124-Sönglistarsjóður Stokkseyrarkirkju

Eins og áður er getið, stofnaði Gísli Pálsson í Hoftúni sjóð til eflingar góðum kirkjusöng á Stokkseyri. Fer hér á eftir skipulagsskrá hans, svo að sjá megi ger, hvert var markmið gefandans.

„1. gr. Sjóðurinn heitir Sönglistarsjóður Stokkseyrarkirkju, stofnaður 5. apríl 1928 af Gísla Pálssyni organleikara við Stokkseyrarkirkju, stofnfé kr. 250.00 – tvö hundruð og fimmtíu krónur

2. gr. Sjóðnum stjórnar fimm manna nefnd, sóknarnefndin 3 menn og organleikari sjálfkjörinn. Svo kýs söngflokkurinn einn mann eða það, sem

vantar í 5. Nefndin sér um að efla sjóðinn með frjálsum samskotum, söngskemmtunum, hlutaveltum og ýmsu því, er hún sér bezt henta, en ekki með neinum skyldugjöldum.

3. gr. Þegar sjóðurinn er orðinn 3000.00 kr. – þrjú þúsund krónur -, má taka út hálfa vexti ár hvert, sem söngflokkurinn skiptir í fyrirhöfn sína við söng kirkjunnar eða til að mennta einn eða fleiri í sönglist, sem á að koma að góðum notum við kirkjusönginn. Sönginn skal æfa og vanda á hverju ári með góðum áhuga og vandvirkni, svo góður verði.

4. gr. Nú falla æfingar niður og söngurinn er ekki góður að dómi nefndarinnar, skal þá ekki taka út vexti það ár; leggjast þeir þá við höfuðstól til þess að auka hann sem mest, svo söngflokkurinn fái vilja á að fá sönginn sem beztan sem hægt er með þekkingu, vilja og góðri ástundun.

5. gr. Sjóðinn má aldrei skerða. Hann skal vera á góðum rentustað, vel tryggðum, t. d. Söfnunarsjóði Íslands. Hann skal vera eign Stokkseyrarkirkju og notaður í þessar þarfir, sem að ofan er getið, en ekki skal hann renna saman við sjóð kirkjunnar, og ávallt skulu reikningar hans færðir út af fyrir sig í þar til gjörða bók við kirkjuna. Ákvæði laga um, að fé kirkna skuli ávaxta í hinum almenna kirkjusjóði, nái ekki til þessa sjóðs. Þó að hin evangelíska-lútherska kirkja hætti að vera þjóðkirkja Íslands, má sjóður þessi aldrei verða eign ríkisins, heldur skal hann þá verða algjör eign evangelísk-lúthersks safnaðar Stokkseyrar.

6. gr. Reikningur sjóðsins skal lesinn upp ár hvert á safnaðarfundi með reikningum kirkjunnar, útskýrður eftir þörfum, og fylgja reikningum hennar til prófasts, undirskrifaðir af nefndinni.“

Sönglistarsjóðurinn er ávaxtaður í Söfnunarsjóði Íslands, eins og ráð er fyrir gert í skipulagsskránni. Síðan 1943 hafa hálfir vextir verið teknir út. Í febrúar 1958 var sjóðurinn að upphæð kr. 8.794.58 samkvæmt upplýsingum frá þáverandi formanni sóknarnefndar, Guðjóni Jónssyni í Vestri-Móhúsum.

Leave a Reply

Close Menu