Lög um skipulag kauptúna og sjávarþorpa voru sett árið 1921, en víða var þess langt að bíða, að þau kæmust í framkvæmd. Á almennum hreppsfundi á Stokkseyri 22. jan. 1927 hóf Sigurður Heiðdal oddviti máls á skipulagningu þorpsins í tilefni af skýrslu til skipulagsnefndar vegna Stokkseyrarbrunans mikla. Skýrði hann frá því, að samkvæmt fengnum upplýsingum mundi það kosta hreppinn allt að 1500 kr. að láta gera skipulagsuppdrátt af þorpinu. Undirtektir urðu engar, og var málið því tekið út af dagskrá. Tíu árum síðar var mál þetta aftur á döfinni hjá hreppsnefndinni, og á fundi hennar 12. ágúst 1937 var oddvita falið að senda skriflega umsókn um það til hlutaðeigandi ráðuneytis að fá skipulagsuppdrátt af þorpinu og jafnframt að fara fram á, að ríkið bæri allan kostnað af því. Ekki varð þó frekara úr framkvæmdum að sinni, en málinu var haldið vakandi öðru hvoru, t. d. greiddi hreppurinn árið 1941 kr. 283.52 í kostnað í þessu skyni. Loks lét Skipulag ríkisins gera nákvæman skipulagsuppdrátt af þorpinu á sínum vegum, og var unnið að því verki í tvö sumur og því lokið í nóvember 1947, en mælingar og uppdrátt gerðu verkfræðistúdentarnir Ásgeir Jónsson, Gunnar Sigurðsson, Loftur Þorsteinsson og Páll Hannesson. Hefir verið byggt samkvæmt þessum uppdrætti síðan.
Á fundi hreppsnefndar 24. ágúst 1947 var samþykkt ný byggingarsamþykkt fyrir Stokkseyrarkauptún og jafnframt var í fyrsta sinn kjörin skipulagsnefnd fyrir kauptúnið, og hefir hún starfað sem fastanefnd síðan.