068-Samvinnufélag Stokkseyringa

Á árunum eftir 1930 voru krepputímar hér á landi, erfitt var um útvegun rekstrarfjár, og atvinna dróst saman. Á Stokkseyri voru allar horfur á, að mikið mundi draga úr útgerðinni, en af því hlaut að leiða meira eða minna atvinnuleysi í þorpinu. Nokkrir framtakssamir og áhugasamir menn, flestir úr verkalýðsfélaginu, tóku sig þá til og stofnuðu með sér samvinnufélag um útgerð og annað, sem þar að lýtur. Félag þetta nefndist Samvinnufélag Stokkseyringa og var stofnað 23. nóv. 1933, en aðalforgöngumenn að félagssamtökum þessum voru þeir Helgi Sigurðsson í Bræðraborg, Guðmundur Einarsson í Merkigarði og Nikulás Bjarnason í Bræðraborg. Í fyrstu stjórn félagsins voru þeir Helgi Sigurðsson, Sigurður I. Sigurðsson og Nikulás Bjarnason, en í varastjórn Guðjón Jónsson, Björgvin Sigurðsson og Ingimundur Jónsson á Strönd. Framkvæmdastjóri var Guðmundur Einarsson í Merkigarði.

Tilgangur félagsins var sá
1) að koma á skipulagsbundinni útgerð á Stokkseyri með því að útvega góð og hentug skip til fiskiveiða og gera þau út með samvinnusniði,
2) að koma upp svo fljótt sem verða má íshúsi, lýsisbræðslu og öðru til hagsbóta útgerðinni,
3) að sjá um verkun, hagnýtingu og sölu á afurðum félagsins,
að vinna að umbótum á veiði- og söluaðferðum, aukinni vöruvöndu
n og sem fullkomnastri hagnýtingu aflans og
4) að safna fé í tryggingar- og rekstrarsjóði.

Félaginu tókst vonum bráðar að útvega fé til fyrirtækisins með ábyrgð frá hrepp og ríki. Nam ábyrgð hreppsins 85.000 krónum. Jafnframt hófst félagið handa um útvegun fiskiskipa. Lét það smíða þrjá vélbáta, hvern um sig um 16 rúmlestir að stærð, í Friðrikssundi í Danmörku. Komu þeir allir til Stokkseyrar 1934 og nefndust „Hásteinn”, „Hersteinn” og „Hólmsteinn”. Þetta voru góðir og fallegir bátar, og var þeim vel fagnað af hreppsbúum. Hófu þeir róðra á vertíðinni 1935.

Samvinnufélag Stokkseyringa starfaði í 10 ár, og má segja, að því vegnaði fremur vel. Fiskaðist allvel og árferði var gott, einkum seinni árin. Engu að síður átti félagið þó við ýmsa erfiðleika að etja, meðal annars og jafnvel einkum vegna sundurþykkis félagsmanna. Varð það úr, að undir árslok 1943 seldi félagið hreppnum bátana með húsum, veiðarfærum og öðru, sem útgerð þeirra heyrði til. Hins vegar seldi hreppurinn 2/3 hluta úr hverjum bát formanni og vélamanni á bátunum, 1/3 til hvors. Skuldbatt hreppsnefndin sig til þess gagnvart samvinnufélaginu að selja aldrei meira til þessara manna en 2/3 hluta í hverjum bát og að tryggja með samningi við meðeigendur, að bátarnir yrðu ekki boðnir til sölu út úr veiðistöðinni. Frá útgerð hreppsins hefi ég skýrt hér að framan, og er óþarft að endurtaka það. En með sölu bátanna var starfsemi Samvinnufélags Stokkseyringa lokið. Þó að hún yrði ekki langærri en nú var sagt, reyndist hún byggðarlaginu eigi lítil bjargvættur og tryggði mörgum atvinnuöryggi á erfiðum tímum.

Leave a Reply