008-Þurrkun landsins

En hér hafa einnig farið fram annars konar landvinningar. Eins og fyrr var sagt, safnaðist fyrir mikið vatn í lægðinni innan við sjávarbakkann og myndaði nær samfelldan vatnaklasa eða flóð eftir endilöngum hreppnum frá Einarshöfn og austur fyrir Skipa. Sum útrennsli þeirra til sjávar höfðu stíflazt af upphlaði frá sjónum, eins og t. d. Háeyrará og Skipaá. Á seinni tímum höfðu flóðin þrjú afrennsli, eitt úr Einarshafnarlónum út í Ölfusá, annað um Hraunsá til sjávar og hið þriðja um Baugsstaðaá austur í Baugsstaðasíki. En þau nægðu engan veginn, voru of grunn til þess að þurrka flóðin, og lá því mikið nytjaland stöðugt undir vatni. Hér þurfti mannshöndin að taka í taumana, annars vegar með því að takmarka aðrennslið ofan af Breiðamýri og hins vegar með því að opna vatninu nýjar leiðir til sjávar.

Fyrsta mannvirkið, sem gert var í þessu skyni og verulega kvað að, var skurður sá hinn mikli, sem gerður var um þvera Breiðamýri á hreppamörkum Stokkseyrarhrepps hins forna og Sandvíkurhrepps á árunum 1885-1887. Nefnist hann Markaskurður og nær austan frá Hróarsholtslæk og alla leið út í Stakkholtsós, sem fellur í Ölfusá á mörkum Óseyrarness og Flóagafls, og er það allt að 15 km. vegalengd. Skurðurinn var fyrst og fremst gerður til þess að verja neðanverða Breiðamýri fyrir vatnságangi ofan að og ef til vill einnig fyrir fénaði. Árið 1909 mældi Sigurður Sigurðsson ráðunautur fyrir endurbótum á Markaskurðinum á um það bil 8 km. svæði. Var skurðurinn þar orðinn mjög saman genginn og uppgróinn. Kostnaður við það verk var áætlaður 2400 kr. Skurðinum hefir jafnan verið haldið við, enda gerir hann ómetanlegt gagn.[note] Búnaðarrit 1910, 71. [/note]

Á fundi í Búnaðarfélagi Stokkseyrarhrepps 30. nóv. 1901 hreyfði Magnús Gunnarsson í Brú því, að þörf væri á að skera skurð frá Kjálkaþúfu suður í Einstigskjaft á mörkum Stokkseyrarhrepps og Gaulverjabæjarhrepps, og á sama fundi bar Júníus Pálsson á Syðra-Seli fram tillögu um, að skorinn væri skurður milli Eyrarbakkahrepps og Stokkseyrarhrepps og byrjað á því að dýpka Hraunsá. Alllöng bið varð þó á þessum framkvæmdum. Sumarið 1908 mældi Sigurður ráðunautur fyrir kömpunum í Hraunsá og gerði þá jafnframt áætlun um kostnað við að gera skurð úr Hraunsá upp Breiðamýri og allt upp í Markaskurð á hreppamörkum, eins og Júníus hafði lagt til. Var þeim skurði ætlað að flytja vatnið, er safnaðist að þjóðveginum frá Eyrarbakka og Stokkseyri til Selfoss, fram til sjávar og vernda hann fyrir skemmdum af vatnságangi. Var verk þetta talið óumflýjanlegt og nauðsynlegt að framkvæma það sem fyrst ásamt upphleðslu Hraunsárkampanna.[note]Sama rit 1909, 92. [/note] Var það unnið á næstu árum. Skurðurinn nefnist Hraunsskurður og er um 4½ km. á lengd og liggur á hreppamörkum skammt fyrir vestan Stokkseyrarselin. Á síðari áratugum og einkum meðan aðalframkvæmdir Flóaáveitunnar stóðu yfir á árunum 1922- 1928 var fjöldi skurða gerður á Breiðamýri innan Stokkseyrarhrepps, bæði áveituskurðir og þurrskurðir, og þar á meðal skurðurinn úr Kjálkaþúfu á austurmörkum hreppsins, svonefndur Kjálkaskurður. Allir eru þeir tengdir við Markaskurð að ofan, beint eða óbeint, en að neðan við læki, stöðuvötn eða flóð, sem skila eiga að lokum afrennslisvatni þeirra til sjávar.

Eftir að Flóaáveitan tók til starfa, streymdi vatnið úr henni svo ört fram, einkum á vorin, að ekki varð hjá því komizt að greiða framrás þess. Fyrsta holræsið, sem gert var í þessu skyni, var lagt gegnum sjávarbakkann í Eyrarbakkaþorpinu árið 1929, og náði það niður í flæðarmál að vel hálfföllnum sjó. Nægði þetta til þess að þurrka upp flóðin bak við þorpið. Annað holræsi var gert í Litla-Hraunslandi árið 1933, og liggur það fram í fjöru hjá Gýgjarsteini. Það hefir þurrkað upp flóðin í Hraunshverfinu. Nokkur bið varð á því, að sams konar framkvæmdir ættu sér stað í Stokkseyrarhverfi, en þess í stað var Hraunsá mokuð upp við og við. Þó hafði hún ekki undan að bera fram allt það vatn, sem safnaðist að. Á árunum 1946-1947 var loks gert holræsi úr Löngudæl hjá Arnhólma gegnum bakkann og beint til sjávar til þess að fá afrennsli fyrir vatnið þaðan, og annað holræsi var gert á árunum 1953-1954, einnig til að þurrka upp Löngudæl. Liggur það úr henni milli Ranakots og Grímsfjósa gegnum kampinn fram í Grímsfjósavik. Bæði þessi holræsi voru kostuð af ríkissjóði. Þau gera mjög mikið gagn og hafa þurrkað upp stórt svæði, sem lá áður undir vatni. Samt anna þau því ekki til fulls, þegar mikið vatn berst að, en það berst nú örar en áður var vegna framræsluskurðanna á mýrunum fyrir ofan. Eftir sem áður er því nauðsynlegt að moka upp Hraunsá og halda henni opinni, enda var hún grafin upp 1960. Þar er við ramman reip að draga, því að í sjávarflóðum berst þari inn í hana og stíflar farveginn, og þótt áin sé hreinsuð, ber sjórinn í hana aftur. Hér þurfa verkkænir menn að finna mótleik, sem dugir.

Framræsla og þurrkun landsins í Stokkseyrarhreppi er önnur mesta jarðabót, sem þar hefir verið framkvæmd. Gagnauðugt land, sem áður lá undir vatni, er nú orðið að túnum og engjum og víðáttumiklar mýrar að nytjalandi. Það er mikils til sama kynslóðin sem sjógarðinn lagði og skurðina skar, sú sama dugmikla kynslóð sem lagt hefir til mestan efnivið í þá söguþætti, sem hér eru skráðir.

Leave a Reply