Rauðarhóll

Rauðarhóll

Rauðarhóll var hjáleiga frá Stokkseyri, getið fyrst í manntali 1703 og orðinn þá tvö býli eða tvær hjáleigur: Rauðarhóll og Litli-Rauðarhóll. Nöfnin sýna, að síðarnefnda hjáleigan er byggð úr hinni og hér hafa farið fram sams konar skipti eins býlis í tvennt sem átt hafa sér stað um Götu, Íragerði og Móhús. Í byrjun 19. aldar er farið að aðgreina býli þessi á þann hátt, að upphaflega býlið er nefnt Eystri-Rauðarhóll, en hið yngra Vestri-Rauðarhóll, og hefir það haldizt síðan. Verður rætt hér nánara um býli þessi hvort á sínum stað.

Nafnið Rauðarhóll hefir valdið mönnum talsverðum heilabrotum. Í elztu heimildum um nafnið, manntali 1703 og Jarðabók ÁM. 1708, er það ritað Rauðárhóll. Um þessa mynd nafnsins segir Brynjólfur Jónsson frá MinnaNúpi, þar sem hann reynir að gera sér grein fyrir uppruna þess: ,,Hafa ýmsir skilið svo sem sá bær sé kenndur við á, er Rauðá hafi heitið, er hafi verið þar nærri og verið sá Rauðá, sem landnám Hásteins náði að. En það er hvorttveggja, að ekki eru líkur til, að þar hafi verið á, jafnvel ekki þar, sem nú er fjaran, því þar fyrir ofan er alls staðar þurrlend hraunheiði og ekki einu sinni neinn gamall farvegur, sem sú á hefði getað komið úr, og líka er það ósamrímanlegt við Landnámu, því að ef Rauðá, sú er landnám Hásteins náði austur að, hefði verið hjá Rauðárhól, þá hefði Traðarholt ekki verið í landnámi hans“(Árb. Fornl. 1905, bls. 5).

Til viðbótar þessum röksemdum gegn því, að Rauðarhóll geti verið kenndur við Rauðá, er það veigamikla atriði, að önnur á var nær bænum, nefnilega Grímsá (Skipaá). Væri næsta furðulega seilzt um hurð til lokunnar eftir nafni á býli þessu, ef það hefði verið sótt yfir Grímsá og önnur kennileiti allt austur í Rauðá, ekki meira vatn en hún er. Einar Arnórsson telur að vísu, að bærinn megi vera við Rauðá kenndur, þótt hann stæði eigi allnærri henni (Árnesþing o. s. frv., bls. 46). Slíkt kann að mega til sanns vegar færa í sumum dæmum, en hér hefir hann naumast haft allar áðurnefndar aðstæður í huga. Nafnið Rauðárhóll hlýtur að vera afbökun, enda þótt svo sé ritað í fyrrnefndum heimildum frá byrjun 18. aldar. Sá ritháttur sýnir, að menn hafa þá þegar verið farnir að velta fyrir sér merkingu nafnsins og tengt það við Rauðá. Það er því gömul alþýðuskýring og röng, eins og slíkar skýringar eru vanar að vera.

Brynjólfur Jónsson gizkaði á það á áður tilvitnuðum stað, að bærinn hefði upphaflega heitið Reyðarhóll, kenndur við eitt af þrennu: silung (reyði), rauða kú eða þó einna helzt steypireyði, er rekið hafi þar fram undan. En breytingin Reyðar-> Rauðar- er mjög ósennileg. Mörg gömul örnefni hafa Reyðar- í fyrra lið (sjá m. a. Nafnaskrá við Íslendinga sögur), en vér þekkjum engin dæmi slíkrar breytingar á þeim, sem Brynjólfur gerir ráð fyrir. Skýringu þessari verður því að hafna.

Það nafn, sem telja verður réttast á býli þessu, er án efa Rauðarhóll, enda er svo almennt fram borið. Það hefir heitið í upphafi Rauðahóll, með óbeygðum lýsingarorðsstofni í fyrra lið, og myndað á sama hátt sem fjöldi annarra staðanafna, t. d. Breiðafjörður, Djúpadalur, Rauðamelur o. s. frv.

Nafnið Rauðahóll gat breytzt á tvo vegu:

1) í Rauðhól með brottfalli a vegna áherzluleysis, sbr. Langaholt> Langholt, Rauðaá> Rauðá, eða

2) í Rauðarhól með innskotnu r til verndar a-hljóðinu, sbr. Rauðaá> Rauðará, Svartahæð > Svartarhæð, og sú varð þróunin hér.

Leave a Reply

Close Menu