Áður en skilizt er við sögu þessa, skal hér að lokum segja nokkuð frá Stokkseyringafélaginu í Reykjavík og starfsemi þess. Þegar þess er gætt, að Stokkseyringafélagið er myndað af útflytjendum úr aðeins einu hreppsfélagi til höfuðstaðarins, er það í rauninni undravert, hve miklu það hefir komið í verk. Ekkert nema einhuga bjartsýni og dugnaður samfara fölskvalausri ást til ættbyggðarinnar hefðu getað lagt fram slíkt starf eða staðið undir slíkum framkvæmdum sem Stokkseyringafélagið hefir gert.
Tímabil átthagafélaganna hefst á fjórða tug þessarar aldar. Undirrótin að stofnun þeirra og þróun var hin mikla bylting í atvinnuháttum þjóðarinnar, sem sigldi í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar og hafði í för með sér stórkostlega fólksflutninga úr sveitum landsins til kaupstaðanna, einkum þó til Reykjavíkur. ,,Árið 1930 voru t. d. aðeins 38.7 af hundraði bæjarbúa fæddir í Reykjavík, hinir allir innfluttir. Margt af hinu innflutta fólki hélt að sjálfsögðu sambandi og kunningsskap sín á milli eftir héruðum, eftir að það fluttist í hin nýju heimkynni, og þótt það gerðist nýtir og góðir borgarar hinnar uppvaxandi höfuðborgar, héldust tengslin við átthagana, eftir því sem ástæður leyfðu. Þangað var oft helzt traust að sækja á hinum erfiðu krepputímum, sem þá gengu yfir land vort. Þannig beindu ytri, sögulegar aðstæður mönnum ósjálfrátt inn á braut samtaka og félagsskapar og þjöppuðu þeim saman.“[note]Guðni Jónsson: Afmælisræða á 25 ára afmæli Árnesingafélagsins í Reykjavík. Árnesingabók, 249.[/note]
Árnesingar í Reykjavík urðu til þess að ríða á vaðið með stofnun átthagafélags. Slíkt var ekki nema eðlilegt, því að þeir voru miklu fjölmennastir af aðfluttum bæjarbúum og höfðu auk þess haldið uppi mótum í allmörg ár. Árið áður en félagið var stofnað, töldust rúmlega 3000 af íbúum Reykjavíkur fæddir í Árnesþingi, en það svaraði til þess, að 10.-11. hver bæjarbúi væri Árnesingur. Árnesingafélagið í Reykjavík var stofnað 27. maí 1934, en á næstu árum spratt upp hvert átthagafélagið af öðru, og hafa mörg þeirra innt af höndum merkilegt menningarstarf. Utan Reykjavíkur voru stofnuð Árnesingafélög á tveim stöðum: í Vestmannaeyjum 1939 og í Keflavík 1947, og starfa þau enn í dag.
Ef litið er á aðflutning manna til Reykjavíkur úr einstökum byggðarlögum í Árnesþingi, verða þorpin á Eyrarbakka og Stokkseyri ofarlega á blaði. Þeir, sem þaðan komu, höfðu nokkra sérstöðu að því leyti, að milli þeirra var tiltölulega nánara samband og meiri kunnleikar en á milli þeirra, sem komu úr dreifbýli, þeir fundu meira til samstöðu sinnar í hinum nýju heimkynnum. Leiddi þetta til þess, að stofnuð voru sérstök félög þeirra, er flutzt höfðu suður úr þorpunum austanfjalls: Eyrbekkingafélagið 1940 og Stokkseyringafélagið 1943; þar við bættist svo Félag Biskupstungnamanna 1944. Þessi félög voru vitaskuld ekki stofnuð til höfuðs Árnesingafélaginu í Reykjavík, heldur var gert ráð fyrir því, að félagsmenn í þeim væru eða gætu eftir sem áður verið félagar í Árnesingafélaginu. Margir hafa líka gert það og unnið þar gott starf, en þó verður því ekki neitað, að þessi tilhögun hefir háð Árnesingafélaginu og dregið nokkuð úr vexti þess og viðgangi. Á hitt er svo aftur að líta, að sérfélögin hafa hvert um sig getað náð betur til sinna manna og þau hafa unnið ýmis nytjastörf, sem sum hver hefðu farizt fyrir, ef félaganna hefði ekki við notið.[note]Stutt ágrip af sögu félaganna eftir Jón Gíslason er í Árnesingabók, bls. 230-235. [/note]
Aðalhvatamaður að stofnun Stokkseyringafélagsins var Sturlaugur Jónsson stórkaupmaður, en að undirbúningi stofnfundarins unnu einkum með honum Agnar Hreinsson og Sigurður Ingimundarson. Var undirbúningsstarfið einkum fólgið í því að rannsaka, hverjir flutzt höfðu frá Stokkseyri til Reykjavíkur, hafa tal af þeim og leita undirtekta þeirra undir félagsstofnun. Stofnfundur félagsins var að því búnu haldinn í Oddfellowhúsinu 21. nóv. 1943. Höfðu þá 104 menn, karlar og konur, ritað sig, á stofnskrá félagsins, og auk þess lágu fyrir fundinum inntökubeiðnir frá 85 manns. Sýnir þetta, að vel hefir verið unnið að undirbúningnum.Í lögum félagsins, sem samþykkt votu á stofnfundinum, segir svo um inntökuskilyrði og tilgang félagsins: ,,Félagsmaður getur hver sá orðið, karl eða kona, eldri en 14 ára, sem fæddur er í Stokkseyrarhreppi eða hefir verið þar heimilisfastur um· nokkurra ára bil. Tilgangur félagsins er sá að efla og viðhalda kunningsskap milli Stokkseyringa, búsettra í Reykjavík og Hafnarfirði og nágrenni, og halda· uppi sem nánustu sambandi við Stokkseyringa heima fyrir. Enn fremur að styðja eftir megni öll þau mál, sem að dómi félagsins horfa Stokkseyringum heima fyrir til heilla.“
Litlar breytingar hafa verið gerðar á hinum upphaflegu félagslögum. og eru þessar helztar: Á aðalfundi 1945 var samþykkt sú breyting, að sami maður megi ekki vera formaður lengur en 3 ár samfleytt og ekki megi endurkjósa fráfarandi formann í stjórn eða til formennsku fyrr en eftir 3 ár frá því, að hann veik úr stjórn félagsins. Þetta ákvæði var aftur fellt úr gildi á aðalfundi 1949. Inntökuskilyrði í félagið voru rýmkuð á aðalfundi 1955 með svofelldri viðbót við upprunaleg ákvæði laganna: ,,svo og makar þeirra, afkomendur og aðrir velunnarar félagsins“. Loks var samþykkt á aðalfundi 1959 að færa fundartíma aðalfundar frá október ár hvert til janúarmánaðar.
Fyrsti formaður Stokkseyringafélagsins var kjörinn Sturlaugur Jónsson og með honum í stjórnina voru kosnir Hróbjartur Bjarnason, Haraldur Leonhardsson, Vilhjálmur Heiðdal og Sigurður Þórðarson. Var Sturlaugur formaður félagsins fyrstu 3 árin og stjórnin að öðru leyti að mestu óbreytt. Á aðalfundi 1946 var Haraldur B. Bjarnason kosinn formaður og með honum í stjórn Stefanía Gísladóttir, Guðni Þorgeirsson, Þórður Jónsson og Guðrún Sigurðardóttir. Haraldur B. Bjarnason var formaður félagsins til 1959 eða í 13 ár samfleytt, en fekkst þá ekki lengur til að taka við kjöri. Auk þeirra, sem voru með honum í fyrstu stjórn hans, voru þessir menn með honum í stjórn félagsins: Sigþrúður Thordersen, Gunnar Gunnarsson, Guðrún Sæmundsdóttir, Björgvin Jósteinsson, Filippus Bjarnason, Sigurður Ísólfsson, Ólafur Jóhannesson, Sigurgestur Guðjónsson og Vilhjálmur Heiðdal. Á aðalfundi 1959 var Guðrún Sigurðardóttir kosin formaður félagsins, og hefir hún verið það síðan. Með henni voru kosnir í stjórnina Ólafur Jóhannesson, Haraldur Leonhardsson, Sigurgestur Guðjónsson og Vilhjálmur Heiðdal. Sú stjórn er óbreytt síðan að öðru en því, að á aðalfundi 1960 var Arnheiður Jónsdóttir kosin í stað Vilhjálms, sem baðst undan endurkosningu vegna anna.
Í varastjórn félagsins hafa þessir menn átt sæti: Sigurður Ísólfsson, lengst allra eða í 15 ár alls, Guðmunda Bjarnadóttir, Haraldur Sigurðsson, Grímur Bjarnason, Bjarni Jónsson, Arnheiður Jónsdóttir, Jónas Ásgeirsson, Guðrún Sigurðardóttir, Stefán Thordersen og Bjarnheiður Þórðardóttir.
Endurskoðendur félagsreikninga hafa verið þeir Óskar Eyjólfsson frá stofnun félagsins, Hjálmtýr Sigurðsson til 1954 og síðan Dagbjartur Bjarnason.
Samkvæmt félagslögunum starfar í félaginu 7-12 manna fulltrúaráð, sem stjórnin getur kvatt til ráðuneytis um úrlausn vandamála. Hefir það nokkrum sinnum verið gert, er stórmál voru á döfinni. Fulltrúaráðið hefir lengstum verið skipað 12 mönnum, og eiga nú sæti í því þessir menn: Bjarni Jónsson, Jón S. Helgason, Jón Júníusson, Páll Ísólfsson og Vilhjálmur Árnason, sem hafa verið í ráðinu, síðan félagið var stofnað, Kjartan Ólafsson frá Hafnarfirði, Helgi Sæmundsson, Guðlaug Jónsdóttir, Bjarni M. Jónsson, Haraldur B. Bjarnason og Kjartan Ólafsson trésmiður. Aðrir, sem hafa átt sæti í fulltrúaráðinu í lengri eða skemmri tíma, eru: Þórður Jónsson til dauðadags 1959, Stefanía Gísladóttir til dauðadags 1961 og Sigurður Ingimundarson til dauðadags 1944, öll frá stofnun félagsins, Sigurbjörg Jónsdóttir, Sturlaugur Jónsson, Agnar Hreinsson, Guðrún Sigurðardóttir, Vilhjálmur Heiðdal og Haraldur Leonhardsson.
Í félaginu hafa starfað ýmsar nefndir, er verið hafa stjórninni til aðstoðar í einstökum málum, sem félagið hefir haft með höndum. Skemmtinefnd hefir starfað í félaginu síðan 1944. Hún sér um árshátíðir, spilakvöld og aðrar skemmtisamkomur félagsins í samráði við stjórnina. Formenn hennar hafa verið þeir Hálfdan Helgason lengi framan af og Konráð Ingimundarson síðan í mörg ár. Af öðrum, sem starfað hafa lengi í skemmtinefndinni, skulu aðeins nefnd þau Bjarni Jónsson og Sigurbjörg Ingimundardóttir. Þuríðarbúðarnefnd var fyrst kosin 1944 til þess að vinna að endurreisn sjóbúðar Þuríðar formanns á Stokkseyri og síðar til þess að hafa umsjón með rekstri og viðhaldi búðarinnar. Verður nánar skýrt frá því hér á eftir. Nefndin var lögð niður 1960 og stjórninni falið að annast störf hennar. Skógræktarnefnd var kosin fyrst 1951 til þess að vinna að skógrækt á Stokkseyri. Formaður nefndarinnar hefir verið Anna Helgadóttir. Hlutaveltunefnd var kosin í félaginu 1952. Hún hefir starfað síðan meira eða minna, og hefir Guðrún Sigurðardóttir lengst af verið formaður hennar. Kaffisölunefnd var kosin 1954. Hún var skipuð 10 konum, er skyldu sjá um kaffisölu til ágóða fyrir félagið. Starfsemin strandaði á því, að til hennar skorti húsnæði, og var nefndin lögð niður 1960. Loks var kosin sérstök fjáröflunarnefnd 1955 til þess að athuga fjáröflunarleiðir fyrir félagið, t. d. með kortasölu eða á annan veg. Eftir ýmsar athuganir komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að ekki væri grundvöllur fyrir aðra fjáröflun en félagið hafði þá þegar með höl\d_um. Um skipulag félagsins er ástæða til að geta þess, að samkvæmt ályktun aðalfundar 1959 skipaði stjórnin á því ári 10 hverfisstjóra í Reykjavík, er hafa hver sitt ákveðna hverfi í bænum, þar sem þeir annast um eða hjálpa til við innheimtu félagsgjalda og söfnun nýrra félaga. Hefir þetta fyrirkomulag gefizt vel.
Tveir menn hafa verið kjörnir heiðursfélagar í Stokkseyringafélaginu: Þórður Jónsson bókhaldari 1951 og dr. Páll Ísólfsson 1953.
Starfsemi átthagafélaganna hefir jafnan verið tvíþætt. Annars vegar er hún fólgin í ýmiss konar félagsstarfsemi, sem víðast hvar er með líku sniði og miðar að því að halda uppi skemmtunum og félagslífi meðal gamalla sveitunga og treysta samheldni þeirra og tengsl við átthagana. Þessi starfsemi er óhjákvæmileg forsenda hins þáttarins í starfi og stefnu félaganna, að vinna átthögunum allt það gagn, sem verða má, eða eins og það er orðað í lögum Stokkseyringafélagsins: ,,að styðja eftir megni öll þau mál, sem að dómi félagsins horfa Stokkseyringum heima fyrir til heilla“. Árangurinn af þeirri viðleitni stendur í réttu hlutfalli við framkvæmdagetu og fórnarvilja félagsmanna.
Ef litið er á fyrri þáttinn í starfsemi Stokkseyringafélagsins, hina almennu félagsstarfsemi, hlýtur það að vekja athygli, hve vel félaginu hefir tekizt að fylkja liði sínu, að ná til Stokkseyringa á félagssvæðinu og vekja áhuga þeirra
á málefnum félagsins. Samheldni þeirra er mjög áberandi og ekki síður hitt, hve fljótt og vel þeir hafa oft brugðizt við, er mikið var í húfi. Þetta skýrir að nokkru, hvað tiltölulega fámennu félagi hefir tekizt að koma í verk.
Félagsstarfsemi Stokkseyringafélagsins fer fram með líkum hætti og hjá öðrum sams konar félögum. Fastar samkomur á vetri hverjum eru aðalfundur félagsins og árshátíðin eða Stokkseyringamótið. Aðalfundir hafa æðsta vald í málefnum félagsins. Þar eru ákvarðanir teknar um mikilvæg mál, stjórn kosin og nefndir og aðrir trúnaðarmenn. Aðalfundir hafa oft verið vel sóttir og einhver skemmtiatriði farið fram að loknum fundarstörfum. Stokkseyringamótið er fjölsóttasta og vinsælasta skemmtun félagsins á vetri hverjum, enda jafnan sérstaklega til þess vandað. Þar skemmta menn sér við sameiginlegt borðhald, ræður, söng og önnur skemmtiatriði og eru eins og ein stór fjölskylda. Venjulega hefir dr. Páll Ísólfsson verið veizlustjóri á Stokkseyringamótum. Auk þess hefir félagið gengizt fyrir spilakvöldum nokkrum sinnum á vetri. Þar eru stundum sýndar stuttar kvikmyndir eða skuggamyndir og fleira haft til skemmtunar.
Nokkuð hefir félagið gengizt fyrir ferðalögum. Sumarið 1951 tók það þátt í skemmtiferð í Þjórsárdal með Árnesingafélaginu, sumarið 1952 í hópferð með „Esju“ til Vestmannaeyja ásamt Árnesingafélaginu og Eyrbekkingafélaginu, og það ár og hin næstu fór félagið þrjár ferðir til þess að gróðursetja skógarplöntur í Ásgautsstaðaeyju. En langmerkastar og fjölmennastar hafa þó verið ferðir þær, sem félagið hefir jafnan farið heim til Stokkseyrar á 5 ára fresti. Fyrsta ferðin var farin 25. júní 1944 undir stjórn Sturlaugs Jónssonar. Þátttaka að sunnan var mjög mikil, matazt var í Hótel Stokkseyri um hádegisbilið, síðan var haldið austur á Baugsstaðakamp og fór þar fram fjölmenn útisamkoma við vitann, með ræðum og söng, en um kvöldið var samkoma í „Gimli“, og fóru þar fram ýmis skemmtiatriði. Dásamlegt veður hjálpaði til að gera þessa ferð hátíðlega og eftirminnilega í hugum gesta jafnt sem heimamanna. Tekin var kvikmynd af ferðinni, er félagið keypti og sýndi á fundum í félaginu. Önnur ferðin var farin 26. júní 1949 undir stjórn Haralds B. Bjarnasonar. Hún var einnig fjölmenn og fór fram með svipuðum hætti og hin fyrsta, þótt veður væri ekki hagstætt. Við það tækifæri var Þuríðarbúð, sem félagið hafði látið reisa, vígð og opnuð fyrir almenning. Þriðja ferðin var farin 20. júní 1954, einnig undir stjórn Haralds B. Bjarnasonar. Þátttaka var mjög mikil, enda var veður hið fegursta. Mjög fjölmenn útisamkoma var þá haldin við sumarhús dr. Páls Ísólfssonar, sem félagið hafði þá gengizt fyrir að reisa og var það við það tækifæri afhent tónskáldinu að gjöf. Fjórða ferðin var farin 12. júlí 1959 undir stjórn Guðrúnar Sigurðardóttur. Tókst sú ferð sem hinar fyrri ágætavel, veður hið bezta og þátttaka mikil. Ágóði af skemmtunum dagsins að meðtöldum allverulegum samskotum einstaklinga, rúmlega 12 þús. krónur alls, rann í Orgelsjóð Stokkseyrarkirkju sem gjöf frá félaginu. Þessi Stokkseyringamót heima á Stokkseyri hafa flestu öðru fremur stuðlað að því að halda við sambandinu milli Stokkseyringa heima og heiman. ,,Hin gömlu kynni gleymast ei,“ meðan þeim mótum verður haldið áfram.
Mikið starf hefir Stokkseyringafélagið lagt fram til þess að afla fjár til þeirra framkvæmda, sem það hefir færzt í fang. Fastar tekjur hefir félagið vitaskuld ekki haft aðrar en árgjöld félagsmanna, sem hefir seinni árin numið 20 kr. á mann, en áður minna. Mestu hefir munað um hlutaveltur þær, sem félagið hefir gengizt fyrir og haldnar hafa verið í Listamannaskálanum. Hafa þær verið haldnar fjórum sinnum, fyrst 1954 og síðan á tveggja ára fresti og bjargað mjög við fjárhag félagsins. Umsjón með þessu starfi hefir sérstök hlutaveltunefnd undir forustu Guðrúnar Sigurðardóttur og manns hennar, Ólafs Jóhannessonar. Hafa þau og margir aðrir, bæði konur og karlar í félaginu, lagt fram mikla vinnu við hlutavelturnar og sýnt þar sérstaka ósérplægni og ræktarsemi við félagið. Einnig efndi félagið til happdrættis 1954, og voru miðar seldir bæði syðra og eystra. Varð af því nokkur ágóði. Og 4. des. 1960 höfðu konur úr félaginu basar í Breiðfirðingabúð, þar sem seldir voru ýmsir munir, sem þær höfðu unnið sjálfar og gáfu félaginu. Varð einnig nokkur hagnaður af því fyrir félagssjóðinn. Þar að auki hefir félagsstjórnin alltaf leitað samskota hjá félagsmönnum, er sérstaklega hefir staðið á, svo sem til afmælisgjafar handa hinum vinsæla heiðursmanni Olgeiri Jónssyni í Grímsfjósum, er hann varð sjötugur 1944, til styrktar hjónum á Stokkseyri, sem misstu nær allar eigur sínar í húsbruna, til framkvæmda félagsins á Stokkseyri, söguritunar o. fl. Hafa félagsmenn jafnan brugðizt vel og drengilega við, þegar hagsmunir eða sómi átthaganna hafa verið annars vegar. Skal nú vikið að þeim þætti í starfsemi félagsins.
Á fyrsta starfsári Stokkseyringafélagsins var rætt um það í stjórn og fulltrúaráði, að félagið gengizt fyrir því að endurreisa sjóbúð Þuríðar formanns á Stokkseyri sem líkasta því, sem hún hafði verið, og á sama stað eftir því, sem við yrði komið. Skyldi búðin vera eins konar minjasafn, þar sem geymd væru og höfð til sýnis veiðarfæri, skinnklæði og annað það, sem menn notuðu til sjóróðra áður fyrr, en útvega skyldi gamalt róðrarskip eða líkan af slíku skipi, er hafa skyldi hjá búðinni. Þessi hugmynd fekk góðan byr hjá félagsmönnum. Á aðalfundi 1944 reifaði Þórður Jónsson málið, en Grímur Bjarnason bar fram svohljóðandi tillögu, sem var samþykkt einróma: ,,Fundurinn samþykkir að hrinda búðarmálinu í framkvæmd að mestu leyti með vinnu félagsmanna, en heimilt skal stjórninni að leggja fram allt að kr. 2000 til framkvæmdarinnar.“ Fyrsta framlagið til búðarinnar var afhent á fundinum, og var það frá Markúsi Guðmundssyni verkstjóra. Kosin var þriggja manna nefnd til þess að vinna að framkvæmd málsins, þeir Þórður Jónsson, Jón Júníusson og Óskar Eyjólfsson.
Vorið eftir, 21. maí 1945, fór nefndin austur til Stokkseyrar ásamt formanni félagsins í því skyni að velja og tryggja búðinni stað. Búðinni var valinn staður í landi jarðarinnar Götu, þar sem Þuríður formaður hafði búið á sinni tíð, sem næst þeim stað, er fróðir menn töldu, að búð Þuríðar hefði verið. Festi félagið þegar kaup á lóðarbletti fyrir búðina, að stærð 14Xl8 m. eða 252 m2, en seljandi var Katrín Kristinsdóttir í Bjarnahúsi. Var gerður um það kaupsamningur og honum síðan þinglýst. Kaupverðið var kr. 300, og gaf formaðurinn, Sturlaugur Jónsson, félaginu það. Bygging búðarinnar var hafin þá um sumarið, og var lokið við að hlaða upp veggina um haustið. Voru þeir byggðir eftir teikningu, sem Óskar Eyjólfsson byggingameistari gerði samkvæmt forsögn Friðriks Sigurðssonar á Gamla-Hrauni. Var búðin byggð í skálastíl, eins og sjóbúðir voru fyrrum þar um slóðir. Veggina hlóð Filippus Björnsson á Klöpp, ágætur hleðslumaður. Um sömu mundir sendi framkvæmdanefndin út boðsbréf til félagsmanna og leitaði samskota til byggingar búðarinnar, og voru undirtektir manna góðar.
En nú kom babb í bátinn, og frestur varð á frekari framkvæmdum næstu árin. Á aðalfundi félagsins 1946 var skýrt frá því, að nokkurrar óánægju gætti hjá einstökum mönnum heima á Stokkseyri út af staðsetningu búðarinnar eða byggingu hennar, og urðu um það nokkrar umræður. Kom fram tillaga um það, að félagsstjórnin skrifaði hreppsnefnd Stokkseyrarhrepps og leitaði álits hennar um málið. Þetta gerði stjórnin með bréfi 5. nóv. 1947, þar sem hún skýrði hreppsnefndinni frá því, að safnazt hefði til búðarbyggingarinnar um 4300 kr., en dregizt hefði að gera yfir tóftina, vegna þess að ekki hefði tekizt að útvega rekavið, sem eðlilegast væri að nota í árefti. Jafnframt mæltist félagið til þess, að hreppsnefndin hefði milligöngu um að jafna þann ágreining, sem upp kynni að hafa komið vegna búðarbyggingarinnar. Svaraði hreppsnefndin með bréfi 31. des. á þá leið, að henni væri ókunnugt um, að nokkur samtök væru á staðnum gegn áformi félagsins að koma upp fyrirhugaðri sjóbúð, og taldi, að fátt þætti henni leiðara en að til slíks ágreinings kæmi milli burtfluttra Stokkseyringa og heimamanna. Á aðalfundi 1948 skýrði formaður félagsins, Haraldur B. Bjarnason, frá því að „deilan“ um Þuríðarbúð væri fallin niður með fullu samþykki allra á Stokkseyri, er létu sig það varða.
Nú leið óðum að þeim tíma, er Stokkseyringamót skyldi haldið heima á Stokkseyri í annað sinn og þótti nú sjálfsagt að fullgera búðina fyrir þann tíma. Vorið 1949 var tekið til við að gera yfir tóftina og ganga frá búðinni að öðru leyti, og var því lokið í júnímánuði. Verkið unnu þeir Sigurfinnur Guðnason og Jónas Larsson. Á Stokkseyringamóti 26. júní var Þuríðarbúð svo vígð og opnuð almenningi að viðstöddu miklu fjölmenni með ávarpi formanns Stokkseyringafélagsins og erindi Guðna Jónssonar um Þuríði formann og Stokkseyri á hennar tímum. Í niðurlagi erindisins komst hann þannig að orði: ,,Þuríðar búð formanns hefir nú verið endurreist af ræktarsemi sona og dætra þessa byggðarlags við gamlar minningar. Þó að búðin sé kennd við Þuríði formann, hefir hún þó víðtækari tilgang en þann að halda nafni Þuríðar einnar á lofti. Hún er í rauninni minnismerki um horfnar kynslóðir og horfinn atvinnuveg hér um slóðir. Því er henni ætlað að verða vísir að sjóminjasafni. Um leið og menn stíga inn fyrir þröskuld Þuríðarbúðar, stíga þeir inn í gamla tímann. Þar á allt að vera umhorfs eins og í hinum gömlu sjóbúðum á Stokkseyri. Búðin sjálf er byggð í þeirra stíl, reist úr byggingarefni forfeðra vorra, torfi og grjóti, með árefti og torfþaki og djúpri gluggatóft. Inni eru bálkar vermanna, þar sem þeir sváfu tveir og tveir í fleti með skrínur sínar við hlið sér. Á bitunum eiga að hanga sjóklæði, veiðarfæri og fleira. Þar á að finnast allt, sem tíðkaðist að hafa í verbúðunum gömlu. Enn sem komið er, vantar flestalla innanstokksmuni í búðina, en ekki verður látið staðar numið, fyrr en þeir eru allir fengnir. Þegar þar að kemur, verður Þuríðarbúð einstök í sinni röð. Hún verður sá merkisstaður, sem margir munu vilja skoða, hinir eldri til þess að rifja upp gamlar endurminningar, en fróðhuguð æska til þess að fá tækifæri til að kynnast einum sterkum þætti í lífi og starfi feðra sinna.“[note] Erindið er prentað í Lesbók Morgunblaðsins 17. júlí 1949. Sjá enn fremur fyrra bindi þessa rits, bls. 212-215.[/note]
Þuríðarbúð hefir verið í umsjá sérstakrar nefndar í Stokkseyringafélaginu, og skipuðu hana lengst af Þórður Jónsson, Sturlaugur Jónsson og Bjarni Jónsson, en á síðastliðnu ári tók félagsstjórnin að sér starf nefndarinnar. Aflað hefir verið allmargra gripa til búðarinnar annarra en skipsins, sem gert var ráð fyrir í upphafi. Ábúendurnir í Götu hafa haft á hendi daglegt eftirlit með búðinni, fyrst Guðrún Kristjánsdóttir, meðan hún lifði, og síðan Ingibergur, sonur hennar. Þar hefir oft verið gestkvæmt af ferðamönnum. Frá því í maí 1950 og til hausts 1960 komu í Þuríðarbúð 3332 gestir, er skráðu þar nöfn sín, en því fer fjarri, að þar með sé öllum til skila haldið.
Hinn 12. okt. 1953 átti dr. Páll Ísólfsson tónskáld sextugsafmæli, og gerði Stokkseyringafélagið hann þann dag að heiðursfélaga sínum. Skömmu síðar boðaði stjórn félagsins til fulltrúaráðsfundar til þess að ræða um afmælisgjöf til handa dr. Páli. Skýrði formaður frá því, að ýmsar tillögur hefðu komið fram um það mál, en einkum væri mikill og almennur áhugi á því að reisa dr. Páli sumarhús á Stokkseyri. Málið fekk góðar undirtekir á fundinum, og var stjórn félagsins falið að leita samvinnu um það við hreppsnefnd Stokkseyrarhrepps og félagasamtök þar á staðnum. Bréf fóru síðan milli stjórnar Stckkseyringafélagsins og þessara aðilja, og ákvað félagsstjórnin að því búnu að reisa sumarbústað handa dr. Páli, er honum yrði afhentur að gjöf frá félaginu og Stokkseyringum heima. Var hafizt handa um bygginguna þegar vorið eftir. Valdi dr. Páll sjálfur húsinu stað í landi Eystra-Rauðarhóls skammt frá sjávarbakkanum spölkorn austur frá Stokkseyrarhverfinu. Jörðin er hluti af Stokkseyri, sem er eign ríkisins, en þeir feðgar Gunnar Gunnarsson á Vegamótum og Ingólfur á Syðra-Seli höfðu þarna spildu á leigu, og veittu þeir fúslega leyfi til að byggja þar. Þar var mæld út lóð fyrir bústaðinn, 900 m2 að stærð. Hreppurinn, félög og einstaklingar á Stokkseyri gáfu grunn undir húsið og girðingu um lóðina. Húsið var svo reist í maí og júní 1954 eftir teikningu Aðalsteins Richters, en undir stjórn Haralds B. Bjarnasonar byggingameistara, formanns Stokkseyringafélagsins. Unnu félagsmenn nokkuð í sjálfboðavinnu, en mest var vinnan aðkeypt. Var verkinu hraðað eftir föngum, því að þetta sumar skyldi haldið hið þriðja Stokkseyringamót heima á Stokkseyri, og hafði félagsstjórnin hug á að afhenda húsið við það tækifæri. Þetta gekk og að óskum. Á fjölmennu móti Stokkseyringa þar á staðnum 20. júní afhenti formaður félagsins fyrir þess hönd dr. Páli og frú Sigrúnu, konu hans, bústaðinn til formlegrar eignar með sérstöku gjafabréfi. [note]Sjá frásögn í Morgunblaðinu 22. júní 1954.[/note]Eftir var þá að vinna allmikið við húsið og var því haldið áfram, unz það var fullgert. Seinna lagði hreppurinn þangað rafmagn og loks síma, án þess að um væri beðið. Bústaðinn nefndi dr. Páll Ísólfsskál,a eftir húsi föður síns á Stokkseyri. Þar hefir dr. Páll leitað hvíldar og næðis ásamt fjölskyldu sinni á sumrum, fjarri ys og erli höfuðborgarinnar.
Á fyrsta stjórnarfundi Stokkseyringafélagsins 14. jan. 1944 vakti formaðurinn, Sturlaugur Jónsson, máls á því, að félagið tæki sér fyrir hendur að hafa forgöngu um friðun ákveðins bletts á Stokkseyri og ynni að því, að þarna yrði hafin blóma- og trjárækt, svo að staður þessi gæti, er tímar liðu, orðið skemmtigarður, sem væri Stokkseyri til sóma. Var sérstaklega rætt um Ísólfsskálatúnið og Íragerðisgerðið (Bjarnagerðið) í þessu augnamiði. Stjórninni var falið að hafa á hendi frekari undirbúning, og vann hún nokkuð að því og kynnti sér aðstæðurnar nánar, en komst að raun um, að ekki væri grundvöllur fyrir framkvæmdum. Hugmyndin um trjárækt á Stokkseyri var hins vegar tekin upp aftur nokkrum árum síðar. Var kosin sérstök skógræktarnefnd í félaginu 1951, sem áður er getið, til þess að vinna að því máli. Fyrsta verk nefndarinnar var að velja í samráði við heimamenn stað í nánd við Stokkseyri, er væri vel til skógræktar fallinn, og varð Ásgautsstaðaey fyrir valinu. Þangað fór félagið þrjár gróðursetningarferðir vorin 1952-54 og mun í samvinnu við Ungmennafélag Stokkseyrar hafa sett niður að minnsta kosti 7000 trjáplöntur. Plönturnar hafa dafnað misjafnlega og margar dáið, enda er talið, að tegundir þær, er settar voru niður, hafi ekki verið sem heppilegastar.
Á hinum sama stjórnarfundi hóf Þórður Jónsson máls á því, að nauðsynlegt væri, að félagið beitti sér þá þegar fyrir nákvæmri örnefnasöfnun í Stokkseyrarhreppi, og voru menn mjög á einu máli um það. Stjórnin tók mál þetta upp á fulltrúaráðsfundi nokkru síðar, og var þar samþykkt, að félagið skyldi beita sér fyrir örnefnasöfnun í hreppnum, bæði í fjöru og á landi, og jafnframt að leita til þeirra Sigurðar Eyjólfssonar skólastjóra á Selfossi og Jóns Ingvarssonar á Skipum, þáverandi formanns ungmennafélagsins, um skrásetningu örnefnanna gegn sanngjörnum ómakslaunum. Þessa samþykkt tilkynnti félagsstjórnin þeim Sigurði og Jóni með bréfi 8. apríl 1944 og mæltist til, að þeir tækju að sér verkið. Brugðust þeir vel við þessum tilmælum, og lauk þar með afskiptum félagsins af málinu. En á næstu árum söfnuðu þeir félagar örnefnum á öllum jörðum í hreppnum, Jón á Skipum, Traðarholti og Baugsstöðum, en Sigurður á hinum öllum, og nutu þeir til þess aðstoðar fróðra manna. Sigurður vann svo að því að ganga frá örnefnasafninu, annars vegar að hreinrita það og hins vegar að færa örnefnin inn á landabréf, og er safn þetta enn í vörzlum hans. Örnefni úr fjörunum eru ekki með í safninu, því að þau höfðu áður verið skrásett af Andrési Markússyni í Grímsfjósum og fleirum.
Enn er ótalin sú framkvæmd Stokkseyringafélagsins, sem margir mundu kalla afrek af tiltölulega fámennu félagi, en það er forganga þess fyrir að láta semja og gefa síðan út á sinn kostnað sögu Stokkseyrar, þriggja binda rit með fjölda mynda. Sú framkvæmd sýnir ekki aðeins rótfasta tryggð við minningar átthaganna, heldur einnig óvenjulegan stórhug. Sú skoðun kom þegar fram á fyrsta stjórnarfundinum, að félaginu bæri að hafa forgöngu um það, að saga Stokkseyrar yrði skráð og sérstaklega sá þáttur hennar, sem að sjómennsku og útgerð lýtur. Mun það þá einkum hafa vakað fyrir félagsmönnum að hafa samvinnu við Árnesingafélagið, sem hafði þá fyrir skömmu hafið útgáfu Árnesinga sögu, og gæti sú samvinna orðið með því móti, að saga Stokkseyrar yrði sérstakur þáttur í henni. Ekkert varð úr framkvæmdum að sinni, og bar margt til: útgáfa Árnesingafélagsins gekk seint frá hendi, erfitt var að fá hæfan mann til söguritunar, og loks hafði Stokkseyringafélagið ýmsu öðru að sinna fyrstu árin, þar á meðal byggingu Þuríðarbúðar.
Snemma árs 1949 kom loks skriður á málið, einkum fyrir ötula forgöngu Haralds B. Bjarnasonar, formanns félagsins. Samþykkt var í stjórn og fulltrúaráði, að félagið’ skyldi beita sér fyrir ritun sögu Stokkseyrar og jafnframt leita til Guðna Jónssonar til þess að vinna það verk. Eftir nokkra athugun tók Guðni þetta að sér að beiðni formanns, en raunar mun hvorugur þeirra hafa gert sér fulla grein fyrir því, hversu mikið og seinunnið verk hér var fyrir höndum, og það því fremur sem báðir gerðu þá sjálfsögðu kröfu, að ritið yrði traust og rækilegt heimildarrit um sögu byggðarlagsins fyrr og nú. Við nánari könnun á verkefninu komst Guðni að þeirri niðurstöðu, að ekki dygði minna en þrjár bækur til þess að gera því viðunandi skil, og hagaði hann samningu ritsins með það fyrir augum. Fyrsta bókin, sem nefnist Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi og er tæpar 30 arkir að stærð, var fullprentuð í desember 1952 og kom út eftir áramótin. ,,Fjallar hún um sögu einstakra bújarða og annarra bólstaða í hreppnum og greinir frá ábúendum á hverri jörð, öllum, sem kunnugt er um, frá upphafi til þessa dags. Gerð er grein fyrir ætt þeirra, kvonfangi og börnum, eftir því sem kostur er á, og tilgreindur um þá ýmislegur annar fróðleikur, smásögur og sagnir, mannlýsingar og því um líkt, með tilvísun til heimilda. Ritið er því handbók um Stokkseyringa handa þeim sjálfum og öðrum, sem slíkan fróðleik girnast. Þar geta kynbornir Stokkseyringar rakið ættir sínar mann fram af manni og í mörgum greinum lengra og víðar en hingað til hefir verið kostur. En aðrir koma þar einnig mikið við sögu, einkum fjöldi annarra Árnesinga og Rangæinga.“[note]Bólstaðir o.s.frv., formáli, bls. VI. [/note]Fyrir þetta rit sæmdi Háskóli Íslands höfundinn doktorsnafnbót hinn 12. desember 1953.Nú varð sem vænta mátti hlé á útgáfunni, meðan næsta rit var í smíðum. Það fjallaði um almenna sögu Stokkseyrar, landshætti og sögu fyrri alda, sveitarstjórn, atvinnuvegi, menningar- og félagsmál og nefnist Stokkseyringa saga. Seinlegt er að draga saman heimildir í svo fjölþætt sögurit og vinna slíkt efni til bókar, ekki sízt er það verður að gerast í hjáverkum. Reyndi þetta nokkuð á þolinmæði stjórnar og áhugasamra félagsmanna í Stokkseyringafélaginu, sem von var til, en þar kom um síðir, að lokið var samningu ritsins. Vegna stærðar þess var talið hagkvæmara að gefa það út í tveim bindum. Kom hið fyrra út í desember 1960, en hið síðara í desember 1961. Bæði bindin til samans eru nær 40 arkir að stærð.
Í áætlun sinni um sögu Stokkseyrar gerði Guðni Jónsson ráð fyrir þriðja ritinu, þar sem birtast ættu söguþættir af merkum og nafnkunnum Stokkseyringum á síðari öldum. Þetta mál horfir nú nokkuð öðruvísi við en það gerði í upphafi, því að allra þessara manna hefir þegar verið getið að nokkru í þeim tveim ritum, sem út eru komin. Er því bæði, að þörfin fyrir slíkt rit er minni en áður, og annað hitt, að þar yrði ekki komizt hjá talsverðum endurtekningum. Annars hefir Guðni samið nokkra söguþætti af merkum Stokkseyringum, sem heima ættu í umræddu riti, og skulu þeir taldir hér vegna þeirra, sem að vildu hyggja. Þættirnir eru um þessa menn: Vopna-Teit (Saga Il, 264-79), Berg í Brattsholti (í handriti), Jón hreppstjóra ríka í Vestri-Móhúsum (Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur XI, 5-39), Þuríði formann (Sagan af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum, Rvík 1954, XI-XX), Adólf Petersen á Stokkseyri (Skyggnir I, 5-20) og Grím í Nesi (Grímur Gíslason í Óseyrarnesi. Ævi hans og niðjar, Rvík 1961).
Þegar litið er yfir starfsemi Stokkseyringafélagsins, virðist það ekki geta leikið á tveim tungum, að það hafi verið bæði athafnasamt og farsælt í starfi sínu. Má þakka það mörgu, en þó ber það ef til vill fyrst að nefna, að félagið hefir verið einkar heppið með val formanna sinna og annarra trúnaðarmanna. En ekki hefir staðið á félagsmönnum að gegna kalli formanns, hvenær sem eitthvað lá við. Því hefir félagið getað ráðizt í fjárfrekar framkvæmdir, sem mörgum hefðu vaxið í augum. Starf félagsins hefir mótazt af djörfung og stórhug, en framar öllu öðru af órofa tryggð við átthagana.