Allt frá landnámstíð hafa Íslendingar sjálfir smíðað skip og báta til notkunar við fiskveiðar, ferjuhald og flutninga innan lands. Smíðarefnið var ýmist innflutt timbur eða rekaviður, og sögur herma jafnvel, að haffær skip hafi í fornöld verið smíðuð hér á landi úr innlendum efniviði.[note]Íslendinga sögur I, 39, 263; VIII, 155.[/note] Þar eð skipasmíðar voru undirstaða undir öðrum aðalatvinnuvegi landsmanna, var starf skipasmiðanna harla nauðsynlegt og merkilegt. Einkum höfðu þeir miklu hlutverki að gegna í verstöðvunum eða þar sem svo hagaði til sem í Stokkseyrarhreppi, enda munu þar jafnan hafa verið menn, er framarlega stóðu í þeirri grein. Sem einstök dæmi frá fyrri öldum má nefna það, að árið 1338 var „smíðað kaupskip á Eyrum á Íslandi og gekk til Noregs samsumars“,[note]Skálholtsannáll, lslandske Annaler ved G. Storm, 208. [/note] og enn fremur, að árið 1652 „lét biskupinn M. Brynjólfur Sveinsson smíða og byggja stórt skip; í því var vel 20 álna langur kjölur; það átti að vera farmaskip og var smíðað á Eyrarbakka“.[note]Fitjaannáll, Annálar 1400-1800 Il, 169.[/note] Vana og duglega skipasmiði hefir þurft til að leysa slíka stórsmíði af hendi. Sökum þess hve mikilvægt starf skipasmiðanna var, skulu hér nefndir þeir smiðir, sem kunnugt er um í Stokkseyrarhreppi hinum forna. Því miður verður það þó lítið annað en upptalning á nöfnum þeirra margra, þar sem vitneskja um smíðar þeirra er af skornum skammti, eins og að líkindum lætur. Um stærð og tegundir skipa og báta er rætt hér á öðrum stað, en um skipasmíðar almennt og aðferð við þær verður að vísa til annarra heimilda.[note]Sjá m. a. Iðnsögu Íslands I, 318-357.[/note] Fyrsti nafngreindi smiðurinn í Stokkseyrarhreppi var Snorri Jónsson bóndi á Hæringsstöðum (d. 1650). Hann er í gamalli ættartöluheimild kallaður „smiður mikill“, án þess að nánara sé til greint, hvers konar smíði hann hafi einkum lagt stund á, en ekki er ólíklegt, að skipasmíðar hafi verið þar á meðal.[note]Biskupa s. Il, 676; Ísl. æviskrár III, 142, V, 492; Bólstaðir, 88. [/note] Samtímis Snorra eða litlu yngri var Ormur Indriðason bóndi í Hólum (d. 1661). Hann er sums staðar kenndur við Skúmsstaði á Eyrarbakka og sagður hafa verið skipasmiður, en eigi kann eg gerr frá því að segja.[note]Sama rit, 67-68.[/note] Um líkt leyti var og uppi Brynjólfur Sveinbjarnarson bóndi á Rekstokki, sem nefndur er skipasmiður í ættartölum. Hann var sonur Sveinbjarnar bónda á Skúmsstöðum Geirmundarsonar lögréttumanns á Háeyri Jónssonar prests í Hruna Héðinssonar, en móðir Brynjólfs var Ingunn Gísladóttir sýslumanns í Miðfelli Sveinssonar. Dóttir Brynjólfs var Ingunn (f. 1640), kona Sigurðar Jónssonar í Einarshöfn 1703[note] Sýsl. IV, 257; Lögréttumannatal, 149-150; Manntal 1703, 150; Bólstaðir, 67.[/note] Sennilegt er, að þeir Ormur og Brynjólfur hafi unnið að smíði hins mikla farmaskips fyrir Brynjólf biskup, sem um var getið.
Næst ber hér að nefna Jón Guðmundsson bónda í Hólum (1650-1725). Hann var sonarsonur Orms Indriðasonar og fjölhæfur smiður. Jón var landseti biskupsstólsins í Skálholti, og segir svo í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1708, að hann hafi síðastliðin 20 ár borgað landskuld, leigur og kvaðir á jörðinni „með skipasmíði og aðgjörð og svo öðrum smíðum stólsins vegna“.[note]Sama rit, 68-69.[/note]
Á fyrra hluta 18. aldar voru tveir skipasmiðir, sem kunnugt er um á Eyrarbakka. Annar þeirra var Klemenz Jónsson bóndi í Einarshöfn (1687-1746). Hann var góður bóndi, formaður í Þorlákshöfn og hafði umsjón með fiski biskups á Eyrarbakka. Árið 1727 bað Jón biskup Árnason hann að smíða fyrir sig bát á Brúará og saga efnið í hann úr rekatrjám.[note]Saga Eyrarbakka I, 106-107.[/note] Klemenz var sonur Jóns Þorkelssonar í Vestra-Íragerði. Meðal barna hans voru Felix hreppstjóri í Einarshöfn, Gunnar smiður í Skálholti, Ingunn, kona Þorsteins Péturssonar á Hrauni og Guðbjörg, kona Guðmundar Jónssonar í Sölkutóft. Hinn smiðurinn var Tómas Þorsteinsson bóndi á Skúmsstöðum (1699-1754). Samkvæmt uppskrift á dánarbúi hans var hann stórvel efnaður og lét eftir sig smíðatól bæði á tré og járn og enn fremur nokkuð af eik og furu, sem sýnir, að hann hefir verið skipasmiður.[note]Skiptab. Ám. 27. nóv. 1754, sbr. Sögu Eyrarbakka I, 121-122.[/note] Tómas var sonur Þorsteins Guðmundssonar á Skúmsstöðum. Kona hans var Þórdís Bjarnadóttir bónda á Skúmsstöðum Jónssonar, og áttu þau börn. Hálfbróðir Tómasar var Filippus á Skúmsstöðum, faðir Höllu hinnar fyrri á Hrauni.
Nú víkur sögunni að merkum og nafnkunnum skipasmið, sem meira er kunnugt um en þá, sem getið er hér á undan. Sá maður er Brandur Magnússon bóndi í Roðgúl (1727-1821). Hann var snilldar smiður bæði á tré og járn, og var orð gert á hagleik hans og listfengi. Skip þau, er hann smíðaði, voru orðlögð fyrir styrkleika sakir og sérkennilegt lag, er á þeim var. Þau voru breiðari en almennt þekktist áður, viðtakabetri og því hentugri í brimsundum. Það er talið, að Brandur hafi fyrstur manna fundið upp á því að járna keipa í bátum og skipum bæði undir árahlummunum, í áfellum og við bakskauta, svo að árarnar gætu leikið því léttara og liðugra í keipunum, og var það nefnt að gelda í keipa. Var skip Brands sjálfs því í háði nefnt Járnnefur, meðan menn kunnu ekki að meta þessa endurbót, en annars hét það réttu nafni „Bæringur“. Skip það var sterkt mjög og viðamikið, lengd kjalarins var 9½ alin, en breidd miðskips 4½ alin. Að framan og aftan var það svo viðtakamikið, að það afbar jafnvel stærstu brimsjói, þá er eigi lykkjuféllu yfir það og fylltu það og ef stjórn þess bilaði eigi, þótt árar væru settar í kjöl og skipið væri látið hlaupa með, án þess að undan skæri. Eins og frásögn þessi ber með sér, hefir Brandur endurbætt hið forna skipalag og gert enn fleiri umbætur frá því, sem áður var. Hafa yngri skipasmiðir þar um slóðir án efa lært af honum. Sagan segir, að Jón Snorrason, sem getið verður hér á eftir, hafi komið til Brands, er Jón var unglingur, og beðið hann að kenna sér skipasmíði. Brandur kvaðst ekki geta kennt honum, en benti honum á að skoða vandlega skip þau, er hann hafði smíðað, og sagði sem svo: ,,Ef þú vilt eða getur, þá hafðu skip þín lík skipum þeim, sem þú veizt, að eg hefi smíðað, og hafðu þau með sama lagi. Og einkum skaltu gæta þess, að viðtökin að aftan og framan séu góð og svo mikil, að þau brjóti sjóinn, en sjórinn eigi þau eða gleypi skipið.“
Sú er ein saga um Brand, að einu sinni, er hann var að setja efsta umfarið í skip, er hann var að smíða, bilaði vinda sú eða klemma, er hann sveigði borðið með, og sló það Brand svo hörðu höggi, að hann hrökk rétt mælda 5 faðma frá hrófinu og féll við. Stóð hann þó brátt upp aftur og sagði og stamaði nokkuð, eins og við bar, þegar honum var mikið í hug: ,,Þa-það skal þó við.“ Síðan gekk hann til smiðju sinnar, smíðaði vinduna úr tré og kom borðinu fyrir, eins og hann vildi hafa það.[note]Austantórur I, 14-15, eftir handriti Jóns Gíslasonar í Meðalholtum; Bólstaðir, 326- 327.[/note]
Þess skal getið, að systursonur Brands í Roðgúl var Gísli Pétursson á Óseyri í Hafnarfirði (1775-1851), nafnkunnur og ágætur skipasmiður á sinni tíð. Er sennilegt, að hann hafi í fyrstu numið af Brandi beint eða óbeint, þótt síðar fengist hann stundum við stærri smíði.
Sá skipasmiður, sem næst verður fyrir og mikið kvað að, var Jón Snorrason bóndi í Nesi og á Stóra-Hrauni og Ásgautsstöðum (l764-1846). Skip þau, er hann smíðaði, voru traust og vönduð og með líku lagi og skip Brands í Roðgúl, enda hefir Jón numið óbeint af honum. Árið 1832 ritaði Þórður sýslumaður Sveinbjörnsson amtinu tillögur um þá menn í Árnessýslu, er öðrum fremur væru verðlauna verðir fyrir dugnað og framtakssemi til lands og sjávar. Telur hann Jón Snorrason meðal þeirra og kemst svo að orði um hann: ,,Þessum verðuga öldungi og ótrauða iðjumanni verð eg auðmjúklega að mæla með til verðlauna, þar eð skipasmíðarnar eru óneitanlega öllu öðru fremur fiskveiðum og sjávarútvegi til stuðnings og eflingar. En með því að smíða svo mörg skip sem raun er á á sinni löngu ævi verður að telja, að þessi aldurhnigni maður hafi stutt þessar atvinnugreinar meira en nokkur annar maður í Árnessýslu.“[note] Sama rit, 9-10.[/note] Með umsókn Jóns og meðmælum sýslumanns fylgdi vottfest skýrsla um störf Jóns á þessu sviði, þar á meðal efalaust um það, hve mörg skip Jón hafði smíðað af ýmsum stærðum. Því miður finnst nú ekki þessi skýrsla þar, sem hennar hefði helzt verið von í Þjóðskjalasafni. Mun hún hafa verið send utan með umsókninni til Landbúnaðarfélagsins danska, en ekki endursend þaðan. Í skjölum þess félags mundi hennar því helzt að leita, svo framarlega sem hún er til. Er hér á þetta hent þeim til vísbendingar, er að kynnu að vilja hyggja fyrr eða síðar. Afkomendur Jóns Snorrasonar nefnast Nesætt, og varð hann kynsæll maður.
Samtímis Jóni Snorrasyni var á dögum annar merkur skipasmiður í Stokkseyrarhreppi. Það var Þorkell Jónsson bóndi og hreppstjóri á Háeyri og síðar á Gamla-Hrauni (1766-1820). Hann var þjóðhagasmiður bæði á tré og járn. Allan saum rak hann sjálfur til skipa þeirra, er hann smíðaði, svo sem fleiri skipasmiðir gerðu. Hann var iðjumaður mikill, og bát hafði hann á bakkastokkum, þá er hann lézt. Ýmsir smíðisgripir eftir Þorkel voru lengi til á Gamla-Hrauni, kistur með skrám og lömum og byrður úr rauðaviðarborðum, er söguð voru úr rekatrjám. Þorkell var kynsæll maður, og nefnast afkomendur hans Gamla-Hraunsætt. Í þeirri ætt hafa verið margir smiðir og hagleiksmenn.[note]Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 161-172.[/note] Tveir synir Þorkels voru smiðir, Símon bóndi á Gamla-Hrauni, einkum á tré, og Jón halti, sem fekkst við alls konar járnsmíði. Dóttursynir Símonar vorum. a. Jón Guðmundsson á Gamla-Hrauni, faðir skipasmiðanna í Vestmannaeyjum: Þórðar á Bergi, Guðmundar á Háeyri, Gunnars Marels og Magnúsar á Bergi; Guðmundur smiður í Ólafsvík, faðir Guðmundar vélsmiðs og forstjóra Hampiðjunnar í Reykjavík, og Jóhann á Litlu-Háeyri, faðir Runólfs skipasmiðs í Vestmannaeyjum; en sonarsonur Símonar á Gamla-Hrauni var Símon Jónsson bóndi og trésmiður á Selfossi. Þriðji sonur Þorkels Jónssonar á Gamla-Hrauni var Árni á Stéttum, faðir Jóhannesar skipasmiðs á Stéttum, föður Sigurjóns smiðs á Gamla-Hrauni, föður Guðmundar skipa- og húsasmiðs á Sunnuhvoli á Stokkseyri, sem öllum þar var að góðu kunnur. Verður sumra þessara manna getið nánara hér á eftir.
Sá, sem næst verður hér nefndur, er Helgi Jónsson á Ásgautsstöðum og víðar (1810-1867). Hann var skipasmiður og átti m. a. smíðahamar Brands í Rúðgúl. Helgi var ættaður frá Grímsfjósum og var síðasti maður Ingunnar, dóttur Jóns skipasmiðs Snorrasonar.
Einn hinn fjölhæfasti smiður í Stokkseyrarhreppi á sinni tíð var Jón Gíslason frá Kalastöðum og Syðra-Seli, lengi bóndi og hreppstjóri í Austur-Meðal. holtum ( 1826-1907). Hann var bæði skipasmiður og einnig hinn listfengasti smiður á járn og kopar. Bjarni Guðmundsson ættfræðingur segir um Jón í ættartölubókum sínum: ,,Hann var einn sá fjölhæfasti og mesti smiður á tré, járn og kopar á þeim dögum í Árnessýslu, skarpur að gáfum, fróður og minnugur mjög, var hreppstjóri í Bæjarhreppi og sýslunefndarmaður.“ Um skipasmíðar Jóns er nú orðið fátt kunnugt, en nefna má það, að árið 1859 smíðaði hann áttæringinn „Fortúnu“ handa Grími, bróður sínum, eins og áður er sagt. Hann var smíðaður úr viðum úr kaupskipinu „Absalon“, sem strandaði á Eyrarbakka 15. maí 1859. Enn fremur smíðaði Jón í kringum 1860 áttróinn sexæring fyrir Guðmund Þorkelsson á Gamla-Hrauni. Hét sá „Bifur“, mjór og í minna lagi, en einstök gangstroka, eins og Jón hreppstjóri á Hlíðarenda komst að orði. Benda þau ummæli til lagsins á skipum þeim, er Jón Gíslason smíðaði. Jón var greindur maður og fróður og skrásetti á efri árum sínum ýmsan fróðleik úr átthögum sínum.[note]Kambránssaga, 3 útg. Rvík 1954, 217-230; Austantórur I, 18; Hver er maðurinn I, 361.[/note]
Þá víkur sögunni að þeim manni, er flestum var mikilvirkari í skipasmíð á sinni tíð, en það var Steinn Guðmundsson í Einarshöfn ( 1838-1917). Hann byrjaði skipasmíði 18 ára gamall án þess að hafa lært neitt sérstaklega til þess, fremur en flestir aðrir, sem hér er frá sagt. Smíðaði hann langflest þeirra skipa, sem gengu frá Þorlákshöfn á síðara hluta 19. aldar og þó lengur. Skip þau, er hann smíðaði, voru yfirleitt talin ágæt að gerð og traustleika og voru flest mjög happasæl. Árið 1888 var Steini veitt heiðursgjöf úr Styrktarsjóði Kristjáns konungs IX, að upphæð 140 krónur, fyrir að hafa smíðað 138 róðrarskip „með betra lagi en áður var“.[note] Landshöfðingjabréf 19. sept. 1888.[/note] Í janúar 1914 sótti Steinn um allt að 100 kr. styrk úr Ábyrgðarsjóði opinna róðraskipa í Árnessýslu „í viðurkenningarskyni fyrir að hafa smíðað um 300 róðrarskip, er hafi gott orð á sér og heppnast vel“. Veitti stjórn sjóðsins honum einróma styrk þennan, þannig að hann fengi 25 kr. á ári í 4 ár (1914-17).[note] Gjörðabók Ábyrgðarsjóðs opinna róðraskipa 25. jan. og 15. febr. 1915; Sig. Þorsteinsson Þorlákshöfn II, 116-118 (Endurminningar Jóns á Hlíðarenda).[/note] Af skipum þeim, sem Steinn smíðaði, skulu hér aðeins nefnd tvö. Annað var skip Jóns hreppstjóra á Hlíðarenda, sem sagt er, að Steinn hafi smíðað ásamt þremur öðrum á 12 dögum, en hitt var skip Páls hreppstjóra Grímssonar í Nesi í Selvogi, hvorttveggja teinæringar og ágæt sjóskip. Skip Páls Grímssonar er hið eina, sem enn er til af gömlu áraskipunum austanfjalls, að vísu orðið mjög lasmeyrt. Það stóð í mörg ár úti á Eyrarbakka og horfði til að verða þar eyðingunni að bráð, enda þótt það ætti að heita í umsjá opinberra aðilja. Fyrir framtakssemi Sigurðar Guðjónssonar skipstjóra á Litlu-Háeyri var skipinu loks bjargað frá að grotna alveg niður. Hann tók það í sína vörzlu og reisti skýli yfir það. Áður en skipið var farið að skemmast verulega, var það allt mælt nákvæmlega og gerð teikning af því með máli á hverri röng. Var mæling þessi gerð að tilhlutun Þjóðminjasafnsins, og er uppdrátturinn varðveittur þar og svo. frá honum gengið, að smíða má skipið upp nákvæmlega eins og það var.
Samtímamaður Steins og mikilvirkur skipasmiður var einnig Jóhannes Árnason á Stéttum ( 1840–1923), sonarsonur Þorkels skipasmiðs Jónssonar á Gamla-Hrauni, sem áður er getið. Jóhannes var ágætur skipasmiður, og kom hann nýju og betra lagi á róðrarskipin þar um slóðir en áður hafði tíðkazt. Skip hans voru viðtakagóð og betri en þau, sem áður tíðkuðust, einkum í brimi; framstefnið var beint fram á við, en áður bogið, og setti það fallegri svip á skipið. Jóhannes smíðaði mikinn fjölda róðrarskipa, einkum fyrir Stokkseyringa, en því miður eru engar tölur til um fjölda þeirra. Hér skal nefna fáein, sem eg hefi heyrt getið um. Eitt með fyrstu stórskipum, sem Jóhannes smíðaði, var skip Tyrfings Snorrasonar, er fórst á vertíðinni 1863. Árið 1878 smíðaði Jóhannes tíróið skip fyrir Pál Jónsson á Syðra-Seli og um 1888 tólfróið skip, er „Svanur“ hét, fyrir Gamla-Hraunsfeðga, Guðmund Þorkelsson og Jón Guðmundsson. Smíðalaunin fyrir það skip voru 70 krónur. Síðasta skipið, sem Jóhannes smíðaði, var fyrir Eyjólf Sigurðsson í Björgvin árið 1916, og má af því sjá, að hann hefir unnið að skipasmíðum í um það bil hálfan sjötta áratug. Jóhannes var afkastamaður mikill við smíðar, enda hraustmenni, hár maður vexti, sívalur og gildur, fremur stórskorinn og myndarlegur á velli. Hann var formaður á Stokkseyri í mörg ár, og stóð sjóbúð hans á Grímsfjósatúni vestanverðu.[note] Saga Hraunshverfis, 109; Mannlýsingar eftir Jón Pálsson (í hdr.); Suðurland, 3. des. 1955. [/note]
Nokkru yngri en Jóhannes á Stéttum var Hallgrímur Jóhannesson á Kalastöðum (1851-1912). Hann var góður smiður bæði á tré og járn, en stundaði einkum skipasmíðar og viðgerðir á skipum og farviði. Skip þau, er Hallgrímur smíðaði, voru bæði svipfalleg og traust og með mjög líku eða sama lagi sem skip Jóhannesar á Stéttum. Hallgrímur bjó í Borg í Hraunshverfi á árunum 1876-1883, en átti síðan heima í þurrabúð á Kalastöðum og stundaði smíðar og sjómennsku. Annálaðir voru skautar þeir, er Hallgrímur smíðaði, og mjög eftirsóttir. Hallgrímur var mikill maður vexti, fullar þrjár álnir á hæð, herðibreiður, beinvaxinn og svaraði sér vel. Hann var karlmenni bæði í sjón og reynd, raungóður maður og drengur hinn bezti. Hann var formaður á Stokkseyri um nokkurt skeið og gekk vel. Eftir að hann hætti formennsku, var hann í mörg ár eftirlitsmaður með sjóferðum manna á Stokkseyri, fylgdist með því, hvernig sjór og sund voru, þá er menn voru á sjó, og gaf þeim bendingar um það með því að flagga á tilteknum stöðum. Var þetta ábyrgðarmikið trúnaðarstarf.[note]Saga Hraunshverfis, 68-69; Mannlýsingar eftir Jón Pálsson (í hdr.); Suðurland, 25. maí 1912.[/note]
Með hinum síðustu, er stunduðu smíði opinna skipa á þessum slóðum, var Sigurjón Jóhannesson á Gamla-Hrauni (1865-1946). Hann var sonur Jóhannesar skipasmiðs á Stéttum og lærði af föður sínum. Sigurjón smíðaði róðrarskip og báta og gerði einnig við eldri skip. Hann var einnig góður járnsmiður, verkmaður mikill, stór vexti og rammur að afli sem faðir hans. Sigurjón var formaður á Stokkseyri á yngri árum, en var ekki aflasæll að sama skapi sem hann var duglegur til sjávarverka. Hætti hann því formennsku, en gaf sig því meira að smíðum sínum.
Margir eru þeir auðvitað fleiri, sem lagt hafa hönd að skipa- og bátasmíði í Stokkseyrarhreppi, en hér eru taldir. Þannig smíðuðu þeir Magnús Hannesson í Hólum og Ólafur Gunnarsson á Baugsstöðum fjögramannafar, sem þeir reru til fiskjar úr Tunguósi í nokkrar vertíðir. Má svo hafa verið um fleiri, þótt eigi legðu þeir skipasmíði fyrir sig að öðru leyti.