01 Staðhættir og fólksfjöldi

Á ströndinni miðja vega milli Stokkseyrar og Eyrarbakka er sérstakt byggðarlag, sem nefnist Hraunshverfi og er kennt við hið forna höfuðból, Hraun á Eyrarbakka. Liggur að því að sunnan úthafið, að austan Stokkseyrarland, en Háeyrarland að norðan og vestan. Hverfið var miðsveitís í Stokkseyrarhreppi hinum forna og átti bæði þingsókn og kirkjusókn að Stokkseyri. En árið 1897 var hreppnum skipt, og urðu hreppamörk um landamerki Hrauns og Stokkseyrar, svo að Hraunshverfið telst síðan til Eyrarbakkahrepps. En þegar sókninni var skipt milli Stokkseyrarkirkju og hinnar nýreistu kirkju á Eyrarbakka árið 1894, voru sóknaskil hins vegar ákveðin um landamerki Hrauns og Háeyrar. Áttu Hraunshverfingar því um skeið þingsókn til Eyrarbakka, en kirkjusókn sem að fornu til Stokkseyrar. Stóð svo fram undir 1920, en þá var sú breyting á ger að ósk Hraunshverfinga sjálfra, að hverfið var lagt til Eyrarbakkasóknar og sóknaskil sett um Hraunsá. Eiga þeir síðan alla sókn til Eyrarbakka.

Landslagi er svo háttað í Hraunshverfi, að með sjó fram eru sléttir, sandorpnir valllendisbakkar, og eru þar nú kálgarðar og tún. Innan við bakkana taka við grunnar dældir, sem voru fullar af vatni og kallaðar flóð eða dælir. Þau hafa nú verið þurrkuð upp og eru orðin að sléttum túnum. Fyrir ofan flóðin eru allháir valllendisbalar, og stóðu þar flest býli í hverfinu. Þá tekur við Hraunsmýri, mishæðalítil og grösug, en hún er hluti af hinni víðáttumiklu Breiðamýri, sem teygir sig inn í fjóra hreppa Flóans.

Neðan við sjávarbakkann tekur við sendinn halli, sem nær allt niður að fjöruborði og er nú orðinn talsvert upp gróinn. Hefst þá fjaran með óteljandi skerjum og lónum. Þar hefir Þjórsárhraunið mikla, sem liggur undir mestöllum Flóanum, runnið í haf út fyrir um 6 þúsundum ára og myndað brimgarðinn fyrir ströndinni. Verða þar stundum ægilegar hamfarir hafs og veðra og brim stórkostlegt og tignarlegt, er risháar úthafsöldur, óbrotnar sunnan frá heimskauti, byltast inn yfir skerin og þeyta hvítu löðri við himin. Vegna hafnleysis og brima var aldrei hægt að sækja sjó á vetrarvertíðum úr Hraunshverfi, en algengt var það á öðrum tímum árs á litlum bátum. Hins vegar var hin mikla fjara á ýmsan hátt nægtabúr hverfisbúa, meðan hún var stunduð af alúð.

Ein var sú hætta mest, sem Hraunshverfingum og öðrum þar um slóðir var búin af náttúrunnar völdum. Það voru sjávarflóðin. Ollu þau oft stórkostlegu tjóni og eyðileggingu. Í annálum og öðrum heimildum er slíkra stórflóða getið hvað eftir annað, en ekki skal það efni rakið hér, enda hefir það verið gert í öðrum ritum.[note]Um sjávarflóðin á Eyrarbakka fyrr og síðar sjá Vigfús Guðmundsson:
Saga Eyrarbakka I, 29-48, og rit, sem þar er vísað til. [/note] Hér skal þó aðeins getið þriggja hinna mestu. Er þar fyrst að telja flóðið mikla 2. janúar 1653, sem vera mun annað mest flóð, sem sögur fara af á þessum slóðum. Þá urðu svo miklar skemmdir á Hrauni, að ekki þótti fært að byggja bæinn upp aftur á sama stað, og var hann fluttur litlu síðar upp fyrir dælirnar, lengra frá sjó. Þá fór og í eyði hjáleigan Pálskot, sem stóð á sjávarbakkanum skammt austur frá Gamla-Hrauni. Annað stórflóð var hið svonefnda öskudagsflóð árið 1779. Þá flaut í kringum bæinn á Gamla-Hrauni, bátum var ekki frítt á túninu, og í kálgarði ofan við fjósið og bæinn lá fiskur, sem skolað hafði upp með briminu. Í þessu flóði eyddist jörðin Rekstokkur (eldra: Drepstokkur) hjá Óseyrarnesi og hjáleigan Salthóll í Hraunshverfi, sem stóð fyrir vestan tún á Gamla-Hrauni. Var hún þá byggð upp aftur fyrir ofan flóðin, vestan við túnið á Stóra-Hrauni. Þriðja sjávarflóðið, sem hér verður getið, og hið mesta, sem sögur fara af, varð aðfaranótt hins 9. jan. 1799. Þar um slóðir var það venjulega nefnt aldamótaflóð, en syðra Básendaflóð, því að þá eyddist hinn gamli kaupstaður að Básendum. Þá eyddist Salthóll í annað sinn og byggðist eigi síðan. Of langt yrði upp að telja allan þann skaða, sem aldamótaflóðið olli, en í Stokkseyrarþingsókn einni flýðu 29 manns algerlega frá heimilum sínum og margir um tíma eftir sjóganginn; þar fórust 9 nautgripir, 58 sauðkindur og 63 hross, og þá brotnuðu 4 áttæringar, 8 sexæringar, 6 fjögramannaför og 8 minni bátar. Þessar náttúruhamfarir urðu mönnum lengi minnistæðar og bárust oft í tal, svo að það var kannske ekki furða, þótt Helgi bæjargúll spyrði að því í einfeldni sinni, hvort það hefði verið Nóaflóð, er hrossin fórust í Stokkseyrarhverfinu.

Þó að slík stórflóð, sem nú voru nefnd, væru tiltölulega sjaldgæf, var hitt þó algengt, að sjór gengi á land að meira eða minna leyti, jafnvel árlega. Á fyrstu búskaparárum foreldra minna á Gamla-Hrauni á síðasta tug aldarinnar, sem leið, var sjóvarnargarður aðeins fyrir framan bæinn. Í hafróti á vetrum rann sjór fyrir austan og vestan túnið, svo að flóðin fylltust af sjó og flæddi að bænum að norðan og sunnan, en eftir lá þari og grjót. Einu sinni kvað svo rammt að þessum sjávargangi, að faðir minn þorði ekki að vera í bænum um nóttina, ef sama veður héldist. Fór hann þá á báti með konuna og börnin upp að Foki. Allt var einn hafsjór. Veðrinu slotaði um kvöldið, svo að ekki varð frekara að.

Eins og nærri má geta, urðu mikil landspjöll af völdum hinna tíðu sjávarflóða. Þau báru sand, möl og grjót inn á tún og engjar, þöngla og þara og annað rusl, brutu upp bakkana og spilltu gróðri. Ár og aldir liðu, án þess að neitt væri aðhafzt til varnar. Skömmu fyrir aldamótin 1800 var þó garðspotti hlaðinn til varnar verzlunarhúsunum á Eyrarbakka, en við það sat í langan tíma. Þegar líða fór á síðustu öld, tóku augu manna almennt að opnast fyrir nauðsyn þess að hlaða öflugan sjógarð með allri ströndinni frá Ölfusá og austur í Stokkseyrarhverfi. Það var þó ekki fyrr en eftir síðustu aldamót, að tekið var að vinna skipulega að þessu nytjaverki. Á árunum 1905- 1909 var unnið að og lokið við byggingu sjógarðs fyrir öllu Hraunshverfi. Hann er að lengd 1440 metrar, hlaðinn úr hraungrýti, hár, þykkur og rammbyggilegur. Sandur hefir hlaðizt að honum sjávarmegin, nær jafnhátt honum sjálfum, og við það hefir sjávarbakkinn hækkað til muna. Þetta mikla mannvirki er án efa hin merkasta jarðabút, sem þar hefir verið framkvæmd. Síðan hafa jarðirnar innan garðsins farið batnandi ár frá ári, gróður dafnað og landsnytjar aukizt.

Í landi Hrauns hafa fyrr á öldum myndazt margar hjáleigur, svo að Hraunshverfið varð þéttbýlt og mannmargt. Sennilega hafa hjáleigurnar orðið til á tímabilinu frá 13.-15. aldar, en annars fara engar sögur af þeim fyrr en í upphafi 18. aldar. Í manntali 1703 eru 6 hjáleigur í byggð í hverfinu, en engin þeirra nefnd með nafni. Þegar jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var ger árið 1708, eru hjáleigurnar taldar 8, og voru þar af 5 í byggð, en 3 í eyði. Þarna eru þær nafngreindar í fyrsta sinn, en þær voru þessar: Borg, síðar meir stundum nefnd Hraunsborg, þá í eyði, en byggðist fljótt aftur, Elliðakot, síðar jafnan nefnt Hafliðakot, Gamla-Hraun, byggt þar, sem áður var heimajörðin, þá í eyði um tíma, Litla-Hraun, Pálskot, fór í eyði í sjávarflóðinu 1653 og var aldrei byggt aftur, Salthóll, Stéttarendi, síðar jafnan nefnd Stéttar, og að lokum Stöðlakot. Loks var þurrabúðin Fok, sem þá var í eyði. Það var seinna byggt með grasi og kom þá í hjáleigutöluna í stað Pálskots, svo að þær voru 8 að tölu og lengstum allar í byggð fram undir síðustu aldamót, að Salthól undanskildum. Þess skal getið, að ekki er að marka ummæli jarðabókarinnar frá 1760 um þáverandi byggingu hjáleignanna í Hraunshverfi, því að þau eru tekin óbreytt eftir jarðabókinni 1708 og eiga við þann tíma. Hjáleigurnar eru taldar í sömu röð sem þar og hinar sömu sagðar vera í eyði. En það sést örugglega af öðrum heimildum, að þær eru þá allar í byggð nema Pálskot. Er á þetta bent til athugunar fyrir þá, sem að þessu kynnu að hyggja.
Lítið verður vart við þurrabúðir í Hraunshverfi á fyrri tímum. Þekki eg aðeins tvær með nafni frá 18. öld: Fok, sem seinna varð hjáleigubýli, og Gamla-Hraunskot (,,Folaldið“) á seinni hluta aldarinnar, en það fór í eyði eftir fáa áratugi. Stóð svo fram á seinni hluta 19. aldar. En á tveim síðustu áratugum aldarinnar, einkum eftir 1890, taka þurrabúðir að þjóta upp hver af annarri í Hraunshverfinu. Þannig bjuggu t. d. um tíma 6 þurrabúðarmenn á Gamla-Hrauni auk bændanna tveggja, 4 í Framnesi, 2 á Ólafsvöllum (,,Horni“), 2 í Gýgjarsteini o. s. frv. Um þessar mundir og á næstu áratugum var uppgangstími mikill í sjávarþorpunum Eyrarbakka og Stokkseyri, fiskveiðar voru í blóma, og verzlun óx og dafnaði. Þyrptist þá fólk þangað úr ýmsum áttum til þess að leita sér betri lífskjara. Í Hraunshverfi var að myndast þorp, sem fór um skeið hraðvaxandi. En þetta blómaskeið stóð ekki nema í þrjá áratugi og náði hámarki um aldamótin. Eftirfarandi tölur um fólksfjölda í Hraunshverfi í hálfa þriðju öld gefa mynd af langri kyrrstöðu, skyndilegum vexti og skjótri afturför:
TAFLA

Hinn snöggi afturkippur, sem kemur í byggðina eftir 1920, er afleiðing af breyttum atvinnuháttum, vaxandi tækifærum til að bjarga sér betur annars staðar. Fólkið er að komast inn í hinn nýja tíma. Það yfirgefur sín lágu hreysi og hlýðir kalli tímans, – hver af öðrum. Hinar gömlu hjáleigur eru sumar þá þegar komnar í eyði, þurrabúðirnar hverfa, og á einum áratug fækkar fólkinu um meira en helming. Árið 1937 leggst hið gamla höfuðból hverfisins, Stóra-Hraun, í eyði og 1946 síðasta þurrabúðin. Síðan hafa aðeins tvær jarðir verið í byggð í Hraunshverfi: Borg með einum ábúanda og Gamla-Hraun með tveimur bændum. Hin gamla byggð er að miklu leyti gengin á vit minninga og sögu, og tíminn gleypir minningarnar óðara, ef eigi er við honum séð. Þessi bók er skráð í því skyni að varðveita, eftir því sem mér er auðið, minningar og sögu ættbyggðar minnar, áður en það verður um seinan.

Saga þessa byggðarlags er einungis lítill þáttur í hinni miklu sögu lands og þjóðar, og fáa kann hún að telja stórviðburði á almennan mælikvarða. Þar hafa þó meira en þrjátíu kynslóðir lifað lífi sínu, háð sína baráttu og gengið á hólm við dulmögn lands og sjávar. Þar hafa menn sótt þroska sinn í baráttuna fyrir daglegu brauði og nært anda sinn við fornan og nýjan menningararf þjóðarinnar. Þar hefir náttúran búið börnum sínum fjölbreytta fegurð og víðsýn mesta á Íslandi. Þar hefir hafið leikið hljómkviðu sína í þúsund ár, ýmist ómþýða eða tröllslega, en ávallt með tignarbragði. Ekkert hefir mótað fólkið á ströndinni eins og samskipti þess við hafið, ekkert fylgt því eins á fjarlægum slóðum. Þannig á þessi byggð sem aðrar sína sérstöku sögu.

Leave a Reply

Close Menu