Roðgúll

Roðgúll

Roðgúll var hjáleiga frá Stokkseyri og er getið fyrst í manntali 1703, en nefnist þar Litla-Gata. Því nafni er haldið í manntalsbókum Árnessýslu, þegar býlið er nafngreint, allt til ársins 1834. Í manntali 1801 er það nefnt Minni-Gata, en það nafn höfum vér hvergi séð annars staðar. Af nöfnum þessum er auðsætt, að býli þetta er upphaflega byggt úr Götu á sama hátt og átt hefir sér stað um fleiri hjáleigur í Stokkseyrarhverfi, sem skipt hefir verið í tvennt, svo sem Íragerði, Móhús og Rauðarhól. Vafalaust má einnig telja, að hið upphaflega nafn býlisins sé Litla-Gata, enda hélzt það, eins og áður var sagt, allt fram á 19. öld, er Roðgúlsnafnið varð loks yfirsterkara og útrýmdi því. Nafnið Roðgúll kemur fyrst fyrir í Jarðab. ÁM. 1708. En aðalnafn býlisins þar er Vatnsdalur og því við bætt, að það hafi áður verið kallað Roðgúll. Einkennilegt er, að nafnið Litla-Gata er ekki nefnt. Um Vatnsdalsnafnið er það að segja, að það kemur hvergi fyrir á býli þessu, hvorki fyrr né síðar, nema á þessum eina stað. Mun það svo til komið, að ábúandinn hafi tekið það upp í því skyni að reyna að útrýma Roðgúlsnafninu. En það hefir engan árangur borið. Roðgúlsnafnið hefir alltaf lifað á vörum almennings í sveitinni við hliðina á hinu upphaflega nafni, Litlu-Götu, unz það ber fullan sigur úr býtum á fyrra hluta 19. aldar. Það er notað sem opinbert nafn í manntali 1818 og í prestsþjónustubókum Stokkseyrar jafnan eftir það. Í manntalsbókum sýslunnar fær það fyrst fastan sess árið 1835.

Erfitt er að gera sér viðhlítandi grein fyrir Roðgúlsnafninu. Síra Jakob prófastur í Gaulverjabæ ritar það jafnan Rauðgúll. Mun það vera skýringartilraun hans, en ekki byggt á framburði nafnsins. Í því sambandi mætti ef til vill minna á lýsingu síra Jóns Egilssonar á Eyrarbakka á dögum Ögmundar biskups: ,,Þá var þar svo fagurt, að enginn steinn sást frá Skúmsstöðum og út að Einarshöfn, heldur voru það allt slétta flatir og harða grund og allt vaxið með sóleyju, svo sem á gull sæi“(Safn I, 79-80). Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi gizkaði á, að upphaflega nafnið hefði verið Rauðkuhóll, er síðan hefði breytzt í Rauðgúl og svo í Roðgúl (Kambsránssaga IV, 17. kap.).

Loks er til þjóðsaga ein, sem skýrir nafnið á þessa leið: Í Roðgúl, sem þá hét Vatnsdalur [réttara Litla-Gata), bjó fyrir löngu formaður, framúrskarandi sjósækinn og aflasæll, og bar ávallt hæstan hlut frá borði af öllum formönnum á Stokkseyri. Mörgum þeirra lék öfund á velgengni hans, og einhvern tíma varð einhverjum að orði með nokkurri kerskni, er hann kom hlaðinn að landi: ,,Sá hefir fengið roð í gúlinn núna.“Þetta varð svo að orðtaki, og brátt var farið að kalla bæ formanns Roðgúl. Festist það smám saman við hann. (Sögn Þórðar Jónssonar frá Stokkseyri). Hvað sem um þjóðsögu þessa er að segja, hyggjum vér, að hún fari sönnu næst að því leyti, að Roðgúlsnafnið sé upphaflega gefið í gamni eða kerskni. Roðgúll hefir jafnan fylgt Stokkseyrareigninni og er síðan 1935 eign ríkissjóðs ásamt henni.

This Post Has One Comment

Leave a Reply

Close Menu