052-Sund og lendingar

Brimsundin á Stokkseyri hafa verið hin sömu frá ómunatíð og engum teljandi breytingum háð þrátt fyrir ágnauð sjávar og veðra. Um sundin lá leiðin út á miðin og aftur heim að róðri loknum. Þau voru þröngi vegurinn til bjargræðis og oft hið mjóa bil milli lífs og dauða. Allir formenn urðu að þekkja sundin út í æsar, sundmerki og kennileiti á þeim, vita kosti þeirra og galla og kunna nákvæm skil á því, hvert færilegast væri eftir veðri og sjó. Lýsing sunda og lendinga hér á eftir er miðuð við tíð áraskipanna. Eru nú mörg þeirra sundmerkja, sem við var miðað, fallin niður. Sum af sundunum voru mjög sjaldan notuð á vertíð og naumast þess á milli, nema sérstaklega stæði á, enda ekki fær nema í ládeyðu. Merkustu og tíðförnustu sundin voru fram undan sjálfu Stokkseyrarhverfinu, þ. e. Stokkseyrarsund og Músarsund. Þar hafa og flest slys orðið og langflest þó á hinu fyrrnefnda.

Bjarnavörðusund heitir vestasta sundið í Stokkseyrarfjöru. Bjarnavarða stendur á sjógarðinum mitt á milli Kalastaða og Hraunsár. Merkin á sundinu voru þau, að varðan átti að bera í austuröxlina á Ingólfsfjalli, þegar inn var farið, en það var aldrei nema brimlaust væri. Þegar inn úr sundinu korn, þá var farin sjónhending austur fjörur og inn í Stokkseyrarlendingu, en þessa leið fóru engir nema kunnugir menn.

Stokkseyrarsund er niður undan Kalastöðum og er þrautasundið á Stokkseyri. Sundvarðan og sundtréð standa á bakkanum fyrir vestan Kalastaði, varðan nær sjó. Þegar að Stokkseyrarsundi er komið, skal ekki liggja grynnra en svo, ef um brim er að ræða, að verzlunarhúsin í Einarshöfn á Eyrarbakka áttu að bera í Efri-Meitilinn, sem er næsti hnúkur fyrir framan Skálafell á Hellisheiði. Eins má hafa jafnáreiðanlegt mið á austurbóginn, en það er, að bærinn á Baugsstöðum á að bera í innsta hnúkinn á Þríhyrningi á Rangárvöllum. Eigi skal liggja austar eða vestar en svo, að varðan og tréð beri saman. Þegar komið er það inn á sundið, að bærinn Gerðar ber í Heklu, er kallað, að komið sé inn á Miðboða. Þá má tréð ganga það austur, að það jaðri við vörðuna, og þeim merkjum skal halda þar til tréð í heygarðinum í Götu ber í tréð, sem stendur á sjógarðinum fyrir framan Sæból. Þá er beygt í austur, og er það kallað „að beygja fyrir Snepilinn.“ Síðan er haldið austur lónið fyrir austan Sundskerið og austur á milli Skæla. Merki þar á milli eru, að Stóra-Hraun átti að bera í Skálafell. Áfram er svo farið austur og innan við vörðuna á Skarfsskeri. Þá er beygt heldur inn á við vestan við Leiðarsker og siglt inn Dyrós. Merki á honum var, að strompurinn á Bakaríinu[note]Þar er nú Þurrkhús Stokkseyrar.[/note] skyldi bera í Hlaupóstréð, sem er tré með þríhyrndum hlemmi, er stendur á Vestri-Móhúsatúni. Úr Dyrós er haldið beint inn í lendinguna.

Síðan 1640 hefir 11 sinnum orðið manntjón á Stokkseyrarsundi, sem kunnugt er um. Á síðari áratugum er það eina sundið á Stokkseyri, sem notað er, auk Hlaupóssins. Hafa þar verið gerðar miklar lagfæringar á innsiglingunni, rásirnar í sundinu dýpkaðar og breikkaðar, en vörður reistar til leiðarvísunar. 1Frá þeim framkvæmdum er skýrt hér á öðrum stað.

Hlaupós er austan til við Stokkseyrarsund. Þegar legið er fyrir utan ósinn, þá á að liggja á sömu djúpmiðum og við Stokkseyrarsund og hvorki austar né vestar en svo, að Hlaupóstréð á Vestri-Móhúsatúni beri í vesturhornið á Félagshúsinu.[note] Þar er nú Hraðfrystihús Stokkseyrar.[/note] Þegar kemur inn úr ósnum, er beygt vestur á við í svonefnda Klofarás. Merki á henni eru þau, að tréð á sandinum fyrir framan Unhól á að bera í gaflinn á Sandfelli. Síðan er haldið inn á við vestan við Leiðarsker og inn í Dyrós, og eru merki á honum áður nefnd. Þaðan er svo haldið beint inn í Stokkseyrarlendingu. Stundum var einnig farið sjónhending fyrir austan Leiðarsker.

Á Hlaupósnum drukknuðu m. a. Jóhann Bergsson á Stokkseyri 1852 og Bárður Diðriksson 1896. Talið er og, að Guðbergur Grímsson frá Móakoti hafi farizt þar árið 1917.

„Læðan“ og „Fressið“ eru sund vestan við Trölllendur, en voru ekki notuð nema stöku sinnum til þess að stytta sér leið, þegar brimlaust var. Merki á „Fressinu“ er Beinateigur í Hamarinn á Ingólfsfjalli, en á „Læðunni“ átti þurrkhjallurinn vestan undir Götu að jaðra við Hesteyru. Hjallur þessi er nú ekki lengur til, en í hans stað er vesturhornið á Strönd notað sem mið.

Músarsund er austan við Trölllenduhala og er annað aðalsundið á Stokkseyri. Merki á því eru, að tré í Stáli skal bera í vörðu, sem er á hábakkanum fyrir vestan Vestra-Íragerði. Þegar að Músarsundi er komið, á ekki að liggja grynnra en svo, að Loftsstaðahóll beri í dýpsta fallið, sem sjórinn tekur á Oln. boganum, og hvorki austar né vestar en svo, að Stálstréð og áðurnefnd Íragerðisvarða beri saman. Þegar inn fyrir stóru flúðina er komið, sem er fremsta skerið austan við sundið og taki þá stórt fall í flúðina, er bezt að halda beint undan sjónum, en fara þó ekki vestur af merkjum. Þannig skal halda, þar til er sundvarðan á Stokkseyrarsundi er komin það nærri Kerlingarbergi, að klyfja. fært sé á milli. Er þá stefnt á Eystra-Íragerði inn í Íragerðislendingu, austan við Grasasker, inn Veiðihellu, Krókós og Gjáóslón, og er þá komið inn í lendinguna. Sé lágsjávað, er farið inn Kjarnalág, Helluós, Illós, Borgarós, austur Látralón, inn Gjáós og Gjáóslón, og þá er haldið beint inn í lendinguna.

Þá er að segja frá leiðinni frá Músarsundi vestur í Stokkseyrarlendingu.

Þegar inn úr sundinu er komið, er beygt vestur á bóginn. Þegar sundvarðan á Stokkseyrarsundi er komin það nærri Kerlingarbergi, að klyfjafært sé á milli, skal halda þeim merkjum, unz kirkjan ber í austuröxlina á Ingólfsfjalli, og er þá komið að svonefndri Kirkjulág. Þegar inn úr henni kemur, er farið austan við Dísutanga inn Kötluósa, inn hjá Skítatanga og Hallsrauf inn í lendinguna. Ef farið er Trölllendurif, er farið fyrir vestan Dísutanga og svo sömu leið inn í lendinguna. Fyrir vestan Músarsund eru Trölllendur, Setur, Setuklettur, Gerðahlein, Steinkuós og Þríklakkur.

Á Músarsundi fórust m. a. þeir Sigurður Grímsson í Borg 1891 og Torfi ikulásson í Söndu árið 1897, báðir með allri áhöfn.

Olnbogi er enn sund. Merki á honum eru Kumbaravogur í Hesteyru. Þegar inn fyrir kemur, er leiðin mjög krókótt og lítið farin, nema brimlaust sé, og þá aðeins af kunnugum.

Lónsós er austasta brimsundið í Stokkseyrarfjöru og er fyrir framan VestriRauðarhól. Merki á honum eru fyrir löngu fallin niður, en þau voru byrgi eða tóft, sem var á bakkanum fyrir framan Vestri-Rauðarhól og hét Lónsósbyrgi, og átti það að bera í Hamarinn á Ingólfsfjalli.

Stjörnusteinasund er austan við Langarif, sem er í mörkum milli Traðarholts og Stokkseyrar. Var það jafnan mjög lítið farið, og sundmerki voru þar engin. Ætlað er, að það sé þetta sund, sem kallað er Hásteinssund í Landnámu, þar sem Hásteinn landnámsmaður braut skip sitt.

Magnúsarós er í Skipafjöru, og eru merki á honum þau, að grjótvarða á sjávarbakkanum suður af Skipum átti að bera í há-Búrfell.

Elínarsund er einnig í Skipafjöru, litlu vestar. Merki á því eru þau, að bátaréttin, sem stóð á bakkanum suðvestur af Skipum átti að bera í austuröxlina á Ingólfsfjalli. Þessi tvö síðastnefndu sund voru notuð frá Skipum bæði haust ogvor.

Knarrarós er í Baugsstaðafjöru vestan til við Fornu-Baugsstaði. Hann nefndist í fornöld Knarrarsund og er getið sem skipahafnar í Landnámu, Droplaugarsonasögu og Flóamannasögu. Merki á honum eru grjótvarða vestast á Baugsstaðakampi, sem átti að bera mitt á milli Búrfells í Grímsnesi og lngólfsfj alls, þar til Mávaklettur, sem er á fjörumörkum Baugsstaða og Skipa, ber í austuröxlina á Ingólfsfjalli. Var þá beygt til útnorðurs og síðan farin sjónhending, en aðeins af kunnugum. Þetta sund notaði Þuríður formaður, er hún sótti sjó frá Traðarholti, og setti skip sitt upp á Þuríðarhellu, sem við hana er kennd síðan.

Einu sinni hleypti Sigurður Eyjólfsson á Kalastöðum inn í Knarrarós upp á líf og dauða. Þegar hann var kominn nokkuð inn í sundið, lagðist stór selur í kjölfar hans, hélt sér í öldubrotunum og lét sjóina brotna á sér. Taldi Sigurður, að með þessu hefði selurinn bjargað bæði skipi og mönnum.[note]Ísl. sagnaþ. og þjóðs. VIII, 108-109; X, 25-27.[/note]

Selós er í mörkum milli Baugsstaða og Loftsstaða. Hann var stöku sinnum notaður fyrir sund, þegar ládauður var sjór. Sundmerki hafa þar engin verið, svo að menn viti til.

Tunguós heitir brimsund nokkru austar, milli Baugsstaða og Loftsstaða, kenndur við Tungu í Bæjarhreppi. Var hann notaður þaðan og sömuleiðis frá Baugsstöðum og Hólum, meðan útræði var stundað af þessum bæjum. Nokkur olnbogi er á ósnum, en annars er leiðin ekki vandrötuð. Arnór Erlendsson Lölukoti ( 1759-1821) reisti eða endurbyggði sundmerki á Tunguósi, en þau eru fyrir löngu niður fallin. f brimi urðu menn oft frá að hverfa. Kunnugt er um eitt skip, sem farizt hefir á Tunguósi. Það var Einar Benediktsson í Hólum árið 1810.

(Aðalheimildarmaður Guðjón Jónsson, Vestri-Móhúsum; sbr. enn fremur Oddur V. Gíslason: Leiðir og lendingar í fiskiverum Íslands 1, Rvík 1890).

Leave a Reply