hveravalla; til Akureyrar og í Vaglaskóg og í sömu ferðinni að Hólum og út í Drangey. Þessar ferðir hafa orðið mjög vinsælar og félagsstarfinu til eflingar.
Stjórn Ungmennafélags Stokkseyrar er skipuð þremur mönnum, formanni, ritara og gjaldkera, og hefir svo jafnan verið. Koma þar margir góðir félagar við sögu, en ekki er þess kostur að telja hér aðra en formennina, og eru þeir þessir:
Kjartan Guðmundsson ljósmyndari 1908.
Páll Bjarnason skólastjóri 1909-1911.
Þórður Jónsson bóksali 1911-1915
Guðbergur Grímsson, Strönd, 1915-1916.
Símon Sturlaugsson, Kalastöðum, 29/10-31/12 1916.
Þórður Jónsson í annað sinn 1916-1924.
Sigurður Sigurðsson, Sandprýði, 1924-1926.
Bjarni Júníusson, Syðra-Seli, 1926-1929.
Sigurður Eyjólfsson kennari 1929-1932.
Björgvin Sigurðsson, Jaðri, 1932-1933.
Sigurður I. Sigurðsson, Dvergasteinum, 1933-1934.
Jón Ingvarsson, Skipum, 1934-1937.
Sigurður Guðmundsson, Sunnuhvoli, 1937-1940.
Hlöðver Sigurðsson skólastjóri 1940-1941.
Jón Ingvarsson í annað sinn 1941-1945.
Magnús Sigurðsson, Móhúsum, 1945-1947.
Bjarnþór G. Bjarnason, Hoftúni, 1947-1948.
Jón Sigurgrímsson, Holti, 1948-1949.
Magnús Jónsson, Sæhvoli, 1949-1950.
Helgi Ólafsson kaupfélagsstjóri 1950-1953.
Óskar Magnússon kennari 1953-1957.
Baldur Teitsson símstjóri 1957-1958.
Óskar Eyjólfsson, Skipagerði, 1958-.
Nokkrir menn hafa verið kjörnir heiðursfélagar og allmargir gerzt ævifélagar í Ungmennafélagi Stokkseyrar.
Þegar félagið varð 30 ára, heimsóttu það 27 gamlir félagar frá Reykjavík, Keflavík og Hafnarfirði 16. okt. 1938 og héldu skemmtifund með sömu tilhögun sem á fyrri árum. Á fundinum voru 130 manns, og þótti þetta skemmtileg tilbreyting.
Í tilefni af 50 ára afmæli félagsins gekkst það fyrir útgáfu afmælisrits. Birtust þar greinar eftir eldri og yngri félagsmenn, þar sem þeir rifja upp endurminningar frá félagsstarfseminni. Einnig efndi félagið til afmælissamkomu í ,,Gimli“ 25. okt. 1958, og var vel til hennar vandað. Þáverandi formaður, Baldur Teitsson, setti samkomuna, og þvínæst hófst sameiginleg kaffidrykkja. Þá flutti Ásgeir Eiríksson kaupmaður ræðu, og að því búnu var sýndur gamanleikurinn „Litla dóttirin“ undir stjórn Sigurveigar Þórarinsdóttur. Síðan fluttu ræður og ávörp Þórður Jónsson bókhaldari, Kjartan Ólafsson frá Hafnarfirði, Skúli Þorsteinsson framkvæmdastjóri UMFÍ, sem færði félaginu að gjöf hvítbláinn á silfurstöng, Sigurður Greipsson formaður Héraðssambandsins Skarphéðins og Björgvin Sigurðsson oddviti. Formenn ungmennafélaganna á Eyrarbakka og í Gaulverjabæjarhreppi fluttu kveðjur. Þá var flutt kvæði, sem Einar M. Jónsson skáld sendi félaginu. Kór undir stjórn Pálmars Þ. Eyjólfssonar söng lög eftir Stokkseyringa, þar á meðal lag eftir söngstjórann við texta eftir Ragnar Ágústsson kennara, en hvort tveggja var tileinkað félaginu. Að lokum var stiginn dans fram undir morgun. Samkomuna sóttu um 150 manns, og þótti hún fara hið bezta fram.
Kvæði Einars M. Jónssonar til félagsins fer hér á eftir.
UMF Stokkseyrar 50 ára
15. marz 1958
Eg sé í anda æskustundir þær,
sem áttieg í hópnum mínum kæra.
Um þessa minning andar blíður blær.
Margt blóm mér kært í skjóli hennar grær.
En seltu hafs og sjávarnið mér ber hún.
Með sólríkt vor um lendur hugans fer hún.Þar ungra kraft og röskleik reyndi á
í ræðusnilld og íþrótt, söng og leikum.
Í brjóstum okkar vorsins vaxtarþrá
og vökudraumsins líf sig bærði þá.
Er félagsmenn á leikvang afrek unnu,
þá okkar hjörtu af gleði og metnað brunnu.Eg man, er austur á Flatir farið var
í fylkingu á sumarkvöldi blíðu.
Í fararbroddi fánann einhver bar.
Hve fljótt mér virtist tíminn líða þar
við íþrótt, leik og söng, unz sól var hnigin!
Og svo var dans und fiðlutónum stiginn.En þar greip hugann ást til ættarlands
við úthafsströnd með sýn til fjallahringsins.
Og augun drukku djúpan bláma hans.
Úr dróma buga ungrar konu og manns
hann leysti og knýtt ann framtíð fósturjarðar
með fremd og auðlegð hafs og gróðursvarðar.Og nú á þessum degi ósk eg á,
að Íslands heill sé bundin félagsstörfum,
að sléttan, sjórinn, fjöllin frjáls og há
og fögur dragi til sín ykkar þrá,
og megi félagsandinn haldast ungur,
þótt áfram líði straumur tímans þungur.
Áhrif Ungmennafélags Stokkseyrar hafa í mörgu verið byggðarlaginu heilladrjúg og æskulýð þess hollt og varanlegt veganesti. Og svo mun enn verða, meðan hugsjónir þær, sem það berst fyrir, finna hljómgrunn í hjörtum hinna ungu.
(Heimildir: Gerðabækur félagsins frá því í desember 1915, en þær eru glataðar fyrir þann tíma; Ungmennafélag Stokkseyrar 50 ára, einkum greinar þeirra Ásgeirs Eiríkssonar og Þórðar Jónssonar, auk annarra, sem til er vitnað; Ungmennafélög Íslands 1907- 1937, minningarrit, Rvík 1938; Skarphéðinn 1910-1950, minningarrit, Rvík 1955).