171-Slysavarnardeildin Dröfn

Slysavarnadeildin „Dröfn“ á Stokkseyri var stofnuð 22. des. 1928 að tilhlutan Slysavarnafélags Íslands. Jón Sturlaugsson hafnsögumaður vann mest að undirbúningi undir stofnun deildarinnar og setti stofnfundinn, enda var hann jafnan hinn mesti áhugamaður um slysavarnir og öryggi sjómanna. Á fundinn kom Jón E. Bergsveinsson erindreki slysavarnafélagsins, flutti erindi um slysavarnir og hvatti menn að lokum til að stofna deild á Stokkseyri. Tók Jón Sturlaugsson í sama streng. Á þessum fundi skrifuðu 33 menn nöfn sín á lista sem stofnendur. Deildin hlaut nafnið „Dröfn“, og skyldi starfssvið hennar ná frá Hraunsá til Þjórsár, og stóð svo, unz slysavarnadeildin „Gaulverjinn“ var stofnuð 14. des. 1939. Fyrstu stjórn „Drafnar“ skipuðu þessir menn: Karl Guðmundsson í Laufási formaður, Sæmundur G. Sveinsson í Vestri-Móhúsum ritari og Guðjón Jónsson í Íragerði, síðar í Vestri-Móhúsum, gjaldkeri. Á aðalfundi deildarinnar í desember árið eftir var félagatala hennar orðin 132.

Þegar á fyrsta starfsári fekk deildin björgunartæki frá slysavarnafélaginu að nokkru fyrir atbeina Jóns Sturlaugssonar, og voru það næstfyrstu tækin, sem send voru út um land. Var það línubyssa og útbúnaður með henni. Að tillögu Jóns var Ásgeiri Eiríkssyni falin meðferð byssunnar. Árið 1930 kom Jón E. Bergsveinsson austur til að halda æfingar í meðferð björgunartækja. Sótti hann og oft aðalfundi deildarinnar fyrstu árin og flutti erindi um slysavarnamál. Annars fóru æfingar fram árlega, og 1936 komu ný tæki, björgunarstóll og fleira, sem þar heyrir til. Var þeim Ásgeiri Eiríkssyni og Þorkeli Guðjónssyni talin umsjón með þessum áhöldum og æfingar í notkun þeirra. Árið 1939 samdi félagsdeildin um að fá bát til afnota á Stokkseyri, ef þörf krefði, en 1944 fekk deildin sérstakan björgunarbát frá slysavarnafélaginu. Lét deildin síðan reisa skýli yfir bátinn og Önnur björgunartæki, og stendur það á túninu fyrir framan ,,Gimli“, skammt fyrir austan Beinateig. Hefir Þorkell Guðjónsson haft umsjón með tækjunum og meðferð þeirra mörg undanfarin ár. Innan deildarinnar starfar sérstök björgunarsveit, þar á meðal ákveðnir menn, er vera skulu formenn á björgunarbátnum.

Nokkrum sinnum hefir komið til kasta sveitarinnar um aðstoð eða björgun. Í byrjun stríðsáranna bjargaði sveitin undir forustu Ásgeirs Eiríkssonar þremur setuliðsmönnum, sem farið höfðu í óleyfi á báti út á Ölfusá hjá Selfossi, strandað á skeri í ánni og misst frá sér bátinn. Skotið var línu yfir ána og taug síðan dregin yfir og fest báðum megin árinnar, þannig að taugin lá yfir skerinu, og voru mennirnir síðan dregnir á stóli á land. Einu sinni strandaði milliferðabáturinn „Gísli Johnsen“ úr Vestmannaeyjum fram undan Knarrarósvita með farþega og flutning. Björgunarsveitin gerði út leiðangur, annan á landi, en hinn sjóleiðis, og var áhöfn og farþegum bjargað af sjó. Veruleg hætta var hér ekki á ferðum, því að veður var gott, og losnaði báturinn út daginn eftir. Mesta björgunarafrek sveitarinnar er það, er hún bjargaði 10 manna áhöfn af vélskipinu „Ingólfi Arnarsyni“ frá Reykjavík 14. marz 1950. Skipið strandaði á Laxgrjótum fram af Ragnheiðarstöðum í norðanroki og gaddi. Var sveitinni gert aðvart, og kom hún skjótt á vettvang. Línu var skotið út í skipið, og heppnaðist það í fyrsta skoti. Mennirnir voru síðan dregnir á land í björgunarstóli og náðust allir heilir á húfi, en skipið brotnaði í spón.

Heiðursskjal Slysavarnardeildarinnar á Stokkseyri fyrir björgun.

Fyrir þessa gæfusamlegu björgun sæmdi Slysavarnafélag Íslands sveitina sérstöku heiðursskjali.

Slysavarnadeildin á Stokkseyri hefir látið mörg mál til sín taka, þau er lúta að vörnum gegn slysum eða auka öryggi manna, einkum á sjó. Á fyrsta aðalfundi deildarinnar hafði Jón Sturlaugsson framsögu um vitamál og benti á nauðsyn þess að hafa vita á Loftsstaðahól og á Hafnarnesi og enn fremur að hafa bát til taks í Þorlákshöfn. Flutti Jón þetta mál á fundum deildarinnar ár eftir ár, meðan hans naut við, og voru gerðar um það margar samþykktir til Slysavarnafélags Íslands og hlutaðeigandi stjórnarvalda. Þessi áhugi Stokkseyrardeildarinnar mun án efa hafa átt mikinn þátt í því, að mál þetta var leyst með byggingu hins glæsilega Knarrarósvita vorið 1939. Þótti grundvöllur þar heppilegri að byggja á en á Loftsstaðahól. Hins vegar er vitinn á Hafnarnesi ókominn enn.

Annað mál, sem deildin hefir látið sig miklu skipta, er sundkennsla á Stokkseyri. Hafði ungmennafélagið lengi haft það mál á stefnuskrá sinni, en fekk nú öflugan stuðning. Á aðalfundi 1933 var samþykkt tillaga frá Helga Sigurðssyni um, að deildin beitti sér fyrir sundnámskeiði í sambandi við ungmennafélagið, og árið eftir var samþykkt svofelld tillaga frá Jóni Sturlaugssyni: ,,Fundur slysavarnadeildarinnar „Drafnar“ á Stokkseyri skorar á stjórn Slysavarnafélags Íslands að vinna að því við þing og stjórn, að sundkennsla verði gerð að skyldunámsgrein við barnaskóla landsins.“ Fyrir tilverknað þessara félaga og þar á meðal einnig Verkalýðs- og sjómannafélagsins „Bjarma“ og með styrk frá þeim var sundkennslu haldið uppi í mörg ár á Stokkseyri eða þangað til sund varð skyldunámsgrein í barnaskólum. Síðan hefir Barnaskóli Stokkseyrar annazt um sundkennsluna.

Enn fremur hefir deildin beitt sér fyrir kennslu í hjálp í viðlögum. Eitt slíkt námskeið var haldið 1939, og má vera, að þau hafi verið fleiri. Ýmis önnur mál, sem til öryggis horfa, hefir borið á góma hjá deildinni, svo sem hleðslumerki skipa, öryggislínu eftir endilöngu skipi, vaktir á skipum, símalínu með sjónum frá Stokkseyri að Fljótshólum, talstöðvar í fiskibáta, merkingu fyrir sjúkraflugvelli o. fl. Árið 1949 gaf deildin 1000 kr. til björgunarflugvélar, sem þá var verið að safna til víða um land.

Tekjur deildarinnar eru fyrst og fremst ársgjöld félagsmanna. Um eitt skeið gekkst deildin og fyrir skemmtisamkomum, ýmist ein eða í félagi við aðra, og varð stundum af þeim talsverður ágóði, enda nýtur deildin stuðnings og velvildar hreppsbúa. Fallegt dæmi slíkrar velvildar er það, að Gamalíel Jónsson í Tjarnarkoti, sem lézt árið 1936, arfleiddi slysavarnadeildina að helmingi eigna sinna, sem reyndust vera um 3500 kr. Hafði hann þó ekki tekið virkan þátt í störfum deildarinnar, enda var hann orðinn aldraður maður.

Formenn slysavarnadeildarinnar hafa verið þessir:

Karl Guðmundsson, Laufási, 22/12 1928-d.10/7 1929.
Helgi Sigurðsson, Bræðraborg, 10/7 1929-15/12 1929.
Nikulás Torfason, Söndu, 15/12 1929-19/12 1930.
Ásgeir Eiríksson kaupm. 19/12 1930-11/2 1934.
Guðni Eyjólfsson, Björgvin, 11/2 1934-d.17/3 1938.
Sigurður I. Gunnarsson 17/3 1938-24/1 1943.
Þórarinn Guðmundsson, Sandprýði, 24/1 1943-29/1 1945.
Símon Sturlaugsson, Kalastöðum, 29/1 1945-19/1 1947.
Helgi Sigurðsson, Bræðraborg, aftur 19/1 1947 og síðan.

Auk Helga Sigurðssonar skipa þessir menn stjórn deildarinnar: Baldur Teitsson varaformaður, Björgvin Sigurðsson ritari og Haraldur Júlíusson gjaldkeri. Í árslok 1958 var félagatala 277.

Leave a Reply

Close Menu