You are currently viewing 063-Tilhögun róðra
Úr Stokkseyrarfjöru

063-Tilhögun róðra

Fyrr á tímum höguðu menn róðrum yfirleitt eftir ástæðum á hverjum stað og að eigin vild. Um þá giltu engar reglur, er allir væru skyldir að hlíta. Hin fyrsta samþykkt, er þessi mál varðar og kunnugt er um á Stokkseyri, er samþykkt skipseigenda og formanna árið 1863 um notkun lóðar á vetrarvertíð, sem áður hefir verið minnzt á. Eftir að útvegur óx og skipum fjölgaði, sáu menn fram á nauðsyn þess að setja einhverjar reglur um sjósókn og tilhögun róðra til þess að koma í veg fyrir hættulegt ofurkapp einstakra formanna og tryggja öryggi á sjó betur en áður. Árið 1877 voru sett á alþingi lög um ýmisleg atriði, er við komu fiskiveiðum á opnum skipum, og var sýslunefndum þar veitt vald til þess að gera samþykktir um þau efni, eftir því sem hentugast þætti á hverjum stað.[note]Stjórnartíð. 1887 A, nr. 28 [/note] Í samræmi við lög þessi gerði sýslunefnd Árnessýslu sérstaka samþykkt fyrir veiðistöðvarnar í Stokkseyrarhreppi, og var hún staðfest af amtmanni 10. júlí 1886, en öðlaðist gildi frá 14. febrúar 1887. Þessi samþykkt gilti síðan í Stokkseyrarveiðistöð í tíð áraskipanna og þar á meðal á þeim árum, sem skipafjöldinn þar náði hámarki sínu. Með því að hún ákvarðaði á ýmsan hátt tilhögun róðranna á þessu tímabili og henni urðu allir að hlíta, þykir rétt að birta hana hér í heilu lagi.

SAMÞYKKT

um ýmislegt, er að fiskiveiðum á opnum skipum lýtur í veiðistöðvunum Stokkseyrarhreppi í Árnessýslu.

1. gr.
Í byrjun vertíðar ár hvert kveður hreppstjóri alla formenn til fundar til að kjósa 3 menn úr þeirra flokki í hverri veiðistöðu hreppsins fyrir sig í gæzlunefnd, sem hefir á hendi að láta draga upp veifu, þegar hún álítur hæfilega bjart til að sjá til sundmerkja og að ræði sé. En úr því að albjart er orðið, ræður hver formaður róðri sínum. Annað hlutverk nefndar þessarar er að ákveða, hvenær á vertíðinni skuli brúka færi og hvenær lóð. Þriðja hlutverk nefndar þessarar er að ákveða, hvenær á vertíðinni skuli brúka til beitu skelfisk eða maðk.

2. gr.
Þess skal gætt, að menn leggi ekki á sundin of nærri hver öðrum, heldur með hæfilegu millibili. Einkum skulu menn varast að leggja hver á móti öðrum á sundin, þegar brim er, heldur sé beðið eftir þeim, sem á sundið er lagður, en sá hefir forgangsrétt á leiðinni, sem af sjó kemur.

3. gr.
Hver skipseigandi leggi til ílát eftir þörfum til skips síns undir slor, sem flutt skal á sjó út til niðurburðar í grynnstu fiskileitum, og hefir formaður hvers skips umsjón bæði yfir ílátunum og á því, að slorið sé flutt út.

4. gr.
Þegar lóð er brúkuð, skal svo hagað lagningu lóðarinnar, að sem minnstur bagi verði að fyrir aðra, svo sem að sá, er á eftir kemur, leggi ekki of nærri þeim, sem áður er farinn að leggja, sízt byrji fyrir framan stafninn hjá þeim, sem eru að leggja, eða rói svo út lóðina, að fyrirsjáanlegt sé, að lóðarflækjur verði eða hraunfestur.

5. gr.
Hver formaður hafi með sér á sjó í hvert skipti, sem róið er, að minnsta kosti 8 potta af lýsi til þess að hella í sjóinn, ef sundið er slæmt. Kostnaður af því skiptist niður sem afli af skipinu.

6. gr.
Nefnd sú, sem um er rætt í fyrstu grein, hefir umsjón með, að ákvörðunum þessum sé fylgt.

7. gr.
Brot á móti samþykkt þessari varðar 5-20 kr. sekt í hvert skipti eftir atvikum, að svo miklu leyti það sætir ekki hegningu eftir hegningarlögunum. Sektin rennur að helmingi til gæzlunefndarinnar og að helmingi til sveitarsjóðs Stokkseyrarhrepps [note]Stjórnartíð. 1886 B, nr. 96. [/note]

Þessi fiskveiðisamþykkt var á ýmsan hátt til bóta og kom nokkru skipulagi á sjósóknina í veiðistöðinni. Formannafundirnir, sem þar er ráð fyrir gert, voru venjulega haldnir í Götuskólanum, og ræddu formenn þar ýmis sameiginleg áhugamál, svo sem um sundmerki og annað, sem til öryggis horfði; þar var og gæzlunefnd kosin. Nokkur brögð urðu að því, að formenn gerðust brotlegir við samþykktina. Fyrstu vertíðina, sem samþykktin var í gildi, þ. e. 1887, voru í gæzlunefndinni þeir Adólf Adólfsson á Stokkseyri, Benedikt Benediktsson í Íragerði og Sturlaugur Jónsson í Starkaðarhúsum, og voru þá hvorki meira né minna en 30 formenn kærðir fyrir að hafa ekki haft lýsi með sér á sjóinn. Játuðu þeir allir þessa vanrækslu sína og skutu máli sínu undir úrskurð amtsins. Á næstu vertíð 1888 voru í gæzlunefndinni þeir Adólf, Benedikt og Jón Grímsson á Stokkseyri. Þá voru 5 formenn kærðir fyrir að hafa róið, áður en veifan kom upp, og skutu þeir einnig máli sínu til amtsins. Á vertíðinni 1892 voru 5 formenn kærðir fyrir sama brot, og brutu þeir allir sama dag, 28. marz. Sögðu þeir, að frostharka hefði þá verið svo mikil, 20°-30° um morguninn, að ógerlegt hefði verið að láta skipin bíða, eftir að þau voru komin á flot. Á vertíðinni 1893 voru í gæzlunefnd þeir Hannes Jónsson í Roðgúl, Jón Einarsson í Dvergasteinum og Sigurður Hinriksson í Ranakoti. Voru þá 20 formenn kærðir fyrir að róa á undan veifu, allir sama daginn eða þann 11. apríl. Borguðu þeir allir sekt. Öðrum brotum á samþykktinni en þessum virðist ekki hafa verið til að dreifa. Eftir fyrstu vertíðina mun það t. d. hafa orðið föst venja, að formenn hefðu með sér lýsi á sjóinn, því að aldrei kom síðan kæra fram af því efni.

Þess má geta til viðbótar, að árið 1890 voru 43 formenn, 25 á Eyrarbakka og 18 á Stokkseyri, kærðir fyrir helgidagabrot á vertíðinni það ár, og var sú kæra byggð á tilskipun 28. marz 1855. Höfðu langvarandi ógæftir hamlað fiskveiðum í þessum brimveiðistöðum lengi framan af vertíð eða til 13. apríl, og fiskaðist ekki meira en svo, að hjá öllum þorra manna var aflinn etinn upp jafnóðum. Þegar líkt stóð á, gerir reglugerðin ráð fyrir því, að veita megi undanþágu frá ákvæðum hennar um helgidagahald, enda sýknaði sýslumaður Stefán Bjarnarson alla formennina og taldi þá raunar hafa sýnt lofsverðan manndóm með því að vilja bjarga sér, jafnskjótt sem á sjóinn gaf, þótt helgidagur væri.

Þegar gæftir voru og margróið, var farið í fyrsta róðurinn jafnvel kl. 2½ -3 á næturnar og þá auðvitað í aldimmu. Þetta var allt annað en hættulaust, en kapp var mikið í mönnum um það að komast fyrstir út og verða á undan öðrum á beztu miðin. Með fiskveiðasamþykktinni varð nokkur breyting á þessu, því að með henni var bann lagt við því að róa, fyrr en sundabjart væri orðið, þ. e. nægilega bjart til þess, að sundmerkin væru sjáanleg. Í fyrstu var ætlazt til þess, að skipunu yrði ekki rennt á flot, fyrr en veifan kom upp, en við það urðu svo mikil þrengsli í vörinni, að lá við slysum, og var þessu þá breytt þannig að láta skipin bíða á floti á lónunum, unz merki væri gefið. Jafnframt veifunni var einnig notaður lúður, sem blásið var í til merkis um, að leggja mætti af stað. Var hann einkum notaður í dimmviðri, þoku eða byl. Stundum var farið út úr sundinu og lúðurinn þeyttur til þess að vísa mönnum til lendingar.

Er lagt var af stað í róður og hásetar höfðu raðað sér að skipinu, tóku allir ofan og signdu sig. Allir signdu yfir skipið, hver víð sinn keip, og svo á brjóst sér líka. Voru þá skorður teknar undan skipinu og hlunnað fyrir skipið. Sagði þá formaður: ,,Leggið hendur á í Jesú nafni.” Sneru menn þá bökum að skipinu og ýttu fram. Þegar skipið var að komast á flot, hlupu menn upp í það jafnóðum, er sjór tók að dýpka á þeim, skutbyggjar fyrst og framámenn síðast. Á Stokkseyri var skipinu snúið við strax við land, en í Þorlákshöfn var róið aftur á bak út fyrir vörina, út á Álinn, sem kallað var. Þar var skipinu snúið. Þegar menn voru setztir undir árar, lásu menn á Stokkseyri sjóferðabænina, en í Þorlákshöfn um leið og tekið var til róðrar. Sjóferðabænin var sú hin sama sem prentuð er í Þórðarbænum. Á síðustu áratugum aldarinnar létu menn sér venjulega nægja að lesa Faðir vor.

Þegar sjó brimaði fljótt, sem oft bar við, var sérstakt merkjakerfi notað í landi til þess að gefa skipum, er á sjó voru, til kynna, hvernig sundin höguðu sér. Var það með þeim hætti, að flaggað var á þremur tilteknum stöðum, og höfðu þann vandasama starfa á höndum gamlir formenn eða sjómenn, sem hættir voru að róa. Ef flaggað var heima á Stokkseyri, þýddi það, að sundin væru orðin varhugaverð og menn skyldu hafa hraðan á á sjónum. Ef flaggað var hjá Vestra-Íragerði, skyldu menn skera á lóðirnar og koma tafarlaust í land, en væri flaggað vestur á Nielsenshúsi, gaf það til kynna, að sundin væru ófær og skipunum vísað frá lendingu heima á Stokkseyri. Þess skal getið, að flaggmaður fekk eina krónu af hverju skipi yfir vertíðina fyrir ómak sitt.[note] Þetta er eftir frásögn kunnugra manna á Stokkseyri. Hins vegar misminnir A. J. Johnson um tilhögun flagganna í Fálkanum 26. apríl 1940.[/note]

Stundum brimaði svo skjótt á Stokkseyri, að á skammri stundu sópaði af öllum sundum og menn urðu höndum seinni að ná til lands, þótt stutt væri af miðunum. Þá var Þorlákshöfn þrautalendingin. Gamall formaður, sem þar sótti sjó fyrir aldamót, lætur svo um mælt, að nærri undantekningarlaust hafi fleiri eða færri skip úr brimveiðistöðunum austanfjalls leitað þar nauðhafnar á hverri vertíð, flest frá Eyrarbakka og Stokkseyri, og einnig hafi borið við, að skip lentu þar frá Loftsstöðum og úr Selvogi.[note]Þorlákshöfn I, 35 (Sigurður Þorsteinsson).[/note] Geymzt hafa frásagnir um suma þessa hrakninga, ef þeir urðu mjög almennir eða slys urðu á mönnum. Er þar fyrst að telja hrakning og mannskaða af Jóni stromp árið 1812, sem síðar verður frá sagt, og drukknun Bjarna í Götu og félaga hans í lendingu í Þorlákshöfn 1887, sem verður einnig síðar getið. Í júnímánuði 1861 urðu skip frá Stokkseyri tvívegis að hleypa til Þorlákshafnar, í síðara skiptið 12 að tölu, og náðu þau öll lendingu þar stórslysalaust með hjálp heimamanna.[note]Þjóðólfur, 16. júlí 1861.[/note] Hinn 28. maí 1881 urðu allir bátar, sem á sjó voru frá Stokkseyri, að hleypa til Þorlákshafnar að þremur undanskildum. Tveir af þeim náðu lendingu heima heilu og höldnu, en sá þriðji varð fyrir brotsjó á sundinu, er tók út tvo menn, er fórust þar.[note]Austantórur II, 159-162. [/note] Stórkostlegasti hrakningurinn til Þorlákshafnar varð þó hinn 16. marz 1895. Þá urðu 27 skip frá Stokkseyri, 21 frá Eyrarbakka og eitt frá Loftsstöðum eða alls 49 skip að snúa frá heimalendingu vegna óðabrims og leita til Þorlákshafnar. Þó að þar væri einnig mikið brim, tókst lendingin svo giftusamlega, að ekkert manntjón varð, aðeins nokkrar skemmdir á fáeinum skipum. Lendingu á Stokkseyri náðu þá aðeins 9 skip og tvö hin síðustu með naumindum.[note]Sjá nánara um þetta Þorlákshöfn I, 35-37; Austantórur II, 162-164; Saga Eyrarbakka II, 30-31; Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 281-282. [/note] Þegar Ingvar í Hvíld fórst á Stokkseyrarsundi 2. apríl 1908, urðu 7 skip af þeim, sem þá voru á sjó frá Stokkseyri, að hleypa til Þor. lákshafnar, og lentist þeim þar vel. Loks má geta þess, að 3. janúar 1920 urðu þrír formenn með samtals 27 manna áhöfn, þeir Jón Sturlaugsson, Eyjólfur Sigurðsson og Bjarni Jónasson, að leita nauðlendingar í Þorlákshöfn vegna brims á Stokkseyri, og tókst það allt slysalaust. Hefir Sigurður Eyjólfsson skólastjóri á Selfossi ritað lýsingu af þeim róðri eftir frásögn Daníels Arnbjarnarsonar í Björgvin, sem var einn háseta.[note]Suðurland, 3. des. 1955.[/note]

Leave a Reply