007-Sjógarður
Ljósmynd: Leonhard Haraldsson

007-Sjógarður

Það var árið 1785, sem Petersen verzlunarstjóri á Eyrarbakka benti fyrstur manna, svo að kunnugt sé, yfirvöldunum á þá hættu, sem verzlunarstaðnum stafaði af sjónum. Varð það til þess, að Steindór sýslumaður Finnsson kvaddi þá um sumarið til 6 skilgóða menn af Eyrarbakka til þess að athuga aðstæður og gera tillögur um sjóvarnir á staðnum. Lögðu þeir til og töldu nauðsynlegt að hlaða sjógarð fyrir framan verzlunarhúsin, 600 álnir á lengd og þriggja álna háan. Eigi var þó hafizt handa um verk þetta að sinni. En veturinn 1787 flæddi sjórinn tvívegis, 18. jan. og 10. marz, umhverfis húsin. Mun það hafa rekið á eftir því, að eitthvað væri að hafazt, og þegar á því ári eða hinum næstu hefir verið byggður fyrsti sjógarðsspottinn á Eyrarbakka, skans sá, sem þar var hlaðinn af stórum steinum, sem sjórinn velti um, svo að ekki sáust minnstu merki til hans, í stóraflóði 1799, að sögn Magnúsar Stephensens. En nú var brugðið skjótt við, og um sumarið og haustið eftir stóraflóð lét Lambertsen verzlunarstjóri hlaða grjótgarð með trjáviðarverki til styrktar sjávarmegin við búðirnar, auk þess sem hann lét hlaða traust virki úr grjóti umhverfis „Húsið“. Þarna hefir sjógarður haldizt síðan, seinna hlaðinn upp og endurbættur, hár og rammbyggilegur. Á næstu áratugum hefir garðurinn verið lengdur austur á við fyrir Skúmsstaðalandi, því að 1840 er hann talinn enda við Gónhól. Hefir þessi elzti garður fyrir landi verzlunarstaðarins þá alls verið um 320 m. langur.

Eftir að Einar Jónsson borgari fór að verzla á Eyrarbakka 1869, byggði hann um 50 m. langan garð fyrir verzlunarlóð sinni fyrir austan Gónhól. Um þær mundir lét og Guðmundur Thorgrímsen verzlunarstjóri lengja sjógarðinn vestur frá búðunum um á að gizka 70 m. Árið 1886 lét Guðmundur kaupmaður Ísleifsson á Stóru-Háeyri byggja sjógarð fyrir sínu landi eftir endilöngum bakkanum, en hann var illa grundvallaður, lagður ofan á lausasand, tvíhlaðinn. Brutu stórflóð skörð í hann og báru grjótið yfir flatir upp undir tjarnir, en Guðmundur lét jafnharðan endurbæta garðinn og gerði hann traustari en áður. Guðmundur fekk verðlaun fyrir ýmsar framkvæmdir í búnaði úr styrktarsjóði Kristjáns konungs IX. árið 1904, og er sjógarðsins í því sambandi getið á þessa leið: ,,Eitt hið stærsta mannvirki hans er garður úr grjóti fyrir öllu Háeyrarlandi, 823 faðmar á lengd, 8 fet á breidd að neðan, 4 fet að ofan og 5 fet á hæð til jafnaðar. Garðurinn hefir stórum bætt land Háeyrartorfunnar og Eyrarbakka yfir höfuð, varnað skemmdum af sjávargangi og sandfoki, og í skjóli garðsins er mjög mikil matjurtarækt.“3

Nú víkur sögunni austur í Stokkseyrarhverfi. Um þær mundir sem Stokkseyrarkirkja var endurbyggð og söfnuðurinn tók við henni 1886, lofuðu sóknarmenn að byggja öflugan sjógarð til varnar kirkjunni, og skoraði Einar Jónsson borgari á þá á safnaðarfundi það ár að efna fljótt þetta loforð. En engar framkvæmdir urðu þó á því verki á næstu árum. Það var ekki fyrr en haustið 1890, að hafin var bygging fyrsta sjógarðsins, sem því nafni má nefna, á Stokkseyri fyrir forgöngu Gríms Gíslasonar í Óseyrarnesi, sem var þá aðaleigandi jarðarinnar. Hefir Bjarni Guðmundsson ættfræðingur lýst þessu verki allnákvæmlega, en hann átti þá heima í Stokkseyrarhverfinu og hefir fylgzt með framkvæmdum af sýnilegum áhuga og hrifningu. Þegar hann hefir skýrt frá sjógarðsbyggingu Guðmundar á Háeyri, heldur hann áfram:

„Annan sjógarð var nú byrjað að láta byggja á Stokkseyri 1890 af jarðareigandanum Grími Gíslasyni á Óseyrarnesi með miklum mannafla úr Stokkseyrarhverfi um haustið og veturinn fram undir þorra. Var lagður grundvöllur. inn meir en 100 faðma á lengd og niður grafinn um 2 og 3 álnir. Garðurinn var á breidd ofan jarðar 6 álnir, og á hæð á hann að vera 5 álnir; enn er eigi meir komið á hæðina en 4 álnir, en víða yfir mannhæð eystri hlutinn, sem er á austurenda garðsins á móts við fjörumörk, skammt fyrir austan kirkjugarð; en lítið hlið er á honum móts við kirkju og annað stórt, sem búið er að mynda vestur við bæinn á Stokkseyri fyrir skipa uppsetning, þá stórflóða er von. Þar er garðurinn grafinn fulla mannhæð niður í jörð, alls staðar 2 álnir á breidd sjávarmegin, og gengur hann jafnt upp beggja vegna með þeim fláa, að hann verður eigi meir en 2 álna þykkur að ofan, í 5 álna hæð ofan jarðar, og er garðurinn snillilega vel hlaðinn og klípur klemmdar í holur, svo að vel mætti kalka hann og sementa. En alldýr mun garðurinn verða, þó hann yrði eigi kalkaður, því það er varla of í lagt, að menn ætla faðmurinn kosti frá 40 til 50 kr. Í garðinum voru verkamenn oft frá 20-30 og stundum yfir 40. Sá þá fyrst, að verkið gekk, þá þeir voru sem flestir, því allt grjót er flutt ofan úr heiði langan veg, fyrst upp rifið úr jörðu með verkfærum, síðan dregið á sleðum, þá akfæri var og ís var yfir Langadæl og snjór á jörðu. En vegna veðuráttunnar voru verkamenn oftast ofan í fjöru, er var mikið skemmri vegur, að sprengja sundur kletta í smærra grjót, sumir að bera það á börum og sumir að hlaða garðinn, og er því meiri partur af grjóti enn sem komið er neðan úr fjörunni. Verkamenn höfðu 15 aura fyrir tímann. Það mátti gott þykja í stytzta skammdegi ársins, þá ekki er að vinna úti við á þeim tíma, og kom sér vel hjá mörgum fátækum manni bæði að borga skuldir og lifa af því.“

Og enn heldur Bjarni Guðmundsson áfram, og eru ummæli hans til marks um það, hve honum og öðrum þótti mikið til þessa mannvirkis koma: ,,Þessi sjógarður á Stokkseyri er eitt ,Það mesta mannvirki, sem byggt hefir verið af sjálfum Íslendingum hér á landi, og einkum ef garðurinn kæmist upp, eins og þörfin útkrefur og menn hafa um talað, að koma honum á endilangan bakka fyrir allt Stokkseyrarhverfið, sem er eigi minna en 1000 faðmar að vegalengd. En vitanlegt er það, að þetta á sér langan aldur, það er að segja mörg ár, og varla, að Grímur Gíslason á Nesi, sem nú er eigandi orðinn að meiri hluta hverfisins, endist til þess, svo heilsuveikur sem hann hefir verið nú í mörg ár. En allan huga mun hann hafa á því að koma áfram garðinum, meðan honum endist aldur til. Og þó það verði ekki meir en þessir 120 faðmar, sem klárað verður að byggja, verður hans nafn fyrir það óafmáanlegt í sögu Íslands fyrir slíkt stórvirki, sem varla getur hugsazt, að geri það stórflóð, að sá garður um koll steypist, þá hann er búinn að ná 5 álnum á hæð og eins þykkur og vandlega hlaðinn sem sagt er, og mun hann seint fá þau verðlaun fyrir garðinn, sem hann með réttu ætti, því nú má hann einn vera um þetta kostnaðarsama verk, síðan hann keypti austurpartinn Stokkseyrar af Einari Jónssyni borgara á Eyrarbakka. En lítið hefir enn verið gert að sjógarðinum á þessu hausti, 1891. Veðurátta varð andstæð, þá byrja átti verkið; svo líka tók hann eigi aðra en þá, sem vinna áttu af sér jarðargjöld og lóðartolla. Lítur því helzt út fyrir, að langur tími líði, þangað til að þessi sjógarður verði albyggður með fullkominni hæð, sem ráð var gert fyrir, þá hann var byrjaður.“Þess má geta, að Grímur í Nesi sótti um styrk til sjógarðsbyggingarinnar til Búnaðarfélags Suðuramtsins, en það synjaði beiðninni ,,meðfram vegna þess, að hluttaka félagsins í svo stórkostlegu fyrirtæki gæti aldrei orðið til neinna muna“.Verki þessu var haldið áfram á næstu árum, unz lokið var við fyrsta spölinn, en síðan var garðurinn lengdur smám saman til austurs og vesturs. Ólafur kaupmaður Árnason keypti Dvergasteina 1898 og lét byggja sjógarð fyrir landi þeirra nálægt aldamótunum. Þannig smábyggðist garðurinn austur eftir, og fyrir eða um 1920 náði hann austur á móts við Hellukot. Nú í dag nær hann austur á móts við Rauðarhóla. Vestan við Stokkseyrarbæ var garðurinn og smálengdur vestur á móts við Kalastaði. Á því svæði er sjávarbakkinn hærri og garðlagning þar var því auðsóttari. Því miður munu ekki tiltækar heimildir um það, hversu garðverkinu í Stokkseyrarhverfi ·skilaði áfram frá ári til árs

Geymzt hafa nokkrar gamansamar vísur eftir Magnús Teitsson í sambandi við sjógarðsvinnuna á Stokkseyri. Þær eru kveðnar fyrir aldamót, líklega árið 1896, og eru á þessa leið:

Hlæjandi ganga menn hamingju mót
og horfa ekki í götin á skónum.
Í Baðstofuklettunum berja þeir grjót,
en borgunin lofast í krónum.

Menn sitja, menn standa, en svo kemur Geir,
og svei mér þá harðnaði glíman.
„Aurana 15 og alls ekki meir
þið eigið með réttu um tímann.“

Og svo líða dagar, og svo líða ár,
menn sofa, menn vaka, menn lifa.
En svo kemur reikningur, svartur og grár,
því Sigurgeir gleymdist að skrifa.

Þegar sjógarður var kominn upp fyrir landi þorpanna á Eyrarbakka og að nokkru á Stokkseyri, óx mjög áhugi manna á samfelldum vörnum fyrir öllu landi frá Ölfusá til Stokkseyrar. Skriður komst á málið 1905 og haldnir um það fundir, en Sigurður ráðunautur fenginn til að mæla fyrir garðstæði. Þetta verk var svo unnið í þremur áföngum á næstu árum.

Fyrst var hafizt handa um byggingu sjógarðsins milli Eyrarbakkaþorps og Ölfusár, þ. e. fyrir landi Einarshafnar og Óseyrarness. Var þeim garði fyrst og fremst ætlað að verja neðanverða Breiðamýri fyrir sandágangi, er mjög hafði farið vaxandi á síðustu árum. Fyrir verkinu stóðu eigendur áðurnefndra jarða, Lefoliisverzlun og Eyrarbakkahreppur, með styrk frá Búnaðarfélagi Íslands og sýslusjóði Árnessýslu. Garður þessi var byggður á árunum 1905- 1907. Hann var talinn 1400 faðmar á lengd, 8 feta breiður neðst og 4 feta efst. Hæðin mun hafa verið um 4 fet, en það reyndist of lítið, svo að hann var hækkaður síðar um 1-2 fet. Nam kostnaður við verkið allt rúmlega 11 þús. kr. f skjóli þessa garðs hafa gerzt kraftaverk. Eigi er þar nú aðeins sandfok með öllu heft, heldur eru þar svartir sandar orðnir að fögru gróðurlendi.

Í annan stað var hafin bygging sjógarðsins fyrir landi Hraunshverfis, þ. e. frá Háeyrarmörkum austur að Hraunsá. Gengust eigendur jarðanna í hverfinu fyrir því verki, líklega með lítils háttar opinberum styrk, en sjálfir lögðu þeir fram mikla vinnu og fyrirhöfn, svo serri Símon bóndi Símonarson á Gamla-Hrauni. Garðurinn var byggður á árunum 1906-1909. Hann var talinn 900 faðmar á lengd, 8 fet á breidd að neðan og 4 fet að ofan, en hæðin 4 fet til jafnaðar. Kostnaður var áæt1aður alls 7620 kr. Þessi garður var fyrst og fremst byggður til varnar gegn sjávarflóðum og þeirri eyðileggingu á landi, sem þau hafa í för með sér.

Í þriðja lagi var unnið að sjógarðinum fyrir vestanverðu Stokkseyrarlandi, þ. e. frá Kalastöðum og út að Hraunsá. Það verk var unnið á vegum hlutafélagsins „Njarðar“, sem síðar verður getið. Garður sá var lagður á árunum 1907-1910. Hann var talinn 900 faðmar á lengd, 8-10 fet á breidd að neðan og 4 fet að ofan, en hæðin 4-6 fet. Kostnaður við hann var áætlaður rúmlega 8000 kr. Þetta var einnig fyrst og fremst sjóvarnargarður. Báðum megin Hraunsár enduðu garðarnir í kömpum miklum, 12-13 feta breiðum að neðan og 8-9 feta háum. Voru þeir steinlímdir sjávarmegin og að ofan og mikið mannvirki.Þótt sjógarðarnir væru traustbyggð mannvirki, var þeim allhætt í sjávarflóðum, meðan þeir voru nýir og ekki hafði hlaðizt að þeim. Þannig brutu flóðin 1913, 1916 og 1925 stór skörð í þá og ollu ýmsum skemmdum, eins og áður er minnzt á. En jafnan hefir verið hlaðið upp í skörðin aftur, og á síðustu áratugum hafa garðarnir staðið óhaggaðir. Víða hefir hlaðizt svo mikill sandur að þeim sjávarmegin, að nærri er jafnhátt garðinum sjálfum, og er honum þá lítil hætta búin. Við upphleðsluna hefir sjávarbakkinn hækkað og vörnin gegn sjónum vaxið að sama skapi, en landið fyrir innan fengið næði til að gróa og fólkið frið til að yrkja jörðina. Sjógarðurinn er í heild sinni mesta jarðabót, sem gerð hefir verið í Stokkseyrarhreppi hinum forna, enda mesta mannvirki sinnar tegundar hér á landi. Þegar þess er gætt, við hve erfiðar aðstæður þetta verk var unnið, bæði um öflun efnis, aðflutning og vinnubrögð, allt með gömlum, frumstæðum verkfærum og mannshöndinni einni, þá er sjógarðurinn stórvirki og afreksverk. Kynslóðin, sem vann það verk, hefir með því reist sér staðfastan minnisvarða í átthögunum.

Leave a Reply

Close Menu