Það lætur nærri, að telja megi á fingrum sér þá menn, sem nafngreindir eru í heimildum í Stokkseyrarhreppi á landnáms- og söguöld. Er þar fyrst og fremst um að ræða niðja landnámsmannanna Hásteins á Stokkseyri og Hallsteins á Framnesi. En þótt fátt sé kunnugt um hinar fyrstu kynslóðir þar í byggð, er það nóg til þess, að sjá má, að heldur hefir verið þar róstusamt sem víða annars staðar á þeim tímum. Um Arngrím á Framnesi, sonarson Hallsteins, er sagt, að hann hafi verið veginn að fauskagrefti, þ. e. að líkindum að mótaki. Ekki er annað frekara um þann atburð sagt, hvorki um tildrög hans né afleiðingar, og hefir þar eitt söguefni af mörgum farið forgörðum. Miklu tíðari gerðust þó vígaferlin með niðjum Hásteins, og virðast þau hafa fylgt þessari merkilegu ætt hingað til lands.
Atli Hásteinsson í Traðarholti erfði bæði föður sinn og Ölvi, bróður sinn, að löndum og lausum aurum og var mikils háttar maður, eins og hann átti kyn til. Hann lenti í hatrömmum deilum við Hrafn Þorvíðarson, mág Özurar í Kampaholti, út af arfi eftir leysingja Özurar. Hrafn var garpur mikill. Hann sat fyrir Atla, og fundust þeir í Orrustudal nálægt Önundarholti og börðust þar. Varð Atli sár til ólífis og reið heim af fundinum og andaðist þar. Þessir atburðir eru taldir hafa gerzt nokkrum árum áður en alþingi var stofnað eða um 926 að tali Guðbrands Vigfússonar. Hlaut Atli þannig líkan dauðdaga sem föðurfaðir hans, Atli jarl á Gaulum.
Atli Hásteinsson átti einn son, þann er Þórður hét og var kallaður dofni. Hann var aðeins 9 vetra, er faðir hans var veginn. En er hann var 15 vetra gamall, hefndi hann föður síns. Hann sat einn fyrir Hrafni hjá Haugavaði, er Hrafn reið heimleiðis um nótt frá skipi í Einarshöfn, og vó hann þar með spjóti. Hrafn var heygður í Hrafnshaugi norðan götunnar við vaðið, sem enn má sjá, en sunnan götunnar voru haugar þeirra feðga, Hásteins, Atla og Ölvis, og verður þessara fornminja síðar getið.
Þórður dofni óx af þessu verki og hefir nú tekið við búi og staðfestu í Traðarholti. Hann fekk Þórunnar, dóttur Ásgeirs Austmannaskelfis, er svo var kallaður af því, að hann hafði drepið skipshöfn Austmanna í Grímsárósi fyrir rán það, er hann var ræntur í Noregi. Þess hefir verið getið til, að Ásgeir þessi sé sami maður sem Ásgeir Úlfsson í Úthlíð, tengdasonur Ketilbjarnar hins gamla að Mosfelli, og hefðu þá með kvonfangi Þórðar tengzt tvær hinar göfugustu landnámsmannaættir í Árnesþingi. Þegar Þórður hafði tvo um tvítugt, keypti hann skip í Knarrarsundi og bjóst til utanfarar til þess að heimta arf sinn í Noregi. Hefir það annaðhvort verið arfur Þórunnar, konu hans, eða hluti af eignum þeim, er Hásteinn, afi hans, hafði orðið að yfirgefa, þá er hann fór til Íslands fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra. Minnir þetta á arfheimtur Egils Skalla-Grímssonar á hendur Noregsmönnum og sýnir kapp og stórhug Þórðar. Áður en hann fór, fól hann mikið fé í jörðu gegn vilja konu sinnar, og neitaði hún þá að fara með honum utan, en tók við löndum þeirra og búi. Þau áttu einn son, er Þorgils hét og var tvævetur. Skip Þórðar týndist í hafi, og spurðist aldrei til þess síðan.
Þórunn húsfreyja tók til ráða með sér þann mann, er Þorgrímur örrabeinn hét, og fekk hann hennar. Þeirra sonur var Hæringur, sem Hæringsstaðir eru við kenndir. Þorgrímur var ættgöfugur maður og mikils háttar, sonur Þormóðar, sem heimildir gera enga nánari grein fyrir, og Þuríðar Ketilbjarnardóttur frá Mosfelli. Það varð til tíðinda um Þorgrím, að hann lagði hug á Áshildi, ekkju Ólafs tvennumbrúna á Ólafsvöllum, þess er nam Skeið öll, og vandi komur sínar til hennar. Helgi hét einn sonur Áshildar, og vandaði hann um komur Þorgríms. En er Þorgrímur fór sínu fram sem áður, sat Helgi fyrir honum við gatnamót fyrir neðan Áshildarmýri og bað hann enn láta af komum sínum. En Þorgrímur svaraði því einu til, að hann lézt ekki hafa barna skap. Veitti Helgi honum þá atgöngu, og féll Þorgrímur þar. Þegar Áshildur spurði vígið, kvað hún Helga hafa höggvið sér höfuðsbana.
Það kom nú aftur í hlut Stokkseyringa að hefna fyrir föðurvíg. Hæringur, sonur Þorgríms, var 16 vetra gamall, er þessir atburðir gerðust. Hann hafði spurnir af, að Helgi, föðurbani hans, ætlaði að taka sér far utan með skipi á Eyrum til þess að umflýja hefndimar. Fekk hann þá til liðveizlu við sig Teit Ketilbjarnarson, frænda sinn. Þeir riðu 15 saman að banna Helga far. Þeir fundust í Merkurhrauni neðst á Skeiðum, og voru þeir Helgi þrír saman, komnir af Eyrum. Þeir börðust, og féll þar Helgi og maður með honum, en einn af þeim Teiti. Þar heitir síðan Helgahóll. Spá Áshildar hafði rætzt. En hér með lýkur vígslóða hinna fornu Stokkseyringa. Þessir atburðir, fall Þorgríms örrabeins og hefndir eftir hann, hafa að líkindum gerzt um 960 eða litlu síðar.[note]
Um þessar frásagnir sjá Íslendinga sögur I, 221-224, Sbr. Bólstaði o.s.frv., 175-177. Nýlega hefir Björn Sigfússon háskólabókavörður ritað fróðlega grein um Þorgrím örrabein og sögu hans: Hver Ingva ættar skyldi með Óðni fara? (Saga II, 404-428).
[/note]
Um þessar mundir var Þorgils örrabeinsstjúpur, eins og hann var kallaður af viðurnefni fóstra síns, sonur Þórðar dofna Atlasonar, orðinn fullvaxta maður. Þorgils er, eins og kunnugt er, aðalsöguhetjan í Flóamannasögu, og eru þar af honum langar frásagnir, enda hefir sagan stundum verið kennd við hann. Flóamannasaga er söguleg skáldsaga. Hún styðst í sumum greinum við gamlar heimildir, t. d. er augljóst, að hún hefir þegið mikið efni frá Sturlubók Landnámu. [note]Sbr. ritgerð mína, Flóamanna saga og Landnáma í Afmælisriti helguðu, Einari Arnórssyni, Rvík 1940, 126-134. [/note] Einnig er líklegt, að höfundurinn hafi notað fleiri ritheimildir, sem nú eru ókunnar, einkum mannfræðilegs efnis, en um sumt kann hann að hafa stuðzt við munnmælasögur. Á hinn bóginn bera margar frásagnir sögunnar merki þess að vera skáldskapur einn, svo sem flest eða allt það, sem sagt er frá utanförum Þorgils og ævintýrum hans í þeim ferðum, þar á meðal Grænlandsför hans. Sagan er í tveim gerðum, A-gerð, sem mun vera stytt, og B-gerð, sem er upphaflegri.[note]Sjá ritgerð Björns Sigfjússonar, Tvær gerðir Flómanna sögu, Saga II, 429-451. [/note] Samkvæmt framansögðu er hæpið að byggja of mikið á frásögnum Flóamannasögu, þar sem hún er ein til vitnis. Víst má þó telja, að Þorgils hafi tekið við föðurleifð sinni í Traðarholti og verið stórbóndi og mikils metinn í héraði, enda má leiða fleiri vitni en Flóamannasögu því til sönnunar, að Þorgils hafi verið með höfðingjum talinn, og skal hér getið hins helzta, er til þess bendir.
Í Flóamannasögu er talið, að Þorgils hafi verið þríkvæntur. Það, sem segir frá fyrsta kvonfangi hans erlendis, verður að álítast einber tilbúningur höfundarins. Um annað kvonfang hans er sagan ein til frásagnar, og er þar margt grunsamlegt í, svo sem um ætterni konunnar, utanför hennar með Þorgilsi til Grænlands og andlát hennar þar með þeim atburðum, er þar að gerðust. Dóttir Þorgils og þessarar konu er talin Þórný, er gefin var Bjarna spaka í Gröf í Ytrihrepp Þorsteinssyni goða. Þetta kann söguhöfundur að hafa úr einhverri góðri heimild, sem nú er glötuð, en um það verður ekkert sagt með vissu. En sé þessi frásögn rétt, hefir Þorgils tengzt einni ágætustu ætt, niðjum Þormóðar skafta, með giftingu dóttur sinnar. Loks segir sagan, að þriðja kona Þorgils hafi verið Helga, dóttir Þórodds goða á Hjalla í Ölfusi og systir Skafta lögsögumanns. Þetta hefir söguhöfundur haft úr einhverri ókunnri heimild, því að frá kvonfangi Þorgils er ekki sagt í þeirri Landnámugerð (Sturlubók), sem hann hefir vissulega notað. En þetta er einmitt eina kvonfang Þorgils, sem öruggar heimildir eru um, Biskupaættir og Landnámabók Hauks lögmanns, sem rekur ættir sínar til Þorgils og Helgu.[note]Íslendinga sögur I (1843); Landnámabók, Kh. 1900, 115-123. [/note] Mægðir Þorgils við Hjallamenn, hina mikils metnu goðorðsmenn Ölfusinga, tala sínu skýra máli um það, að hann hefir sjálfur verið mikils metinn héraðshöfðingi. Rétt hlýtur það og að vera, sem í sögunni segir, að með þeim Þorgilsi og Helgu hafi verið mikill aldursmunur, en ætt hans, auður og mannvirðingar hafa orðið þyngri á metunum en miseldrið.
Í norsku sagnariti eftir Þjóðrek munk, sem nefnist Um konunga Norðmanna að fornu og ritað er á latínu um 1180, eru fjórir Íslendingar nafngreindir meðal þeirra, sem skírast létu til kristinnar trúar af Þangbrandi presti (á árunum 997-999): Hallur af Síðu, Gizur í Skálaholti, Hjalti úr Þjórsárdal og Þorgils úr Ölfusi.[note] Monumenta historica Norvegiæ, Kria 1880, 20; Saga II, 488-489. [/note] Heimildarmenn Þjóðreks munks að þessu sem mörgu fleira í sögu hans hafa verið íslenzkir. Hver er Þorgils úr Ölfusi? Annaðhvort Þóroddur goði á Hjalla og mannsnafnið þá skakkt eða Þorgils örrabeinsstjúpur og staðarnafnið hefir þá ruglazt. Um þetta eru skiptar skoðanir.[note] Sjá m.a. Gustav Storm í skýringu við útg. af Monumenta o.s.frvl, 20; B. Th. Melsteð, Íslendinga saga Ii, 357-358; Jón Jóhannesson, Íslendinga saga I, 156-157; Björn Sigfússon, SAGA II, 445 Neðanmáls. [/note] Sennilegra tel eg, að mannsnafnið sé rétt og átt sé við Þorgils örrabeinsstjúp. Um staðinn var mjótt á mununum, og það því fremur sem Þorgils var mægður Ölfusingum. Þetta fær og stuðning af Flóamannasögu á tvennan hátt. Sagan segir, að Þorgils hafi dáið á Hjalla og sé þar grafinn. Eru það kannske óljósar endurminningar um, að hann hafi dvalizt í Ölfusi síðustu æviár sín? Í öðru lagi segir sagan, að Þorgils hafi tekið kristni í fyrra lagi og hefir margt að segja frá trúskiptum hans og viðskiptum við Þór. Felast ekki í því endurminningar um skírn Þorgils, áður en kristni var lögtekin hér á landi? Sé það rétt, sem hér er haldið fram, að Þorgils úr Ölfusi sé sami maður sem Þorgils örrabeinsstjúpur, þá er það enn órækt vitni um frægð hans og metorð. Honum er skipað á bekk með mönnum eins og Halli af Síðu, Gizuri hvíta og Hjalta Skeggjasyni, en um alla þá leikur mikill frægðarljómi í sögum vorum, eins og alkunnugt er.
Þorgils örrabeinsstjúpur varð mjög kynsæll maður. Með honum byrjar einstofna ætt Hásteins Atlasonar landnámsmanns að kvíslast og smám saman að breiða sig út með fögru limi.
Að líkindum fer Flóamannasaga rétt með það, að kona Bjarna hins spaka hafi verið dóttir Þorgils. En sonur Bjarna og hennar var Skeggi, faðir Markúss lögsögumanns. Hungurvaka segir, að Markús hafi verið hinn mesti spekingur og skáld, og Kristnisaga, að hann hafi verið vitrastur lögmanna á Íslandi, annar en Skafti.[note] Biskupa s. I, Rvík, 1948, 11; Íslendinga sögur I, 275. [/note] Hann átti hlut að setningu tíundarlaganna 1097 með Gizuri biskupi og Sæmundi fróða og gegndi lögsögumannsembætti í 24 ár (1084- 1107). Dóttir Markúss lögsögumanns var Valgerður, móðir Böðvars Þórðarsonar í Görðum, en dóttir Böðvars var Guðný, kona Hvamm-Sturlu Þórðarsonar, en synir þeirra ‘voru hinir nafnkunnu bræður Þórður, faðir Sturlu sagnaritara og Ólafs hvítaskálds, Sighvatur, faðir Þórðar kakala, og Snorri sagnaritari í Reykholti.
Af börnum Þorgils og Helgu Þóroddsdóttur frá Hjalla skulu hér aðeins nefnd tvö, sem kunnugt er um ættir frá og urðu mjög kynsæl.
Jórunn Þorgilsdóttir átti fyrr Gelli, son Runólfs goða í Dal, en síðar Leif Erlingsson Reyni-Bjarnarsonar landnámsmanns í Mýrdal. Frá þeim Jórunni og Leifi var kominn Þorlákur biskup helgi í þriðja lið, Páll biskup Jónsson í fjórða og Jörundur biskup Þorsteinsson í sjötta lið. Nefna mætti marga aðra þá frændur göfga, en blómi ættarinnar munu hinir virðulegu kirkjuhöfðingjar hafa verið taldir, og þá einkum og sér í lagi hinn helgi Þorlákur biskup, dóttursonarsonur Jórunnar Þorgilsdóttur.
Grímur Þorgilsson, er kallaður var glömmuður, og niðjar hans munu hafa búið neðan til í Flóa á ættleifðum feðra sinna og öðrum stórbýlum og verið merkir menn, þótt ekki komi þeir við sögur um skeið. Sonur Gríms var Ingjaldur, faðir Gríms, föður þeirra Barkar á Baugsstöðum og Einars í Kaldaðarnesi, er bjuggu á þessum höfuðbólum við metorð og virðingar um aldamótin 1200 og þar um kring. Dóttir Barkar var Ragnhildur, kona Flosa prests Bjarnasonar á Baugsstöðum, en meðal dætra þeirra var Valgerður, móðir Erlends lögmanns sterka, föður Hauks lögmanns, er gerði hið merka safnhandrit Hauksbók, og Jóns á Ferjubakka, forföður Erlendunga og fleiri merkra miðaldaætta. Dóttir Einars í Kaldaðarnesi, bróður Barkar á Baugsstöðum, var Hallkatla, kona Hrafns Sveinbjarnarsonar læknis og goðorðsmanns á Eyri í Arnarfirði, er síðan var nefnd Hrafnaeyri. Dætur þeirra voru Herdís og Steinunn. Herdís var móðir Sveinbjarnar, föður herra Eiríks, föður Bjarnar Jórsalafara, en Steinunn var móðir herra Hrafns Oddssonar hirðstjóra og Herdísar, móður Bjarnar, föður Gizurar galla í Víðidalstungu, föður Hákonar, föður Jóns í Víðidalstungu, er lét gera hin frægu söguhandrit Flateyjarbók og Vatnshyrnu.
Af þessari stuttu upptalningu má marka, að miklar og merkilegar ættir eru frá Stokkseyringum hinum fornu komnar. Má og rekja þær á marga vegu til þeirra manna, sem nú lifa.